29. ágúst 2017

Margrét Valdimarsdóttir, Valgerður Rúnarsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, Þórlaug Sveinsdóttir, Katrín G. Alfreðsdóttir, Áslaug K. Árnadóttir, Ingunn Hansdóttir og Erla Björg Sigurðardóttir. Margrét Gunnarsdóttir var farin þegar myndin var tekin.

Ráði Rótarinnar var fyrir skemmstu boðið til fundar á Vogi þar sem þær Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir og framkvæmdastjóri lækninga, Þóra Björnsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, Ingunn Hansdóttir, yfirsálfræðingur og Erla Björg Sigurðardóttir, stjórnarkona í SÁÁ, tóku á móti okkur.
Við fengum kynnisferð um sjúkrahúsið og áttum mjög gott samtal um konur og fíknivanda. Það gladdi okkur að heyra að sífellt er verið að vinna að umbótum á kvennameðferðinni, nú með tilstyrk Ingunnar sem er í nýju starfi yfirsálfræðings og vinnur að því að gera meðferðina áfallamiðaða.
Við sögðum svo frá okkar áherslum og hvað við teldum nauðsynlegt að gera til að bæta aðstöðu og meðferð kvenna með fíknivanda.
Við ákváðum svo að setja á blað lista yfir þau atriði sem við teljum nauðsynlegt að hafa í huga í meðferð. Þetta er óskalisti Rótarinnar yfir þau atriði sem Rótin teljur mikilvægt að hafa í huga í meðferð kvenna sem við höfum nú sent til Valgerðar og starfsfélaga hennar á Vogi:

