Aðalfundur Rótarinnar 2023

Aðalfundur Rótarinnar 2023

Tilkynning um aðalfund Rótarinnar 2023

Aðalfundur Rótarinnar verður haldinn þriðjudaginn 23. maí kl. 20, í Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík.

Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf sbr. lög félagsins. Kosið verður í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir varafulltrúar í ráðið og skoðunarkona reikninga. Athygli er vakin á að tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund.

Við hvetjum áhugasamar félagskonur til að bjóða sig fram í ráð eða vararáð með því að senda póst á netfangið rotin@rotin.is.

Frekari upplýsingar fást hjá Kristínu I. Pálsdóttur, talskonu, í sama netfangi eða í síma 793-0090.

Dagskrá aðalfundur:

  1. Fundur settur.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár.
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá.
  5. Lagabreytingar
  6. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð.
  7. Kosning á skoðunaraðila reikninga.
  8. Ákvörðun félagsgjalda.
  9. Tillaga ráðs um starfsáætlun næsta starfsár.
  10. Önnur mál.

Viðburðurinn er á Facebook!

Hefur þú áhuga á að starfa í ráði Rótarinnar?

Ráðið heldur vinnudag að hausti til að ræða verkefni félagsins, siðareglur og leiðarljós, sjá: https://www.rotin.is/um-rotina/leidarljos/. Ráðsfundir eru haldnir á 4-6 vikna fresti.

Félagið er með skrifstofu á Hallveigarstöðum og ráðsfundir eru haldnir þar eða á Zoom og standa yfirleitt í 1,5 klst.

Helsta starfsemi félagsins er hagsmunabarátta fyrir konur með vímuefnavanda og jaðarsettar konur og rekstur á Konukoti, neyðarskýli fyrir heimilislausar konur með samningi við Reykjavíkurborg.

Málsvarahlutverkið er aðal hlutverk Rótarinnar og við köllum okkur þekkingarmiðað félag, þ.e. við viljum vera leiðandi í því að fylgjast með nýjustu þekkingu í málaflokknum í alþjóðlegu samhengi og við erum þátttakendur í Evrópuverkefnum.

Rótin hefur staðið fyrir námskeiðum, umræðukvöldum og ráðstefnum og í haust er þriðja ráðstefnan þar sem fjallað verður um fíknistefnu.

Félagið hefur haldið á lofti mikilvægi þess að horfa á félagslegar hliðar vímuefnavanda og hefur gagnrýnt mjög líffræðilega nálgun sbr. kenninguna um vímuefnavanda sem ólæknandi heilasjúkdóm.

Á vef Rótarinnar er mikið lesefni um málefni félagsins: https://www.rotin.is/.

Markmið Rótarinnar eru:

  1. Að vera málsvari kvenna sem eiga sögu um áföll og/eða vímuefnavanda og að beita sér fyrir aukinni velferð og lífsgæðum þeirra.
  2. Að beita sér fyrir faglegri stefnumótun um skaðaminnkun, mannréttindi, samkenndarmiðaða nálgun og áfalla- og kynjamiðaða þjónustu.
  3. Að stuðla að rannsóknum og beita sér fyrir öflun þekkingar, upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni, konum til góða.
  4. Að efla samstarf á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila og halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samráði við aðra.
  5. Að reka Konukot sem er neyðarskýli fyrir húsnæðislausar konur í Reykjavík samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg.

Ef þú hefur áhuga á að bjóða þig fram í ráðið máttu senda stutta kynningu á þér og þínum áherslum og mynd á rotin@rotin.is. Efnið verður notað til að kynna frambjóðendur.

Velkomið er að hafa samband við Kristínu í síma 793-0090 ef óskað er frekari upplýsinga.

Lagabreytingatillögur ráðs Rótarinnar

Ráð Rótarinnar leggur fram eftirfarandi tillögur um lagabreytingar.

Tillaga um að bæta við kaflaskiptingu:

I. kafli – nafn og markmið

____________________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 1. gr.
Núgildandi grein (leturbreytingar sýna ákvæði sem falla út eða breytast):

Félagið heitir Rótin – félag um velferð og lífsgæði kvenna. Lögheimili og varnarþing þess eru í Reykjavík.

Verði svona:

Félagið heitir Rótin. Lögheimili og varnarþing þess eru í Reykjavík.
Rótin er frjáls félagasamtök og ekki rekin í hagnaðarskyni. Allur ágóði sem kann að vera af starfsemi félagsins skal renna aftur til rekstur félagsins. Við slit skulu eignir, ef einhverjar eru, renna til styrktar neyðarskýlis fyrir heimilislausar konur og kvár.

____________________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 2. gr.
Núgildandi grein (leturbreytingar sýna ákvæði sem falla út eða breytast):

Markmið Rótarinnar er:

  1. a) Að vera málsvari kvenna sem eiga sögu um áföll og/eða vímuefnavanda og að beita sér fyrir aukinni velferð og lífsgæðum þeirra.
  2. b) Að beita sér fyrir faglegri stefnumótun um skaðaminnkun, mannréttindi, samkenndarmiðaða nálgun og áfalla- og kynjamiðaða þjónustu.
  3. c) Að stuðla að rannsóknum og beita sér fyrir öflun þekkingar, upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum til góða.
  4. d) Að efla samstarf á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila og halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samráði við aðra.
  5. e) Að reka Konukot sem er neyðarskýli fyrir húsnæðislausar konur í Reykjavík samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg.

Verði svona (án leturbreytinga):

Markmið Rótarinnar eru:

  1. a) Að vera málsvari kvenna og kvára sem eiga sögu um áföll og/eða vímuefnavanda og að beita sér fyrir mannréttindum og velferð þeirra.
  2. b) Að beita sér fyrir faglegri stefnumótun sem hefur að leiðarljósi skaðaminnkun, mannréttindi og áfalla- og kynjamiðaða þjónustu.
  3. c) Að stuðla að rannsóknum og beita sér fyrir öflun þekkingar, upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum og kvárum til góða.
  4. d) Að efla samstarf á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila og halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samráði við aðra.
  5. e) Að reka Konukot sem er neyðarskýli fyrir heimilislausar konur í Reykjavík samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg.

Trúnaður skal viðhafður um þá einstaklinga sem leita til samtakanna. Félagar, starfsfólk, sjálfboðaliðar, ráð Rótarinnar og þau sem dvelja í neyðarskýlinu eru bundin þagnarskyldu samkvæmt lögum félagsins. Þagnarskylda skal virt eftir að starfi eða dvöl í athvarfinu lýkur.

__________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 3. gr.
Núgildandi grein (leturbreytingar sýna ákvæði sem falla út eða breytast):

Félagið er opið öllum konum sem aðhyllast markmið félagsins.

Verði svona (án leturbreytinga):

Félagið er opið öllum sem aðhyllast markmið félagsins.

__________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 4. gr.
Núgildandi grein (leturbreytingar sýna ákvæði sem falla út eða breytast):

Framlög til félagsins eru öllum frjáls. Heimilt er að leggja fram stuðning og styrki til samtakanna í öðru formi en peningum og skal þess þá sérstaklega getið. Félaginu er heimilt en ekki skylt að taka við fjárframlögum, gjöfum, styrkjum eða stuðningi sem bundin er kvöðum.
Ákvörðun um móttöku skv. ákvæði þessu skal tekin af talskonu ráðsins en hún getur jafnframt ákveðið að eigin frumkvæði að fela ráði samtakanna að taka ákvörðun um móttöku í einstaka tilvikum.

Verði svona (án leturbreytinga):

Framlög til félagsins eru öllum frjáls. Heimilt er að leggja fram stuðning og styrki til samtakanna í öðru formi en peningum og skal þess þá sérstaklega getið. Félaginu er heimilt en ekki skylt að taka við fjárframlögum, gjöfum, styrkjum eða stuðningi sem bundin er kvöðum.
Ákvörðun um móttöku skv. ákvæði þessu skal tekin af framkvæmdarstýru félagsins en hún getur jafnframt ákveðið að eigin frumkvæði að fela ráði samtakanna að taka ákvörðun um móttöku í einstaka tilvikum.
Þau félagasamtök sem styðja markmið samtakanna geta orðið styrktarfélagar. Fulltrúar styrktarfélaga hafa málfrelsi og tillögurétt á félagsfundum og á aðalfundi, en ekki sérstakan atkvæðarétt.

__________________________

Tillaga um að bæta við kaflaskiptingu:

II. kafli – Aðalfundur og ráð Rótarinnar

_____________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 5. gr.
Núgildandi grein (leturbreytingar sýna ákvæði sem falla út eða breytast):

Aðalfundur félagsins skal haldinn vor hvert. Allir félagar sem skráðir hafa verið að lágmarki fimm daga í félagið hafa rétt til setu og atkvæðisrétt á fundi. Aðalfundur telst löglega boðaður ef fundarboð er sent með tölvupósti á félaga með a.m.k. tíu daga fyrirvara.

Verði svona (án leturbreytinga):
Aðalfundur félagsins skal haldinn vor hvert. Aðalfundur skal boðaður á heimasíðu Rótarinnar með tveggja vikna fyrirvara hið minnsta sem og með fundarboði í tölvupósti á félaga félagsins. Í fundarboði skal koma fram hvar og hvenær fundurinn er haldinn, dagskrá fundar og heimildir félaga til þátttöku. Allir félagar sem skráðir hafa verið að lágmarki fimm daga í félagið hafa málfrelsis- og tillögurétt á aðalfundi. Þeir félagar sem hafa verið skráðir í að lágmarki mánuð hafa einnig atkvæðisrétt. Aðalfundur telst löglega boðaður ef fundarboð uppfyllir ofangreind skilyrði.

_____________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 6. gr.
Núgildandi grein (leturbreytingar sýna ákvæði sem falla út eða breytast):

Tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins. Lagabreytingarnar teljast samþykktar ef 2/3 hluti félaga sem sækja aðalfund samþykkja breytingarnar. Dagskrá aðalfundar er:

  1. Fundur settur.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár.
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá.
  5. Lagabreytingar
  6. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð.
  7. Kosning á skoðunaraðilum reikninga.
  8. Ákvörðun félagsgjalda.
  9. Tillaga ráðs um starfsreglur og starfsáætlun næsta starfsár.
  10. Önnur mál.

Verði svona (án leturbreytinga):
Tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins. Lagabreytingarnar teljast samþykktar ef 2/3 hluti félaga sem sækja aðalfund samþykkja breytingarnar

_____________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 7. gr.
Núgildandi grein verður gr. 10 hér eftir, með breytingum:

Reikningsár félagsins er 1. janúar til 31. desember. Á aðalfundi skal kjósa einn skoðunaraðila reikninga. Ráð félagsins leggur fram tillögu um félagsgjöld á aðalfundi félagsins.

Verði svona, (án leturbreytinga):
Dagskrá aðalfundar er:

  1. Fundur settur.
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár.
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til umræðu og gengið til atkvæða um þá.
  5. Lagabreytingar
  6. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð.
  7. Kosning á skoðunaraðilum reikninga.
  8. Ákvörðun félagsgjalda.
  9. Tillaga ráðs um starfsreglur og starfsáætlun næsta starfsár.
  10. Önnur mál.

