17. maí 2016

Aðalfundur Rótarinnar var haldinn miðvikudaginn 11. maí og fóru þar fram hefðbundin aðalfundarstörf. Áætlað hafði verið að Sólveig Anna Bóasdóttir héldi erindi en því var frestað.

Hápunkturinn á þriðja starfsári félagsins var ráðstefna um konur, fíkn, áföll og meðferð sem haldin var 1.-2. september á Grand hóteli í Reykjavík í samstarfi Rótarinnar, rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands, Jafnréttisstofu og fleiri aðila. Um 240 manns mættu á ráðstefnuna, þar af fjöldi fagfólks úr meðferðar- og heilbrigðiskerfinu, og var það samdóma álit að hún hefði verið mjög vel heppnuð í alla staði.

Úr ráði félagsins fóru Hildur Þórðardóttir og Brynhildur Jensdóttir og er þeim þökkuð störf fyrir félagið. Inn í ráðið komu þær Áslaug Kristjana Árnadóttir og Heiða Brynja Heiðarsdóttir og eru þær boðnar velkomnar til starfa! Ráðið er þá svo skipað og mun skipta með sér verkum á fyrsta fundi:

Árdís Þórðardóttir, Áslaug Kristjana Árnadóttir,  Guðrún Ebba Ólafsdóttir,  Gunnhildur Bragadóttir, Gunný Ísis Magnúsdóttir, Heiða Brynja Heiðarsdóttir, Katrín Guðný Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir.

Einnig var samþykkt breyting á markmiðsgrein í lögum félagsins og bætist inn í fyrstu setningu hennar orðið „geðheilbrigði“ og verður hún þá svohljóðandi hér eftir: „Markmið Rótarinnar eru að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur.“ Markmiðsgrein félagsins verður þá eftirfarandi.

„Markmið Rótarinnar eru að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur. Félagið vill að komið sé á samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem fást við vímuefnameðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla. Félagið vill beita sér fyrir öflun upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum til góða, og stuðla að rannsóknum á þessu sviði. Ennfremur að afla þekkingar, halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samstarfið við önnur félög, og efla umræður um fíknitengd málefni sem snerta konur sérstaklega.“

Share This