Til: Nefndasviðs Alþingis
Frá: Rótin félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda
Efni: Athugasemdir við tillögu til þingsályktunar um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum vímuefnaneyslu, 335. mál.
Dags. 23. apríl 2014
 

Athugasemdir

við tillögu til þingsályktunar um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til verndar neytendum efnanna, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild.

Rótin fagnar því að verið sé að vinna að nýrri stefnu í málaflokknum og að umræða um hann sé í gangi. Við teljum mikilvægt að endurskoða margt sem lýtur að málefnum vímuefnaneytenda og stefnu stjórnvalda þar að lútandi og bendum á mikilvæg markmið Rótarinnar í því samhengi. Sjá hér: https://www.rotin.is/um-rotina/.

Við bjóðum fram krafta okkar og óskum eftir að fá að tilnefna fulltrúa okkar í starfshópinn. Við höfum vakið athygli á nýrri þekkingu og breyttum áherslum í meðferðarmálum og erum fulltrúar notenda í kerfinu.

Rótin hefur ekki fjallað um refsistefnu í málaflokknum og mun því ekki taka afstöðu til hennar að svo stöddu. Við áttum okkur ekki á því hversu algengt það er að verið sé að dæma fólk fyrir vörslu fíkniefna. Í tölum fangelsismálastofnunar um fullnustu refsinga er ekki aðgreint hvort að verið sé að dæma fyrir sölu eða vörslu fíkniefna: http://www.fangelsi.is/media/stofnunin/Tolfraedilegar-upplysingar-um-fullnustu-refsinga-fyrir-arin-2009-til-2012.pdf.pdf.

Við viljum þó árétta að vímuefnaneysla verði ekki notuð til að afsaka og draga úr refsingum fyrir önnur brot eins og ofbeldisbrot. Varast ber að sjúkdómsvæða glæpi og firra fólk þannig ábyrgð á afleiðingum gjörða sinna. Við vörum líka við aðgerðum sem auka aðgengi að vímuefnum.

Ljóst er að mjög stór hluti fanga glímir við fíknivanda sbr. rannsókn Boga Ragnarssonar þar sem fram kemur að um 70% íslenskra fanga voru undir áhrifum fíkniefna þegar þeir frömdu afbrot sín, á því árabili sem Bogi rannsakaði: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/08/22/70_prosent_undir_ahrifum_vid_afbrot/.

Í texta þingsályktunartillögunnar segir að líta verði á vímuefnaneyslu „sem heilbrigðisvandamál sem þurfi að meðhöndla með þeim úrræðum sem heilbrigðiskerfið býður upp á.“ Í þessu sambandi viljum við leggja áherslu á að vímuefnavandi er flókinn vandi sem nær til fleiri þátta en heilbrigðis og þarf að meðhöndla hann ekki bara í heilbrigðiskerfinu heldur í víðtæku samstarfi heilbrigðis- og félagsstofnana samfélagsins.

Rannsóknir á áhrifum áfalla á heilsufar eru að gjörbylta hugmyndum um fíkn. Ofbeldis- og áfallasaga hefur mjög mikil áhrif á þróun ávana- og fíknivanda. Tölur um fjölda þeirra sem koma til meðferðar og eiga sér sögu um að hafa verið beittir ofbeldi ætti líka að vera hrópandi vísbending. Skoða þarf heildarmyndina og sögu hvers einstaklings. Þessi tiltölulega nýja þekking hefur grafið undan heimsyfirráðum sjúkdómsmódelsins og er langt í frá að það sé eining um það, eins og fram kemur í nýlegri úttekt í American Journal of Bioethics Neuroscience á helstu gagnrýni á sjúkdómsmódelið: http://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/21507740.2013.796328#.U1d4TPl_tqU.

UNICEF birti vorið 2013 skýrslu um réttindi barna á Íslandi þar sem fram koma sterk tengsl á milli ofbeldissögu, vanrækslu á barnsaldri og neyslu fíkniefna síðar á ævinni. Sjá. https://www.unicef.is/efni/skyrslur/UNICEF_rettindi_barna_ofbeldi_og_forvarnir.pdf. Við leggjum áherslu á að besta forvörnin gegn áfengis- og vímuefnavanda felst í því að grípa strax inn í og aðstoða fjölskyldur sem eru í vanda þannig að börnum sé komið til bjargar sem fyrst. Því minna ofbeldi, vanrækslu og tengslaleysi sem börn upplifa því minni er vandi þeirra á fullorðinsaldri.

