Út er komin bókin Samþætting kynjasjónarmiða í fíknistefnu: Forvarnir, meðferð og refsivörslukerfi.
Handbók fyrir sérfræðinga og stefnumótendur, á vegum Pompidou-hóps Evrópuráðsins.
Markmiðið var að skrifa handbók sem inniheldur meginreglur og hagnýt dæmi til leiðsagnar við innleiðingu kynjaðrar stefnu í forvörnum, umönnun og meðferð fólks með vímuefnavanda. Einnig á bókin að vera leiðarvísir fyrir lögreglu og refsivörslukerfi um hagnýtar aðferðir til kynjasamþættingar í þeirra störfum.
Pompidou-hópur Evrópuráðsins hefur gert mannréttindi að meginstefi í fíknistefnu sinni og liður í innleiðingu þeirra er vinna að kynjasamþættingu stefnunnar. Því var farið í það verkefni að gefa út handbókina, sem nú er komin út, sem tekur til mismunandi sviða fíknistefnu.
Kristín I. Pálsdóttir talskona Rótarinnar var þátttakandi í vinnuhópnum sem skrifaði handbókina og er einn höfunda hennar ásamt þeim Carine Mutatayi, Sarah Morton, Nadia Robles Soto og Cristiana Vale Pires. Florence Mabileau, aðstoðarframkvæmdastjóri, Pompidou-hópsins stýrði vinnunni.
Leitast er við að styðja við kynjasjónarmið í viðbrögðum og áætlunum vegna vímuefnamála sem nauðsynlegs mótvægis gegn heilsumisrétti og til að virða mannréttindi, ekki síst réttinn til margbreytileika og virðingar við konur, karla og kynsegin fólk.
Bókin hefst á yfirliti yfir faraldsfræðilegar vísbendingar um kynjamun þegar kemur að vímuefnanotkun og skyldum afleiðingum.
Markmið handbókarinnar er að láta stefnumótendum og sérfræðingum í té gagnreynd tilmæli til að þróa og innleiða stefnu og íhlutun sem samþætta sértækar þarfir kynjanna (e. gender-sensitive approach) og stuðla að jafnræði kynjanna (e. gender-transformative approach) í hópi þeirra sem starfa að vímuefnaforvörnum og -þjónustu (áhættu- og skaðaminnkun, meðferð, endurhæfingu) þar á meðal í refsivörslukerfi.
Í samræmi við þau markmið Pompidou-hópsins að tryggja tengingu á milli rannsókna, stefnumótunar og starfshátta, fjallar handbókin fyrst um kenningaleg álitamál um kyn og fíknistefnu, nýtir fyrirliggjandi fræðaþekkingu og setur fram tilmæli og dæmi um góða starfshætti. Handbókin er byggð á víðtækum samræðum og samkomulagi sérfræðinga frá 13 löndum með fjölbreyttan faglegan bakgrunn í þeirri viðleitni að tryggja þvermenningarlegt gildi hennar.
Pompidou-hópurinn er undirstofnun Evrópuráðsins og var stofnaður árið 1971 til að samræma stefnu og starf þátttökuríkja hvað varðar fíknistefnu og aðgerðir. Pompidou-hópurinn starfar samkvæmt grunngildum Evrópuráðsins um mannréttindi, lýðræði og réttarríki.
Handbókin er aðgengileg án endurgjalds á vef Evrópuráðsins.

 

Share This