Ef þú hefur lesið þér eitthvað til um sálfræði, eða hlustað á sálfræðilegt efni, lesið sjálfshjálparbækur eða hlustað á gúrúa, hefur þú sennilega heyrt á það minnst.

F-orðið.

Í því liggur svarið. Lykillinn að upplýsingunni, lykillinn að því að verða betri manneskja.

Ef við fyrirgefum ekki breytumst við í ólgandi reiða eldhnetti, föst í sjálfheldu tilfinningalegs uppnáms og ekki annað skapað en að veslast upp í vítahring sjálfselsku og þvergirðingslegrar sjálfseyðileggingar.

Eða þannig, ég ætti kannski að láta þetta nægja, af því að:

Ég fyrirgef ekki.

Reyndar fyrirgef ég, en aðeins rétta fólkinu. Þeim sem axla ábyrgð á eigin gjörðum, þeim sem sannarlega bæta fyrir brot sín, jafnvel þó að það hafi í för með sér að viðkomandi þurfi að horfast í augu við erfiða hluti í eigin fari.

En fyrirgefningin á sér líka mörk. Þegar farið er yfir þau verður ekki aftur snúið.

Þar af leiðandi hef ég enga trú á þeirri nálgun að fyrirgefningin eigi alltaf við. Sumu fólki langar mig einfaldlega ekki að fyrirgefa.

Hvað er fyrirgefning?

Í fyrirgefningunni felst það að segja „Heyrðu, þú gerðir eitthvað. Þú braust á mér. En það er allt í lagi. Ég er búin að jafna mig og kalla þig ekki lengur til ábyrgðar.“

Allt fullorðið fólk ber ábyrgð á eigin gjörðum. Fyrirgefning er aðeins í boði þegar viðkomandi hefur viðurkennt ranga breytni og bætt fyrir gjörðir sínar.

Stundum er fyrirgefningin hættuleg.

Af hverju?

Af því að hún getur leitt okkur til þess að láta eins og þetta hafi nú ekki verið svo slæmt, að við höfum nú ekki orðið fyrir svo miklum skaða, verið svo hrædd eða svo reið.

En málið er að: óverðskulduð fyrirgefning er ekki aðeins miskunnarlaus gagnvart þér sjálfri, hún er líka miskunnarlaus gagnvart gerandanum.

Með því að fyrirgefa gerendum erum við að horfa framhjá gjörðum þeirra og segja að það sé nú allt í lagi að haga sér svona. Ef við fyrirgefum ekki, ef við hækkum standardinn, og krefjumst maklegra málagjalda, það hefur líka áhrif á þeirra standard.

Að lokum

Fyrirgefninguna þarf að ávinna sér og það er algerlega ásættanlegt að fyrirgefa ekki.

Ekki er um það að ræða að „eiga“ að gera eitthvað, þú hefur val um að fyrirgefa eða gera það ekki, hver sem í hlut á.

Það eru hlutir sem eru ófyrirgefanlegir.

Að halda öðru fram skaðar okkur.

Ég er ekki að segja að þú eigir aldrei að fyrirgefa neinum. Það eru mjög fáar manneskjur í lífi mínu sem ég hef valið að fyrirgefa ekki. Þessar ákvarðanir hafa kostað ítarlega ígrundun og hafa verið mér þungbærar.

En, öfugt við það sem oft er haldið fram, leita þessar ákvarðanir ekki á mig daglega, né dvel ég daga langa við að hlusta á þungarokk, mála svarta veggi, öskrandi uppnefni um viðkomandi einstaklinga í eyru þeirra sem vilja hlusta.

Að sumu leyti hef ég náð því sem sjálfshjálpargúrúarnir eru að tala um. – Ég hef sleppt tökunum á hinu vonda og líður vel með það. Ég hef bara valið að fyrirgefa ekki – í stað þess að fyrirgefa. Ég hef haldið áfram með líf mitt, þeir hafa haldið áfram með sitt … við erum bara ekki samferða. Þar af leiðandi er ég sterkari manneskja.

Höfundur greinarinnar er Hannah Braime. Hér má lesa hana á frummálinu: http://www.becomingwhoyouare.net/why-forgiveness-is-overrated/.

Share This