Ein stærsta lýðheilsurannsókn sem gerð hefur verið, The Adverse Childhood Experiences Study eða ACE Study, sem er rannsókn á áhrifum erfiðra upplifana í æsku á heilsufar síðar á ævinni sýnir algjört samhengi á milli þess að verða fyrir áföllum og/eða vanrækslu í æsku og glíma við fíknivanda síðar á ævinni. Sjá: http://acestudy.org/.

Þá þarf að endurskoða notkun fjár til forvarna og nýta bestu þekkingu á því sviði. Ef gert er ráð fyrir því að vímuefnaneysla sé í mjög mörgum tilfellum afleiðing af tilfinningavanda sem hlotist hefur af áfallum en ekki eingöngu genetískur vandi, eins og frumstæðustu útgáfur sjúkdómskenninga gera ráð fyrir, er ljóst að ekki verður komið í veg fyrir neyslu með því að upplýsa um skaðsemi heldur með því að taka myndarlega á vanda barna sem sem eru í áhættuhópi sem fyrst.

Rótin vill að komið verði á fót virkri miðlægri innlagnarmiðstöð og skráningu eins og lagt er til í skýrslu heilbrigðisráðherra um þjónustu fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur á Íslandi sem lögð var fyrir Alþingi 2004-2005. Í skýrslunni eru margar nýtilegar hugmyndir og í tillögum skýrslunnar segir um innlagnarmiðstöð: „Það mundi gefa betri yfirsýn yfir þann hóp sem þarf á sérhæfðri áfengis- og vímuefnameðferð að halda, nýtingu þeirra úrræða sem fyrir hendi eru og hugsanlega gefa möguleika á stýringu í úrræði við hæfi hverju sinni.“ Sjá: http://www.althingi.is/altext/131/s/1346.html.

Rótin leggur áherslu á fjölbreytt úrræði fyrir fólk með fíknivanda. Við þurfum að horfast í augu við þá staðreynd að vandinn er fjölbreyttur, ekki gildir það sama fyrir alla, t.d. þurfa ekki allir að fara í afvötnun í tíu daga eða innlögn á meðferðarstöð. Það er mikilvægt að notkun fjármuna í málaflokknum sé markviss og að fjármunirnir nýtist þeim sem á þurfa að halda. Best væri ef þekking og meðferð væri t.d. til staðar í heilsugæslunni en samkvæmt rannsóknum erlendis er ýmislegt sem bendir til þess að t.d. konur myndu frekar leita sér hjálpar þar en á sérstökum meðferðarstöðvum.

Með innlagnarmiðstöð fæst góð yfirsýn yfir fyrirliggjandi vanda og auðveldara er að tryggja að hagur sjúklinga sá ávallt í fyrirrúmi en ekki hagsmunir rekstraraðila í heilbrigðisþjónustu. Einnig þarf að huga að samþættingu hinna ólíku meðferðarstöðva og tryggja eðlilegt flæði þar á milli án þess að falla í gryfju forsjárhyggju og fordóma t.d. gagnvart konum.

Við mælum eindregið með því að hér verði komið á fót réttarmeðferðardeild sem þjónað getur föngum sem vilja taka á sínum vímuefnavanda. Við teljum vægast sagt óábyrgt að öllum sé hrúgað inn á sömu meðferðarstöðvar eins og nú er gert, börnum, ungmennum, dæmdum ofbeldismönnum og ellilífeyrisþegum. t.d.

Eins og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin bendir á þarf að viðurkenna og meðhöndla þann ofbeldisvanda sem fylgir fíkniefnaneyslu. Hefðbundin fíknimeðferð eins og hún er í dag er ekki að meðhöndla ofbeldishegðun en hér má sjá leiðbeiningar AHS: http://www.who.int/violence_injury_prevention/violence/world_report/factsheets/ft_intimate.pdf. (Hér er lausleg þýðing á helstu tilmælum AHS: http://knuz.is/2013/11/21/harkadu-af-ther-fyrri-hluti/).

Rótin telur fulla þörf á að umgjörð um samninga við meðferðarstofnanir og áfangaheimili verði endurskoðuð, sett inn endurskoðunarákvæði og gæðastaðlar.

Eitt af hlutverkum starfshópsins ætti að vera að koma á leiðbeiningum um viðurkennt verklag. (e. Nice guidelines, best practice guidelines and criteria). Heilbrigðisyfirvöld í Kanada hafa t.d. gert ítarlegar leiðbeiningar fyrir meðferð kvenna: Sjá: http://www.jeantweed.com/LinkClick.aspx?fileticket=7UYWg2-fHv0%3D&tabid=107&mid=514. Einnig hafa þeir gert leiðbeiningar um áfallameðvitaðar (e. trauma informed) aðferðir í fíknimeðferð. Sjá: http://eenet.ca/wp-content/uploads/2013/12/Trauma-Matters-FINAL.pdf.

