Aðalfundur Rótarinnar 2023

Aðalfundur Rótarinnar 2023

Tilkynning um aðalfund Rótarinnar 2023

Aðalfundur Rótarinnar verður haldinn þriðjudaginn 23. maí kl. 20, í Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík.

Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf sbr. lög félagsins. Kosið verður í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir varafulltrúar í ráðið og skoðunarkona reikninga. Athygli er vakin á að tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund.

Við hvetjum áhugasamar félagskonur til að bjóða sig fram í ráð eða vararáð með því að senda póst á netfangið rotin@rotin.is.

Frekari upplýsingar fást hjá Kristínu I. Pálsdóttur, talskonu, í sama netfangi eða í síma 793-0090.

Dagskrá aðalfundur:

  1. Fundur settur.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár.
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá.
  5. Lagabreytingar
  6. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð.
  7. Kosning á skoðunaraðila reikninga.
  8. Ákvörðun félagsgjalda.
  9. Tillaga ráðs um starfsáætlun næsta starfsár.
  10. Önnur mál.

Viðburðurinn er á Facebook!

Hefur þú áhuga á að starfa í ráði Rótarinnar?

Ráðið heldur vinnudag að hausti til að ræða verkefni félagsins, siðareglur og leiðarljós, sjá: https://www.rotin.is/um-rotina/leidarljos/. Ráðsfundir eru haldnir á 4-6 vikna fresti.

Félagið er með skrifstofu á Hallveigarstöðum og ráðsfundir eru haldnir þar eða á Zoom og standa yfirleitt í 1,5 klst.

Helsta starfsemi félagsins er hagsmunabarátta fyrir konur með vímuefnavanda og jaðarsettar konur og rekstur á Konukoti, neyðarskýli fyrir heimilislausar konur með samningi við Reykjavíkurborg.

Málsvarahlutverkið er aðal hlutverk Rótarinnar og við köllum okkur þekkingarmiðað félag, þ.e. við viljum vera leiðandi í því að fylgjast með nýjustu þekkingu í málaflokknum í alþjóðlegu samhengi og við erum þátttakendur í Evrópuverkefnum.

Rótin hefur staðið fyrir námskeiðum, umræðukvöldum og ráðstefnum og í haust er þriðja ráðstefnan þar sem fjallað verður um fíknistefnu.

Félagið hefur haldið á lofti mikilvægi þess að horfa á félagslegar hliðar vímuefnavanda og hefur gagnrýnt mjög líffræðilega nálgun sbr. kenninguna um vímuefnavanda sem ólæknandi heilasjúkdóm.

Á vef Rótarinnar er mikið lesefni um málefni félagsins: https://www.rotin.is/.

Markmið Rótarinnar eru:

  1. Að vera málsvari kvenna sem eiga sögu um áföll og/eða vímuefnavanda og að beita sér fyrir aukinni velferð og lífsgæðum þeirra.
  2. Að beita sér fyrir faglegri stefnumótun um skaðaminnkun, mannréttindi, samkenndarmiðaða nálgun og áfalla- og kynjamiðaða þjónustu.
  3. Að stuðla að rannsóknum og beita sér fyrir öflun þekkingar, upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni, konum til góða.
  4. Að efla samstarf á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila og halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samráði við aðra.
  5. Að reka Konukot sem er neyðarskýli fyrir húsnæðislausar konur í Reykjavík samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg.

Ef þú hefur áhuga á að bjóða þig fram í ráðið máttu senda stutta kynningu á þér og þínum áherslum og mynd á rotin@rotin.is. Efnið verður notað til að kynna frambjóðendur.

Velkomið er að hafa samband við Kristínu í síma 793-0090 ef óskað er frekari upplýsinga.

Lagabreytingatillögur ráðs Rótarinnar

Ráð Rótarinnar leggur fram eftirfarandi tillögur um lagabreytingar.

Tillaga um að bæta við kaflaskiptingu:

I. kafli – nafn og markmið

____________________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 1. gr.
Núgildandi grein (leturbreytingar sýna ákvæði sem falla út eða breytast):

Félagið heitir Rótin – félag um velferð og lífsgæði kvenna. Lögheimili og varnarþing þess eru í Reykjavík.

Verði svona:

Félagið heitir Rótin. Lögheimili og varnarþing þess eru í Reykjavík.
Rótin er frjáls félagasamtök og ekki rekin í hagnaðarskyni. Allur ágóði sem kann að vera af starfsemi félagsins skal renna aftur til rekstur félagsins. Við slit skulu eignir, ef einhverjar eru, renna til styrktar neyðarskýlis fyrir heimilislausar konur og kvár.

____________________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 2. gr.
Núgildandi grein (leturbreytingar sýna ákvæði sem falla út eða breytast):

Markmið Rótarinnar er:

  1. a) Að vera málsvari kvenna sem eiga sögu um áföll og/eða vímuefnavanda og að beita sér fyrir aukinni velferð og lífsgæðum þeirra.
  2. b) Að beita sér fyrir faglegri stefnumótun um skaðaminnkun, mannréttindi, samkenndarmiðaða nálgun og áfalla- og kynjamiðaða þjónustu.
  3. c) Að stuðla að rannsóknum og beita sér fyrir öflun þekkingar, upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum til góða.
  4. d) Að efla samstarf á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila og halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samráði við aðra.
  5. e) Að reka Konukot sem er neyðarskýli fyrir húsnæðislausar konur í Reykjavík samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg.