Halda skal fundargerð um það sem fer fram á aðalfundi og allar bókanir, ályktanir, ákvarðanir og niðurstöður aðalfundar skráðar sérstaklega.

_____________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 8. gr.
Núgildandi grein verður að gr. 11.

Tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins. Lagabreytingarnar teljast samþykktar ef 2/3 hluti félaga sem sækja aðalfund samþykkja breytingarnar.

Verði svona (án leturbreytinga):
Eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund skal ráð Rótarinnar skipa tvo aðila í framboðsnefnd sem tryggir framboð til ráð Rótarinnar og tekur á móti framboðstilkynningum. Félagar Rótarinnar geta skilað tillögum sínum til uppstillingarnefndar. Ráð Rótarinnar skal setja uppstillingarnefnd starfsreglur og skulu þær endurskoðaðar árlega.

__________________________

  1. gr.

Tillaga um breytingu á 9. gr.
Núgildandi grein (leturbreytingar sýna ákvæði sem falla út eða breytast):

Rótinni má slíta með ákvörðun 2/3 hluta félaga á aðalfundi eða félagsfundi. Náist ekki tilskilin félagafjöldi á aðalfundi/félagsfundi má halda framhaldsfund og þarf þá 2/3 hluti fundaraðila að samþykkja slit til að félaginu teljist slitið. Við slit félagsins skulu eignir, ef einhverja eru, renna til rannsókna sem stuðla að bættum hag kvenna með vímuefnavanda. Stofnaður verði sjóður í samstarfi við Háskóla Íslands til úthluta fénu eða halda utan um rannsóknir á félagslegum þáttum vímuefnavanda kvenna og kvára.

Gr. 9 verður að gr. 14 með breytingum:

_____________________________

Eftirfarandi greinar ýmist bætast við lög félagsins eða fá nýtt númer:

  1. gr.

Á aðalfundi skulu kosnir fimm félagar í ráð sem fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir tveir varafulltrúar í ráð félagsins. Þá skulu tveir skoðunaraðilar reikninga vera kosnir og einn til vara. Ráð Rótarinnar starfar skv. starfsreglum og starfsáætlun sem endurskoðaðar skulu árlega á aðalfundi.
Ráðið hefur umboð til að álykta í nafni félagsins enda sé ályktunin í samræmi við grundvallarmarkmið þess. Ráði félagsins er heimilt að skipa hópa til starfa í nafni félagsins.
Ráð Rótarinnar skal halda fyrsta fund innan tveggja vikna frá aðalfundi. Þar skal ráð skipta með sér verkum að öðru leyti en því sem aðalfundur ákveður. Ráðið skipar sér formann, varaformann, ritara, gjaldkera og einn meðstjórnanda. Ráðskonur skulu kynnar sér lög samtakanna og starfa eftir þeim.
Stjórn samtakanna veitir prókúruumboð fyrir hönd samtakanna. Formaður borðar stjórnarfundi, undirbýr þá og stýrir þeim. Varaformaður tekur við verkefnum formanns í fjarveru hans og annast félagatal. Ritari heldur gerðabók ráðs. Gjaldkeri er upplýstur um fjárhagsstöðu félagsins, veitir aðhald í fjármálum og fer yfir ársreikninga á aðalfundi og svarar fyrirspurnum um reikninga og fjárreiður félagsins. Félagar Rótarinnar geta snúið sér til trúnaðarfulltrúa varðandi mál er varða starfsemi samtakanna. Trúnaðarfulltrúa ber skylda að beina þeim málum sem upp koma í réttan farveg í samráði við tilkynnanda. Ráð Rótarinnar ákveður hlutverk meðstjórnanda.
Ráð skal funda að lágmarki sex sinnum á ári. Varafulltrúar hafa rétt til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétt en hafa eingöngu atkvæðarétt í fjarveru aðalfulltrúa. Fundurinn er atkvæðisbær ef meirihluti ráðsins mætir. Á ráðsfundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða ef greidd skulu atkvæði um mál.

  1. gr. (Áður 7. gr. )

Reikningsár félagsins er 1. janúar til 31. desember. Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunaraðila reikninga. Ráð félagsins leggur fram tillögu um félagsgjöld á aðalfundi félagsins.

  1. gr. (Áður 8. gr. )

Tillögur um lagabreytingar skal leggja fram til ráðs a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins. Lagabreytingarnar teljast samþykktar ef 2/3 hluti félaga sem sækja aðalfund samþykkja breytingarnar.

III. Kafli – Hagsmunaárekstrar

  1. gr.

Komi upp hagsmunaárekstrar sem hamli ráðskonum í ráði Rótarinnar í sínum verkefnum hefur meirihluti ráðsins leyfi til að vísa verkefni tímabundið til annars aðila innan Rótarinnar. Ráð Rótarinnar metur hverju sinni hvað teljist til hagsmunaárekstra og skulu leiðbeiningar nánar útfærðar í starfsreglum Rótarinnar.

Ráð Rótarinnar tekur við skriflegum ábendingum frá félögum Rótarinnar um hagsmunaárekstra.

IV. kafli – Framkvæmdarstýra Rótarinnar

  1. gr.

Ráð Rótarinnar ræður framkvæmdastýru, ákveður starfskjör hennar og getur veitt henni prófkúruumboð fyrir hönd Rótarinnar.
Framkvæmdastýra ber ábyrgð gagnvart ráði Rótarinnar og framfylgir stefnu og ákvörðunum stjórnar. Framkvæmdastýra annast daglegan rekstur samtakanna og kemur fram fyrir hönd þeirra í öllum málum sem varða daglegan rekstur.
Framkvæmdastýra annast reikningshald og önnur mannaforráð í samráði við ráð Rótarinnar. Framkvæmdastýra á alla jafna sæti á ráðsfundum með málfrelsis- og tillögurétt. Henni ber að veita ráði Rótarinnar, skoðunaraðilum og/eða endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur samtakanna sem óskað kann eftir.

  1. Kafli – Slit félagsins
  2. gr. (Áður 9. gr.)

Rótinni má slíta með ákvörðun 2/3 hluta félaga á aðalfundi eða félagsfundi. Náist ekki tilskilin félagafjöldi á aðalfundi/félagsfundi má halda framhaldsfund og þarf þá 2/3 hluti fundaraðila að samþykkja slit til að félaginu teljist slitið.

 

Ályktun um skaðaminnkun og afglæpavæðingu

Ályktun um skaðaminnkun og afglæpavæðingu

Rótin hvetur stjórnvöld til að standa betur að málefnum fólks með fíknivanda í eftirfarandi ályktun sem einnig mál lesa í PDF-skjali hér.

Ályktun ráðs Rótarinnar um skaðaminnkun og afglæpavæðingu

Reykjavík 5. maí 2023

Afglæpavæðing neysluskammta er ekki valkvæður hluti skaðaminnkunarstefnu, hún er lykilþáttur í því að tryggja mannréttindi fólks með vímuefnavanda.

Rótin skorar á ríkisstjórnina:

  • … að klára heildarúttekt á heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma. Slík úttekt er undirstaða ákvarðana um aðgerðir.
  • … að þróa skaðaminnkandi lágþröskuldaúrræði, aðgengilegt öllum
  • … að styðja við uppbyggingu meðferðarstarfs innan opinberra stofnana, byggt á gagnreyndri þekkingu og kynjamiðaðri nálgun
  • … að auglýsa styrki og samstarf vegna rannsókna og verkefna til að sporna við skaða af völdum ópíóíða með skýr markmið og gæða- og vísindaviðmið í stað þess að úthluta þeim til fyrir fram valinna aðila eða samtaka
  • … að beita ekki valdi sínu gagnvart fólki í viðkvæmri stöðu með því að humma fram af sér breytingar á refsistefnu og -lögum.

Rótin lýsir miklum vonbrigðum með að horfið hafi verið frá gerð frumvarps um afglæpavæðingu neysluskammta. Refsistefna í lögum, hvernig sem hún er framkvæmd, skaðar vímuefnanotendur, viðheldur fordómum, jaðarsetningu og vinnur gegn mannréttindum. Hún er líka sérstaklega skaðleg konum sem sprauta vímuefnum í æð vegna stöðu þeirra í kynjuðu stigveldi notenda ólöglegra vímuefna.

Að sama skapi eru kostir afglæpavæðingar ótvíræðir og studdir rannsóknum. Fólki í fangelsum fækkar, fleiri leita sér meðferðar, kostnaður í dóms- og heilbrigðiskerfi lækkar. Afglæpavæðing vinnur gegn fordómum og eykur traust fólks með vímuefnavanda á þjónustu, svo sem heilbrigðis- og skaðaminnkandi þjónustu, og vinnur gegn alvarlegum afleiðingum glæpavæðingar á líf vímuefnanotenda.

Árið 2014 gaf Alþjóðaheilbrigðisstofnunin út leiðbeiningar um forvarnir gegn HIV og þar kemur skýrt fram að: „Lönd skulu vinna að því að þróa stefnu og lög sem afglæpavæða notkun vímuefna í æð og aðra notkun vímuefna“[1] og einnig að því að lögleiða OST (e. opioid substitution therapy) fyrir fólk sem er háð ópíóðum“.

Flest fag- og fræðafólk sem vinnur með fólki með vímuefnavanda er meðvitað um nauðsyn þess að styðjast við skaðaminnkun og afglæpavæðingu.

  • Skaðaminnkun er raunsæ viðurkenning á því að vímuefnanotkun er óumflýjanleg í samfélaginu og að nauðsynlegt sé að bregðast við henni með lýðheilsuáherslum.
  • Skaðaminnkun felur í sér mannúðleg gildi. Val einstaklinga er virt og fólk sem notar vímuefni er ekki fordæmt heldur komið fram við það af virðingu.
  • Skaðaminnkun felur í sér áherslu á skaðann sem getur hlotist af vímuefnanotkun einstaklingsins en ekki á neysluna sjálfa.

Fyrirstaðan gegn þeim lífsbjargandi breytingum sem felast í skaðaminnkandi stefnu og afglæpavæðingu neysluskammta er mest hjá stjórnmálamönnum sem virðast ekki telja sér bera skylda til að kynna sér málefnið út frá þeirri þekkingu og rannsóknum sem byggt er á í breytingum á fíknistefnu í Evrópu.

Varla vill Ísland skipa sér í lið með Rússlandi, og öðrum valdstjórnarríkjum, sem hafa staðið gegn breytingum í mannúðarátt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Rótin styður þá stefnu að meðhöndla eigi vanda þeirra sem eru í skaðlegri notkun vímuefna (e. PSU – Problematic Substance Use) í íslensku samfélagi í velferðar- og heilbrigðiskerfi fremur en í dómskerfinu.

Refsistefnan tilheyrir hugmyndaheimi sem tími er kominn til að leggja til hliðar. Heimi sem er nátengdur valdbeitingarmenningu þar sem fólki var mismunað á grundvelli félagslegar stöðu s.s. kynþáttar, kyns og kynhneigðar.

Við þurfum að hafa kjark til að snúa baki við þeirri stefnu og öllu sem henni fylgir.

