Námskeið fyrir fagfólk sem þjónustar konur

Námskeið fyrir fagfólk sem þjónustar konur

Rótin heldur námskeið fyrir fagfólk sem þjónustar konur sem glíma við áföll og neysluvanda og er markmiðið þess að kynna þá aðferðafræði sem Rótin fylgir fyrir fagfólki sem hefur áhuga á nýrri nálgun í þjónustu við konur með áfallasögu og/eða vímuefnavanda. Á námskeiðinu er stuðst við áfalla- og kynjamiðaða gagnreynda þekkingu.

Drög að dagskrá

  • Rótin. Tilurð félagsins og hugmyndafræðin. Skipulag og starfsemi. Leiðarljós og reglur fyrir námskeið og hópastarf
  • Kenningar um skaðlega vímuefnanotkun. Sjúkdómskenningin. Einstaklingurinn í forgrunni og aðrar nýjar kenningar
  • Vald og ofbeldi
  • Þróun áfalla. Meðal annars skoðað m.t.t. kynja
  • ACE-rannsóknin og aðrar rannsóknir um tengsl áfalla við alvarlega sjúkdóma
  • Skaðaminnkun
  • Áfallamiðuð starfsemi
  • Valdefling kvenna. Seigla og styrkleikar. Spurt er: „Hvað kom fyrir þig?“ en ekki „Hvað er að þér?“
  • Konur finna styrk sinn. Námskeið og hópar Rótarinnar kynnt ítarlega
  • Helstu sóknarfærin á þessu sviði ekki síst á tímum COVID-19

Skipulag

Verð

  • 43.900 kr.

Leiðbeinendur og verkefnisstjórn

  • Leiðbeinendur eru Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Katrín G. Alfreðsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir. Sjá nánar.
Forvarnir í grunnskólum, áskoranir og leiðir

Forvarnir í grunnskólum, áskoranir og leiðir

Rótin, félag um konur, áföll og vímugjafa heldur námskeið um forvarnir í grunnskólum, áskoranir og leiðir miðvikudaginn 2. september 2020 kl. 13.30-16.00 í sal Laugalækjarskóla. Námskeiðið hlaut styrk úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla og er því niðurgreitt. Þátttökugjald er 2.000 kr. og innifalið í því er verkefnahefti sem allir þátttakendur fá.

Einnig er hægt að fá námskeiðið í einstaka skóla eða svæði.

Sjá einnig á vef Rótarinnar þar sem skráning fer fram og þessari færslu er hægt að deila af Facebook.

Námskeið Rótarinnar byggist á gagnreyndri þekkingu á forvörnum. Á námskeiðinu verður meðal annars fjallað um börn og unglinga í áhættuhópum og áhrifaþætti vímuefnanotkunar eins og þeir birtast t.d. rannsóknum á erfiðri lífsreynslu í æsku og tengsl við vímuefnanotkun (ACE-listinn). Unnið er út frá því að vímuefnanotkun sé ekki einangrað vandamál heldur eigi sér m.a. rætur í áföllum. Þá er einnig fjallað um kynjavinkilinn á fíkniferlinum. Kynnt verða líkön um skipulag forvarna, eins og íslenska módelið, og skoðað hvað virkar og hvað ekki í forvörnum (European Prevention Curriculum). Einnig verður fjallað um verndandi þætti sem styðja gegn áhættuhegðun og vímuefnanotkun með sérstakri áherslu á hlut skóla í því sambandi.

Markmiðið með námskeiðinu er að styðja og styrkja starfsfólk skóla í að vinna að forvörnum í samræmi við nýjustu gagnreynda þekkingu og auka þekkingu á aðferðum sem styðja við betri líðan barna í skólunum. (more…)

Áföll – Leiðir til bata

Áföll – Leiðir til bata

Námskeiðinu er ætlað að styðja konur við að vinna úr afleiðingum áfalla. Athyglinni er beint að þeim áföllum sem konur eru í mestri hættu á að verða fyrir eins og kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum og öðru ofbeldi á milli tengdra aðila. Kennd eru bjargráð sem nýtast við úrvinnslu áfalla almennt. Námskeiðið er kynjamiðað og byggt er á styrkleikanálgun. Það er þróað af dr. Stephanie Covington og heitir á ensku Healing Trauma. Þátttakendur fá veglegt verkefnahefti. Á milli tíma er verkefnavinna sem konurnar eru hvattar til að vinna svo að þær fái sem mest út úr námskeiðinu.