Verði svona (án leturbreytinga):

Markmið Rótarinnar eru:

  1. a) Að vera málsvari kvenna og kvára sem eiga sögu um áföll og/eða vímuefnavanda og að beita sér fyrir mannréttindum og velferð þeirra.
  2. b) Að beita sér fyrir faglegri stefnumótun sem hefur að leiðarljósi skaðaminnkun, mannréttindi og áfalla- og kynjamiðaða þjónustu.
  3. c) Að stuðla að rannsóknum og beita sér fyrir öflun þekkingar, upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum og kvárum til góða.
  4. d) Að efla samstarf á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila og halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samráði við aðra.
  5. e) Að reka Konukot sem er neyðarskýli fyrir heimilislausar konur í Reykjavík samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg.

Trúnaður skal viðhafður um þá einstaklinga sem leita til samtakanna. Félagar, starfsfólk, sjálfboðaliðar, ráð Rótarinnar og þau sem dvelja í neyðarskýlinu eru bundin þagnarskyldu samkvæmt lögum félagsins. Þagnarskylda skal virt eftir að starfi eða dvöl í athvarfinu lýkur.

__________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 3. gr.
Núgildandi grein (leturbreytingar sýna ákvæði sem falla út eða breytast):

Félagið er opið öllum konum sem aðhyllast markmið félagsins.

Verði svona (án leturbreytinga):

Félagið er opið öllum sem aðhyllast markmið félagsins.

__________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 4. gr.
Núgildandi grein (leturbreytingar sýna ákvæði sem falla út eða breytast):

Framlög til félagsins eru öllum frjáls. Heimilt er að leggja fram stuðning og styrki til samtakanna í öðru formi en peningum og skal þess þá sérstaklega getið. Félaginu er heimilt en ekki skylt að taka við fjárframlögum, gjöfum, styrkjum eða stuðningi sem bundin er kvöðum.
Ákvörðun um móttöku skv. ákvæði þessu skal tekin af talskonu ráðsins en hún getur jafnframt ákveðið að eigin frumkvæði að fela ráði samtakanna að taka ákvörðun um móttöku í einstaka tilvikum.

Verði svona (án leturbreytinga):

Framlög til félagsins eru öllum frjáls. Heimilt er að leggja fram stuðning og styrki til samtakanna í öðru formi en peningum og skal þess þá sérstaklega getið. Félaginu er heimilt en ekki skylt að taka við fjárframlögum, gjöfum, styrkjum eða stuðningi sem bundin er kvöðum.
Ákvörðun um móttöku skv. ákvæði þessu skal tekin af framkvæmdarstýru félagsins en hún getur jafnframt ákveðið að eigin frumkvæði að fela ráði samtakanna að taka ákvörðun um móttöku í einstaka tilvikum.
Þau félagasamtök sem styðja markmið samtakanna geta orðið styrktarfélagar. Fulltrúar styrktarfélaga hafa málfrelsi og tillögurétt á félagsfundum og á aðalfundi, en ekki sérstakan atkvæðarétt.

__________________________

Tillaga um að bæta við kaflaskiptingu:

II. kafli – Aðalfundur og ráð Rótarinnar

_____________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 5. gr.
Núgildandi grein (leturbreytingar sýna ákvæði sem falla út eða breytast):

Aðalfundur félagsins skal haldinn vor hvert. Allir félagar sem skráðir hafa verið að lágmarki fimm daga í félagið hafa rétt til setu og atkvæðisrétt á fundi. Aðalfundur telst löglega boðaður ef fundarboð er sent með tölvupósti á félaga með a.m.k. tíu daga fyrirvara.

Verði svona (án leturbreytinga):
Aðalfundur félagsins skal haldinn vor hvert. Aðalfundur skal boðaður á heimasíðu Rótarinnar með tveggja vikna fyrirvara hið minnsta sem og með fundarboði í tölvupósti á félaga félagsins. Í fundarboði skal koma fram hvar og hvenær fundurinn er haldinn, dagskrá fundar og heimildir félaga til þátttöku. Allir félagar sem skráðir hafa verið að lágmarki fimm daga í félagið hafa málfrelsis- og tillögurétt á aðalfundi. Þeir félagar sem hafa verið skráðir í að lágmarki mánuð hafa einnig atkvæðisrétt. Aðalfundur telst löglega boðaður ef fundarboð uppfyllir ofangreind skilyrði.

_____________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 6. gr.
Núgildandi grein (leturbreytingar sýna ákvæði sem falla út eða breytast):

Tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins. Lagabreytingarnar teljast samþykktar ef 2/3 hluti félaga sem sækja aðalfund samþykkja breytingarnar. Dagskrá aðalfundar er:

  1. Fundur settur.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár.
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá.
  5. Lagabreytingar
  6. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð.
  7. Kosning á skoðunaraðilum reikninga.
  8. Ákvörðun félagsgjalda.
  9. Tillaga ráðs um starfsreglur og starfsáætlun næsta starfsár.
  10. Önnur mál.

Verði svona (án leturbreytinga):
Tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins. Lagabreytingarnar teljast samþykktar ef 2/3 hluti félaga sem sækja aðalfund samþykkja breytingarnar

_____________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 7. gr.
Núgildandi grein verður gr. 10 hér eftir, með breytingum:

Reikningsár félagsins er 1. janúar til 31. desember. Á aðalfundi skal kjósa einn skoðunaraðila reikninga. Ráð félagsins leggur fram tillögu um félagsgjöld á aðalfundi félagsins.

