Komið er að fyrsta umræðukvöldi Rótarinnar á nýju ári. Að þessu sinni fáum við til okkar Nönnu Lárusdóttur, sagnfræðing sem flytur erindið „Í þarfir bindindisins“. Góðtemplarareglan á Íslandi frá 1884 – innra starf og áhrif mótandi orðræðu, miðvikudaginn 24. febrúar kl. 20-21.20 í Kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum.

Góðtemplarareglan var fyrirferðarmikil í íslensku samfélagi á ofanverðri nítjándu öld og á fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu. Stúkur spruttu upp og starfsemin breiddist hratt út. Markmið templara var „útrýming áfengisnautnarinnar“ og baráttumálið, aðflutningsbann á áfengi, náðist fram með löggjöf árið 1909.
Í erindinu er það orðræðan, áhrifamáttur hennar á einstaklinginn og samfélagið sem er í brennidepli í ljósi kenninga franska heimspekingsins Michel Foucault um stjórnvaldstækni og lífvald. Komið verður inn á bakgrunninn – bindindisbaráttuna í erlendu samhengi – innra starf og áherslur reglunnar, en hún var siðbótarhreyfing sem byggði á kristilegum grunni. Fjallað verður um félagsleg og hugmyndaleg áhrif af málflutningi templara; áhrifin á konurnar í stúkunum og réttindabaráttu kvenna, en í stúkunum störfuðu konur í fyrsta sinn á yfirlýstum jafnréttisgrundvelli með körlum. Einnig verður fjallað um áhrif templara á neyslu Íslendinga á áfengi og ekki síst á viðhorf þeirra til áfengismála.

Allir eru velkomnir á umræðukvöld Rótarinnar!

Boðið er upp á te og kaffi en við erum með samskot fyrir því svo komið endilega með klink í baukinn.

Viðburðurinn er á Facebook!

Share This