25. janúar 2022

Rótin harmar þann skaða sem skjólstæðingur SÁÁ hefur lýst að Einar Hermannsson hafið valdið henni. Einar hefur setið í stjórn SÁÁ frá því árið 2015 og var því í stjórninni þegar brotin sem lýst er í Stundinni áttu sér stað, á árunum 2016–2018.
Brot Einars gegn konunni er nöturleg valdamisnotkun stjórnarmanns í frjálsum félagasamtökum sem stjórnvöld hafa í rúm 40 ár treyst til að sjá um meginþorra heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með vímuefnavanda. Í þeim hópi er margt af jaðarsettasta fólki landsins og í ljósi þess valds sem stjórnvöld hafa fært SÁÁ í málaflokknum er um fádæma siðleysi að ræða sem sannarlega hefur haft áhrif á störf Einars sem formanns, þrátt fyrir yfirlýsingu hans um hið gagnstæða. Í fáum störfum hefur siðferðiskennd meira gildi en í störfum fyrir fólk með vímuefnavanda og jaðarsett fólk.
Þó að ekki sé hlutverk stjórnvalda að skipta sér af stjórnun frjálsra félagasamtaka, hljótum við að gera þær kröfur að hjá þeim aðilum sem veita heilbrigðisþjónustu fyrir ríki og sveitarfélög ríki hvorki ógnarstjórn[1] né annað ofbeldi og að faglegir ferlar séu til staðar til að taka á slíkum málum. Árið 2017 spurði Rótin stjórnendur SÁÁ um verkferla samtakanna varðandi kynferðislega áreitni og ofbeldi og var því svarað að þeirra væri ekki þörf.[2]
Það eru mikil vonbrigði að Embætti landlæknis hafi haft vitneskju um brotið í tvö ár án þess að aðhafast.
Rótin var stofnuð fyrir tæpum 9 árum til að vinna að málum kvenna með vímuefnavanda. Áður höfðu stofnendur félagsins gert tilraun til að vinna að útbótum í stefnu og meðferð kvenna innan SÁÁ, en fljótlega varð ljóst að þar væri lítill áhugi á þeirri áfalla- og kynjamiðuðu nálgun sem nauðsynleg er í meðferðarstarfi.[3] Rótin var stofnuð til að vinna þessum málum framgang en SÁÁ tekið illa í hugmyndir félagsins, gert lítið úr þeim og beitt þöggunartilburðum.
Öryggi er lykilorð í vímuefnameðferð og í meðferð fólks með erfiða áfallasögu. Því miður hefur þetta öryggi ekki verið skapað í meðferðarkerfinu, eins og kom glöggt fram í rannsókn Rótarinnar og RIKK á reynslu kvenna af meðferð.[4] Síðustu ár hefur Rótin ítrekað vakið athygli á vöntun á öryggi kvenna í meðferð og bent á þann vanda að láta meðferð fólks, sem oft á við fjölþættan og flókinn vanda að etja, vera að mestu í höndum áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Stjórnvöld hafa viðurkennt að menntun þeirra sé ekki í samræmi við önnur störf í heilbrigðiskerfinu en hefur ekki gripið til aðgerða til að bæta úr því.
#MeToo-byltingin snýst um að breyta samfélaginu til hins betra, að hafna kerfum sem byggjast á misnotkun valds. Sá hörmulegi atburður að formaður samtaka, sem stjórnvöld hafa gefið vald yfir fólki með vímuefnavanda, bregðist svo hrapallega er ekki óheppileg tilviljun heldur hlekkur í langri keðju. Þessi keðja rofnar ekki nema farið sé í markvissar aðgerðir til að uppræta ofbeldismenninguna.
Fólki í 12 spora samtökum er tamt að nota orðalagið að það að vera edrú og allsgáður sé „framkvæmdaprógramm“. Hið sama á við um jafnrétti.

Ráð Rótarinnar sendir kærleikskveðjur til þolanda Einars. Við trúum þér og stöndum með þér.

[1] „Við viljum ekki Þórarin Tyrfingsson aftur!“ – Starfsmenn SÁÁ óttast viðbrögð Þórarins og endurkomu ógnarstjórnar: https://www.dv.is/frettir/2020/06/22/vid-viljum-ekki-thorarinn-tyrfingsson-aftur-starfsmenn-saa-ottast-vidbrogd-thorarins-og-endurkomu-ognarstjornar/.
[2] Óskalistinn: https://www.rotin.is/oskalisti/.
[3] Hættar í SÁÁ vegna samstarfsörðugleika: https://www.ruv.is/frett/haettar-i-saa-vegna-samstarfsordugleika.
[4] Sláandi niðurstöður um reynslu kvenna af fíknimeðferð: https://www.rotin.is/slaandi-nidurstodur/.

Share This