Verði svona, (án leturbreytinga):
Dagskrá aðalfundar er:

  1. Fundur settur.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár.
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá.
  5. Lagabreytingar
  6. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð.
  7. Kosning á skoðunaraðilum reikninga.
  8. Ákvörðun félagsgjalda.
  9. Tillaga ráðs um starfsreglur og starfsáætlun næsta starfsár.
  10. Önnur mál.

Halda skal fundargerð um það sem fer fram á aðalfundi og allar bókanir, ályktanir, ákvarðanir og niðurstöður aðalfundar skráðar sérstaklega.

_____________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 8. gr.
Núgildandi grein verður að gr. 11.

Tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins. Lagabreytingarnar teljast samþykktar ef 2/3 hluti félaga sem sækja aðalfund samþykkja breytingarnar.

Verði svona (án leturbreytinga):
Eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund skal ráð Rótarinnar skipa tvo aðila í framboðsnefnd sem tryggir framboð til ráð Rótarinnar og tekur á móti framboðstilkynningum. Félagar Rótarinnar geta skilað tillögum sínum til uppstillingarnefndar. Ráð Rótarinnar skal setja uppstillingarnefnd starfsreglur og skulu þær endurskoðaðar árlega.

__________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 9. gr.
Núgildandi grein (leturbreytingar sýna ákvæði sem falla út eða breytast):

Rótinni má slíta með ákvörðun 2/3 hluta félaga á aðalfundi eða félagsfundi. Náist ekki tilskilin félagafjöldi á aðalfundi/félagsfundi má halda framhaldsfund og þarf þá 2/3 hluti fundaraðila að samþykkja slit til að félaginu teljist slitið. Við slit félagsins skulu eignir, ef einhverja eru, renna til rannsókna sem stuðla að bættum hag kvenna með vímuefnavanda. Stofnaður verði sjóður í samstarfi við Háskóla Íslands til úthluta fénu eða halda utan um rannsóknir á félagslegum þáttum vímuefnavanda kvenna og kvára.

Gr. 9 verður að gr. 14 með breytingum:

_____________________________

Eftirfarandi greinar ýmist bætast við lög félagsins eða fá nýtt númer:

  1. gr.

Á aðalfundi skulu kosnir fimm félagar í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir tveir varafulltrúar í ráð félagsins. Þá skulu tveir skoðunaraðilar reikninga vera kosnir og einn til vara. Ráð Rótarinnar starfar skv. starfsreglum og starfsáætlun sem endurskoðaðar skulu árlega á aðalfundi.
Ráðið hefur umboð til að álykta í nafni félagsins enda sé ályktunin í samræmi við grundvallarmarkmið þess. Ráði félagsins er heimilt að skipa hópa til starfa í nafni félagsins.
Ráð Rótarinnar skal halda fyrsta fund innan tveggja vikna frá aðalfundi. Þar skal ráð skipta með sér verkum að öðru leyti en því sem aðalfundur ákveður. Ráðið skipar sér formann, varaformann, ritara, gjaldkera og einn meðstjórnanda. Ráðskonur skulu kynnar sér lög samtakanna og starfa eftir þeim.
Stjórn samtakanna veitir prókúruumboð fyrir hönd samtakanna. Formaður borðar stjórnarfundi, undirbýr þá og stýrir þeim. Varaformaður tekur við verkefnum formanns í fjarveru hans og annast félagatal. Ritari heldur gerðabók ráðs. Gjaldkeri er upplýstur um fjárhagsstöðu félagsins, veitir aðhald í fjármálum og fer yfir ársreikninga á aðalfundi og svarar fyrirspurnum um reikninga og fjárreiður félagsins. Félagar Rótarinnar geta snúið sér til trúnaðarfulltrúa varðandi mál er varða starfsemi samtakanna. Trúnaðarfulltrúa ber skylda að beina þeim málum sem upp koma í réttan farveg í samráði við tilkynnanda. Ráð Rótarinnar ákveður hlutverk meðstjórnanda.
Ráð skal funda að lágmarki sex sinnum á ári. Varafulltrúar hafa rétt til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétt en hafa eingöngu atkvæðarétt í fjarveru aðalfulltrúa. Fundurinn er atkvæðisbær ef meirihluti ráðsins mætir. Á ráðsfundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða ef greidd skulu atkvæði um mál.

  1. gr. (Áður 7. gr. )

Reikningsár félagsins er 1. janúar til 31. desember. Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunaraðila reikninga. Ráð félagsins leggur fram tillögu um félagsgjöld á aðalfundi félagsins.

  1. gr. (Áður 8. gr. )

Tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins. Lagabreytingarnar teljast samþykktar ef 2/3 hluti félaga sem sækja aðalfund samþykkja breytingarnar.

III. Kafli – Hagsmunaárekstrar

  1. gr.

Komi upp hagsmunaárekstrar sem hamli ráðskonum í ráði Rótarinnar í sínum verkefnum hefur meirihluti ráðsins leyfi til að vísa verkefni tímabundið til annars aðila innan Rótarinnar. Ráð Rótarinnar metur hverju sinni hvað teljist til hagsmunaárekstra og skulu leiðbeiningar nánar útfærðar í starfsreglum Rótarinnar.

Ráð Rótarinnar tekur við skriflegum ábendingum frá félögum Rótarinnar um hagsmunaárekstra.