Skráning

Fyrir hverjar
Námskeiðið er fyrir konur sem glíma við afleiðingar áfalla. Námskeiðið hentar sérstakleg vel konum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.

Markmið
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur geti náð sér af afleiðingum áfalla, að þær finni fyrir þeim krafti sem býr innra með þeim og veiti hverri annarri m.a. stuðning til þess að létta á skömm og sektarkennd.

Aðferð
Námskeiðið skiptist í átta hluti þar sem m.a. er fjallað um vald og valdbeitingu, áfallaferlið, sjálfsumhyggju, ACE-spurningalistann, reiði og heilbrigð sambönd.

Samþykktir fyrir námskeið og hópa Rótarinnar gilda á námskeiðinu eins og í öðru starfi félagsins.

Skipulag
Námskeiðið er í 3 skipti í 5 tíma í senn, frá kl. 10:00-15:00, og verður haldið í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg. Þátttakendur eru hvattir til að taka með sér nesti til að borða í hálftíma hléi og drykk á brúsa. Hámarksfjöldi er 6 þátttakendur á meðan taka þarf tillit til sóttvarnaráðstafana vegna Covid-19 en þeim er fylgt á námskeiðinu.

Verð
30.000 kr.

Dagsetningar  Helgarnámskeið 

Tími Dags.  Kl. 
1. 7. nóvember 10.00-15.00
2. 8. nóvember 10.00-15.00
3. 14. nóvember 10.00-15.00

Leiðbeinendur og verkefnisstjórn
Leiðbeinendur eru Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Katrín G. Alfreðsdóttir. Verkefnisstjóri er Kristín I. Pálsdóttir. Sjá nánar.

Þátttakendur eru hvattir til að sækja fundi í Rótarhópnum, á miðvikudögum kl. 19.15, að loknu námskeiðinu.

Ráðgjafi tekur til starfa

Ráðgjafi tekur til starfa

Rótin býður nú upp á einstaklingsráðgjöf í samstarfi við Bjarkarhlíð og hefur Katrín G. Alfreðsdóttir, félagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur og sérfræðingur um vímuefnavanda kvenna tekið til starfa sem ráðgjafi félagsins.

Ráðgjöfin er ætluð konum með sögu um vímuefnavanda og/eða áföll og er veitt konum að kostnaðarlausu.

Katrín tekur fyrst um sinn á móti konum á þriðjudögum í Bjarkarhlíð og fer skráning í viðtölin fram í gegnum skráningarkerfi Bjarkarhlíðar.

Fyrsta viðtal er tekið af starfsfólki Bjarkarhlíðar sem vísar svo áfram í önnur úrræði, þar með talið til ráðgjafa Rótarinnar.

Ef óskað er frekari upplýsinga um viðtölin og aðra þjónust félagsins er velkomið að senda póst á skraning@rotin.is.

Katrín G. Alfreðsdóttir er með meistarapróf í félagsráðgjöf, hefur lokið tveggja ára námi í fjölskyldumeðferð frá Endurmenntun Háskóla Íslands, hún er með Professional Certificate í vinnu með konum með vímuefnavanda frá University College Dublin og með viðbótardiplóma frá Háskóla Íslands í áfengis- og vímuefnafræðum. Katrín hefur réttindi til að veita EMDR meðferð (ens. Eye movement Desensitization and reprocessing) og hefur lokið námskeiðum í Endurmenntun Háskóla Íslands í áhugahvetjandi samtali (ens. Motivational Interviewing) og lausnamiðaðri nálgun (ens. Solution focused therapy). Katrín hefur sótt vinnustofur hjá dr. Stephanie Covington á The Connecticut Women’s Concortium, árið 2017 og 2019, og lokið þjálfun í vinnu með konur með vímuefnavanda og áfallasögu samkvæmt kenningum dr. Covington. Að auki hefur hún lokið námskeiði um sálræn áföll og ofbeldi í Háskólanum á Akureyri.