Þegar við horfum á þann hóp sem Rótin þjónar er ljóst að margar þeirra kvenna sem sækja Konukot hafa búið við ofbeldi og erfiðleika frá æsku, en langvarandi ofbeldissaga er helsti fyrirboði heimilisleysis kvenna. Fólk sem notar vímuefni á skaðlegan hátt hefur oft búið við refsingar, af ýmsu tagi og oft kerfislægar, frá blautu barnsbeini.

Við skuldum notendum í skaðlegri neyslu og samfélaginu öllu að fylgja leiðbeiningum mannréttindasáttmála og sjálfbærnimarkmiða til að snúa endanlega baki við stjórnhyggju og refsistefnu.

Fyrir hönd ráðs Rótarinnar

Kristín I. Pálsdóttir, talskona

Greinargerð með ályktun

Hvað er skaðaminnkun

Helstu markmið skaðaminnkunar eru að koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar vímuefnaneyslu og að bæta heilsu. Skaðaminnkunarnálgun og -úrræði búa að alþjóðlegum stuðningi frá alþjóðastofnunum eins og UNAIDS, UNODC og WHO. Skaðaminnkun felur í sér bestu viðteknu starfsvenjur í vinnu með fólki með vímuefnavanda.

Algengur misskilningur er að skaðaminnkun styðji eða hvetji til ólöglegrar vímuefnanotkunar og innan skaðaminnkunar sé hlutverk bindindis í meðferð ekki viðurkennt. Skaðaminnkun miðar hins vegar ekki að ákveðinni útkomu og því getur bindindi líka fallið innan skaðaminnkunarmarkmiða. Í grundvallaratriðum styður skaðaminnkun þá hugmynd að koma skuli fram við fólk með vímuefnavanda af virðingu og kurteisi og bjóða upp á fjölbreytt úrval meðferðar og þjónustu svo að hver og einn geti tekið upplýsta ákvörðun um sínar þarfir, hvað þjóni viðkomandi best og minnki í leiðinni skaða.

  • Skaðaminnkun felur í sér stefnu og framkvæmd sem miða að því að draga úr skaðlegum áhrifum vímuefnaneyslu, fíknistefnu og lagaákvæða á notendur vímuefna, fjölskyldur þeirra, nærsamfélagið og samfélagið í heild, bæði heilsufars-, félags- og lagalega. Þetta er gert með því leitast við að lágmarka skaðann sem neyslan veldur fremur en að koma í veg fyrir notkun vímuefnanna.
  • Skaðaminnkun byggir á réttlæti og mannréttindum, er gagnreynd og viðurkennd aðferð sem bætir lýðheilsu og eykur mannréttindi.
  • Skaðaminnkun er stefna sem leggur áherslu á að stuðla að jákvæðum breytingum og vinna með fólki án þess að dæma, þvinga, mismuna eða krefjast þess að fólk hætti að nota vímuefni til að fá aðstoð og þjónustu.
  • Skaðaminnkun felur í sér áherslu á afleiðingar og áhrif fíknihegðunar, en ekki á notkunina sem slíka, með það að markmiði að auka lífsgæði notenda.
  • Skaðaminnkun er ríkjandi í lýðheilsustefnu sem er viðurkennd og studd af Sameinuðu þjóðunum, fíknistefnu og framkvæmdaáætlunum Evrópusambandsins og er vaxandi hluti af fíknistefnu víðast hvar í Evrópu.
  • Skaðaminnkun felur í sér úrræði eins og upplýsingagjöf um örugga notkun vímuefna, neyslurými, nálaskiptiþjónustu, forvarnir og viðbrögð við ofskömmtun eins og dreifingu á Naloxoni, ópíóðameðferð, viðhaldsmeðferð, húsnæði, prófun á vímuefnum og lögfræðiþjónustu.
  • Í skaðaminnkun fellst að boðið sé upp á fjölbreytt úrræði sem henta hverjum og einum, þar með talin meðferð sem hefur algjört bindindi að markmiði.
  • Skaðaminnkun á sér orðið nokkurra áratuga langa sögu og kom fram sem lífsbjargandi viðbragð þegar fordómar gagnvart bæði fólki með vímuefnavanda og fólki með alnæmi var að kosta fjölda mannlífa.

Mikilvægur hluti skaðaminnkunar er framboð á lágþröskuldaþjónustu en hún felur í sér aðgengilega aðstöðu sem öllum er opin, er notendamiðuð og aðaláherslan á skaðaminnkun frekar en bindindi. Gestir í lágþröskuldaúrræðum hafa aðgang að mat og drykk, hreinlætisaðstöðu, nálaskiptiþjónustu og gagnreynd lyfjameðferð við ópíóðafíkn er oft hluti þjónustunnar.[2]

Þegar talað er um þröskulda í skaðaminnkunarþjónustu er átt við t.d.[3]

  1. Skráningarskyldu, hversu auðvelt er að fá þjónustu?
  2. Gagnsemi, hversu miklar kröfur eru gerðar á notandann um að gera þarfir sínar skiljanlegar, eru frábendingar vegna vímu eða geðrænna áskorana?
  3. Hæfni, gerir þjónustuveitandi kröfur á notanda um ákveðnar breytingar og þróun?
  4. Traust, traust til þjónustunnar byggir á því hvernig til tekst með fyrstu þrjú atriðin.

Minnesota og heilasjúkdómurinn

Á seinni hluta 20. aldar óx þeirri hugmynd mjög ásmegin að vímuefnavandi væri aðallega líkamlegur sjúkdómur sem hefði fáa snertifleti við félagslega þætti. Hér á landi hefur hið svokallaða Minnesota-líkan, sem flutt var inn frá Bandaríkjunum á áttunda áratugnum, verið ríkjandi í stefnumótun og þjónustu við fólk með vímuefnavanda.

AA-samtökin, þar sem Minnesota-líkanið er upp runnið, hafa haft gríðarleg áhrif á hugmyndir okkar um fíkn og fíkniefni. Skýringar samtakanna á alkóhólisma sem andlegum sjúkdómi, en þó jafnframt ólæknandi heilasjúkdómi, viðhalda úreltum fordómum og mýtum um fólk með vímuefnavanda.

Minnesota-líkanið, og sú sýn sem var ríkjandi á síðustu öld byggist á trú á algjört bindindi en það er því miður enn ríkjandi í stefnumótun á Íslandi, ef Reykjavíkurborg er undanskilin. Gengið er út frá því að vímuefnavandi sé heilasjúkdómur, einstaklingurinn er í forgrunni og horft fram hjá félagslegum þáttum eins og stéttarstöðu, kyni, kynverund, aldri, þjóðernisuppruna og kynþáttamismunun. Þetta er hin svokallaða klassíska nálgun á fíknivanda.[4]

Þegar við skoðum fólk með vímuefnavanda í dag þurfum við hins vegar að taka með í reikninginn félagslegan ójöfnuð, kynþáttamismunun, stéttarstöðu, kyn og kynverund. Horfa þarf til valdatengslakenninga og bregðast við ójafnrétti milli kynja í samræmi við leiðbeiningar og ákall alþjóðastofnana. Þetta er hin póst-móderníska nálgun á fíknivanda.

Mathilda Hellman bendir á, í leiðara tímaritsins Nordic Studies on Alcohol and Drugs, á síðasta ári, að tími sé til kominn að endurskoða kenninguna um að fíkn sé heilasjúkdómur og að margt áhrifamikið vísindafólk, þar á meðal í taugavísindum, hafi nú bent á hversu haldlítil og afstæð þau heilavísindi sem kenningin byggir á eru. Þau ferli í heilanum sem hafa þótt styðja við sjúkdómskenninguna eiga sér stað í ýmsu öðru samhengi eins og t.d. þegar horft er á æsilegan íþróttaleik eða kvikmynd. Þá segir Hellman að vegna sveigjanleika heilastarfsemi sé ómögulegt að greina slæmar venjur fólks á grundvelli heilarita. Þó að sjúkdómsgreiningu fólks með fíknivanda geti fylgt léttir, von um að vandinn sé tekinn alvarlega, og að fordómar, stigma, minnki ef hann er skilgreindur sem alvarlegur sjúkdómur, getur slík greining haft lamandi áhrif á atbeina og skapað óraunhæfar vonir um auðveldar læknisfræðilegar lausnir á flóknum menningar- og félagslegum vanda.[5]

Mikilvægt er að yfirvöld átti sig á því hversu mikil áhrif það hefur á stefnumótun, meðferð og viðbrögð við fíknivanda, hvernig við skilgreinum hann og hvort við erum að horfa á þá staðreynd að fíkn er ekki bara heilbrigðisvandamál heldur iðulega margþættur vandi sem þarf fjölbreytt viðbrögð. Einnig er mikilvægt að horfast í augu við þann mun sem felst í því hvort við horfum á fíknivanda sem sjúkdóm eða eðlilega afleiðingu af erfiðri reynslu og aðstæðum í lífinu þar sem notkun efna er sjálfsbjargarviðbragð sem getur orðið skaðlegt.

Rótin sem þjónustar konur með fíknivanda bendir á að fólk með flókinn fíknivanda skilgreinir sig ekki endilega sem sjúklinga þó að það þurfi á heilbrigðisþjónustu að halda. Slík skilgreining á ekki að vera forsenda þess að þessi hópur fái fjölbreytta þjónustu við hæfi, í heilbrigðis-, félags- og dómskerfi, eigum við að geta fengið heilbrigðisþjónustu án þess að skilgreina okkur sem sjúklinga með sjúkdóm.

Eitt af því sem hefur einkennt orðræðu um málefni fólks með fíknivanda er hversu þröngt afmarkað hugmyndafræðilegt vald er einkennandi innan bindindisstefnunnar, sem hér hefur verið rekin. Fólk sem fer í fíknimeðferð lærir tungumál, frasa og skilgreiningar á sjálfu sér sem falla innan ramma bindindishugmynda Minnesota-líkansins, 12 spora nálgunarinnar eða jafnvel trúarbragða. Slík innræting í meðferð fellur ekki að aðferðum annarsstaðar í heilbrigðis- eða velferðarkerfi og hún ætti ekki að vera hluti af þeirri þjónustu sem greidd er af hinu opinbera.

Hugmyndafræðilegt vald er notað til að stýra merkingu, tungumáli og viðhorfum þannig að fólki er kennt að horfa á hagsmuni sína á ákveðinn hátt. Hugmyndafræðilegt vald er líka notað til að móta trú á ákveðnum hópum, til að túlka tilfinningar, reynslu og hegðun, sem síðan er staðfest af öðrum sem farið hafa í gegnum sama ferli. Valdið er síðan notað til að þagga niður í fólki eða grafa undan því. Margt af því sem hér er nefnt á við um þá hugmyndafræði sem er ríkjandi innan hins batamiðaða fíknigeira á Íslandi.

Minnast má á í þessu samhengi að ennþá þekkist að í þjónustu félagasamtaka sé gerð krafa um að mæta á trúarlegar eða aðrar samkomur sem fela í sér hugmyndafræðilega undirgefni. Slíkar kröfur samrýmast ekki 18. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sþ um að allir skuli „frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar“ [6]. Ættu stjórnvöld að innleiða í stefnumótun að komið sé í veg fyrir að slík þjónusta sé keypt af hinu opinbera. Mannréttindi eiga alltaf að vera þungamiðjan í þjónustu við fólk í viðkvæmri stöðu.