IV. kafli – Framkvæmdarstýra Rótarinnar

  1. gr.

Ráð Rótarinnar ræður framkvæmdastýru, ákveður starfskjör hennar og getur veitt henni prófkúruumboð fyrir hönd Rótarinnar.
Framkvæmdastýra ber ábyrgð gagnvart ráði Rótarinnar og framfylgir stefnu og ákvörðunum stjórnar. Framkvæmdastýra annast daglegan rekstur samtakanna og kemur fram fyrir hönd þeirra í öllum málum sem varða daglegan rekstur.
Framkvæmdastýra annast reikningshald og önnur mannaforráð í samráði við ráð Rótarinnar. Framkvæmdastýra á alla jafna sæti á ráðsfundum með málfrelsis- og tillögurétt. Henni ber að veita ráði Rótarinnar, skoðunaraðilum og/eða endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur samtakanna sem óskað kann eftir.

  1. Kafli – Slit félagsins
  2. gr. (Áður 9. gr.)

Rótinni má slíta með ákvörðun 2/3 hluta félaga á aðalfundi eða félagsfundi. Náist ekki tilskilin félagafjöldi á aðalfundi/félagsfundi má halda framhaldsfund og þarf þá 2/3 hluti fundaraðila að samþykkja slit til að félaginu teljist slitið.

 

Fíknistefna og mannréttindi kvenna

Fíknistefna og mannréttindi kvenna

Eftirfarandi erindi flutti Kristín I. Pálsdóttir, talskona og framkvæmdastýra Rótarinnar, á málstofunni Mannréttindi – innan lands og utan sem haldin var Mannréttindaskrifstofu Íslands 26. apríl 2023.

Kynjajafnrétti og vímuefnavandi
Kynjajafnrétti telst til grundvallarmannréttinda og á síðustu árum hefur verið lögð áhersla á kynjajafnrétti þegar kemur að stefnumótun og þjónustu við konur, og þau sem ekki eru karlar, í alþjóðlegri stefnumótun í málefnum fólks með vímuefnavanda. Þetta á við hvort sem er á sviði meðferðar, stefnumótunar eða rannsókna.
Það er ekki að ástæðulausu þar sem hvert sem litið er þrífst kynjamisrétti og ekki síst í þeim hópum sem búa við skert félagsleg réttindi og stöðu, eins og á meðal fólks í skaðlegri vímuefnaneyslu og á meðal heimilislauss fólks.
Misrétti gegn konum hefst oft við fæðingu og mótar tilveru þeirra á öllum stigum lífsins. Þegar horft er til kvenna með vímuefnavanda er staðan oft þannig að vímuefnanotkun og ofbeldi haldast hönd í hönd.

Konur og fíknistefna
Á seinni hluta 20. aldar óx þeirri hugmynd mjög ásmegin að vímuefnavandi væri aðallega líkamlegur sjúkdómur sem hefði fáa snertifleti við félagslega þætti, þ.m.t. kyn eða gender. Ekki var minnst á ‚konur‘ eða ‚kyn‘ í alþjóðasamningum Sameinuðu þjóðanna um ávana- og fíkniefni frá árunum 1961 og 1971. Konur sem glímdu við fíknivanda voru ósýnilegar, jaðarsettar og bjuggu við félagslegt óréttlæti.[1]
Konur koma fyrst í kastljós fíknifræðanna eftir alþjóðlega kvennaárið 1975 og árið 1980 kom út fyrsta efnið um konur með vímuefnavanda. Þar er því haldið fram að rannsóknir á konum með vímuefnavanda séu í raun ekki til (e. non-field) og að hvergi væri minnst á kyn eða konur í fræðiefni eða stefnuskjölum.[2]

Vanþekking á þörfum kvenna
Hér á landi hefur hið svokallaða Minnesota-líkan sem flutt var inn frá Bandaríkjunum á áttunda áratugnum verið mjög ríkjandi í stefnumótun og þjónustu við fólk með vímuefnavanda.
AA-samtökin, þar sem Minnesota-líkanið er upprunnið, hafa haft gríðarleg áhrif á hugmyndir okkar um fíkn og fíkniefni. Skýringar samtakanna á alkóhólisma sem andlegum sjúkdómi, en þó jafnframt ólæknandi heilasjúkdómi, viðhalda úreltum staðalímyndum um kynþátt, stétt, kynjaða sjálfsmynd og viðhalda frekar en storka eðlishyggjuhugmyndum um að hvítir karlar hafi náttúruleg forréttindi.[3]
Félagsfræðingurinn Elisabeth Ettorre útskýrir Minnesota-líkanið, og þá sýn sem var ríkjandi á síðustu öld, og er því miður enn ríkjandi í stefnumótun á Íslandi, þannig að í því sé litið á vímuefnavanda sem heilasjúkdóm, einstaklingurinn sé í forgrunni og horft fram hjá stéttarstöðu, kyni, kynverund, aldri, þjóðernisuppruna og kynþáttamismunun. Þetta kallar hún hina klassíska nálgun á fíknivanda.[4]
Í dag þurfum við hins vegar að taka inn í reikninginn félagslegan ójöfnuð, kynþáttamismunun, stéttarstöðu, kyn og kynverund. Horfa til valdatengslakenninga og bregðast við ójafnrétti milli kynja í samræmi við leiðbeiningar og ákall alþjóðastofnana. Þessa nálgun kallar Ettorre póst-móderníska nálgun á fíkn.
Þær Ettorre og Nancy Campbell, sem rannsakað hafa sögu meðferðar og þjónustu við konur og stúlkur í Bandaríkjunum og Evrópu, benda á að hún sé iðulega veitt á grunni vanþekkingar á meðferðarþörfum þeirra, og byggi því á epistemologies of ignorance. Þær sækja hugtakið í þann anga kvennahreyfingarinnar sem hefur unnið að úrbótum í hag heilsu kvenna en það lýsir því hversu lítil þekking er í raun á þörfum kvenna í heilbrigðis- og velferðarkerfum.[5]

