Ungt fólk15. apríl 2018

Í ljósi þess að SÁÁ hefur ákveðið að taka ekki lengur við börnum yngri en 18 ára í meðferð á Vogi skorar ráð Rótarinnar á Alþingi og ríkisstjórn, sérstaklega ráðherra velferðarmála, að tryggja að meðferð barna og unglinga verði á hendi opinberra aðila. Ráðið telur lausnina ekki felast í því að auka fjármagn til SÁÁ þannig að hægt verði að byggja tengibygginu við Vog fyrir nýja Bangsadeild.

Því miður er ekki rétt sem kemur fram í yfirlýsingu frá SÁÁ að einungis eitt barn hafi „hugsanlega orðið fyrir skaða innan veggja spítalans“. Rótin hefur frá stofnun félagsins fyrir fimm árum ítrekað sagt frá atvikum sem gerst hafa á Vogi en talað fyrir daufum eyrum.

Samkvæmt 27. gr. laga um réttindi sjúklinga á umhverfi og aðbúnaður sjúkra barna á heilbrigðisstofnunum að hæfa aldri þeirra, þroska og ástandi. Staður þar sem börn og ungmenni eiga á hættu að verða fyrir ofbeldi er svo sannarlega ekki slíkur staður.

Í viðtali í kvöldfréttum Sjónvarps hinn, 10. apríl, vegna kynferðisbrots, sem kært hefur verið til lögreglu, gagnvart 16 ára stúlku sem var til meðferðar á Vogi var haft eftir Valgerði Rúnarsdóttur, yfirlækni, að ungmennadeild spítalans væri sérstaklega vel mönnuð og að allir eigi þar gott aðgengi að starfsfólki. Síðan bætti hún við: „Þannig að það á enginn að verða fyrir einhverju sem hann vill ekki eða er óánægður með af því að hann getur alltaf forðast það og leitað til starfsfólks ef það er eitthvað slíkt.“ Svo lýsti hún aðstæðum á Vogi og sagði: „Þannig að þetta eru allt opin rými og engin áhætta í því fólgin að vera hérna en hins vegar getum við ekki alltaf ábyrgst þeirra áhættuhegðun.“

Valgerður setur alla ábyrgð á ofbeldi sem sjúklingar sem dvelja á ungmennadeild á Vogi kunna að verða fyrir, á börnin, þolendur ofbeldisins. Þó að Valgerði sé tíðrætt um áhættuhegðun ungmenna í meðferð virðist hún lítið tengja þá hegðun við það að mörg þeirra hafa orðið fyrir áföllum og ofbeldi sem að eykur á varnarleysi gagnvart t.d. tælingu. Kynlíf með barni undir 15 ára aldri eða að tæla barn á aldrinum 15 til 18 ára til kynferðislegra athafna telst kynferðisbrot samkvæmt 202. gr. hegningarlaga og því er ótrúlegt að yfirlæknirinn tali um slík brot á þann hátt að brotaþolar geti á einhvern hátt verið ábyrgir og lýsir óásættanlegu viðhorfi meðferðaraðila til barna í miklum vanda.

F.h. Rótarinnar,

Kristín I. Pálsdóttir, talskona

Áskorunin í PDF-skjali.

Share This