Fíknistefna

Fíknistefna á Íslandi hefur verið íhaldssamari en í mörgum löndum í kringum okkur og ekki fylgt þeirri mannréttindamiðuðu og skaðaminnkandi nálgun sem er að breiðast út um heiminn, ekki síst í Evrópu þar sem mannréttindanálgunin er smám saman að ná yfirhöndinni, á mismunandi hátt og mishratt þó.

Öfugt við margt af þeirri þjónustu sem býðst fólki með vímuefnavanda á grundvelli bindindis er skaðaminnkun gagnreynd aðferð sem virkar vel.

Fólk með vímuefnavanda er ekki bara jaðarsett, málaflokkurinn er það líka. Þjónusta við fólk með fíknivanda er mjög oft í höndum félagasamtaka en ekki innan hins almenna heilbrigðis- eða velferðarkerfis. Eftirlit og gæðakröfur eru ekki fullnægjandi, stefnumótun vantar, klínískar leiðbeiningar, leiðbeiningar og viðmið við rekstur úrræða eru ekki heldur til staðar.

Þá vantar víða samráð við notendur t.d. með þjónustukönnunum og ef þessar upplýsingar eru á annað borð til eru þær ekki opinberar. Nú er t.d. búið að vinna að því í mörg ár að koma skráningu á Vogi inn í lögbundna vistunarskrá sjúkrahúsa án þess að það hafi klárast[7] og Embætti landlæknis gefur ekki upplýsingar um atvikaskráningu á meðferðarstöðvum. Skemmst er einnig að minnast þess að bæði Vogur, Krýsuvík og Hlaðgerðarkot fengu falleinkunn í úttekt Embættis landlæknis árið 2016.

Opinberir aðilar eru oft ekki með skýr viðmið um hvaða þjónustu skal kaupa eða hvernig hún á að vera. Þannig eru t.d. sumar af stærstu meðferðarstöðvum landsins ekki með stjórnendur sem hafa starfsleyfi frá Landlækni né menntun við hæfi og margt fólk sem vinnur innan geirans en með próf frá skóla þar sem kennd eru ýmis hjávísindi eins og Neuro-Linguistic Programming sem skorar hátt á lista sérfræðinga yfir skottulækningar sem beitt er í fíknimeðferð. Á listanum er einnig umhverfismeðferð, sem er stunduð í Krýsuvík, Minnesota-líkanið og 12 spora meðferð [8]

Rótin hefur síendurtekið vakið athygli á menntunarmálum áfengis- og vímuefnaráðgjafa sem yfirvöld viðurkenna að séu í ólestri, en ekkert gerist. Á meðan er langt því frá að fólk með vímuefnavanda fái þjónustu sem stuðlar að þeim grunnmannréttindum sem felast í réttinum „til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er“[9] og „fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita“[10].

Upplýsingar og tölfræði

Verulega vantar upp á rannsóknir og gagnasöfnun þegar kemur að fólki með vímuefnavanda og því miður virðist Ísland lítið tengt alþjóðlegum gagnasöfnum þar sem við getum borðið okkur saman við aðrar þjóðir og við erum því miður ekki aðilar að Eftirlitsstofnun Evrópu með lyfjum og lyfjafíkn (e. European Monitoring Centre for Drugs and Drug Addiction, EMCDDA). Ef svo væri gætum við nýtt fjármagn á mun markvissari hátt til að bæta þjónustu við fólk með vímuefnavanda. Til að bregðast rétt við þurfum við réttar upplýsingar og gögn.

Mynd 1- Þrír meginþættir þróunar viðbragða við vímuefnavanda[11]

Eins og sjá má á myndinni er lögð áhersla á að mat á aðgerðum sé alltaf hluti af aðgerðum til að bregðast við vímuefnavanda í samfélaginu.

Nú er ljóst að ópíóðavandinn sem hefur breiðst út um heiminn hefur náð til Íslands og svo virðist sem dauðsföllum sé að fjölga hér. Þá er nauðsynlegt að þau gögn sem til eru út frá faraldsfræði, stöðu, stétt og bakgrunni o.s.frv. séu nýtt því mörgum spurningum er ósvarað um ofskömmtunarvandann hér á landi þó að ljóst sé að hann fylgir að einhverju leyti erlendum straumum, bara aðeins seinna hér.

  • Er þetta mest ungt fólk sem kann ekki að nota þessi efni eða átta sig ekki á hvaða efni þau eru að taka?
  • Hvað er hátt hlutfall ungs fólks með þroskaraskanir sem ekki hefur fengið þjónustu við hæfi í þessum hópi?
  • Hver er bakgrunnur þessa hóps og ástæður þess að hann fer að nota vímuefni á skaðlegan hátt?

Nauðsynlegt er að hafa eins nákvæmar upplýsingar og hægt er til að bregðast rétt við og nýta fjármuni á réttan hátt. Hvar er t.d. Þórólfur þessa málaflokks sem stöðugt er með nýjustu vísindaþekkingu á takteinum? Og nota bene þá á sá aðili ekki að tilheyra hagsmunaaðilum í meðferðarrekstri.

Fíknistefna í Evrópu og skaðaminnkun

Öll Norðurlöndin standa nú í þeim sporum að þurfa að endurskoða sína fíknistefnu og uppfæra í samræmi við menningar- og félagslegar breytingar sem þegar hafa átt sér stað. Norðurlöndin hafa þróað skaðaminnkun innan bindindis- og refsimódels og nú er komið að því að uppfæra og mannréttindavæða stefnuna. Lagaumhverfi og stefnumótun endurspegla ekki lengur þær breytingar í átt til aukinna mannréttinda, þeirra sem glíma við vímuefnavanda og aðrar áskoranir sem valda jaðarsetningu, sem besta þekking kallar á.

Miklar breytingar hafa líka átt sér stað í vímuefnamenningu á undanförnum árum sem kalla á algera endurskoðun. Þar með talið er sú staðreynd að mikið af þeim vímuefnum sem verið er að nota, þá aðallega þau hættulegustu eins og ópíóðar, eru framleidd af lyfjaframleiðendum við löglegar aðstæður en ekki af fíkniefnabarónum í fjarlægum löndum. Þannig virðist sem stór hluti kvenna, sérstaklega, í skaðlegri neyslu sé ekki að nota ólögleg efni heldur lögleg efni sem þær ættu í raun að nota í samráði við heilbrigðis- og velferðaryfirvöld í stað þess að útvega sér í glæpsamlegum aðstæðum þar sem aðferðir þeirra til að útvega þau eru skaðlegri en efnin sjálf.

Miklar sviptingar eiga sér nú stað í fíknistefnu í heiminum. Í Evrópu er verið að innleiða skaðaminnkunar- og mannréttindastefnu og snúa frá refsistefnu. Hafa bæði Evrópuráðið og EMCDDA (sem væntanlega verður breytt í European Drug Agency í nánustu framtíð og hlutverk stofnunarinnar útvíkkað) unnið að því að snúa kompásnum í mannréttindaátt og hluti af þeirri vinnu, hjá báðum stofnunum, er útgáfa á leiðbeiningum um innleiðingu stefnu og þjónustu m.a. við konur með vímuefnavanda[12]. Í þessum leiðbeiningum er lögð áhersla á mikilvægi kynjasamþættingar og skaðaminnkunar í stefnumótun. Hægar gengur hjá fíknistofnunum Sameinuðu þjóðanna að taka upp mannréttamiðaða stefnu þar sem valdamikil, ríki sem höll eru undir valdstjórn koma í veg fyrir það. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur bent á að:

Ástæður þess að fólk byrjar að nota ólögleg vímuefni (e. drugs) eru flóknar og fjölbreyttar, og það eru afleiðingarnar líka. Viðurkenning á því að styrkja þurfi aðgerðir til að koma í veg fyrir að fólk hefji slíka neyslu og að meðferð sem miðar að bindindi ætti að vera aðgengileg öllum sem hana þurfa, skal því haldið til haga að alltaf verður til fólk sem heldur áfram að nota vímuefni, annað hvort tímabundið eða um ókomna tíð.[13]

Um allan heim er nú tekist á um hvernig eigi að haga stefnu og lagasetningu í málefnum er varða vímuefni. Þar er tekist á um afglæpavæðingu eða lögleiðingu vímuefna, lýðheilsu, varnir gegn skipulagðri glæpastarfsemi og gríðarlega hagsmuni framleiðenda efnanna, þar með talið lyfjaframleiðenda sem hafa miklar tekjur af sölu t.d. ópíóðalyfja. Hér á landi þarf að fara fram umræða um hina fjölbreyttu þætti sem fíknistefna hefur áhrif á og hafa þar að leiðarljósi orð Volker Türk, sérlegs sendifulltrúa Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi[14], á 66 fundi ávana- og fíkniefnanefndar Sameinuðu þjóðanna þar sem hann hvetur til þess að mannréttindi séu lögð til grundvallar fíknistefnu Sþ og minnir á að refsistefna sé lífshættuleg rétt eins og vímuefni og hún ýtir undir mismunun, m.a. gegn konum, og stuðlar að þróun glæpagengja. Þá sagði hann að nauðsynlegt sé að halda áfram þróun fíknistefnu í samræmi við mannréttindi og lýðheilsustefnu og ljúka stríðinu gegn fíkniefnum.

Í stað þess skulum við einblína á umbreytingar með því að skapa fíknistefnu sem er byggð á gögnum þar sem kjarninn er mannréttindi, sem er kynjamiðuð og mun á endanum bæta líf milljóna einstaklinga sem stefnan hefur áhrif á.

Annar angi málsins er sá að skaðaminnkun þarf alltaf að vera aðlöguð að aðstæðum og hún getur ekki verið framkvæmd á sama hátt í Austur-Asíu og á Íslandi. Ísland er velferðar- og lýðræðisríki sem á nýta úrræði velferðarkerfisins til að minnka skaðann af vímuefnaneyslu. Sama á við um þekkingu og árangur Íslands í jafnréttismálum sem þarf að nýta í sköpun nýrrar stefnu.

[1] WHO. 2014. HIV Prevention, Diagnosis, Treatment and Care. Sjá: https://apps.who.int/iris/rest/bitstreams/1260189/retrieve.

[2] Carine Mutatayi, Sarah Morton, Nadia Robles Soto, Kristín l. Pálsdóttir and Cristiana Vale Pires. 2022. Implementing a Gender Approach in Drug Policies: Prevention, Treatment and Criminal Justice – A handbook for practitioners and decision-makers. Pompidou Group of Council of Europe. Sjá: https://rm.coe.int/2022-ppg-implementing-a-gender-approach-in-drug-policies-a-pg-handbook/1680a66835.

[3] Sarah Morton og Laura O‘Reilly. 2016. Community based low threshold substance use services: Practitioner approaches and challenges. Ballymun Youth Action Project, Balcurris Road, Ballymun, Dublin. Sjá: https://www.drugsandalcohol.ie/25759/1/Community-based-low-threshold-substanceuse-services-June-2016.pdf.

[4] Elizabeth Ettorre. 2007. Revisioning women and drug use: gender, power and the body, Macmillan, b. 9-13.