Hegðunarmótun
Meðferð hefur oft verið hegðunarmótandi, ekki síst meðferð stúlkna, eins og Rótin hefur t.d. bent á í skýrslu um greinargerð Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála um Varpholt/Laugaland þar sem stúlkur voru vistaðar við illan leik til ársins 2007.[6]
Þó að vinna með hegðun sé hluti meðferðar skal varast ofuráherslu á hlýðni, það sem á ensku er kallað compliance[7] en það virðist hafa verið helsta markmið meðferðar í Varpholti. Flestar stúlkur sem koma til meðferðar vegna vímuefnavanda eða „hegðunar“ eiga sér sögu þar sem hægt er að leita skýringa á vanda þeirra, sem kallar á valdeflandi nálgun. Markmið meðferðar á Laugalandi og Varpholti á árunum 1997-2007 virðist hins vegar hafa miðað að því að búa til þægar og undirgefnar stúlkur og markvisst virtist unnið að því að brjóta niður vilja þeirra og sjálfstæði.
Af framansögðu má vera ljóst að nauðsynlegt er að vinna skipulega að því að breyta og bæta stefnumótun og þjónustu en kannski ekki síst menntun og að efla rannsóknarstarf í málaflokknum, því án þess öðlumst við ekki gagnreynda þekkingu sem er undirstaða góðs heilbrigðis- og velferðarkerfis sem byggir á mannréttindum.

GREVIO-nefndin
Nefnd Evrópuráðsins um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (GREVIO), gaf út skýrslu sína[8] á síðasta ári um stöðu málaflokksins hér á landi en nefndin hefur eftirlit með framkvæmd Istanbúl-samningsins[9]. Þar segir að kerfi hérlendis séu ekki nægilega í stakk búin til að bregðast við ofbeldi gegn jaðarsettum hópum, svo sem konum af erlendum uppruna, konum með fötlun eða konum með vímuefnavanda. Þá segir að nefndin „mælist eindregið til þess að íslensk stjórnvöld grípi til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að konum með vímuefnavanda og konum í vændi sé tryggð örugg gistiaðstaða ásamt lagalegri og sálfræðilegri ráðgjöf og stuðningi, sem mætir þörfum þeirra sem þolendum ofbeldis. Þá skal þeim veitt önnur sú þjónusta sem þær þurfa á hátt sem þeim hentar.“
Þá er bent á að konur með vímuefnavanda hafi ekki aðgang að Kvennaathvarfinu, og ég bæti því við að það skýtur vægast skökku við þar sem fáir hópar eru í meiri þörf fyrir kvennaathvarf en þær enda segir í einnig: “Ákvæði 4. gr. 3. mgr. Istanbúl-samningsins um vernd þolenda krefst þess að öllum konum sem búa við eða eru í hættu á að verða fyrir ofbeldi sé framkvæmd án nokkurrar mismununar. Sérstaklega skal gætt að þeim sem eru í hættu vegna samtvinnunar mismunabreyta, eins og kvenna með vímuefnavanda og kvenna í vændi, sé ekki mismunað.”[10] Í skýrslunni er bent á almennt séu konur sem búa við fjölþætta mismunun, eins og konur með vímuefnavanda, ekki teknar með í stefnumótunarskjölum hins opinbera á skipulagðan hátt.

Jaðarsett fólk, jaðarsettur málaflokkur
Fólk með vímuefnavanda er ekki bara jaðarsett, málaflokkurinn er það líka. Þjónusta við fólk með fíknivanda er mjög oft í höndum félagasamtaka en ekki innan hins almenna heilbrigðis- eða velferðarkerfis. Eftirlit og gæðakröfur eru ekki fullnægjandi, stefnumótun vantar, klínískar leiðbeiningar, leiðbeiningar og viðmið við rekstur úrræða eru ekki heldur til staðar. Þá vantar víða samráð við notendur t.d. með þjónustukönnunum og ef þessar upplýsingar eru á annað borð til eru þær ekki opinberar. Nú er t.d. búið að vinna að því í mörg ár að koma skráningu á Vogi inn í lögbundna vistunarskrá sjúkrahúsa án þess að það hafi klárast[11] og Landlæknisembættið gefur ekki upplýsingar um atvikaskráningu á meðferðarstöðvum.
Opinberir aðilar eru oft ekki með skýr viðmið um hvaða þjónustu skal kaupa eða hvernig hún á að vera. Þannig eru t.d. sumar af stærstu meðferðarstöðvum landsins ekki með stjórnendur sem hafa starfsleyfi frá Landlækni né menntun við hæfi. Rótin hefur síendurtekið vakið athygli á menntunarmálum áfengis- og vímuefnaráðgjafa sem yfirvöld viðurkenna að séu í ólestri en ekkert gerist. Á meðan er langt því frá að fólk með vímuefnavanda fái þjónustu sem fellur undir þau grunnmannréttindi sem felast í bestu mögulegu heilsu.
Þá er einnig algengt að í þjónustu félagasamtaka felist krafa um að mæta á trúarlegar eða aðrar samkomur sem fela í sér hugmyndafræðilega undirgefni og til að allir skuli „frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar“, í samræmi við 18. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sþ, ættu stjórnvöld að innleiða í stefnumótun að kaupa ekki slíka þjónustu.[12]