Þá þarf að huga að menntun þeirra sem meðhöndla vímuefnaneytendur. Lengi vel var meðferðarstarf rekið samkvæmt hugmyndafræði AA samtakanna, svokölluð 12 spora hugmyndafræði, en ekki samkvæmt vísindalegri þekkingu þrátt fyrir að hugmyndin um að alkóhólismi sé sjúkdómur sé einnig sprottin úr sama jarðvegi. Nú til dags eru gerðar kröfur um að meðferð byggi á gagnreyndri þekkingu og það þýðir að efla verður verulega rannsóknarstarf innan greinarinnar og bjóða upp á alvörumenntun í fíknifræðum. Eins og staðan er í dag eru fíkniráðgjafar arfleifð 12 spora kerfisins, þeir eru með mjög takmarkaða menntun í faginu en nám þeirra byggir að mestu á reynslu. Við sjáum ekki hvernig hægt er að réttlæta það fyrirkomulag í nútíma heilbrigðiskerfi.

Að lokum má nefna að vímuefnaneytendur eru einn valdaminnsti hópur samfélagsins. Margir þeirra hafa ítrekað orðið fyrir ofbeldi, þeir gista fangelsin oftar en aðrir og eru víða þiggjendur. Þetta á ekki síst við um konurnar. Fólk er oft tilbúið að leggja líf sitt í hendur meðferðaraðila þegar í meðferð er komið, enda er alið á þeirri hugmynd í bataferlinu að fólk eigi að gefast upp fyrir sjálfu sér og taka leiðsögn. Ef þetta fólk fær ekki rétta meðhöndlun, sérstaklega ef opnað er á viðkvæm vandamál, er mikil hætta á að áföll séu vakin upp (e. re-traumatization). Fólk með fíknivanda er oft með fjölþættan vanda, fjölkvilla, annað hvort áunninn eða undirliggjandi, og því þurfa þeir sem meðhöndla þennan hóp að vera með þá menntun sem til þarf og siðfræðilegan grunn til að átta sig á því valdi sem þeir, sem meðferðaraðilar, fara með yfir þessum viðkvæma hópi.

Virðingarfyllst f.h. Rótarinnar,

Kristín I. Pálsdóttir, ritari.

Heimildir:

Alþingi. 2005. Skýrsla heilbrigðisráðherra um þjónustu fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur á Íslandi. (Lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.) Sjá: http://www.althingi.is/altext/131/s/1346.html.
American Journal of Bioethics Neuroscience. 2013. „Addiction: Current Criticism of the Brain Disease Paradigm“. Sjá: http://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/21507740.2013.796328#.U1d4TPl_tqU.
Canada Health. Ministry of Health and Long Term-Care. „Best practices in action: Guidelines and criteria for women’s substance abuse treatment services.“ Sjá: http://www.jeantweed.com/LinkClick.aspx?fileticket=7UYWg2-fHv0%3D&tabid=107&mid=514.
Canada Health. The Jean Tweed Centre. „Trauma Matters. Guidelines for Trauma-Informed Practices in Women’s Substance Use Services.“ Sjá: http://eenet.ca/wp-content/uploads/2013/12/Trauma-Matters-FINAL.pdf.
Fangelsismálastofnun. Tölfræðilegar upplýsingar um fullnustu refsinga fyrir árin 2009-2012. Sjá: http://www.fangelsi.is/media/stofnunin/Tolfraedilegar-upplysingar-um-fullnustu-refsinga-fyrir-arin-2009-til-2012.pdf.pdf.
Halla Sverrisdóttir og Kristín I. Pálsdóttir. „Harkaðu af þér! I.“ Knúz.is. Sjá: http://knuz.is/2013/11/21/harkadu-af-ther-fyrri-hluti/).
Morgunblaðið. 2014. „70% undir áhrifum við afbrot.“ Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/08/22/70_prosent_undir_ahrifum_vid_afbrot/.
Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda. Heimasíða. Sjá: www.rotin.is.
The Adverse Childhood Experiences Study. Heimasíða. Sjá: http://acestudy.org/.
UNICEF. 2013. Réttindi barna á Íslandi. Sjá: https://www.unicef.is/efni/skyrslur/UNICEF_rettindi_barna_ofbeldi_og_forvarnir.pdf.
World Health Organization. „Intimate Partner Violence and Alcohol Fact Sheet.“ Sjá: http://www.who.int/violence_injury_prevention/violence/world_report/factsheets/ft_intimate.pdf.

 

Share This