Aðalfundur 2021 haldinn 2. júní

Aðalfundur 2021 haldinn 2. júní

Aðalfundur Rótarinnar 2021 verður haldinn 2. júní kl. 20:00, í Kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum, Túngötu 14.
Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf sbr. lög félagsins. Kosið verður í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir varafulltrúar í ráðið og skoðunarkona reikninga. Athygli er vakin á tillögum um lagabreytingar sem fylgja fundarboðinu en tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund.
Við hvetjum áhugasamar félagskonur til að bjóða sig fram í ráð eða vararáð með því að senda póst á netfangið rotin@rotin.is. Frekari upplýsingar hjá Kristínu I. Pálsdóttur, talskonu, í sama netfangi eða í síma 793-0090.

Dagskrá aðalfundur:
Fundur settur.
Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár.
Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá.
Ákvörðun félagsgjalda.
Lagabreytingar
Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð.
Kosning á skoðunaraðila reikninga.
Tillaga ráðs um starfsáætlun næsta starfsár.
Önnur mál.
Tillögur um lagabreytingar skulu berast eigi síðar en 27. maí 2021.

TILLÖGUR UM LAGABREYTINGAR

Nafn félagsins – Tillaga um breytingu á 1. gr:

Núgildandi grein:

Félagið heitir Rótin – félag um konur, áföll og vímugjafa. Lögheimili og varnarþing þess eru í Reykjavík.

Verði svona:

Félagið heitir Rótin – félag um velferð og lífsgæði kvenna. Lögheimili og varnarþing þess er í Reykjavík.

Markmið félagsins – Tillaga um breytingu á 2. gr.

Núgildandi grein:

Markmið Rótarinnar eru að halda uppi umræðu um konur, fíkn, áföll og ofbeldi og beita sér fyrir faglegri stefnumótun í málaflokknum. Félagið vill stuðla að því að konum standi til boða áfalla- og kynjamiðuð þjónusta og að komið sé á samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem fást við vímuefnameðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla. Félagið vill beita sér fyrir öflun upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum til góða, og stuðla að rannsóknum á þessu sviði. Ennfremur að afla þekkingar, halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samráði við aðra, og efla umræður um fíknitengd málefni sem snerta konur sérstaklega.

Verði svona:

Markmið Rótarinnar er:

  1. Að vera málsvari kvenna sem eiga sögu um áföll og/eða vímuefnavanda og að beita sér fyrir aukinni velferð og lífsgæðum þeirra.
  2. Að beita sér fyrir faglegri stefnumótun um skaðaminnkun, mannréttindi, samkenndarmiðaða nálgun og áfalla- og kynjamiðaða þjónustu.
  3. Að stuðla að rannsóknum og beita sér fyrir öflun þekkingar, upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum til góða.
  4. Að efla samstarf á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila og afla þekkingar, halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samráði við aðra.
  5. Að reka Konukot sem er neyðarskýli fyrir húsnæðislausar konur í Reykjavík samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg.

Ráð félagsins – Tillaga um breytingu á 6. gr.:

Núgildandi grein:

Á aðalfundi er samþykkt starfsáætlun til eins árs. Á aðalfundi skulu kosnir níu félagar í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir þrír varafulltrúar í ráð félagsins. Ráðið hefur umboð til að álykta í nafni félagsins enda sé ályktunin í samræmi við grundvallarmarkmið þess. Ráði félagsins er heimilt að skipa hópa til starfa í nafni félagsins. Ráðið skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum. Skipaður skal ritari og gjaldkeri félagsins. Ráðið skal funda að minnsta kosti fjórum sinnum á ári eða oftar ef þurfa þykir. Fundurinn er atkvæðisbær ef meirihluti ráðsins mætir. Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi;

  1. Fundur settur.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár.
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá.
  5. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð
  6. Kosning á skoðunaraðila reikninga.
  7. Ákvörðun félagsgjalda.
  8. Lagabreytingar
  9. Tillaga ráðs um starfsáætlun næsta starfsár.
  10. Önnur mál.

Verði svona:

Á aðalfundi er samþykkt starfsáætlun til eins árs. Á aðalfundi skulu kosnir níu félagar í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir þrír varafulltrúar í ráð félagsins. Ráðið hefur umboð til að álykta í nafni félagsins enda sé ályktunin í samræmi við grundvallarmarkmið þess. Ráði félagsins er heimilt að skipa hópa til starfa í nafni félagsins. Ráðið skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum. Skipaðar skulu talskona, ritari og gjaldkeri félagsins. Talskona, ritari, gjaldkeri og/eða starfskona mynda framkvæmdaráð ráðsins. Ráð Rótarinnar samþykkir verkefni og umboð framkvæmdaráðsins. Ráð Rótarinnar skipar þrjár konur í framkvæmdahóp/ráð Konukots, tvær komi úr ráðinu en þriðja sé fagaðili sem ekki situr í ráðinu. Ráð Rótarinnar skal funda að minnsta kosti fjórum sinnum á ári eða oftar ef þurfa þykir. Fundurinn er atkvæðisbær ef meirihluti ráðsins mætir. Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi;

  1. Fundur settur
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá
  5. Kosning á skoðunaraðila reikninga
  6. Ákvörðun félagsgjalda
  7. Lagabreytingar
  8. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð
  9. Tillaga ráðs um starfsáætlun næsta starfsár
  10. Önnur mál

Reikningsár og félagsgjöld – Tillaga um breytingu á 7. gr.:

Núgildandi grein:

7.gr.