Konukot
Rótin rekur nú Konukot – neyðarskýli fyrir heimilislausar konur – í samstarfi við Reykjavíkurborg sem hefur gert skaðaminnkandi stefnu leiðarljós í sinni vinnu með fólk með vímuefnavanda og hefur einnig brugðist vel við áskorunum Rótarinnar um að skoða þjónustu við konur sérstaklega.
Í kröfulýsingu sem fylgir samningi Rótarinnar við Reykjavíkurborg segir að þjónustan í Konukoti skuli byggjast á mannréttindum og skal mannréttindastefna Reykjavíkurborgar höfð að leiðarljósi. Þjónustan skal vera „áfalla- og kynjamiðuð og fylgja viðmiðum um öryggi, trúverðugleika og gagnsæi, jafningjastuðning, samvinnu og gagnvirkni, valdeflingu og val“. Hún á líka að vera í samræmi við hugmyndafræði skaðaminnkunar, einstaklingsmiðuð, valdeflandi og viðhafa samvinnu og notendasamráð. Þegar Rótin tók við starfseminni í Konukoti kom inn í kröfulýsingu, að ósk félagsins, að þar yrði unnið eftir áfalla og kynjamiðaðri nálgun og „konur sinna konum“-viðmiði.
Rótin hefur unnið ötullega að auknum mannréttindum gesta Konukots í samstarfi við Reykjavíkurborg, bæði í okkar rekstri og með því að þrýsta á yfirvöld, bæði borgina og ríkið. Þetta hefur strax skilað sér í bættum gæðum í starfinu, færri atvikum og bættri þjónustu. Hluti af þessu ferli var að bæta kjör starfskvenna með samningum við Eflingu sem tryggja þeim sömu kjör og öðru starfsfólki neyðarskýla Reykjavíkurborgar, með ráðningu teymisstjóra og fræðsluáætlun.
Stefna skiptir miklu máli og lýðheilsa og mannréttindi þurfa að vera grunnurinn, hvort sem er í lítilli einingu eins og Konukoti, í sveitarfélögunum, á landsvísu eða í alþjóðastarfi.

Breytingar á fíknistefnu
Miklar sviptingar eiga sér nú stað í fíknistefnu í heiminum. Í Evrópu er verið að innleiða skaðaminnkunar- og mannréttindastefnu og snúa frá refsistefnu. Hafa bæði Evrópuráðið og EMCDDA, European Monitoring Center on Drugs and Drugs Addiction (sem væntanlega verður breytt í European Drug Agency í nánustu framtíð og hlutverk stofnunarinnar útvíkkað) unnið að því að snúa kompásnum í mannréttindaátt og hluti af þeirri vinnu, hjá báðum stofnunum, er útgáfa á leiðbeiningum um innleiðingu stefnu og þjónustu við konur með vímuefnavanda.[13] Hægar gengur hjá fíknistofnunum Sameinuðu þjóðanna að taka upp mannréttamiðaða stefnu þar sem valdamikil, ríki sem höll eru undir valdstjórn, koma í veg fyrir það.

Fíknistefna á Íslandi
Hér á landi hefur gengið hægt að breyta stefnunni á landsvísu en við skynjum vilja hjá stjórnvöldum að herða á breytingum í átt til nútímalegrar stefnu sem byggir á nýjustu þekkingu þar sem skaðaminnkun, mannréttindi og jafnrétti er í fyrirrúmi en svo virðist sem kjarkinn bresti þegar til á að taka.
Skaðaminnkun er sérstaklega mikilvæg fyrir konur í þungri neyslu og með mikinn félagslegan vanda en það þarf að innleiða hana miðað við að við erum jafnréttissinnað velferðarríki og það þarf að aðlaga hana að því. Alþjóðlega skaðaminnkunarhreyfingin hefur fram að þessu ekki verið mjög kynjameðvituð.
Mesta fyrirstaðan í breytingum á fíknistefnu eru stjórnmálamenn sem eru mótaðir af eldri hugmyndum um vímuefnamál og eru ekki tilbúnir til breytinga. Miklar breytingar hafa þó orðið á undanförnum árum og sú þróun heldur vonandi áfram. Öll Norðurlöndin standa í þeim sporum að þurfa að endurskoða sína fíknistefnu og í Evrópu á sér stað mikil breyting í mannréttindaátt.
Ansi langt er í land víða að um lönd að jafnrétti og mannréttindi séu ríkjandi í málefnum kvenna með vímuefnavanda. Íslendingar sem eru heimsmeistarar í jafnrétti hafa tækifæri til að beita sér í alþjóðastarfi á þessu sviði og nýta sérþekkingu okkar til að stuðla að auknum mannréttindum kvenna og kvára með vímuefnavanda. Við gerum það með öflugri stefnumótun, framkvæmd og rannsóknum hér á landi, við erum jú hið fullkomna “pilot-verkefnis” land í slíkt verkefni.

