Komið er að næsta umræðukvöldi Rótarinnar, að þessu sinni kemur til okkar Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur. Erindi hennar nefnist áfengið, ofbeldið og hitt kynið. Umræðukvöldið er haldið í Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, miðvikudaginn 13. nóvember kl. 20-21.30.

Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur er dr. philos. frá Háskólanum í Osló. Hún er með aðsetur í Reykjavíkur Akademíunni. Hildigunnur var sérfræðingur Velferðarráðuneytisins um rannsóknir á ofbeldi gegn konum í nánum samböndum en rannsóknir voru stór liður í áætlun ríkisstjórnarinnar frá 2006 um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum í nánum samböndum. Hildigunnur hefur unnið að rannsóknum á áfengismálum og í afbrotafræði og hefur tekið þátt í erlendu fræðastarfi og fjölmörgum fjölþjóðarannsóknum á sviði áfengismála. Doktorsritgerð hennar um AA samtökin á Íslandi kom út árið 2000. Ritgerðin er aðgengileg í heild á netinu.
Hildigunnur hefur birt yfir 100 greinar og bókarkafla á sínu fræðasviði.

Í erindinu verður fjallað um eldri og nýrri rannsóknir á konum sem neytendum og misnotendum áfengis, hvernig rannsóknir hafa beinst að ofbeldi gegn konum og á hvern hátt áfengistengt ofbeldi í lífi kvenna hefur fengið athygli sem rannsóknarefni.

Allir, konur og karlar, eru velkomnir á umræðukvöld Rótarinnar!

Boðið er upp á te og kaffi en við erum með samskot fyrir því svo komið endilega með klink í baukinn.

Viðburðurinn er á Facebook.

Share This