Rótin býður nú upp á einstaklingsráðgjöf í samstarfi við Bjarkarhlíð og hefur Katrín G. Alfreðsdóttir, félagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur og sérfræðingur um vímuefnavanda kvenna tekið til starfa sem ráðgjafi félagsins.

Ráðgjöfin er ætluð konum með sögu um vímuefnavanda og/eða áföll og er veitt konum að kostnaðarlausu.

Katrín tekur fyrst um sinn á móti konum á þriðjudögum í Bjarkarhlíð og fer skráning í viðtölin fram í gegnum skráningarkerfi Bjarkarhlíðar.

Fyrsta viðtal er tekið af starfsfólki Bjarkarhlíðar sem vísar svo áfram í önnur úrræði, þar með talið til ráðgjafa Rótarinnar.

Ef óskað er frekari upplýsinga um viðtölin og aðra þjónust félagsins er velkomið að senda póst á skraning@rotin.is.

Katrín G. Alfreðsdóttir er með meistarapróf í félagsráðgjöf, hefur lokið tveggja ára námi í fjölskyldumeðferð frá Endurmenntun Háskóla Íslands, hún er með Professional Certificate í vinnu með konum með vímuefnavanda frá University College Dublin og með viðbótardiplóma frá Háskóla Íslands í áfengis- og vímuefnafræðum. Katrín hefur réttindi til að veita EMDR meðferð (ens. Eye movement Desensitization and reprocessing) og hefur lokið námskeiðum í Endurmenntun Háskóla Íslands í áhugahvetjandi samtali (ens. Motivational Interviewing) og lausnamiðaðri nálgun (ens. Solution focused therapy). Katrín hefur sótt vinnustofur hjá dr. Stephanie Covington á The Connecticut Women’s Concortium, árið 2017 og 2019, og lokið þjálfun í vinnu með konur með vímuefnavanda og áfallasögu samkvæmt kenningum dr. Covington. Að auki hefur hún lokið námskeiði um sálræn áföll og ofbeldi í Háskólanum á Akureyri.

Katrín hefur tileinkað sér hugmyndafræði skaðaminnkandi nálgunar (ens. Harm reduction) og var ein af frumkvöðlum hér á landi í að kynna hugmyndafræðina og koma henni á framfæri með fyrirlestrum, kennslu og rituðu efni. Hún vann um tíma á fíknigeðdeild Landspítalans og starfaði um árabil sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, bæði í Konukoti og hjá Frú Ragnheiði. Katrín er leiðbeinandi í leiðsagnarhópum og námskeiðum Rótarinnar og er þar að auki sjálfstætt starfandi félags- og fjölskyldufræðingur hjá Vegvísi – ráðgjöf í Hafnarfirði.

Share This