[1] Elizabeth Ettorre. 2007. Revisioning women and drug use: gender, power and the body, Macmillan, bls. 5.
[2] Kalant O. J. (1980), Alcohol and drug problems in women, Research Advances in Alcohol and Drug Problems, Vol. 5, Plenum Press, New York/London.
[3] Lori Rotskoff. 2003. Love on the Rocks. Men, Women, and Alcohol in Post-World War II America.
[4] Elizabeth Ettorre. 2007. Revisioning women and drug use: gender, power and the body, Macmillan, bls. 9-13.
[5] Campbell, N. D. & E. Ettorre. 2011. Gendering Addiction. The Politics of Drug Treatment in a Neurochemical World. Houndmills, England: Palgrave Macmillan.
[6] Kristín I. Pálsdóttir. 2022. Greinargerð um réttlæti og reynslu kvenna af vistun í Varpholti/Laugalandi: https://www.rotin.is/heimsokn-og-greinargerd-til-forsaetisradherra-vegna-varpholts/.
[7] Larry K. Brendtro. 2004. From coercive to strength-based intervention: Responding to the needs of children in pain https://cyc-net.org/profession/readarounds/ra-brendtro.html.
[8] GREVIO. 2022. Basaline Evaluation Report. Iceland. Sjá: https://www.coe.int/en/web/istanbul-convention/-/grevio-publishes-its-report-on-iceland.
[9] Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. 2011 Sjá: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=0f41ca88-7e72-11e7-941c-005056bc530c.
[10] Group of Experts on Action against Violence against Women and Domestic Violence (GREVIO). 2022 GREVIO Evaluation Baseline Report. Iceland. https://rm.coe.int/grevio-inf-2022-26-eng-final-report-on-iceland/1680a8efae.
[11] Ríkisendurskoðun. 2022. Geðheilbrigðisþjónusta. Stefna – skipulag – kostnaður – árangur. Stjórnsýsluúttekt, bls. 14. Sjá: https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2022-gedheilbrigdismal.pdf.
[12] Mannréttindayfirlýsing Sþ. Sjá: https://www.humanrights.is/is/mannrettindi-og-island/helstu-samningar-og-yfirlysingar/sameinudu-thjodirnar/mannrettindayfirlysing-sameinudu-thjodanna
[13] EMCDDA. 2023. Women and drugs: health and social responses: https://www.emcdda.europa.eu/publications/mini-guides/women-and-drugs-health-and-social-responses_en og CoE, Pompidou Group. 2022. Implementing a gender approach in different drug policy areas: from prevention, care and treatment services to law enforcement and the criminal justice system: https://rm.coe.int/2022-ppg-implementing-a-gender-approach-in-drug-policies-a-pg-handbook/1680a66835.

Reynsla kvenna af Konukoti – Umræðukvöld 7. mars

Reynsla kvenna af Konukoti – Umræðukvöld 7. mars

Kolbrún Kolbeinsdóttir, kennari og kynjafræðingur, flytur erindið „„Eini staðurinn í samfélaginu þar sem ekki er horft niður á þig“: Reynsla kvenna af Konukoti“. Kolbrún lauk meistaranámi í kynjafræði nú í febrúar og er erindið byggt á lokaverkefni hennar þar sem hún fjallar um reynslu kvenna sem nýta sér þjónustu Konukots. Konur í Konukoti, neyðarskýli kvenna við Eskihlíð, er lítt rannsakaður hópur en hefur verið í deiglunni ásamt öðrum þeim sem glíma við heimilisleysi. Markmiðið með verkefninu er að vekja athygli á félagslegu misrétti sem hópurinn verður fyrir og draga þannig úr jaðarsetningu hans. Niðurstöður rannsóknar eru settar í samhengi við kenningar sem byggja á samtvinnun mismunabreyta og greininga á kynjakerfinu, ekki síst með tilliti til ofbeldis sem þrífst innan þess.

Kolbrún er nú framhaldsskólakennari við Tækniskólann og kennir meðal annars kynjafræði, áður starfaði hún við skólastjórnun þar. Hún hefur einnig unnið sem sjálfboðaliði í Konukoti og þar kviknaði hugmyndin að rannsókninni.

Umræðukvöld Rótarinnar eru öllum opin, boðið er upp á te og kaffi sem er fjármagnað með samskotum. Munið eftir klinkinu eða leggið inn á reikning Rótarinnar:

Kt. 500513-0470, bankanr. 0101-26-011472.

Viðburðurinn er á Facebook!

Staður: Kvennaheimilið, Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Ef þið vitið af áhugaverðum umræðuefnum og erindum, sendið okkur endilega línu á rotin@rotin.is.

Núvitund sem bakslagsvörn – Umræðukvöld 21. febrúar

Núvitund sem bakslagsvörn – Umræðukvöld 21. febrúar

Helena Bragadóttir, geðhjúkrunarfræðingur, kynnir lokaverkefni sitt í heilbrigðisvísindum á umræðukvöldi hinn 21. febrúar, athugið viðburðinum hefur verið frestað um viku frá því sem upphaflega var áætlað.

Tilgangur rannsóknar Helenu var að skoða reynslu kvenna með fíknivanda af námskeiðinu „Núvitund sem bakslagsvörn“, eða MPRP (e. Mindfulness based relapse prevention) sem er sniðin að einstaklingum með fíknivanda og skoða hvort það gagnist sem bakslagsvörn eða við einkennum geðraskana.