[5] Hellman, M. 2022. New work on the brain and addiction. Nordic Studies on Alcohol and Drugs, 39/2, bls. 121-123. Sjá: https://doi.org/10.1177/14550725221092861.

[6] Mannréttindayfirlýsing Sþ. Sjá:https://www.humanrights.is/is/mannrettindi-og-island/helstu-samningar-og-yfirlysingar/sameinudu-thjodirnar/mannrettindayfirlysing-sameinudu-thjodanna.

[7] Ríkisendurskoðun. 2022. Geðheilbrigðisþjónusta. Stefna – skipulag – kostnaður – árangur. Stjórnsýsluúttekt, bls. 14. Sjá: https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2022-gedheilbrigdismal.pdf.

[8] Norcross, J. C., Koocher, G. P., Fala, N. C., & Wexler, H. K. 2010. What does not work? Expert consensus on discredited treatments in the addictions. Journal of Addiction Medicine, 4(3), 174-180. Sjá: https://oldev.trubox.ca/wp-content/uploads/sites/37/2015/06/hlth4511_l8_whatdoesnotwork.pdf.

[9] Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. 1979. Sjá: https://www.althingi.is/lagas/150b/1979010.2c4.html.

[10] Sbr. 1. gr. 3. mgr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74 frá árinu 1997. Sjá: https://www.althingi.is/lagas/nuna/1997074.html.

[11] EMCDDA. 2021. Action framework for developing and implementing health and social responses to drug problems. Sjá: https://www.emcdda.europa.eu/publications/mini-guides/action-framework-for-developing-and-implementing-health-and-social-responses-to-drug-problems_en#section2.

[12] EMCDDA. 2023. Women and drugs: health and social responses: https://www.emcdda.europa.eu/publications/mini-guides/women-and-drugs-health-and-social-responses_en og CoE, Pompidou Group. 2022. Implementing a gender approach in different drug policy areas: from prevention, care and treatment services to law enforcement and the criminal justice system: https://rm.coe.int/2022-ppg-implementing-a-gender-approach-in-drug-policies-a-pg-handbook/1680a66835.

[13] Alþjóðaheilbrigðisstofnunin. 2023. AIDS and sexually transmitted diseases. Sjá: https://www.emro.who.int/asd/health-topics/drug-related-harm-reduction.html.

[14] The 66th session of the Commission on Narcotic Drugs (CND). 13. mars 2022. Drug policies: High Commissioner calls for transformative changes. Sjá: https://www.ohchr.org/en/statements-and-speeches/2023/03/drug-policies-high-commissioner-calls-transformative-changes.

Fíknistefna og mannréttindi kvenna

Fíknistefna og mannréttindi kvenna

Eftirfarandi erindi flutti Kristín I. Pálsdóttir, talskona og framkvæmdastýra Rótarinnar, á málstofunni Mannréttindi – innan lands og utan sem haldin var Mannréttindaskrifstofu Íslands 26. apríl 2023.

Kynjajafnrétti og vímuefnavandi
Kynjajafnrétti telst til grundvallarmannréttinda og á síðustu árum hefur verið lögð áhersla á kynjajafnrétti þegar kemur að stefnumótun og þjónustu við konur, og þau sem ekki eru karlar, í alþjóðlegri stefnumótun í málefnum fólks með vímuefnavanda. Þetta á við hvort sem er á sviði meðferðar, stefnumótunar eða rannsókna.
Það er ekki að ástæðulausu þar sem hvert sem litið er þrífst kynjamisrétti og ekki síst í þeim hópum sem búa við skert félagsleg réttindi og stöðu, eins og á meðal fólks í skaðlegri vímuefnaneyslu og á meðal heimilislauss fólks.
Misrétti gegn konum hefst oft við fæðingu og mótar tilveru þeirra á öllum stigum lífsins. Þegar horft er til kvenna með vímuefnavanda er staðan oft þannig að vímuefnanotkun og ofbeldi haldast hönd í hönd.

Konur og fíknistefna
Á seinni hluta 20. aldar óx þeirri hugmynd mjög ásmegin að vímuefnavandi væri aðallega líkamlegur sjúkdómur sem hefði fáa snertifleti við félagslega þætti, þ.m.t. kyn eða gender. Ekki var minnst á ‚konur‘ eða ‚kyn‘ í alþjóðasamningum Sameinuðu þjóðanna um ávana- og fíkniefni frá árunum 1961 og 1971. Konur sem glímdu við fíknivanda voru ósýnilegar, jaðarsettar og bjuggu við félagslegt óréttlæti.[1]
Konur koma fyrst í kastljós fíknifræðanna eftir alþjóðlega kvennaárið 1975 og árið 1980 kom út fyrsta efnið um konur með vímuefnavanda. Þar er því haldið fram að rannsóknir á konum með vímuefnavanda séu í raun ekki til (e. non-field) og að hvergi væri minnst á kyn eða konur í fræðiefni eða stefnuskjölum.[2]

Vanþekking á þörfum kvenna
Hér á landi hefur hið svokallaða Minnesota-líkan sem flutt var inn frá Bandaríkjunum á áttunda áratugnum verið mjög ríkjandi í stefnumótun og þjónustu við fólk með vímuefnavanda.
AA-samtökin, þar sem Minnesota-líkanið er upprunnið, hafa haft gríðarleg áhrif á hugmyndir okkar um fíkn og fíkniefni. Skýringar samtakanna á alkóhólisma sem andlegum sjúkdómi, en þó jafnframt ólæknandi heilasjúkdómi, viðhalda úreltum staðalímyndum um kynþátt, stétt, kynjaða sjálfsmynd og viðhalda frekar en storka eðlishyggjuhugmyndum um að hvítir karlar hafi náttúruleg forréttindi.[3]
Félagsfræðingurinn Elisabeth Ettorre útskýrir Minnesota-líkanið, og þá sýn sem var ríkjandi á síðustu öld, og er því miður enn ríkjandi í stefnumótun á Íslandi, þannig að í því sé litið á vímuefnavanda sem heilasjúkdóm, einstaklingurinn sé í forgrunni og horft fram hjá stéttarstöðu, kyni, kynverund, aldri, þjóðernisuppruna og kynþáttamismunun. Þetta kallar hún hina klassíska nálgun á fíknivanda.[4]
Í dag þurfum við hins vegar að taka inn í reikninginn félagslegan ójöfnuð, kynþáttamismunun, stéttarstöðu, kyn og kynverund. Horfa til valdatengslakenninga og bregðast við ójafnrétti milli kynja í samræmi við leiðbeiningar og ákall alþjóðastofnana. Þessa nálgun kallar Ettorre póst-móderníska nálgun á fíkn.
Þær Ettorre og Nancy Campbell, sem rannsakað hafa sögu meðferðar og þjónustu við konur og stúlkur í Bandaríkjunum og Evrópu, benda á að hún sé iðulega veitt á grunni vanþekkingar á meðferðarþörfum þeirra, og byggi því á epistemologies of ignorance. Þær sækja hugtakið í þann anga kvennahreyfingarinnar sem hefur unnið að úrbótum í hag heilsu kvenna en það lýsir því hversu lítil þekking er í raun á þörfum kvenna í heilbrigðis- og velferðarkerfum.[5]

Hegðunarmótun
Meðferð hefur oft verið hegðunarmótandi, ekki síst meðferð stúlkna, eins og Rótin hefur t.d. bent á í skýrslu um greinargerð Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála um Varpholt/Laugaland þar sem stúlkur voru vistaðar við illan leik til ársins 2007.[6]
Þó að vinna með hegðun sé hluti meðferðar skal varast ofuráherslu á hlýðni, það sem á ensku er kallað compliance[7] en það virðist hafa verið helsta markmið meðferðar í Varpholti. Flestar stúlkur sem koma til meðferðar vegna vímuefnavanda eða „hegðunar“ eiga sér sögu þar sem hægt er að leita skýringa á vanda þeirra, sem kallar á valdeflandi nálgun. Markmið meðferðar á Laugalandi og Varpholti á árunum 1997-2007 virðist hins vegar hafa miðað að því að búa til þægar og undirgefnar stúlkur og markvisst virtist unnið að því að brjóta niður vilja þeirra og sjálfstæði.
Af framansögðu má vera ljóst að nauðsynlegt er að vinna skipulega að því að breyta og bæta stefnumótun og þjónustu en kannski ekki síst menntun og að efla rannsóknarstarf í málaflokknum, því án þess öðlumst við ekki gagnreynda þekkingu sem er undirstaða góðs heilbrigðis- og velferðarkerfis sem byggir á mannréttindum.

GREVIO-nefndin
Nefnd Evrópuráðsins um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (GREVIO), gaf út skýrslu sína[8] á síðasta ári um stöðu málaflokksins hér á landi en nefndin hefur eftirlit með framkvæmd Istanbúl-samningsins[9]. Þar segir að kerfi hérlendis séu ekki nægilega í stakk búin til að bregðast við ofbeldi gegn jaðarsettum hópum, svo sem konum af erlendum uppruna, konum með fötlun eða konum með vímuefnavanda. Þá segir að nefndin „mælist eindregið til þess að íslensk stjórnvöld grípi til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að konum með vímuefnavanda og konum í vændi sé tryggð örugg gistiaðstaða ásamt lagalegri og sálfræðilegri ráðgjöf og stuðningi, sem mætir þörfum þeirra sem þolendum ofbeldis. Þá skal þeim veitt önnur sú þjónusta sem þær þurfa á hátt sem þeim hentar.“
Þá er bent á að konur með vímuefnavanda hafi ekki aðgang að Kvennaathvarfinu, og ég bæti því við að það skýtur vægast skökku við þar sem fáir hópar eru í meiri þörf fyrir kvennaathvarf en þær enda segir í einnig: “Ákvæði 4. gr. 3. mgr. Istanbúl-samningsins um vernd þolenda krefst þess að öllum konum sem búa við eða eru í hættu á að verða fyrir ofbeldi sé framkvæmd án nokkurrar mismununar. Sérstaklega skal gætt að þeim sem eru í hættu vegna samtvinnunar mismunabreyta, eins og kvenna með vímuefnavanda og kvenna í vændi, sé ekki mismunað.”[10] Í skýrslunni er bent á almennt séu konur sem búa við fjölþætta mismunun, eins og konur með vímuefnavanda, ekki teknar með í stefnumótunarskjölum hins opinbera á skipulagðan hátt.