Reikningsár félagsins er 1. maí til 30. apríl. Á aðalfundi skal kjósa einn skoðunaraðila reikninga. Ráð félagsins leggur fram tillögu um félagsgjöld á aðalfundi félagsins.

Verði svona:

Reikningsár félagsins er 1. janúar til 31. desember. Á aðalfundi skal kjósa einn skoðunaraðila reikninga. Ráð félagsins tekur ákvörðun um hvort leggja skuli fram tillögu um félagsgjöld á aðalfundi félagsins, valfrjáls eða ekki.

Aðalfundur 2021 – FRESTAÐ

Aðalfundur 2021 – FRESTAÐ

Aðalfundi Rótarinnar sem halda átti 5. maí kl. 20:00, í Kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum, Túngötu 14 hefur verið frestað og verður fljótlega tilkynnt hvenær hann verður haldinn.
Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf sbr. lög félagsins. Kosið verður í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir varafulltrúar í ráðið og skoðunarkona reikninga. Athygli er vakin á tillögum um lagabreytingar sem fylgja fundarboðinu en tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund.
Við hvetjum áhugasamar félagskonur til að bjóða sig fram í ráð eða vararáð með því að senda póst á netfangið rotin@rotin.is. Frekari upplýsingar hjá Kristínu I. Pálsdóttur, talskonu, í sama netfangi eða í síma 793-0090. (more…)

Nýtt ráð og breytt nafn félagsins

Nýtt ráð og breytt nafn félagsins

Aðalfundur Rótarinnar haldinn fimmtudaginn 6. maí kl. 20 í Kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum, Túngötu 14. Guðrún Ebba Ólafsdóttir stýrði fundinum. Kristín I. Pálsdóttir talskona fór yfir skýrslu ráðs fyrir liðið starfsár og Árdís gjaldkeri fór yfir reikninga félagsins sem voru samþykktir einhljóða. Kynningu á skýrslu ráðsins með reikningum og starfsáætlun má nálgast hér..

Þá voru lagðar fram lagabreytingatillögur sem allar voru samþykktar að því undanskildu að tillaga um að breyta nafni félagsins í Rótin – félag um konur, áföll og vímuefni fékk ekki brautargengi heldur ný tillaga um að nefna félagið Rótin – félag um konur áföll og vímugjafa. (more…)

Aðalfundur 2020

Aðalfundur 2020

Aðalfundur Rótarinnar verður haldinn miðvikudaginn 6. maí kl. 20:00, í Kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf sbr. lög félagsins. Kosið verður í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir varafulltrúar í ráðið og skoðunarkona reikninga. Athygli er vakin á tillögum um lagabreytingar sem fylgja fundarboðinu en tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund.

Áhugasamar félagskonur eru hvattar til að bjóða sig fram í ráð eða vararáð með því að senda póst á netfangið rotin@rotin.is. Frekari upplýsingar fást hjá Kristínu I. Pálsdóttur, talskonu, í sama netfangi eða í síma 893-9327. (more…)

Hræða – fræða – ræða? – Umræðukvöld um forvarnir

Hræða – fræða – ræða? – Umræðukvöld um forvarnir

Hvað má og hvað er rétt að gera þegar kemur að forvörnum fyrir börn og unglinga? Gleymdum við íslenska módelinu? Hvar eru fyrirmyndir unglinga? Felast hættuleg skilaboð í rapptextum? Þessum spurningum og ótal öðrum verður reynt að svara á næsta umræðukvöldi Rótarinnar sem haldið verður miðvikudaginn 12. febrúar nk. kl. 20 á Hallveigarstöðum.

Dagskrá

  • Inngangur Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur sem jafnframt er fundarstjóri
  • „Að poppa pillu“ – áhrif dægurmenningar á viðhorf ungmenna til ólöglegra vímuefna, Halla Sigrún Arnardóttir, lýðheilsufræðingur
  • Forvarnir, virkni þeirra og þróun. Rafn Jónsson, sérfræðingur hjá Embætti landlæknis.
  • Umræður

(more…)

Johann Hari – Skaðaminnkun og fíknistefna

Johann Hari – Skaðaminnkun og fíknistefna

Bókin „Að hundelta ópið“ (e. Chasing the Scream), eftir breska blaðamanninn Johann Hari kemur út í íslenskri þýðingu Halldórs Árnasonar í þessari viku en bókin og fyrirlestur Johanns um hana á TED hafa vakið verðskuldaða athygli um allan heim.

Í bókinni rekur Johann sögu hins svokallaða stríðs gegn fíkniefnum og þann skaða sem það hefur valdið í erindinu “Af hverju þarf Ísland á skaðaminnkandi hugmyndafræði og endalokum fíknistríðsins að halda?”

Í skaðaminnkandi nálgun er áhersla lögð á afleiðingar og áhrif fíknihegðunar, en ekki á notkunina sem slíka, með það að markmiði að auka lífsgæði neytenda.

Eftir erindi Johanns stýrir Helga Sif Friðjónsdóttir hjúkrunarfræðingur umræðum.

Snarrótin, Rótin og Frú Laufey standa að fundinum og er hann öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Viðburðurinn er á Facebook.