10. maí 2015

Miðvikudaginn 20. maí kl. 20 verður aðalfundur Rótarinnar í Kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum, Túngötu 14.

Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf sbr. lög félagsins. Kosið verður í ráð félagsins en í því sitja níu félagar og fer ráðið með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Einnig skulu kosnir þrír varafulltrúar í ráðið.

Við hvetjum áhugasaman félagskonur til að bjóða sig fram í ráð eða vararáð, þeim er bent á að hafa samband við Kristínu ráðskonu í netfanginu rotin@rotin.is eða í síma 893-9327.

Erindi aðalfundar verður í höndum Arnþrúðar Ingólfsdóttur og nefnist: „„Það ýtir undir þunglyndi að vera lægra settur“. Orðræða geðlækna um konur, kyn og þunglyndi.“

Arnþrúður Ingólfsdóttir

Arnþrúður Ingólfsdóttir

Arnþrúður Ingólfsdóttir er með BA-próf í heimspeki og lauk MA-prófi í kynjafræði við Utrecht Háskóla og Central European University í Búdapest árið 2010 með ritgerðinni: „„Our brains are a bit more sensitive“, the biocultural potential in psychiatrists‘ discourse on women, depression and sexual difference.“ Arnþrúður hefur reynslu af geðheilbrigðiskerfinu sem fræðikona en einnig sem bæði starfsmaður og notandi geðsviðs Landspítalans. Hún gaf út plötuna „My brain“ árið 2013 og starfar nú sem jafnréttisráðgjafi hjá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Í fyrirlestrinum mun Arnþrúður greina frá niðurstöðum MA-verkefnis síns þar sem hún tók viðtöl við fimm geðlækna á geðsviði Landspítalans og rannsakaði hvað þeir telji orsaka tvöfalt tíðara þunglyndi kvenna. Greining viðtalanna er sett í samhengi við ágrip af þróun geðlæknisfræðinnar á seinni hluta 20. aldar í átt að líffræðilegri nálgun á geðsjúkdóma. Einnig verður fjallað um nýlega strauma í femínískum kenningum sem leita í brunn þróunarsálfræðinnar um hugtök sem brúa bilið milli líffræðilegra og félags- og menningarlegra skýringa á geðsjúkdómum.

Um efni fyrirlestrarins segir Arnþrúður:

Þeir dagar virðast löngu liðnir þegar þunglyndi kvenna var útskýrt af femínistum sem rökrétt viðbrögð við kúgun feðraveldsins. Þau okkar sem ólust upp á blómaskeiði Prozac þunglyndislyfsins hafa lært að skilja þunglyndi sem kynhlutlausa heilaröskun sem hægt er að lækna með lyfjum. Á meðan þunglyndi stefnir í að verða önnur algengasta orsök fötlunar á heimsvísu hefur ein staðreynd ekki breyst, en hún er sú að konur eru tvöfalt líklegri til að segjast upplifa þunglyndi en karlar. Kynjamunurinn gefur óneitanlega til kynna að samspil líffræðilegra og félagssálfræðilegra orsaka liggi að baki þunglyndi en í opinberri læknisfræðilegri orðræðu eru líffræðilegar og kynhlutlausar skýringar á þunglyndi hins vegar í forgrunni. En þarf þetta tvennt að vera í andstöðu?

Dagskrá aðalfundur:

 1. Fundur settur
 2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 3. Skýrsla ráðs fyrir liðið starfsár
 4. Reikningar félagsins lagðir fram og samþykktir
 5. Kosning aðal- og varafulltrúa í ráð
 6. Kosning á skoðunaraðila reikninga
 7. Ákvörðun félagsgjalda
 8. Lagabreytingar
 9. Tillaga ráðs um starfsáætlun næsta starfsár
 10. Önnur mál
 11. Fundarslit

Allir, konur og karlar, eru velkomnir á umræðukvöld Rótarinnar!

Boðið er upp á te og kaffi en við erum með samskot fyrir því svo komið endilega með klink í baukinn.

Viðburðurinn er á Facebook!

Share This