Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Gunný Ísis Magnúsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir

Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Gunný Ísis Magnúsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir

Rótin var stofnuð sem vettvangur fyrir konur til að þrýsta á um bætta þekkingu á fíknivanda og meðferð við honum. Ástæðan var ekki síst sú staðreynd að mjög hátt hlutfall kvenna, sem glíma við þennan vanda, hefur verið beitt ofbeldi, orðið fyrir áföllum eða á við geðrænan vanda að stríða samhliða fíkninni. Við teljum nauðsynlegt að komið verði á fót greiningarmiðstöð þar sem vandi einstaklinga er greindur á heildstæðan hátt svo hægt sé að haga meðferðinni í samræmi við þarfir hvers og eins. Hluti af því er að bjóða upp á sérstaka kynjaskipta meðferð.
Þó að Rótin hafi ekki náð tveggja ára starfsafmæli eru hátt í 300 konur í félaginu. Meðal þeirra er fjöldi kvenna sem þekkir vandann af eigin raun og hefur farið hefðbundna leið í íslenska meðferðarkerfinu, þ.e.a.s. í afvötnun á Vogi og eftirmeðferð á Vík. Þar fyrir utan þekkjum við sem stöndum að Rótinni ótal konur í batasamfélaginu sem hafa sagt okkur sögu sína í þeim tilgangi að hún leiði til góðs. Lykilhugtakið í okkar starfi er valdefling og ekki að ástæðulausu.
Meðferð þarf að taka mið af fjölþættum vanda og sögu kvenna. Það þarf að hlusta á þær og taka mark á orðum þeirra. Hefðbundin meðferð sem ekki tekur þetta til greina getur aukið á vanda þeirra (e. retraumatisation). Það er þyngra en tárum taki hve margar konur hafa ekki fundið leið til bata með þeim aðferðum sem nú eru í boði og allt of margar ekki séð aðra leið en að svipta sig lífi.
Meðferð sem gerir ráð fyrir því að sjúklingurinn horfi þröngum augum á fíknina án þess að skoða heildarmyndina, þar sem ætlast er til að hann gefi frá sér allt persónulegt vald og setji allt sitt traust á æðri mátt, hvort sem það er guð, hópurinn eða læknirinn, er ekki í samræmi við ferskustu strauma innan heilbrigðisvísindanna þar sem valdeflingu sjúklinga er gert hátt undir höfði.
Það að halda því fram að áföll flækist fyrir, að konur viti ekki hvað er þeim fyrir bestu, að þær beri fyrir sig þunglyndi eða aðra erfiðleika er forræðishyggja og vanvirðing við þær konur sem leita sér hjálpar vegna áfengis- og vímuefnavanda.
Slíkar áherslur mátti því miður lesa í nýlegu fréttablaði SÁÁ en blaðið er hvatinn að greinarskrifum okkar um valdeflingu kvenna.

Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Gunný Ísis Magnúsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu og á Vísir.is 22. janúar 2015.

 

Share This