Jaðarsett fólk, jaðarsettur málaflokkur
Fólk með vímuefnavanda er ekki bara jaðarsett, málaflokkurinn er það líka. Þjónusta við fólk með fíknivanda er mjög oft í höndum félagasamtaka en ekki innan hins almenna heilbrigðis- eða velferðarkerfis. Eftirlit og gæðakröfur eru ekki fullnægjandi, stefnumótun vantar, klínískar leiðbeiningar, leiðbeiningar og viðmið við rekstur úrræða eru ekki heldur til staðar. Þá vantar víða samráð við notendur t.d. með þjónustukönnunum og ef þessar upplýsingar eru á annað borð til eru þær ekki opinberar. Nú er t.d. búið að vinna að því í mörg ár að koma skráningu á Vogi inn í lögbundna vistunarskrá sjúkrahúsa án þess að það hafi klárast[11] og Landlæknisembættið gefur ekki upplýsingar um atvikaskráningu á meðferðarstöðvum.
Opinberir aðilar eru oft ekki með skýr viðmið um hvaða þjónustu skal kaupa eða hvernig hún á að vera. Þannig eru t.d. sumar af stærstu meðferðarstöðvum landsins ekki með stjórnendur sem hafa starfsleyfi frá Landlækni né menntun við hæfi. Rótin hefur síendurtekið vakið athygli á menntunarmálum áfengis- og vímuefnaráðgjafa sem yfirvöld viðurkenna að séu í ólestri en ekkert gerist. Á meðan er langt því frá að fólk með vímuefnavanda fái þjónustu sem fellur undir þau grunnmannréttindi sem felast í bestu mögulegu heilsu.
Þá er einnig algengt að í þjónustu félagasamtaka felist krafa um að mæta á trúarlegar eða aðrar samkomur sem fela í sér hugmyndafræðilega undirgefni og til að allir skuli „frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar“, í samræmi við 18. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sþ, ættu stjórnvöld að innleiða í stefnumótun að kaupa ekki slíka þjónustu.[12]

Konukot
Rótin rekur nú Konukot – neyðarskýli fyrir heimilislausar konur – í samstarfi við Reykjavíkurborg sem hefur gert skaðaminnkandi stefnu leiðarljós í sinni vinnu með fólk með vímuefnavanda og hefur einnig brugðist vel við áskorunum Rótarinnar um að skoða þjónustu við konur sérstaklega.
Í kröfulýsingu sem fylgir samningi Rótarinnar við Reykjavíkurborg segir að þjónustan í Konukoti skuli byggjast á mannréttindum og skal mannréttindastefna Reykjavíkurborgar höfð að leiðarljósi. Þjónustan skal vera „áfalla- og kynjamiðuð og fylgja viðmiðum um öryggi, trúverðugleika og gagnsæi, jafningjastuðning, samvinnu og gagnvirkni, valdeflingu og val“. Hún á líka að vera í samræmi við hugmyndafræði skaðaminnkunar, einstaklingsmiðuð, valdeflandi og viðhafa samvinnu og notendasamráð. Þegar Rótin tók við starfseminni í Konukoti kom inn í kröfulýsingu, að ósk félagsins, að þar yrði unnið eftir áfalla og kynjamiðaðri nálgun og „konur sinna konum“-viðmiði.
Rótin hefur unnið ötullega að auknum mannréttindum gesta Konukots í samstarfi við Reykjavíkurborg, bæði í okkar rekstri og með því að þrýsta á yfirvöld, bæði borgina og ríkið. Þetta hefur strax skilað sér í bættum gæðum í starfinu, færri atvikum og bættri þjónustu. Hluti af þessu ferli var að bæta kjör starfskvenna með samningum við Eflingu sem tryggja þeim sömu kjör og öðru starfsfólki neyðarskýla Reykjavíkurborgar, með ráðningu teymisstjóra og fræðsluáætlun.
Stefna skiptir miklu máli og lýðheilsa og mannréttindi þurfa að vera grunnurinn, hvort sem er í lítilli einingu eins og Konukoti, í sveitarfélögunum, á landsvísu eða í alþjóðastarfi.

Breytingar á fíknistefnu
Miklar sviptingar eiga sér nú stað í fíknistefnu í heiminum. Í Evrópu er verið að innleiða skaðaminnkunar- og mannréttindastefnu og snúa frá refsistefnu. Hafa bæði Evrópuráðið og EMCDDA, European Monitoring Center on Drugs and Drugs Addiction (sem væntanlega verður breytt í European Drug Agency í nánustu framtíð og hlutverk stofnunarinnar útvíkkað) unnið að því að snúa kompásnum í mannréttindaátt og hluti af þeirri vinnu, hjá báðum stofnunum, er útgáfa á leiðbeiningum um innleiðingu stefnu og þjónustu við konur með vímuefnavanda.[13] Hægar gengur hjá fíknistofnunum Sameinuðu þjóðanna að taka upp mannréttamiðaða stefnu þar sem valdamikil, ríki sem höll eru undir valdstjórn, koma í veg fyrir það.

Fíknistefna á Íslandi
Hér á landi hefur gengið hægt að breyta stefnunni á landsvísu en við skynjum vilja hjá stjórnvöldum að herða á breytingum í átt til nútímalegrar stefnu sem byggir á nýjustu þekkingu þar sem skaðaminnkun, mannréttindi og jafnrétti er í fyrirrúmi en svo virðist sem kjarkinn bresti þegar til á að taka.
Skaðaminnkun er sérstaklega mikilvæg fyrir konur í þungri neyslu og með mikinn félagslegan vanda en það þarf að innleiða hana miðað við að við erum jafnréttissinnað velferðarríki og það þarf að aðlaga hana að því. Alþjóðlega skaðaminnkunarhreyfingin hefur fram að þessu ekki verið mjög kynjameðvituð.
Mesta fyrirstaðan í breytingum á fíknistefnu eru stjórnmálamenn sem eru mótaðir af eldri hugmyndum um vímuefnamál og eru ekki tilbúnir til breytinga. Miklar breytingar hafa þó orðið á undanförnum árum og sú þróun heldur vonandi áfram. Öll Norðurlöndin standa í þeim sporum að þurfa að endurskoða sína fíknistefnu og í Evrópu á sér stað mikil breyting í mannréttindaátt.
Ansi langt er í land víða að um lönd að jafnrétti og mannréttindi séu ríkjandi í málefnum kvenna með vímuefnavanda. Íslendingar sem eru heimsmeistarar í jafnrétti hafa tækifæri til að beita sér í alþjóðastarfi á þessu sviði og nýta sérþekkingu okkar til að stuðla að auknum mannréttindum kvenna og kvára með vímuefnavanda. Við gerum það með öflugri stefnumótun, framkvæmd og rannsóknum hér á landi, við erum jú hið fullkomna “pilot-verkefnis” land í slíkt verkefni.

[1] Elizabeth Ettorre. 2007. Revisioning women and drug use: gender, power and the body, Macmillan, bls. 5.
[2] Kalant O. J. (1980), Alcohol and drug problems in women, Research Advances in Alcohol and Drug Problems, Vol. 5, Plenum Press, New York/London.
[3] Lori Rotskoff. 2003. Love on the Rocks. Men, Women, and Alcohol in Post-World War II America.
[4] Elizabeth Ettorre. 2007. Revisioning women and drug use: gender, power and the body, Macmillan, bls. 9-13.
[5] Campbell, N. D. & E. Ettorre. 2011. Gendering Addiction. The Politics of Drug Treatment in a Neurochemical World. Houndmills, England: Palgrave Macmillan.
[6] Kristín I. Pálsdóttir. 2022. Greinargerð um réttlæti og reynslu kvenna af vistun í Varpholti/Laugalandi: https://www.rotin.is/heimsokn-og-greinargerd-til-forsaetisradherra-vegna-varpholts/.
[7] Larry K. Brendtro. 2004. From coercive to strength-based intervention: Responding to the needs of children in pain https://cyc-net.org/profession/readarounds/ra-brendtro.html.
[8] GREVIO. 2022. Basaline Evaluation Report. Iceland. Sjá: https://www.coe.int/en/web/istanbul-convention/-/grevio-publishes-its-report-on-iceland.
[9] Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. 2011 Sjá: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=0f41ca88-7e72-11e7-941c-005056bc530c.
[10] Group of Experts on Action against Violence against Women and Domestic Violence (GREVIO). 2022 GREVIO Evaluation Baseline Report. Iceland. https://rm.coe.int/grevio-inf-2022-26-eng-final-report-on-iceland/1680a8efae.
[11] Ríkisendurskoðun. 2022. Geðheilbrigðisþjónusta. Stefna – skipulag – kostnaður – árangur. Stjórnsýsluúttekt, bls. 14. Sjá: https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2022-gedheilbrigdismal.pdf.
[12] Mannréttindayfirlýsing Sþ. Sjá: https://www.humanrights.is/is/mannrettindi-og-island/helstu-samningar-og-yfirlysingar/sameinudu-thjodirnar/mannrettindayfirlysing-sameinudu-thjodanna
[13] EMCDDA. 2023. Women and drugs: health and social responses: https://www.emcdda.europa.eu/publications/mini-guides/women-and-drugs-health-and-social-responses_en og CoE, Pompidou Group. 2022. Implementing a gender approach in different drug policy areas: from prevention, care and treatment services to law enforcement and the criminal justice system: https://rm.coe.int/2022-ppg-implementing-a-gender-approach-in-drug-policies-a-pg-handbook/1680a66835.

Ársskýrsla Konukots 2022

Ársskýrsla Konukots 2022

Tekin hefur verið saman ársskýrsla fyrir Konukot fyrir árið 2022 og má lesa hana hér. Í yfirlitinu er einnig farið yfir þá nálgun sem notuð er í Konukoti.

Ársskýrsla fyrir árið 2022

Sjá einnig sjá hér í PDF-skjali.

Efnisyfirlit
Efnisyfirlit 1
Inngangur. 2
Tölfræði 3
Jákvæðar afleiðingar verklagsbreytinga. 7
Stefna og gæðaviðmið í Konukoti 7
Áfallamiðuð nálgun. 7
Skaðaminnkun. 8
Kvennamiðuð þjónusta. 8
Þjónandi leiðsögn. 10
Niðurstaða. 10

Inngangur

Hér á eftir fer yfirlit yfir tölfræði fyrir Konukot fyrir árið 2022. Tölurnar eru settar í samhengi við tölfræði síðustu tveggja ára til að sjá þróunina sem orðið hefur á árunum 2020 til 2022 en Rótin tók við rekstri Konukots árið 2022.

Því miður er það svo að konum er að fjölga sem koma í Konukot og þær dvelja þar lengur en áður. Þó að okkur vitanlega hafi ekki verið gerðar úttektir á þessari þróun má gera sér í hugarlund nokkra þætti sem hafa áhrif.

Fyrst ber að nefna Covid-19 sem hefur haft mikil áhrif á jaðarsett fólk og fólk í viðkvæmri stöðu í Evrópu. Reyndar var það svo að á Covid-tímanum fengu margir heimilislausir mun betri þjónustu en áður, ekki síst konur, þar sem opnað var sérstakt neyðarskýli á hóteli fyrir þær í Reykjavík þar sem þær þurftu ekki að fara út á daginn. Þessi tilraun í bættri þjónustu virðist hafa skilað þeim árangri að margar konurnar eru mun betur settar í dag en ætla mætti að verið hefði án hennar. Innilokun og ströng fyrirmæli um hegðun getur þó reynst þessum hópi mjög mótdræg.

Þegar Covid lauk komu túristarnir aftur til landsins og það þýddi að húsnæðismarkaðurinn varð erfiðari, bæði dýrari og erfiðara að fá húsnæði. Það er líklegt að þessar aðstæður hafi mikil áhrif á heimilisleysi ekki síst þar sem sköpuðust kjöraðstæður fyrir ofbeldi í nánum samböndum en það er helsta ástæða fyrir heimilisleysi kvenna.