Katrín hefur tileinkað sér hugmyndafræði skaðaminnkandi nálgunar (ens. Harm reduction) og var ein af frumkvöðlum hér á landi í að kynna hugmyndafræðina og koma henni á framfæri með fyrirlestrum, kennslu og rituðu efni. Hún vann um tíma á fíknigeðdeild Landspítalans og starfaði um árabil sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, bæði í Konukoti og hjá Frú Ragnheiði. Katrín er leiðbeinandi í leiðsagnarhópum og námskeiðum Rótarinnar og er þar að auki sjálfstætt starfandi félags- og fjölskyldufræðingur hjá Vegvísi – ráðgjöf í Hafnarfirði.

Rótarhópur fellur niður 9. og 23. október

Rótarhópur fellur niður 9. og 23. október

Miðvikudag 9. október verður umræðukvöld hjá Rótinni þar sem Gabríela Bryndís Ernudóttir, sálfræðingur, flytur erindi um samkenndarmiðaða nálgun við áföllum (e. Compassion focused therapy).

Þar sem Rótarhópur fellur niður þau kvöld sem boðið er upp á umræðukvöld verður enginn fundur í Rótarhópnum næsta miðvikudag. Við hvetjum ykkur hins vegar til að koma á umræðukvöldið  sem er haldið í Kvennaheimilinu, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 9. október, kl. 20.00-21.30.

Þá fellur Rótarhópur og námskeið félagsins einnig niður vikuna 21.-25. október vegna vetrarleyfis.

Rótarhópurinn er fyrir konur sem tekið hafa þátt í námskeiðum á vegum Rótarinnar, konur sem hafa áhuga á að taka þátt í slíkum námskeiðum og konur sem eru komnar vel af stað í bata með öðrum leiðum eru einnig velkomnar og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Við söfnum þó í pott fyrir kaffi og te. (more…)

Kynningarfundur – Haust 2019

Kynningarfundur – Haust 2019

Starf Rótarinnar á haustmisseri 2019 verður kynnt miðvikudaginn 21. ágúst kl. 20 að Hallveigarstöðum.
Félagið býður upp á fimm mismunandi námskeið í haust ásamt Rótarhópnum og umræðukvöldum. Námskeiðin „Konur studdar til bata“ og „Þú ert ekki ein, við erum margar“, sem einnig voru haldin síðasta vetur, eru aftur á dagskrá ásamt þremur nýjum námskeiðum. Tvö þeirra eru úr smiðju dr. Stephanie Covington, eins og „Konur studdar til bata“, en það eru námskeiðin „Áföll – Leiðir til bata“, sem er helgarnámskeið, og „Sjálfsuppgötvun og valdefling“ sem er sérsniðið að stúlkum og yngri konum, 18-25 ára. Þriðja nýja námskeiðið er svo  „Að segja frá“ sem er stutt námskeið fyrir konur sem íhuga að segja frá ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Sjá nánar um dagskrána og hér er skráningarsíða.
Athugið að eftir kynningu á dagskránni, um kl. 20.45, mun lögmaður fjalla um sjúkragagnamál SÁÁ og ræða spurningar sem brenna á konum varðandi sjúkragögn þeirra sem hafa verið í meðferð á Vík. Sjá nánar.
Allar sem áhuga hafa á starfi Rótarinnar eru hvattar til að mæta og taka vinkonur sínar með!
Viðburðurinn er á Facebook!
Umræðukvöld Rótarinnar eru öllum opin, boðið er upp á te og kaffi sem er fjármagnað með samskotum. Munið eftir klinkinu eða leggið inn á reikning Rótarinnar: Kt. 500513-0470, bankanr. 0101 -26-011472.
Umræðukvöldið er haldið í Kvennaheimilinu, Hallveigarstöðum, Túngötu 14.