Fyrirsögnin er fengin úr viðtali við Söru Helenu Bjarnadóttur í sérblaði Geðhjálpar sem fylgdi með Fréttablaðinu 9. október sl. Sara Helena vísar til þess að eftir að hún greindist með þunglyndi var henni sagt að hún fengi ekki lyf við því fyrr en hún væri hætt í neyslu. Og hún er ekki sátt við að þetta hafi verið eina úrræðið fyrir óharðnaðan ungling.

Þetta er ekki eina frásögnin sem fjölmiðlar hafa birt á undanförnum misserum um hvernig samfélagið tekur á vanda unglinga sem leiðst hafa í neyslu. Margir þeirra glíma nefnilega við margþættan vanda og finnst víman eina lausnin við honum. Sum eru með greiningar eins og ADHD eða hafa orðið fyrir einelti og ofbeldi. Rannsóknir sýna að hafi einstaklingur orðið fyrir ofbeldi eru stórauknar líkur á því að hann verði aftur fyrir ofbeldi miðað við þá sem ekki hafa orðið fyrir áfalli. Taka þarf heilstætt á vanda þessara barna.

Einnig hafa verið til umfjöllunar atvik þar sem fullorðnir einstaklingar, karlmenn í miklum meiri hluta, nýta sér neyð þessara unglinga og því miður eru dæmi þess að þeir finni þá þegar þeir eru saman í afvötnun á Vogi.

Það er því ekki að ástæðulausu að við í Rótinni höfum áhyggjur. Börn eiga rétt á að alast upp við öryggi og í lögum um réttindi sjúklinga stendur til dæmis að skylt sé að gera allt sem unnt er til að sjúkt barn fái að þroskast og njóta lífsgæða þrátt fyrir veikindi og meðferð, eftir því sem ástand þess leyfir. Auk þess eiga sjúk börn, sem dveljast á heilbrigðisstofnun, rétt á að hafa foreldra eða aðra nána vandamenn hjá sér og skal sköpuð aðstaða fyrir þá eftir því sem kostur er. Þá segir einnig í lögunum að umhverfi og aðbúnaður sjúkra barna á heilbrigðisstofnunum skuli hæfa aldri þeirra, þroska og ástandi. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1997074.html.

Hagsmunir barnanna

Rótin hefur áhyggjur af því að börn séu send til meðferðar á Vogi þar sem samgangur er við fullorðna og því ákváðum við að þessu sinni að beina spurningu til umboðsmanns barna en á heimasíðu embættisins segir að „umboðsmaður barna vinnur að því að bæta hag barna og unglinga og á að gæta þess að tekið sé tillit til réttinda barna, þarfa og hagsmuna á öllum sviðum samfélagsins“. Spurning okkar til umboðsmanns barna er svohljóðandi: Í lögum nr. 74 frá árinu 1997 um réttindi sjúklinga segir í 27. gr: „Umhverfi og aðbúnaður sjúkra barna á heilbrigðisstofnunum skal hæfa aldri þeirra, þroska og ástandi.“ Því spyrjum við, að gefnu tilefni, er það álit umboðsmanns barna að aðbúnaður barna á Sjúkrahúsinu Vogi uppfylli þessi skilyrði laganna?

Á Landspítala er þess vandlega gætt að öll meðferð barna og fullorðinna sé aðskilin, hvernig stendur á því að Sjúkrahúsið Vogur er undanþegið þessari mikilvægu reglu?

Okkur ber að hafa ætíð hagsmuni barnanna að leiðarljósi og í þriðju grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er það orðað svona:

„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn“.

Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir sitja í ráði Rótarinnar.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. október 2014.

 

Share This