Margar borgir í Evrópu og Bandaríkjunum hafa sett, eða eru að íhuga að setja, strangari reglur um skammtímaleigu, Airbnb t.d., vegna þess hversu alvarleg áhrif hún hefur haft á félagslega uppbyggingu borganna. Þetta á við fjölda borga í Þýskalandi og Lissabon hefur sett reglur sem banna útgáfu leyfa fyrir túristaíbúðir.

Stjórnvaldsákvarðanir og stefna, eða ákvarðana- og stefnuleysi, hefur áhrif á heimilisleysi. Ef marka má þá tölfræði sem birtist okkur í Konukoti þarf að grípa til róttækra aðgerða gegn þeirri alvarlegu þróun að konum þar sé að fjölga jafn mikið og raun ber vitni. Alvarlegast er að konur sem koma í fyrsta skipti í Konukot eru að dvelja þar mun fleiri daga en áður.

Ekki er óskandi að sjá fleiri neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk á Íslandi. Markmiðið hlýtur að vera að útrýma heimilisleysi og til þess þarf samtakamátt ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka. Við þurfum fjölbreyttari þjónustu og stjórnvaldsaðgerðir sem koma í veg fyrir vaxandi fátækt og misskiptingu.

Gömlu dæmisöguna um kanarífuglana í kolanámunni, sem voru viðvörunarmerki um að hættulegt magn metans væri í námum, má yfirfæra á Konukot þannig að eftir því sem gestum þar fjölgar er hægt að líta á það sem hættuástand í samfélaginu og vísbendingu um að misrétti sé að aukast.

Tölfræði

Árið 2022 nýttu 92 konur sér þjónustu Konukots og heildar gistinætur notanda voru 3.883 nætur sem þýðir að meðaltalið 10,6 konur í húsi á hverri nóttu. Nýting kvennanna var mismikil og styst var dvölin 1 nótt en sú kona sem dvaldi lengst var þar í 351 nótt. Á töflunni sést samanburður á milli gistinátta síðustu þriggja ára og hve gríðarleg fjölgun er í hópi gesta í Konukoti á þessu tímabili.

Þegar heildartala gistinátta síðustu þrjú ár er skoðuð sést þessi fjölgun mjög skýrt. Um 10% gistinátta, 362, árið 2022 eru tilkomnar vegna gesta úr öðrum sveitarfélögum en Reykjavík.

Þegar nýting, það er fjöldi kvenna sem kemur í Konukot á mánuði, er skoðuð sést að árið 2022 eru konurnar alltaf fleiri en 30 í hverjum mánuði, nema í febrúar og desember, miðað við að árin á undan en þá var sjaldgæft að sjá fjölda gesta fara upp í 30, það gerðist einu sinni árið 2020 og tvisvar árið 2021.

Þegar litið er til fjölda gistinátta á hverja konu sést sama tilhneiging, hver kona er að gista fleiri nætur á ári í Konukoti:

Þegar litið er til nýliðunar í Konukoti árinu stingur í augu að konur sem eru að koma í fyrsta sinn eru að gista mikið fleiri nætur yfir árið en síðustu ár sem bendir til þess að erfiðara sé að komast inn í viðeigandi úrræði eða húsnæði. Á árinu komu 29 nýjar konur í Konukot sem er ekki mikið frávik frá fyrri árum en það sem stingur í augu að þær gista miklu fleiri nætur en árið áður eða alls 20 nætur að meðaltali á hverja konu en þessi tala var þrjár nætur á síðasta ári og 6 árið þar á undan.

Mikil fækkun var í útköllum á lögreglu árið 2022 en þau fóru úr, 103 í 65 þar af hringdu notendur sjálfir 14 sinnum. Útköllum í sjúkrabíla fækkaði líka úr 83 árið 2021 í 65 árið 2022. Þegar horft er á fjölgun í húsinu þá eru þessar tölur mjög jákvæðar og útköllum á lögreglu fækkar um helming, ef miðað er við hlutfall útkalla á gistinótt, og útköllum sjúkrabíl fækkar líka um 40%.

Þá fækkaði alvarlegum atvikum í húsi einnig mjög mikið eða úr 37 í 13. Engin alvarleg líkamsárás var gerð á starfsmann árið 2022. Líklegt er að breytt nálgun í starfi með innleiðingu þjónandi leiðsagnar og áfallamiðaðrar nálgunar hafi þarna áhrif.

Frávísanir voru 38 árið 2021, 2 í 30 daga, 6 í 3-7 daga, 5 í 24 klst., kæling í 25 skipti og samtals voru þetta 38 frávísanir. Árið 2022 voru frávísanir 4 alls, ein kæling og 3 sinnum var konum vísað frá í 24 tíma. Þessi árangur tengist markvissri vinnu við að innleiðingu áfallamiðaðrar nálgunar og þjónandi leiðsagnar í Konukoti.

Að lokum er hér yfirlit yfir aldursskiptingu gesta í Konukoti á árunum 2020-2022. Þar má sjá að konum í yngstu aldursflokkunum, 18-30 ára, hefur fjölgað talsvert árið 2022. Það er áhyggjuefni en það getur líka þýtt að konurnar treysti sér til að koma í Konukot. Ekki er hægt að fullyrða um það án frekari gagna. Þetta eru í öllu falli of háar tölur ungra kvenna.

 

 

 

 

Jákvæðar afleiðingar verklagsbreytinga

Þegar Rótin tók við rekstri Konukots voru tæp þrjú stöðugildi sem sjálfboðaliðar inntu af hendi og 5 stöðugildi starfskvenna, og forstöðukona var eini stjórnandinn í húsinu. Með samningum við Reykjavíkurborg tókst að tryggja fulla mönnun vakta með launuðum starfskonum og einnig var ráðinn teymisstýra í hálft starf sem einnig sinnir vöktum í hálfu starfi. Teymisstýra er staðgengill forstöðukonu og hefur fyrirkomulagið reynst mjög vel og stuðlað að bættum gæðum starfsins árið 2022.

Mikilvægt er í slíku starfi að skapa stöðugleika þar sem hægt er því að nóg er af óvissuþáttum sem er einkenni á rekstri neyðarskýlis. Breytingin stuðlar að meiri stöðugleika í starfinu.

Mikil lækkun var í útköllum á lögreglu árið 2022 en þau fóru úr, 103 í 65 þar af hringdu notendur sjálfir 14 sinnum. Útköllum sjúkrabíla fækkaði líka úr 83 árið 2021 í 65 árið 2022. Þegar horft er á fjölgun í húsinu þá eru þessar tölur mjög jákvæðar og útköllum á lögreglu fækkar um 50% ef miðað er við hlutfall útkalla á hverja gistinótt og útköllum sjúkrabíl fækkar um 40%. Þá fækkaði alvarlegum atvikum í húsi einnig mjög mikið eða úr 37 í 13. Engin líkamsárás var gerð á starfsmann árið 2022.

Á árinu voru teknir upp húsfundir með notendum hússins sem haldnir eru einu sinni í mánuði og er þá farið yfir stöðuna, reglur og breytingar gerðar í samráði við notendur. Slíkt skipulagt notendasamstarf hefur reynst vel og haft jákvæð áhrif á starfið.

Tvö smáhýsi eru staðsett við Konukot og þjónustar Konukot íbúana með mat og annað sem til fellur. Þetta sambýli hefur gengið mjög vel.

Stefna og gæðaviðmið í Konukoti

Í kröfulýsingu sem fylgir samningi Rótarinnar við Reykjavíkurborg segir að þjónustan í Konukoti skuli byggjast á grundvelli mannréttinda og skal mannréttindastefna Reykjavíkurborgar höfð að leiðarljósi og vera „áfalla- og kynjamiðuð og fylgja viðmiðum um öryggi, trúverðugleika og gagnsæi, jafningjastuðning, samvinnu og gagnvirkni, valdeflingu og val“. Hún á líka að vera í samræmi við hugmyndafræði skaðaminnkunar, einstaklingsmiðuð, valdeflandi og viðhafa samvinnu og notendasamráð. Þegar Rótin tók við starfseminni í Konukoti kom inn í kröfulýsingu, að ósk félagsins, að þar yrði unnið eftir áfalla og kynjamiðaðri nálgun og „konur sinna konum“-viðmiði.

Þar fyrir utan var þjónandi leiðsögn innleidd í Konukoti vorið 2022 en hún vinnur mjög vel með skaðaminnkun, áfalla- og kynjamiðaðri nálgun þar sem áhersla er á að draga úr valdmiðaðri nálgun og gera þjónustuna notenda- og mannréttindamiðaðri. Lögð var mikil vinna í að þjónusta notendur samkvæmt þeirri hugmyndafræði sem er í miklum samhljómi við áfallamiðaða nálgun og skaðaminnkun. Það gengur vel en slíkar breytingar eru alltaf krefjandi og taka tíma.

Starfskonur hafa bæði sótt námskeið sem hafa verið í boði hjá Reykjavíkurborg og hjá Rótinni til að tileinka sér nýtt vinnulag í Konukoti og styrkja sig í skaðaminnkandi starfi.

Áfallamiðuð nálgun

Áfallamiðuð nálgun færir áhersluna frá „Hvað er að þér?“ yfir í „Hvað kom fyrir þig?“ með því að:

  • Viðurkenna djúpstæð áhrif áfalla og hafa yfir að ráða mögulegum leiðum til bata
  • Viðurkenna einkenni áfalla hjá þjónustuþegum, fjölskyldum þeirra og starfsfólki
  • Samtvinna þekkingu um áföll inn í stefnu, verkferla og vinnulag
  • Vinna markvisst að því að koma í veg fyrir að áföll séu endurvakin t.d. með því að forðast að skapa umhverfi sem óafvitandi minnir þjónustuþega á áfallareynslu og veldur því að þeir upplifa tilfinningalega eða líffræðilega streitu

Markmið áfallamiðaðrar nálgunar er að koma í veg fyrir að áföll séu endurvakin og að auka öryggi, val og sjálfstjórn þjónustuþega. Hún miðar að því að skilja einstaklinginn frekar en að einblína á vandamál eða einkenni. Því spyrjum við, hvernig get ég skilið þessa konu? Þessi nálgun setur fókusinn á einstaklinginn og í burtu frá takmörkuðu sjónarhorni á virkni hennar. Þannig sendum við líka þau skilaboð að líf hennar sé skiljanlegt og að hegðun hennar sé skiljanleg í samhengi við stóru myndina.[1]

Skaðaminnkun

Skaðaminnkun miðar að því að draga úr skaðlegum áhrifum vímuefnaneyslu á notendur þeirra, fjölskyldur þeirra, nærsamfélagið og samfélagið í heild. Þetta er gert með því leitast við að lágmarka skaðann sem neyslan veldur fremur en að koma í veg fyrir notkun vímuefnanna. Skaðaminnkun er gagnreynd og viðurkennd aðferð sem bætir lýðheils og eykur mannréttindi. Hún er ríkjandi í lýðheilsustefnu sem er viðurkennd og studd af Sameinuðu þjóðunum og fíknistefnu og framkvæmdaáætlunum Evrópusambandsins og er hluti af fíknistefnu víðast hvar í Evrópu.

Lengi framan af var skaðaminnkunarhreyfingin lítið að huga að áhrifum kyns á nálgun í skaðaminnkun en þetta er að breytast með meiri þekkingu á þörfum og sögum kvenna sem þurfa skaðaminnkandi þjónustu.

