1. október 2015

Katrín Guðný Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir. Á myndina vantar Guðrúnu Kristjánsdóttur.

Katrín Guðný Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir. Á myndina vantar Guðrúnu Kristjánsdóttur.

Á ráðstefnu Rótarinnar, RIKK – Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum – og fleiri samstarfsaðila,  um konur, fíkn, áföll og meðferð sem haldin var 1. og 2. september sl. kom aðalfyrirlesari hennar, dr. Stephanie Covington, aftur og aftur að því hversu mikilvægt er að þjónusta í heilbrigðiskerfinu og félagsþjónustunni sé það sem á ensku er kallað „trauma-informed“. Við Rótarkonur höfum skrifað nokkuð um þetta í greinum og erindum til yfirvalda, t.d. Embættis landlæknis, og höfum notað þýðinguna ‚áfallamiðuð þjónusta‘ þar sem við höfum ekki rekist á íslenska þýðingu á hugtakinu.

Það sem fellst í áfallamiðaðri þjónustu er að hún miðar að því að skapa umhverfi og aðstæður þar sem allir eru öruggir og ekki er ýtt undir áfallaviðbrögð. Covington lýsti því meðal annars í fyrirlestri sínum þegar hún tók út tannlæknastofu tannlæknisins síns í Kaliforníu, að hans ósk, og benti honum á hvað gera mætti til að skapa öruggt umhverfi fyrir viðskiptavinina. Á bílastæðinu þurfti að bæta lýsingu til að ekki væru þar nein dökk skúmaskot sem gætu valdið óöryggi. Sá siður að leggja fólk niður með þunga mottu á brjóstinu getur verið ógnvekjandi fyrir þá sem upplifað hafa líkamlega kúgun og einnig það að fá ekki að standa upp úr tannlæknastólnum. Einnig getur það verið mjög truflandi fyrir þá sem t.d. hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi sem börn að láta vinna uppi í munninum á sér. Leiðbeiningar um áfallamiðaða þjónustu hjálpa til við að gera umhverfi og aðstæður öruggari og betri fyrir alla en ekki síst þá sem glíma við afleiðingar áfalla, án þess að þeir séu sérstaklega spurðir spurninga.

Rótin hefur vakið athygli á því að SAMHSA, undirstofnun Bandaríska heilbrigðis­ráðuneytisins sem fjallar um vímuefnamisnotkun og geðheilbrigði (e. Substance Abuse and Mental Health Services Administration), gaf út í júlí 2014 leiðbeiningar um áfallamiðaða nálgun, SAMHSA’s Concept of Trauma and Guidance for a Trauma-Informed Approach, sem verið er að innleiða í alla heilbrigðis- og félagsþjónustu, menntastofnanir, refsiréttarkerfið, herinn og almennt í þjónustu ríkisins.

Rótin hefur einnig beint þeim kröfum til yfirvalda að sett séu gæðaviðmið fyrir meðferð á Íslandi. Víða er fyrirmynda að leita hvað það varðar og til eru mjög góðar leiðbeiningar frá The Jean Tweet Centre í Ontario í Kanada um áfallamiðaða meðferð kvenna með áfengis- og fíknivanda, Trauma Matters: Guidelines for Trauma-Informed Practices in Women‘s Substance Use services. Jean Tweet Centre er leiðandi miðstöð fyrir konur þar sem boðin er meðferð og stuðningur við konur með fíkni- eða geðheilbrigðisvanda í öruggu umhverfi.

Dr. Covington lagði einmitt áherslu á að meðferð kvenna yrði að fara fram á friðhelgum stað (e. sanctuary) og að það væri beinlínis ósiðlegt að veita meðferð við fíkn sem ekki væri áfallamiðuð.

Ráðstefnuna sótti 240 manna afar fjölbreyttur hópur fagfólks og áhugafólks um málefni er tengjast fíkn kvenna, áföllum og meðferð og við höfum þegar fengið þær gleðifréttir að þrjár sjúkra- og meðferðarstofnanir eru að breyta vinnulagi til samræmis við það sem kom fram á ráðstefnunni. Við Rótarkonur trúum því að þessi mikli áhugi og ánægja með ráðstefnuna kveiki á því hjá stjórnvöldum að tími sé kominn til að innleiða bestu og nýjustu gagnreyndu þekkingu inn í meðferð kvenna.

Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Katrín Guðný Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir

Höfundar eru ráðskonur í Rótinni

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. október 2015. Greinin hefur verið uppfærð.

Viðbót: Leiðbeiningar um áfallamiðaða nálgun fyrir mismunandi aðstæður og starfsstéttir má finna á vefsíðu SAMHSA: http://www.integration.samhsa.gov/clinical-practice/trauma.

Share This