  1. Viðmið og verklagsreglur um kynferðislegt áreiti og ofbeldi sé samið og innleitt á meðferðarstöðvum SÁÁ. Sjá t.d. nýútkomið efni frá BSRB: https://www.bsrb.is/is/skodun/malefnin/kynbundin-og-kynferdisleg-areitni.
  2. Frásagnir kvenna sem greina frá kynferðisofbeldi eða áreitni í meðferð verður að taka alvarlega og setja mál þeirra í viðeigandi ferli sbr. nr. 1 hér á undan. Þetta kallar á þjálfun alls starfsfólks.
  3. Taka þarf á frásögnum af áföllum og afleiðingum þeirra í meðferðinni og vísa konum í viðeigandi úrræði þegar ástæða er til.
  4. Meðferðin þarf að vera eins einstaklingsmiðuð og kostur er.
  5. Kynjaskipting, kynjamiðun og klínískar leiðbeiningar fyrir meðferð kvenna hafðar til hliðsjónar. Kanadamenn eru framarlega í rannsóknum og leiðbeiningum á fíknivanda kvenna og á síðu Jean Tweet má finna góðar leiðbeingar: Trauma Matters: http://jeantweed.com/wp-content/themes/JTC/pdfs/Trauma%20Matters%20online%20version%20August%202013.pdf og http://jeantweed.com/wp-content/themes/JTC/pdfs/Best%20Practice-English.pdf.
  6. Unnið er að innleiðingu áfallamiðaðrar þjónustu á Vogi í samræmi við leiðbeiningar SAMSHA en stofnunin hefur einnig gefið út leiðbeiningar um meðferð kvenna: https://store.samhsa.gov/shin/content//SMA15-4426/SMA15-4426.pdf.
  7. Kynjasjónarmið í meðferð þurfa að byggja á þekkingu. Ekki er um aðskilnaðarstefnu að ræða. Krafan um kynjafræðilega þekkingu á fíkn snýst um aukin gæði meðferðar fyrir öll kyn. Hluti af klínískum leiðbeiningum í þjónustu við konur sem hafa mátt þola kynbundið ofbeldi ætti að vera að konur meðhöndli konur. Slíkt vinnulag er víða þekkt þar sem unnið er með hópa kvenna með mikla áfalla- og ofbeldissögu sbr. dæmi frá Grüner Kreis. Þar er lykilþáttur verndað umhverfi þar sem flestar konurnar í meðferðinni hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hendi nákominna og slíkt mynstur viðhelst oft í neysluhópum, þá gjarnan í formi vændis. Því er mikilvægt að brjóta slík mynstur upp með kynjaskiptingu og gefa konunum tíma til að byggja upp nýja og betri sjálfsmynd í öryggi kynjaskiptingarinnar. „Konur meðhöndla konur“ er því álitið vera besta viðmiðið um faglega meðferð þar sem konur með áfallasögu eru meðhöndlaðar. (Sjá m.a. Women and opiate addiction: a European perspective: http://www.irefrea.eu/uploads/PDF/Stocco%20et%20al_2002_Women%20Opiate.pdf).
  8. Meðferð er ekki staður til að æfa sig í uppbyggilegum samskiptum við hitt kynið, eins og stundum er haldið fram, hún er staður þar sem konur eiga að byggja sig upp lausar við það áreiti sem algengt er í kynjablandaðri meðferð.
  9. Í grein eftir Ásu Guðmundsdóttur, sálfræðing, kemur fram að í niðurstöður rannsóknar hennar á tilfinningavanda kvenna í meðferð á Vífilsstöðum, á tíunda áratug síðustu aldar, hafi helmingur kvennanna verið misnotaður kynferðislega í æsku. (Sjá: Ása Guðmundsdóttir, 1996. Tilfinningalegur vandi kvenna í áfengismeðferð, í Íslenskar kvennarannsóknir, erindi flutt á ráðstefnu í október 1997, ritstj. Helga Kress og Rannveig Traustadóttir. Útg. Háskóli Íslands og Rannsóknastofa í kvennafræðum.)
  10. Nauðsynlegt er að bjóða upp á aukna dagdeildarþjónustu. Inniliggjandi meðferð getur verið mikil hindrun fyrir konur sem ekki komast að heiman með góðu móti. Þá tala margar konur um þá ógn sem þeim stafar af því að fara inn á Vog og vera með körlum í meðferð.
  11. Þegar AA-samtökin eru kynnt eða rædd í meðferðinni er mikilvægt að gera það á gagnrýnin hátt og samkvæmt bestu þekkingu á kostum og göllum samtakanna. Rannsóknir hafa t.d. sýnt að kvennafundir eru valdeflandi fyrir konur og því ætti að leggja áherslu á að konur sæki frekar kvennafundi. Þá hefur Stephanie Covington skrifað bók um sporavinnu fyrir konur, en sporavinna getur verið skaðleg fyrir konur með áfallasögu ef ekki er tekið tillit til sérstakra þarfa kvenna, enda samin af körlum fyrir karla: (https://www.amazon.com/Womans-Way-through-Twelve-Steps/dp/0894869930). Covington er virtur alþjóðlegur ráðgjafi um meðferð kvenna sem hefur unnið með yfirvöldum, í mörgum löndum, stofnunum, meðferðarstöðvum og alþjóðastofnunum að leiðbeiningum og stefnumótun í meðferð kvenna. Rannsóknir sýna að það er hinn félagslegi stuðningur sem er mikilvægastur í AA-starfi en margt í menningu samtakanna getur verið varasamt fyrir konur með áfallasögu. Margar mýtur sem þrífast innan samtakanna, t.d. um karakter alkóhólistans, eru langt því frá að vera valdeflandi fyrir konur sem eru að byggja upp líf sitt. Lance Dodes hefur ritað um skaðlegar mýtur í AA í bóki sinni the Sober Truth. (http://www.salon.com/2014/04/05/debunking_alcoholics_anonymous_behind_the_myths_of_recovery/).
  12. Efla þarf nám fyrir áfengis- og vímuefnaráðgjafa og stuðla að breytingum á fyrirkomulagi þess til samræmis við kröfur nútíma heilbrigðisþjónustu.
  13. Grunur um hugsanlegt brot eða vanrækslu á börnum þarf ávallt að tilkynna til barnaverndar. 
  14. Samkvæmt upplýsingum Fangelsismálastofnunar fer ekki fram hjá stofnuninni neitt áhættumat þegar fangar eru sendir í meðferð, aðallega er miðað við góða hegðun. Ekkert virðist hugað að því fyrir hvað viðkomandi eru dæmdir, eins og kom fram í ritgerð Ara Matthíassonar (https://www.rotin.is/tolfraedi-um-afbrotamenn-a-vogi/) hafði fjöldi fanga sem dæmdir höfðu verið fyrir kynferðisofbeldi og morð verðið sendir á Vog. Úr því að Fangelsismálastofnun sinnir ekki þessu áhættumati væri viturlegt að SÁÁ gerði það, til að verja þann viðkvæma hóp sem leitar á Vog.
  15. Jafnréttisáætlun, samkvæmt lögum um jafnan rétt kvenna og karla, er mikilvægt tæki til að vinna að jafnrétti innan stofnana og vinna við slíka áætlun eykur vitund um og þekkingu á mikilvægi kynjajafnréttis. Hún er tæki sem mikilvægt er að nýta á vinnustað sem meðhöndlar svo kynjaðan vanda sem fíknivandi er.
Share This