Ráð Rótarinnar 2018-2019: Ráð Rótarinnar 2018-2019: Áslaug Kristjana Árnadóttir, Helena Bragadóttir, Árdís Þórðardóttir, Soffía Bæringsdóttir, Þórlaug Sveinsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Margrét Gunnarsdóttir og Katrín Guðný Alfreðsdóttir.

Aðalfundur Rótarinnar var haldinn að Hallvegiarstöðum og fóru þar fram hefðbundin aðalfundarstörf. Úr ráði Rótarinnar fóru Gunný Magnúsdóttir, sem hefur setið í ráðinu frá stofnun félagsins, og Margrét Valdimarsdóttir færði sig úr aðalráði í vararáð en Lísa Kristjánsdóttir sagði sig úr vararáði í vetur. Þeim eru þökkuð góð störf í þágu félagsins. Nýjar í ráðið eru þær Helena Bragadóttir og Soffía Bæringsdóttir og eru þær boðnar velkomnar til starfa í ráðinu. Dóróthea Lórenzdóttir var kosin skoðunarkona reikninga. Nýtt ráð skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum.

Breytingar voru samþykktar á markmiðsgrein laga félagsins og er hún nú á þessa leið:

2. gr. er eftir breytingu svona:
“Markmið Rótarinnar: eru að halda uppi umræðu um konur, fíkn, áföll og ofbeldi og beita sér fyrir faglegri stefnumótun í málaflokknum. Félagið vill stuðla að því að konum standi til boða áfalla- og kynjamiðuð þjónusta og að í meðferð vegna fíknivanda séu tryggð almenn mannréttindi og mannhelgi og sú fullkomnasta heilbrigðisþjónusta sem á hverjum tíma er völ á að veita. Ennfremur að komið sé á samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem fást við vímuefnameðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla. Félagið vill beita sér fyrir öflun upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum til góða og stuðla að rannsóknum á þessu sviði. Ennfremur að halda fyrirlestra, ráðstefnur, námskeið og standa fyrir hópastarfi, eitt eða í samráði við aðra, og efla umræður um fíknitengd málefni sem snerta konur sérstaklega.”

2. gr. var svona:
“Markmið Rótarinnar eru að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll og ofbeldi og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur. Félagið vill að komið sé á samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem fást við vímuefnameðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla. Félagið vill beita sér fyrir öflun upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjanda gagna um þessi málefni konum til góða, og stuðla að rannsóknum á þessu sviði. Ennfremur að afla þekkingar, halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samráði við önnur félög, og efla umræður um fíknitengd málefni sem snerta konur sérstaklega.”

Fimmta starfsár Rótarinnar einkenndist af öflugri hagsmunabaráttu fyrir konur með fíknivanda. Þrjú umræðukvöld voru haldin, tvö námskeið og svo hefur Rótin átt fulltrúa á ráðstefnum og málþingum. Ráðskonur hafa sem áður skrifað greinar og sent erindi til yfirvalda og haldið góðu sambandi við fagaðila og konur með fíknivanda. Óhætt að segja að við finnum fyrir miklum meðbyr í samfélaginu og erum við þakklátar fyrir hann.

Mikil vitundarvakning hefur orðið, og þá ekki síst í kjölfar #metoo-byltingarinnar, um nauðsyn gæðastjórnunar og þekkingar á kynjamun er varðar fíkn. Ekki er þó ljóst hvernig stjórnvöld munu bregðast við réttmætri gagnrýni félagsins að því er varðar stefnumótun og gæðaeftirlit en áhersla Rótarinnar er á að ríkið beri ábyrgð á málaflokknum og skuli axla hana af fagmennsku og í samræmi við bestu þekkingu.

Á árinu hefur Rótin tekið þátt í rannsókn á reynslu kvenna af fíknimeðferð og einnig hefur verið sótt um styrk í Jafnréttissjóð í samstarfi við Janus Endurhæfingu, Fangelsismálastofnun og RIKK til að koma af stað meðferðarhópastarfi og könnun á árangri þess.

Í vetur vann félagið einnig óskalista sem er nokkurskonar „manifesto“ félagsins um það hvernig góð meðferð fyrir konur á að vera.

Ársskýrslu félagsins má lesa í PDF-skjali hér.

Share This