Umræða um áföll, áfallastreitu og áfallastreituröskun hefur aukist mjög mikið á undanförnum árum og Rótin hefur haldið þeirri kröfu á lofti að fíknimeðferð þurfi að innihalda áfallameðferð eða í það minnsta vera áfallameðvituð. Rannsóknir hafa sýnt að best er að meðhöndla fíkn og áfallastreitu á sama tíma og oft er fíkn flóttaleið frá afleiðingum áfalla og um 30-50% kvenna sem glímt hafa við fíknivanda greinast einnig með áfallastreituröskun sem truflar batagöngu þeirra ef ekki er tekið á henni sérstaklega.

Þau áföll sem skilja eftir sig stærstu sporin á heilsu og líðan eru þau sem verða í nánum tengslum og þau sem kynferðisofbeldi veldur. Mjög mikill kynjamunur er á áfallareynslu og allt að helmingi fleiri konur þróa með sér áfallastreituröskun en karlar, þar sem þær verða oftar fyrir kynferðisofbeldi, en það er stærsti áhættuþátturinn í því að þróa með sér áfallastreituröskun.

En hvað er áfall? Hver er munurinn á streitu og áfallastreitu? Hvernig er hægt að vinna sig út úr þeim vanda sem áföll valda í lífi okkar?

Til að fjalla um þetta býður Rótin upp á námskeið með Valdísi Ösp Ívarsdóttur, fíknifræðingi. Valdís Ösp er með BA-próf í guðfræði og MA-próf í fíknifræðum (Addiction Studies) frá Graduate School of Addiction Studies við Hazelden-stofnunina í Bandaríkjunum.

Námskeiðið verður haldið þrjú mánudagskvöld frá kl. 17.30 til 19.30, dagana 31. október, 7. og 14. nóvember. Boðið verður upp á hressingu í pásu. Námskeiðið verður haldið í Kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum, Túngötu 3, 101 Reykjavík.

Sendið póst á rotin@rotin.is til að skrá ykkur! Verð fyrir námskeiðið er 5.000 kr. og greiðist inn á reikning Rótarinnar eigi síðar en 30. október: Kt. 500513-0470, bankanr. 0101-26-011472. Vinsamlega sendið tilkynningu um greiðslu á netfangið rotin@rotin.is merkt: Námskeið um áföll.

Viðburður er á Facebook fyrir námskeiðið.

Allar Rótarkonur eru velkomnar á námskeiðið!

Share This