Konur sem nota vímuefni búa við tvöfalda brennimerkingu – stigma – og veigra sér oft við að leita þjónustu þar sem að þá “kemst upp um þær”. Þ.e. að þær séu að nota vímuefni og þær leita líka síður til samfélagsverkefna.

Konur verða oftar fyrir fordómum í heilbrigðiskerfi og jafnvel í skaðaminnkunarþjónustu þar sem þær lenda í neikvæð framkoma starfsfólks og verða fyrir fordómum og búast við að verða fyrir fordómum. Því er mjög mikilvægt að þær hafi aðgang að samfélagsþjónustu sem er bæði kvennamiðuð og kynjaskipt. Þá þarf einnig að gæta að því að samþætta þjónustu og ferla.

Kvennamiðuð þjónusta

Rótin vinnur út frá kvennamiðuðu sjónarhorni og í því fellst að viðurkenna að heimilisleysi kvenna, geðheilsa og vímuefnanotkun getur verið ólík reynslu karla. Kvennamiðað sjónarhorn horfir til samhengisins í lífi kvenna og hvernig margir þættir fléttast þar saman og lögð er áhersla á mikilvægi þess að byggja upp sambönd kvenna á milli og styðja við tengsl þeirra.

Kjarninn er: Áhersla á konurnar sjálfar, valdefling, aðild og þátttaka og virðing og öryggi.

Kvennamiðuð þjónusta …

  • Horfir til hins flókna veruleika í lífi kvenna
  • Felur í sér fjölbreytileika (e. inclusive)
  • Er heildræn og samþætt (e. integrated)
  • Kemur til móts við það form tjáningar og samskipta sem konurnar nota
  • Veitir upplýsingar og fræðslu

Reynsla kvenna af ofbeldi og kúgun karla verður til þess að þær forðast kynjablandaða þjónustu. Þjónusta þar sem konur sinna konum, þ.e. þar sem bæði starfsfólk og þjónustuþegar eru konur, skiptir sköpum fyrir konur bæði andlega og líkamlega. Kvennarými eru öruggir staðir þar sem konur geta rætt frjálslegu um reynslu sína.[1]

Almennt má segja að stuðningur vegna heimilisleysis sé oft settur fram á kynhlutlausan hátt en hins vegar hafa konur sérþarfir og reynslu af óöryggi varðandi húsnæðismál og heimilisleysi. Tvær ástæður eru fyrir því að konur upplifa heimilisleysi á annan hátt og hin fyrri er sú að ástæður fyrir heimilisleysi þeirra eru aðrar en karla og hin ástæðan er að konur haga sér öðruvísi í heimilisleysi. Þessi reynsla tengist líka öðrum félagslegum mismunabreytum eins og kyngervi, kynþætti, þjóðaruppruna, fötlun, hvort viðkomandi er aðfluttur eða á flótta, félags- og fjárhagsstöðu og kynvitund sem eru grundvöllur margþættrar mismununar sem konur verða fyrir og jaðarsetja þær.[2]

Því er nauðsynlegt að nýta þá þekkingu og kynjafræðilegu greiningar sem fyrir liggja til að veita konum sem besta þjónustu og við þeirra hæfi. Á síðustu árum hefur margt gerst hér á landi til að fleyta okkur í þá átt, eins og það að neyðarskýli eru öll kynjaskipt og áhugi og þekking á kynbundnum þáttum er vaxandi. Rótin hefur t.d. fengið góða hlustun hvað þetta varðar hjá Reykjavíkurborg sem unnið hefur að úrbótum í þjónustu við konur.

Kvennamiðuð þjónusta er gagnreynd aðferð sem byggir á þekkingu á sérþörfum kvenna og kynjafræðilegum rannsóknum og ráðleggingar alþjóðastofnana, t.d. UN Women, UNFPA, WHO, UNDP og UNODC, og Evrópustofnana ásamt því að mæta sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Hún er í samræmi við þá þekkingu að konur sem glíma við vímuefnavanda, heimilis-leysi og jaðarsetningu eiga sér iðulega langa sögu um kynbundið ofbeldi og vanrækslu, bæði innan fjölskyldna og kerfisins. Þessi saga hefur síðan alvarleg áhrif á heilsu þeirra, bæði andlega og líkamlega.

Jafnréttisrófið (WHO – Gender Responsive Assessment Scale: criteria for assessing programmes and policies) er mælikvarði frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni sem hefur verið notaður til að máta hvar úrræði í heilbrigðis- og velferðarkerfi standa með tilliti til þess hvort þau eru að stuðla að jafnrétti eða að viðhalda ójafnrétti. Á vinstri endanum ríkir misrétti en á þeim hægri er jafnrétti og aðferðum til að auka jafnrétti er beitt.[3]

Sjá einnig nánar í Greinargerð Rótarinnar um heimilislausar konur.[4]

Þjónandi leiðsögn

Þjónandi leiðsögn byggir á grunnhugmynd um gagnkvæm tengsl og að við séum öll háð hvert öðru á einn eða annan hátt. Kjarninn í þjónandi leiðsögn er hlýja og skilyrðislaus umhyggja í garð annarra en það krefst þægilegrar nærveru, að hlýlega sé talað til fólks og því sýnd vinsemd og blíðlegt augnaráð. Skilyrðislaus umhyggja felur í sér að ekki er krafist neins á móti. Eins og áfallamiðuð nálgun krefst þjónandi leiðsögn þess að fólk horfi í eigin barm og skoði eigin viðhorf gagnvart þeim einstaklingum sem verið er að þjóna.

Slík nálgun á einkar vel við þar sem unnið er með fólki sem býr við mikið óöryggi, ótta, reiði og pirring. Þetta getur tekið á starfsfólk en er mjög mikilvægur liður í því að skapa öryggi og traust í úrræðum eins og Konukoti sem er oft eini öruggi staðurinn í lífi gesta okkar. Tengslamyndun og samkennd eru lykilhugtök sem geta stutt við myndun félagstengsla sem styðja konurnar í því að þróa ný hegðunarmynstur og að hætta að beita ofbeldi.

Í eftirfarandi töflu má sjá muninn á hvetjandi umhverfi annars vegar og hins vegar niðurdrep-andi/stýrðu umhverfi.

Hvetjandi umhverfi Niðurdrepandi umhverfi
  • Grundvallast á félagsskap
  • Einblínt á það að stjórna
  • Leiðsögn í gegnum samvinnu
  • Leiðbeint til hlýðni
  • Einblínt á persónuna
  • Einblínt á hegðun
  • Felur í sér gagnkvæmar breytingar sem byrja hjá starfsfólki
  • Felur í sér kröfu um breytingar eftir geðþótta annarra

 

Niðurstaða

Ársskýrsla Konukots sýnir að Gestum Konukots hefur fjölgað mikið á síðustu tveimur árum og að þær dvelja þar líka lengur. Þá er einnig fjölgun í yngsta hópnum. Þetta er áhyggjuefni og þó að Rótin telji sig vita um sumar ástæður fjölgunarinnar væri gott að hafa betri gögn sem skýra þessar breytingar.

Góðu fréttirnar eru þær að sú aðferðafræði, þjálfun og aðgerðir sem félagið notar virðist vera að skila þeim árangri að alvarlegum atvikum hefur fækkað og einnig frávísunum frá Konukoti.

Þá má minnast á það að Kolbrún Kolbeinsdóttir, kennari og kynjafræðingur, skrifaði meistararitgerð í kynjafræði um reynslu kvenna af Konukoti: „„Eini staðurinn í samfélaginu þar sem ekki er horft niður á þig“: Reynsla kvenna af Konukoti“. Markmiðið með verkefninu var að vekja athygli á félagslegu misrétti sem hópurinn verður fyrir og draga þannig úr jaðarsetningu hans. Í niðurstöðum Kolbrúnar kom fram mikil ánægja með þjónustu Konukots. Konurnar settu hins vegar út á aðstöðuna sem almenn vitneskja er um að þarfnist mikilla úrbóta.

F.h. Rótarinnar – Félags um velferð og lífsgæði kvenna

Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar og Halldóra R. Guðmundsdóttir, forstöðukona Konukots

[1] FEANTSA. Guide for developing effective gender-responsive support and solutions for women experiencing homelessness. Sjá: https://www.feantsa.org/public/user/Resources/resources/Guide%20supporting%20and%20solutions%20for%20women.pdf.

[1] Sjá: https://www.stjoes.ca/hospital-services/mental-health-addiction-services/addiction-services/womankind-addiction-service/trauma-matters.pdf og

https://ncsacw.samhsa.gov/userfiles/files/SAMHSA_Trauma.pdf

[2] Canadian Centre for Housing Rights. 2023. Canada Canada must have a more inclusive definition of homelessness for women and gender-diverse people. Sjá: https://housingrightscanada.com/canada-must-have-a-more-inclusive-definition-of-homelessness-for-women-and-gender-diverse-people/.

[3] Sjá nánar: Pederson, Ann; Lorraine Greaves og Nancy Poole. 2017. Gender-transformative health promotion for women: a framework for action í Health Promotion International, 30(1). Sjá: doi:10.1093/heapro/dau083.

[4] Greinargerð um heimilislausar konur: https://www.rotin.is/greinargerd-um-heimilislausar-konur/.

Reynsla kvenna af Konukoti – Umræðukvöld 7. mars

Reynsla kvenna af Konukoti – Umræðukvöld 7. mars

Kolbrún Kolbeinsdóttir, kennari og kynjafræðingur, flytur erindið „„Eini staðurinn í samfélaginu þar sem ekki er horft niður á þig“: Reynsla kvenna af Konukoti“. Kolbrún lauk meistaranámi í kynjafræði nú í febrúar og er erindið byggt á lokaverkefni hennar þar sem hún fjallar um reynslu kvenna sem nýta sér þjónustu Konukots. Konur í Konukoti, neyðarskýli kvenna við Eskihlíð, er lítt rannsakaður hópur en hefur verið í deiglunni ásamt öðrum þeim sem glíma við heimilisleysi. Markmiðið með verkefninu er að vekja athygli á félagslegu misrétti sem hópurinn verður fyrir og draga þannig úr jaðarsetningu hans. Niðurstöður rannsóknar eru settar í samhengi við kenningar sem byggja á samtvinnun mismunabreyta og greininga á kynjakerfinu, ekki síst með tilliti til ofbeldis sem þrífst innan þess.

Kolbrún er nú framhaldsskólakennari við Tækniskólann og kennir meðal annars kynjafræði, áður starfaði hún við skólastjórnun þar. Hún hefur einnig unnið sem sjálfboðaliði í Konukoti og þar kviknaði hugmyndin að rannsókninni.

Umræðukvöld Rótarinnar eru öllum opin, boðið er upp á te og kaffi sem er fjármagnað með samskotum. Munið eftir klinkinu eða leggið inn á reikning Rótarinnar:

Kt. 500513-0470, bankanr. 0101-26-011472.

Viðburðurinn er á Facebook!

Staður: Kvennaheimilið, Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Ef þið vitið af áhugaverðum umræðuefnum og erindum, sendið okkur endilega línu á rotin@rotin.is.