Rótinni hefur borist svar frá Embætti landlæknis um fyrirspurn vegna forvarna sem Rótin sendi hinn 8. október til embættisins.

Svarið er svohljóðandi:

Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda

Kristín I. Pálsdóttir, talskona.

Efni: Svar Embættis landlæknis við fyrirspurn Rótarinnar frá 8.10.2018

Skólar eru ákjósanlegur vettvangur til heilsueflingar- og forvarnarstarfs. Þar koma börn og ungmenni saman, mynda félagsleg tengsl og læra af fagmenntuðu starfsfólki. Heilsueflingar- og forvarnarstarf skal ávallt byggt á gagnreyndum aðferðum, sem búið er að sýna fram á með vísindalegum rannsóknum að bera árangur. Forsenda árangursríkra forvarna er sýnileg stefna skóla, uppbyggilegt umhverfi og fagmenntað starfsfólk.

Rannsóknir benda til þess að hræðsluáróður hafi sjaldan tilætluð áhrif.  Varast ber að valda skaða með slíkum áróðri eða einhliða fræðslu sem hefur lítil eða skammvinn áhrif. Þó að hræðsluáróður sé stundum eftirminnilegur og börn og ungmenni áhugasöm um slíka fræðslu sýna rannsóknir að hún hefur ekki tilætluð áhrif. Slík fræðsla getur haft neikvæð áhrif á hegðun og hugsanlega ýtt undir áhættuhegðun hjá sumum. Þó ásetningurinn sé góður þarf að hafa í huga að valda ekki skaða.

Árangursríkar forvarnir leggja m.a. áherslu á gagnvirkar, sveigjanlegar og fjölbreyttar aðferðir sem auka færni barna og ungmenna og eru aldursmiðaðar. Mikilvægt er að starfsfólk skóla sem eru daglega til staðar sinni  kennslunni. Áhrifaríkar aðferðir þurfa að vera heildrænar og unnar í samstarfi við foreldra og nærsamfélagið.

Ekki er hægt að fullyrða hvaða afleiðingar það geti haft fyrir börn og ungmenni að fara saman í skipulagðar hópferðir á kvikmyndina Lof mér að falla í forvarnartilgangi þó má setja við það ýmsa fyrirvara eins og nefndir hafa verið hér fyrir ofan.

Kveðja

Halldóra Viðarsdóttir
Aðstoðarmaður landlæknis
Embætti landlæknis
Barónsstíg 47, 101 Reykjavík
Sími 510 1900
landlaeknir.is

Share This