Haust 2013

11. september — Fíkn sem afleiðing af ofbeldi og annars konar áföllum í æsku. Sigrún Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur, lektor við Háskólann á Akureyri og doktorsnemi í lýðheilsuvísindum. Rannsóknir hennar snúast um afleiðingar ofbeldis í æsku fyrir heilsufar og líðan karla og kvenna og vinnu að þróun þverfaglegra meðferðarúrræða fyrir þann hóp. Úrræðið sem Sigrún hefur unnið að er kallað Gæfusporin og hefur hún unnið með það úrræði á Akureyri undanfarin tvö haust og nú í haust verður farið af stað í þriðja sinn. Einnig var farið af stað með Gæfusporin í Mjóddinni Í Reykjavík í september þar sem Sigrún var með handleiðslu og fræðslu.

25. september — Ungar mæður og fíknivandi. Anna María Jónsdóttir geðlæknir á geðsviði Landspítala og hjá Miðstöð foreldra og barna. Hún hefur starfað með teymi á Lsp sem hefur sérhæft sig í meðferð og aðstoð við foreldra sem eiga við geðraskanir að stríða sem hefur verið í formlegu samstarfi við fíkniskorina á Teigi sem hefur gert kleift að veita foreldrum með fíknivanda sömu aðstoð. Hvernig er hægt að hjálpa foreldrum með fíknivanda? Foreldrar með fíknivanda voru ekki að ná að nýta sér þjónustu FMB-teymisins jafnvel og þeir sem áttu eingöngu við geðrænan vanda að stríða. Barnshafandi konur með fíknivanda virðast heldur ekki nýta sér hefðbundin meðferðarúrræði við fíknivandanum; það er svo margt annað að gerast í lífi þeirra og því þarf að koma til móts við þennan hóp sem hefur verið veitt sérhæft meðgöngueftirlit í áhættumæðravernd á kvennadeild Landspítala. Þörf er á frekari þverfaglegri aðkomu fagfólks á sviði fíknimeðferðar og geðrænnar meðferðar, með áherslu á samhæfða nálgun, varðandi meðgöngueftirlit, fíknimeðferð, og stuðning við foreldrahlutverkið fyrir þennan hóp.

9. október — Meðferð við fíkn. Helga Sif Friðjónsdóttir Ph.D. í hjúkrunarfræði, hjúkrunardeildarstjóri á fíknigeðdeild á geðsviði Landspítala. Helga Sif er með meistara og doktorsmenntun í geðhjúkrun með áherslu á fíkni- og aðra geðsjúkdóma. Hún hefur starfað að slíkri hjúkrun m.a. á Vogi og frá sumri 2007 á fíknigeðdeild Landspítala. Helga Sif er lektor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og kennir aðferð sem kölluð er áhugahvetjandi samtal á ýmsum vettvangi. Hún er einnig faglegur verkefnisstjóri Frú Ragnheiðar – skaðaminnkunar á vegum Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands.

23. október — Konur, fíkn og sektartilfinning. Sigríður Guðmarsdóttir, Ph.D. í guðfræði og sóknarprestur í Reykjavík. Vitundin um eigin gildi og dýrmæti mótar sjálfsmynd og reisn hverrar manneskju. Á sama hátt er sektarkennd órjúfanlegur þáttur í skaphöfn hinnar skyni gæddu siðferðisveru þegar manneskjan upplifir að hún hafi gerst brotleg við eigin gildi og siðferðisboð. Við tökumst á við sekt með ýmsu móti, metum hana, horfumst í augu við hana, notum hana til að gera betur og bæta fyrir, sem agastjórnunartæki og uppeldistæki, við bælum hana niður, vörpum henni yfir á aðra til þess að þurfa ekki að takast á við sársauka hennar og afleiðingar. Því hefur verið haldið fram að kynin takist á við sekt og sjálfsmyndarleit á ólíkan hátt og fíkn getur haft áhrif á sektaraðferðir okkar líka. Erindið fléttaði saman hugleiðingum um fíkn, kynjahlutverk og sektarkennd með það fyrir augum að opna umræður um kynbundna sekt og sekt í skugga fíknar.

13. nóvember — Áfengið, ofbeldið og hitt kynið. Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur er dr. philos. frá Háskólanum í Osló. Hún er með aðsetur í Reykjavíkur Akademíunni. Hildigunnur var sérfræðingur velferðarráðuneytisins um rannsóknir á ofbeldi gegn konum í nánum samböndum en rannsóknir voru stór liður í áætlun ríkisstjórnarinnar frá 2006 um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum í nánum samböndum. Hildigunnur hefur unnið að rannsóknum á áfengismálum og í afbrotafræði og hefur tekið þátt í erlendu fræðastarfi og fjölmörgum fjölþjóðarannsóknum á sviði áfengismála. Doktorsritgerð hennar um AA samtökin á Íslandi kom út árið 2000. Hún hefur birt yfir 100 greinar og bókarkafla á sínu fræðasviði. Í erindinu var fjallað um eldri og nýrri rannsóknir á konum sem neytendum og misnotendum áfengis, hvernig rannsóknir hafa beinst að ofbeldi gegn konum og á hvern hátt áfengistengt ofbeldi í lífi kvenna hefur fengið athygli sem rannsóknarefni.

27. nóvember — Tilfinningaleg vandamál kvenna í áfengismeðferð. Ása Guðmundsdóttir er sérfræðingur í klínískri sálfræði. Hún starfar á Landspítalanum og rekur eigin sálfræðistofu. Hún vann um margra ára skeið við meðferð áfengis- og vímuefnavanda á Landspítala jafnframt því að sinna áfengisrannsóknum. Hún var m.a. með stuðnings- og meðferðarhópa fyrir konur í áfengis- og vímuefnameðferð og rannsakaði tilfinningalegan og félagslegan vanda þeirra. Hún hefur einnig um langt árabil sinnt einstaklingum, á sálfræðistofu sinni, sem glímt hafa við áfengis- og vímuefnavanda, einkum konum. Hún sinnir nú m.a. meðferð þeirra sem leita á neyðarmóttöku nauðgana. Í erindinu var greint frá niðurstöðum rannsókna hennar á tilfinningalegum og félagslegum vanda kvenna í áfengis- og  vímuefnameðferð auk þess sem hún fjallaði um eigin reynslu úr meðferðarstarfi með konum. Rætt var um ástæður þess að huga þarf að þörfum kvenna sérstaklega er þær leita sér meðferðar.

11. desember — Aðventukvöld. Síðasti viðburður ársins hjá Rótinni var aðventukvöldið. Skáldkonurnar Eva Rún Snorradóttir, Vigdísi Grímsdóttir og Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir komu í heimsókn en þær gáfu allar út bækur fyrir jólin. Eva Rún er meðlimur í Kviss Búmm Bang og gaf út ljóðabókina Heimsendir fylgir þér alla ævi, Vigdís Grímsdóttir var að gefa út bókina Dísusaga – konan með gulu töskuna og Þórunn bókina Kona með maga. Síðast en ekki síst komu þær Lilja Steingrímsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir í hljómsveitinni Ellin og spiluðu nokkur lög fyrir okkur.

Share This