Helena lauk nýverið meistaraprófi (MSc) í heilbrigðisvísindum. Hún hefur langa reynslu af störfum með fólki með vímuefnavanda, m.a. á fíknigeðdeild Landspítala – Háskólasjúkrahúss (LSH), en í dag er hún teymisstjóri geðheilsuteymis fangelsa hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins.

Umræðukvöld Rótarinnar eru öllum opin, boðið er upp á te og kaffi sem er fjármagnað með samskotum. Munið eftir klinkinu eða leggið inn á reikning Rótarinnar:
Kt. 500513-0470, bankanr. 0101-26-011472.

Viðburðurinn er á Facebook!

Staður: Kvennaheimilið, Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Umræðukvöld Rótarinnar eru haldin tvisvar til þrisvar að vori og hausti. Næsta umræðukvöld verður haldið 7. mars en þá kynnir Kolbrún Kolbeinsdóttir, kynjafræðingur, fyrir okkur rannsókn sína á konum í Konukoti „„Eini staðurinn í samfélaginu þar sem ekki er horft niður á þig“: Reynsla kvenna af Konukoti.“

Ef þið vitið af áhugaverðum umræðuefnum og erindum, sendið okkur endilega línu á rotin@rotin.is.

Meðferðarheimilið Varpholti/Laugalandi – Umræðukvöld

Meðferðarheimilið Varpholti/Laugalandi – Umræðukvöld

Rótin býður til umræðukvölds um reynslu kvenna sem voru vistaðar í Varpholti og á Laugalandi á tímabilinu 1997-2007, mánudaginn 14. nóvember kl. 17:30-19:00
Nýlega gaf Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála út greinargerð um starfsemi meðferðarheimilisins í Varpholti og á Laugalandi. Á umræðukvöldinu verður fjallað um greinargerðina og reynslu kvenanna af veru á meðferðarheimilinu út frá þeirra eigin upplifun, reynslu og þekkingu.
Þær Gígja Skúladóttir og Íris Ósk Friðriksdóttir sem báðar voru vistaðar í Varpholti halda erindi ásamt Kristínu I. Pálsdóttur, talskonu Rótarinnar, sem leiddi vinnu starfshóps um meðferð stúlkna með áhættuhegðun, meðferðarheimilið að Laugalandi, með samningi við Barnaverndarstofu
Dagskráin verður sem hér segir:
• Meðferð stúlkna með áhættuhegðun – Kristín I. Pálsdóttir
• Hugleiðing um greinargerð GEV – Gígja Skúladóttir
• Mín reynsla – Íris Ósk Friðriksdóttir
• Almennar umræður
Rótin tekur nú aftur upp umræðukvöldin sem lögðust niður á Covid-tímanum. Ef þið vitið af áhugaverðum umræðuefnum og erindum, sendið okkur endilega línu á rotin@rotin.is.
Umræðukvöld Rótarinnar eru öllum opin, boðið er upp á te og kaffi sem er fjármagnað með samskotum. Munið eftir klinkinu eða leggið inn á reikning Rótarinnar:

Kt. 500513-0470, bankanr. 0101 -26-011472.
Viðburðurinn er á Facebook!
Umræðukvöldið er haldið í Kvennaheimilinu, Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Hvað er fíkn? – Erindi dr. Lance Dodes

Hvað er fíkn? – Erindi dr. Lance Dodes

Eftir aðalfund Rótarinnar, 30. maí, heldur dr. Lance Dodes erindið Hvað er fíkn? Erindið hefst kl. 19:00 og er flutt í gegnum fjarfundarbúnað. eftir erindið verða umræður þar sem dr. Dodes svarar spurningum úr sal..

Fyrirlesturinn er öllum opinn og gjaldfrjáls og er haldinn að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík eins og aðalfundurinn.

Dr. Lance Dodes er geðlæknir og sálgreinandi sem stjórnaði rannsóknum við Boston Psychoanalytic Society and Institute, var dósent í klínískum geðlækningum við Harvard Medical School og starfaði við New Center for Psychoanalysis, Los Angeles. Hann var forstöðumaður fíknimeðferðardeildar McLean-spítala, sem er hluti af Harvard-háskóla, forstöðumaður áfengismeðferðardeildar við Spaulding Rehabilitation Hospital (sem nú er hluti af Massachusetts General Hospital) og forstöðumaður Boston Center for Problem Gambling. Hann hefur skrifað fjölda greina um vímuefnavanda og fíknihegðun og er höfundur bókanna The Heart of Addiction (HarperCollins, 2002), Breaking Addiction: A 7-Step Handbook for Ending Any Addiction (HarperColliins, 2011) og The Sober Truth: Debunking the Bad Science Behind 12-Step Programs and the Rehab Industry. Sjá nánar á vef dr. Dodes. Greinin Hættuleg taugalíffræðiþráhyggja er aðgengileg í íslenskri þýðingu á vef Rótarinnar.

Í erindinu fjallar dr. Dodes um kenningar sínar um fíkn en hann hefur þróað eigin aðferðir til að vinna með fólki með fíknivanda. Hann telur að fíknihegðun hafi lengi verið misskilda, bæði í menningunni og í meðferðarstarfi. Fíknihvatar séu næstum alltaf viðbragð við tilfinningaálagi. Sambandsslit, ótti við átök, uppgjöf, niðurlæging, sorg og aðrir sálfræðilega mikilvægir þættir hafa allir forspárgildi fyrir fíknihegðun hjá fólki. Þess vegna sé best að skilja fíkn og meðhöndla hana með aðferðum sálgreiningar.
Erindið er aðgengilegt á Youtube.