Á umræðukvöldi Rótarinnar miðvikudaginn 27. apríl kemur til okkar Katrín Guðný Alfreðsdóttir, félagsráðgjafi, flugfreyja og ráðskona í Rótinni og fjallar um heimilislausar konur. Umræðukvöldið er að vanda frá  kl. 20 til 21.20  í Kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum.

Erindi Katrínar Guðnýjar nefnist „Búsetuúrræði fyrir heimilislausar konur með áfengis- og vímuefnavanda byggð á hugmyndfræði skaðaminnkandi nálgunar“.

Katrín útskrifaðist með meistarapróf í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands árið 2012. Hún starfaði á fíknigeðdeild Landspítalans í 2 ár að námi loknu en hefur starfað sem flugfreyja í 39 ár og er enn í 50% flugfreyjustarfi. Árið 2014 hóf hún fjölskyldumeðferðarnám í Endurmenntun Háskóla Íslands og lýkur því nú í maí. Katrín opnaði eigin ráðgjafastofu í Hafnarfirði ásamt dóttur sinni í nóvember 2015. Þar veita þær við ráðgjöf, stuðning og meðferð við persónulegum og fjárhagslegum vanda einstaklinga og fjölskyldna.

Áhugi Katrínar á málefnum kvenna sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda vaknaði þegar hún var sjálfboðaliðið í Konukoti meðfram náminu. Um þann tíma segir hún: „Þar kynntist ég frábærum konum sem flestar höfðu átt heimili og áttu börn áður en þær komu í Kotið. Ég leiddi hugann að því hvers vegna þær væru á þeim stað sem þær voru, því enginn ætlar sér að verða heimilislaus. Nánast allar áttu það sameiginlegt að hafa átt erfiða æsku eða orðið fyrir áföllum í lífinu og upplifað vanrækslu og ofbeldi.

Ég komst jafnframt að því að ríkjandi meðferðarstefna í áfengis-og vímuefnamálum á Íslandi og þær reglur sem giltu í Reykjavíkurborg, og í öðrum sveitarfélögum, um úthlutun félagslegra íbúða eða búsetuúrræða hömluðu og hindruðu konurnar í því að fá úthlutun. Konurnar eru staddar í vítahring þar sem skilyrði fyrir búseturúrræði er algjört bindindi og því ná þær ekki meðan þær búa á götunni og á meðan geta þær ekki tekið á vanda sínum. Í dag eru 5 íbúðir fyrir konur sem eru enn í neyslu en þörfin er mun meiri.“

Í fyrirlestrinum mun Katrín kynna hvernig hægt er að bæta aðstæður heimilislausra kvenna (gildir að sjálfsögðu um karla líka) með fjölbreyttum úrræðum án þess að krefja þær um bindindi. Með varanlegri búsetu, fræðslu og stuðningi sem byggð eru á hugmyndafræði skaðaminnkandi nálgunar er hægt að auka lífsgæði kvennanna. Katrín vitnar í rannsóknir sem gerðar hafa verið erlendis máli sínu til stuðnings.

Allir eru velkomnir á umræðukvöld Rótarinnar!

Boðið er upp á te og kaffi en við erum með samskot fyrir því svo komið endilega með klink í baukinn.

Viðburðurinn er á Facebook!

Share This