21. ágúst 2013

Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda var stofnað í mars 2013, eftir að stofnfélögum varð ljóst að Kvenfélagi SÁÁ væri ekki lengur vært innan SÁÁ. Töldu stofnendur Rótarinnar nauðsynlegt að konur með áfengis- og fíknivanda gætu unnið að sínum málum innan samtaka sem hefðu hagsmuni kvenna í fyrirrúmi, en reynsla kvenna og karla úr heimi áfengis og fíkniefna er á margan hátt ólík og kallar á sérhæfðar lausnir. Stór hluti kvenna sem leitar sér meðferðar við áfengis- og fíknivanda á ofbeldissögu að baki, en sú staðreynd gerir þær veikar fyrir hver kyns valdbeitingu. Á meðferðarstöðum komast ofbeldismenn í tæri við þessar konur. Í apríl 2013 sendi Rótin erindi til landlæknis þar sem krafist var að konur gætu leitað sér meðferðar við áfengis- og fíkniefnavanda „án þess að eiga það á hættu að lenda í klóm ofbeldismanna“.

Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir sitja báðar í ráði Rótarinnar

Kæri Guð. Eru strákar betri en stelpur?

Ég veit að þú ert einn af þeim, en ég bið þig að svara þessu af sanngirni.

Kær kveðja,

Sylvia, 8 ára.“

Hún Sylvia litla sem skrifaði Guði sínum, árið 1967, hafði væntanlega ekki fengið neina fræðslu í kynjafræði áður en hún áttaði sig á því að hún byggi í samfélagi þar sem karlar væru valdameiri en konur. Síðan eru liðin hátt í 50 ár og margt hefur áunnist í réttindabaráttu kvenna. Þó er margt ógert og því er nauðsynlegt að baráttunni áfram.

Það er ekki svo ýkja langt síðan að farið var að viðurkenna að konur geti verið alkóhólistar. Sá sjúkleiki var frátekinn fyrir karlmenn, á meðan konurnar fengu að hafa hysteríu og kerlingarverk út af fyrir sig. Á fyrri hluta 20. aldar þegar AA-samtökin voru stofnuð virtist gert ráð fyrir því að hinn dæmigerði alkóhólisti væri miðaldra hvítur karlmaður í miðríkjum Bandaríkjanna og í AA-bókinni er einmitt kafli sem heitir „Til eiginkvenna“ enda ekki talið að konur lesi bókina nema mennirnir þeirra séu í vanda.

Síðan AA-samtökin voru stofnuð eru liðin meira en sjötíu ár og margt hefur breyst á þeim tíma. Konur komu fljótlega inn í samtökin og það var strax ljóst að að betur færi á því að hafa kynjaskipta fundi og var fyrsti kvennafundurinn haldinn árið 1941

Það er því langt síðan að vottaði fyrir skilningi á því að kynin þyrftu á mismunandi og aðskilinni meðhöndlun að halda. Á sjötta áratugnum var farið að bjóða upp á kynjaskipta áfengismeðferð t.d. hjá Hazelden-stofnuninni í Minnesota í Bandaríkjunum sem setti á stofn sérstaka meðferðarstöð fyrir konur árið 1956. Meðferðin sem þar er í boði miðar við fíkn og samverkandi áfallaraskanir þar sem talið er að þetta tvennt verði ekki skilið í sundur.

Árið 1976 voru svo stofnuð sjálfshjálparsamtök kvenna, samtökin Women for Sobriety í Bandaríkjunum. Grundvöllur samtakanna er sá að konur þurfi sérstaklega að skoða sín mál á kærleiksríkan hátt.

Hér á Íslandi var um svipað leyti, árið 1977, stofnað mikilvirkt félag til að þurrka upp alkóhólista, Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann eða SÁÁ. Menn sem höfðu farið í meðferð í Bandaríkjunum komu heim fullir af eldmóði eftir að hafa fengið lausn á sínum vanda þar og rifu hér upp öflugt meðferðarstarf með hugmyndum sem þóttu nýstárlegar.

Nú eru að nálgast fjörutíu ár síðan fyrrgreind félög voru stofnuð og þó að margt hafi verið vel gert hefur þróunin í meðferðarmálum kvenna alls ekki verið á þann hátt sem við Rótarkonur teljum æskilegt og ekki í samræmi við þá vitneskju, sem komið hefur í dagsljósið á undanförnum árum, um samhengið á milli fíknivanda og ofbeldis- og áfallasögu.

Rótin var stofnuð á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars sl. Undanfari þess félags var Kvenfélag SÁÁ sem stofnað var haustið 2012 en slitið í mars þar sem ekki reyndist grundvöllur fyrir okkar hugmyndum innan SÁÁ.

Tilgangurinn með stofnun Rótarinnar er breyttar áherslur þar sem tekið er tillit til þess að mjög hátt hlutfall kvenna sem eiga við fíknisjúkdóma að etja eru að glíma við afleiðingar ofbeldis á sama tíma og þær eru byggja upp edrú tilveru sína. Rótarkonur telja að margt megi enn gera til að bæta meðferð kvenna. Víða um heim er verið að rannsaka og þróa meðferð sem sérsniðin er að þeirra þörfum og vísindaleg þekking á fíknisjúkdómum og meðferð þeirra er í stöðugri þróun.

Við viljum nýta þá þekkingu og þau úrræði sem þegar eru til staðar og teljum árangursríkara að samstarf sé á milli fagaðila, stofnana og samtaka sem vinna að málefnum kvenna með það að markmiði að auðvelda þeim að fá hjálp og meðferð sem þær leita eftir. Þannig er hægt að koma í veg fyrir tvíverknað og stuðla að því að meðferðin sé heildrænni.

Markmið Rótarinnar eru að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll og ofbeldi og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur. Félagið vill að komið sé á samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem fást við vímuefnameðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla. Félagið vill beita sér fyrir öflun upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni, konum til góða, og stuðla að rannsóknum á þessu sviði. Ennfremur að afla þekkingar, halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samstarfið við önnur félög, og efla umræður um fíknitengd málefni sem snerta konur sérstaklega.

Í apríl sendum við erindi til landlæknis vegna öryggis kvenna sem leita sér meðferðar inni á heilbrigðisstofnum og bíðum svars við því.

Í haust eru fyrirhugaðir fleiri áhugaverðir fyrirlestrar, námskeið og hópastarfsemi. Einnig er fyrirhuguð ráðstefna á vordögum 2014.

Félagið er opið öllum konum sem hafa áhuga á málefnum kvenna með áfengis- og fíknivanda en viðburðir á vegum félagsins eru flestir opnir öllum sem áhuga hafa, bæði konum og körlum.

Langtímamarkmið félagsins er að komið verði á fót sérstakri meðferð fyrir konur þar sem er tekið heildstætt á þeirra vanda. Við teljum líka mikilvægt að konur hafi val þegar kemur að bataferlinu.

Félaginu hefur verið mjög vel tekið og við finnum fyrir sterkri þörf fyrir nýja nálgun. Við trúum því að fjölbreytni í framboði á meðferðarúrræðum sé af hinu góða. Við trúum því líka að þörf sé á meðferð þar sem lykilhugtakið er valdefling, ekki síst með tilliti til þeirrar staðreyndar að meirihluti þeirra kvenna sem leita sér meðferðar á að baki sögu um ofbeldi og/eða áföll.

Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Kristín Pálsdóttir

Grinin birtist í 19. júní tímariti Kvennréttindafélags íslands 2013

Share This