Rótin heimsótti allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis hinn 2. desember til að ræða frumvarp til laga um verslun með áfengi og tóbak og afhenti eftirfarandi athugasemdir:
„Eitt stærsta heilbrigðisvandamál sem jarðarbúar glíma við er áfengisvandamálið og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og fleiri alþjóðastofnanir sem og þjóðlegar hafa unnið að því í áratugi að minnka heildarneyslu áfengis og skaða af völdum hennar. Áfengisvandi og misnotkun hefur þannig verið eitt helsta forgangsverkefni þeirra sem bæta vilja geðheilbrigði.[1]

Eins og fram kemur í samantekt Lýðheilsustofnunar úr bókinni Áfengi – engin venjuleg neysluvara frá 2005[2] er áfengi sannarlega engin venjuleg neysluvara þó að vissulega sé um mikilvæga framleiðsluvöru að ræða í mörgum löndum. Mikið samfélagslegt tjón hlýst af neyslu áfengis, bæði heilsufarslegt og félagslegt og eins og segir í áðurnefndri bók: „Tengsl milli áfengisvímu og skaða eru þó skýr og greinileg, sérstaklega hvað varðar ofbeldi, umferðarslys eða önnur slys.“ Þar kemur einnig fram að 4% allra dauðsfalla og örorku í heiminum megi rekja til áfengis.

Í þeim löndum þar sem áfengi er mikilvæg framleiðsluvara hafa lýðheilsusjónarmið átt undir högg að sækja undan markaðssjónarmiðum þeirra sem hafa tekjur af áfengisneyslu. Á Íslandi höfum við notið þess að hagsmunaaðilar hafa ekki verið mjög mikilvirkur þrýstihópur hingað til og því hefur lýðheilsusjónarmiðum verið gert frekar hátt undir höfði í áfengisstefnu.

Annar heimsfaraldur sem ógnar heilsu og hamingju fólks, ekki síst barna og kvenna, er ofbeldi. Kynbundið ofbeldi er til umræðu í öllum helstu alþjóðastofnunum, hjá Sameinuðu þjóðunum, Evrópusambandinu, Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, Amnesty International og meira að segja hjá Alþjóðabankanum.[3] Landlæknisembætti, ráðuneyti, samtök, stofnanir og grasrótarhreyfingar vinna svo á landsvísu að því að sporna við þessari ógn gagnvart hamingju og heilbrigði sem oft er líkt við faraldur.

Góðu fréttirnar eru þær að hægt er að koma í veg fyrir ofbeldi og eins og segir í skýrslunni Violence prevention the evidence frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni[4] þá hafa rannsóknir sýnt hvaða aðferðir duga best til þess. Í lista yfir sjö atriði sem nefnd eru sem leiðir til að koma í veg fyrir ofbeldi er þriðja atriðið sem nefnt er: „Draga úr aðgangi og skaðlegri notkun áfengis“ (ens. Reducing the availability and harmful use of alcohol.)

Við í Rótinni viljum miklu frekar sjá löggjafann stuðla að minnkuðum skaða af völdum áfengisneyslu sem hefur margvíslegan heilsufarslegan, félagslegan og efnahagslegan skaða í för með sér. Við teljum að frumvarpið gangi í þveröfuga átt og muni lítið gott leiða af sér, nema ef vera skyldi meiri veltu fyrir einhverja hagsmunaaðila. Það er skoðun okkar Rótarkvenna að hagur almennings og viðurkennd lýðheilsusjónarmið vegi mun þyngra en þröngir hagsmunar þeirra sem versla með áfengi.
 
F.h. Rótarinnar,

Kristín I. Pálsdóttir talskona.“[1] Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. 1998. „Skýrsla starfshóps um stefnumótun í málefnum geðsjúkra.“ Vefslóð: http://www.velferdarraduneyti.is/media/Gedskyrsla/53kafli.pdf
[2] Lýðheilsustöð. 2005. „Áfengi – engin venjuleg neysluvara.“ Vefslóð: http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item10424/Afengi_engin_venjuleg.pdf
[3] The World Bank. 2011. „The silent global epidemic: domestic violence against women.“ Vefslóð: http://blogs.worldbank.org/youthink/silent-global-epidemic-domestic-violence-against-women
[4] World Health Organization. 2010. „Violence prevention. The evidence.“ Vefslóð: http://www.who.int/violence_injury_prevention/violence/4th_milestones_meeting/evidence_briefings_all.pdf?ua=1.
Share This