Aðalfundur Rótarinnar var haldinn 13. maí 2023 og fóru þar fram hefðbundin aðalfundarstörf. Kristín I. Pálsdóttir flutti skýrslu ráðsins og kynnti reikninga félagsins þar sem gjaldkeri boðaði forföll, fundarritari var Marta Sigríður Pétursdóttir. Þá var starfsáætlun næsta starfsárs kynnt.

Nýtt ráð félagsins hélt svo sinn fyrsta fund nokkrum dögum síðar og skipti með sér verkum þannig að Kristín I. Pálsdóttir var valin formaður, Elísabet Herdísar Brynjarsdóttir, varaformaður, Kolbrún Kolbeinsdóttir, ritari, Sara S. Öldudóttir, gjaldkeri og Nadía Borisdóttir, meðstjórnandi. Í vararáð voru kosnar: Helga Baldvins Bjargardóttir og Sara Stef. Hildardóttir en skoðunaraðili reikninga er áfram Auður Önnu Magnúsdóttir.

Talsverðar lagabreytingar voru lagðar fram fyrir fundinn og sköpuðust fjörugar umræður um þær og fór svo að þær voru allar samþykktar nema sú tillaga að öllum væri heimill aðgangur að félaginu. Rótin er því enn eingöngu opin konum og kvárum. Hægt er að skoða ný lög hér.

Einnig var samþykkt að félagsgjöld yrðu 3.000 kr á næsta starfsári.

FEANTSA

Tillaga um að Rótin sæki um aðild að FEANTSA – European Federation of National Organisations Working with the Homeless – var samþykkt en samtökin eru þau einu í Evrópu sem einbeita sér alfarið að því að vinna gegn heimilisleysi með það að markmiði að binda endi á heimilisleysi í Evrópu. Þá var samþykkt að veita ráðinu heimild til að sækja um aðild að EAPN – European anti-poverty network á Íslandi.

Starfsáætlun næsta starfsárs

Konukot er stærsta verkefni félagsins eins og undanfarin ár. Samningur Rótarinnar og Reykjavíkurborgar um rekstur Konukots rennur út 1. október 2023 og því standa fyrir dyrum samningar við borgina um áframhaldandi rekstur en félagið hefur tjáð Reykjavíkurborg að áhugi sé á því. Breytingar sem unnið hefur verið að í Konukoti hafa skilað góðum árangri í gæðum starfsins og því væri gott að geta haldið áfram með verkefnið.

Umræðukvöld voru tekin upp sl. haust og næsta starfsár er stefnt að 2-3 umræðukvöldum að hausti og vori

Heilbrigðisverkefni í Konukoti fer af stað í haust í samstarfi við skjólið. Það er fjármagnað af heilbrigðisráðuneyti og verður gerð rannsókn á árangrinum.

Þriðja ráðstefna félagsins verður haldin 17.-18. október með erlendum og innlendum þátttakendum. Að þessu sinni er meginþemað mannréttindi og fíknistefna.

Félagið er komið með gott tengslanet erlendis m.a. í gegnum Evrópuverkefni og er áhugi á að nýta þau til frekari þekkingaruppbyggingar.

Þrátt fyrir að margt hafi færst til betri vegar í málefnum fólks með vímuefnavanda á undanförnum árum eru breytingarnar meiri á sveitarstjórnarstiginu en hjá ríkinu þar sem enn skortir mikið á að til sé skýr stefnumótun, klínískar leiðbeiningar, gæðaviðmið, leiðbeiningar um góðar venjur og starfshætti. Það eru því enn ótal verkefni í réttindabaráttu og hagsmunagæslu fyrir konur með vímuefnavanda á Íslandi sem Rótin getur einbeitt sér að.

Á komandi starfsári verður nóg að gera í hagsmunabaráttu fyrir konur og kvára með vímuefnavanda og mun félagið leggja sig fram um það.

Hér er hægt að nálgast ársskýrslu Rótarinnar fyrir árið 2022 og þar er einnig ársskýrsla Konukots.

Share This