31. ágúst 2018

Í morgunútvarpi Rásar 1, 28. ágúst sl., var viðtal við Pál Bjarnason dagskrárstjóra á sjúkrahúsinu Vogi þar sem hann upplýsti að „straumar og tískur í samfélaginu“ kalli á ýmsar breytingar á starfsemi SÁÁ. Páll nefndi sem dæmi að félagið hefði „gengið ansi langt“ í því að aðskilja kynin í meðferð og þegar hann var inntur eftir ástæðum breytinganna svaraði hann: „það er svona að hluta til bara krafa samfélagsins að þetta sé þannig. Fólk eigi ekki að mixa saman reitum þarna. Það er stundum vandamál af því, menn verða svo uppteknir af hinu kyninu, það getur, það er ágætt að þurfa ekki að vera að velta því of mikið fyrir sér á meðan maður er að skoða sín vandamál“.

Við í Rótinni teljum að það sé út af fyrir sig gott að hlustað sé á kröfur samtímans, en það hlýtur þó að þurfa að gera ríka kröfu um að stærsti rekstraraðili landsins í fíknimeðferð láti stjórnast af gagnreyndri þekkingu en ekki tískustraumum.

Krafan um að veitt sé meðferð sem byggir á gagnreyndri þekkingu sem tekur mið af kyni (e. gender-responsive) og er áfallamiðuð (e. trauma-informed) er ekki krafa um „apartheit“-stefnu heldur krafa um að sú þekking sem til er um mismunandi þarfir kynja, hópa og einstaklinga sé nýtt í meðferð. Undanfarna áratugi hefur þekking á kynjamun, þegar kemur að þróun og meðferð við fíknivanda, aukist mikið og nýlega hafa alþjóðastofnanir gefið út efni um mikilvægi þess að gangskör sé gerð að því að bæta stefnumótun og meðferð fyrir konur með fíknivanda. Eitt helsta baráttumál Rótarinnar frá stofnun félagsins er að meðferðin sé heildræn og að fíknivandinn sé skoðaður út frá afleiðingum áfalla og ofbeldis sem einkennir reynslu meirihluta kvenna sem glíma við fíkn, í samræmi við tilmæli Alþjóðaheilbrigðisstofnununarinnar, stofnana SÞ og Evrópustofnanir sem fjalla um fíkn.

Að sjálfsögðu er það skylda SÁÁ að tryggja öryggi skjólstæðinga sinna en það er ófaglegt og ólíðandi að smætta kröfuna um kynjaskiptingu niður í að eingöngu sé verið að koma í veg fyrir kynferðisleg sambönd í meðferð. Slíkar yfirlýsingar opinbera því miður að SÁÁ virðist framkvæma stefnu vegna samfélagslegs þrýsting án þess að þekking sé til staðar hjá starfsfólki, á eðli vanda þeirra sem því er ætlað að sinna. Þær stangast líka á við margendurteknar yfirlýsingar yfirmanna félagsins um að þar hafi verið safnað saman „allri þeirri þekkingu sem til er um áfengis- og vímuefnafíkn“, svo vitnað sé í fyrrverandi yfirlækni.

Að lokum eru hér nokkur atriði af óskalista Rótarinnar um æskilega þætti í fíknimeðferð kvenna sem rétt er að ítreka í þessu sambandi:

  • Meðferðarstofnun er öruggur staður fyrir konur en ekki staður til að æfa sig í uppbyggilegum samskiptum við hitt kynið.
  • Jafnréttisáætlun er mikilvægt verkfæri til að vinna að kynjajafnrétti.
  • Kynjasjónarmið í meðferð þurfa að byggja á sérþekkingu. Kynjaskipting, kynjamiðun og klínískar leiðbeiningar eru til staðar.
  • Viðmið og verklagsreglur um kynferðislegt áreiti og ofbeldi eru virkar.
  • Meðferðin er áfalla- og einstaklingsmiðuð.
  • Frásagnir kvenna sem greina frá kynferðisofbeldi eða áreitni í meðferð eru teknar alvarlega og beint í réttan farveg.
  • „Konur meðhöndla konur“ er besta viðmið fyrir konur með áfallasögu.

Áslaug Kristjana Árnadóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Helena Bragadóttir, Katrín G. Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, Soffía Bæringsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir

Höfundar eru í ráði Rótarinnar

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. ágúst 2018

 

Share This