Sólveig Anna Bóasdóttir

Eftirfarandi grein er eftir Sólveigu Önnu Bóasdóttur, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands. Hún birtist í Ritröð Guðfræðistofnunar, Studia theologica islandica 35, árið 2012.

Að fyrirgefa ekki – um gildi gremjunnar fyrir einstaklinga og samfélög

Grein þessi sem skrifuð er frá guðfræðilegum og siðfræðilegum sjónarhóli fjallar um stef fyrirgefningar og reiði í trúarbrögðumi og samtímamenningu. Nánar tiltekið er markmiðið að rýna í guðfræðilega og siðfræðilega orðræðu um að tal um fyrirgefningu eigi ekki alltaf rétt á sér og gremja geti haft siðferðilegt gildi fyrir manneskjuna og samfélagið í heild. Um meginhugtök greinarinnar, fyrirgefningu og gremju, mætti fjalla ítarlega en þeirri umræðu verður þó mjög í hóf stillt og aðeins fáeinir guðfræðingar og siðfræðingar valdir sem fulltrúar áhugaverðra sjónarmiða um þetta efni. Í greininni er fyrirgefningu og reiði ekki stillt upp sem andstæðum eins og oft tíðkast, heldur er litið svo á að hvort tveggja geti átt rétt á sér, eftir því hvaða aðstæður sé um að ræða. Reiði er oft lýst sem viðhorfi eða tilfinningu sem enginn heilbrigður maður vilji burðast með og því harla ólíklegt að þeir sem bera reiði- eða hefndarhug hljóti siðferðilega viðurkenningu í samfélaginu. Einn þeirra sem finnur reiðinni flest til foráttu er Desmond Tutu (1931), friðarverðlaunahafi Nóbels (1984) og fyrrverandi biskup í Suður-Afríku, en hann lýsir reiði sem niðurbrjótandi afli sem andstætt sé verkum og viðhorfum sem styðji við sameiginlega mennsku manna.[i] Í greininni verður fjallað um reiðina á jákvæðari nótum og stuðst við skrif annars biskups á annarri öld, nefnilega enska biskupsins og heimspekingsins Josephs Butler (1692-1752).[ii] Hugtakið resentment er það hugtak sem Butler notar og hér er það þýtt sem gremja. Butler gerði greinarmun á tvenns konar gremju: vanstilltri og óyfirvegaðri gremju annars vegar og yfirvegaðri gremju hins vegar. Þessi aðgreining verður útskýrð betur síðar í greininni.

Í upphafi greinar er varpað ljósi á algengan skilning á fyrirgefningu og reiði innan hinna stóru trúarbragða heims og þaðan byggð brú yfir í nýlega, íslenska orðræðu um sömu stef. Síðar er farið yfir í gagnrýnin viðhorf nokkurra þekktra guðfræðinga og heimspekinga á tuttugustu öld. Þau sjónarmið leiða inn á slóðir gremjunnar og er sjónum beint að nálgunum Josephs Butler og Jeffries Murphy en þær eru ólíkar; sú fyrri útskýrir gildi gremjunnar fyrir siðferðið og samfélagið en hin síðari fyrir einstaklinginn og sjálfsvirðinguna.

Stef fyrirgefningar og reiði í trúarbrögðum

Í eingyðistrúarbrögðum gyðingdóms, kristni og íslams er fyrirgefning fyrirferðarmikið stef. Svipað má segja um hindúasið og búddatrú þar sem hún er álitin mikilvæg dygð. Innan gyðingdóms, kristni og íslams er fyrirgefningin jafnan tengd eðli Guðs og einstaklingar hvattir til að fyrirgefa vegna þess að Guð hafi að fyrra bragði fyrirgefið þeim syndir þeirra. í búddatrú getur fyrirgefningin falið í sér tvennt: niðurfellingu refsingar og höfnun reiði. Þá er í búddatrú lögð áhersla á dygðir sjálfstjórnar og þolinmæði og er fyrirgefning ein birtingarmynd þeirra dygða. Búdda sjálfur er sagður hafa álitið að reiðin væri andstæða fyrirgefningarinnar og í hans augum leiddi hún til þjáningar, bæði fyrir hinn reiða og þolendur reiðinnar. Þessi skilningur Búdda á illum afleiðingum reiðinnar, bæði fyrir einstaklinga og samfélag, er forsenda hins algenga jákvæða skilnings búddatrúarmanna á fyrirgefningunni.[iii]

Í vedískum textum hindúasiðar (um 5000-1000 f.Kr.) kemur fyrirgefningarstefið oft fyrir og tengist meðal annars dygðum eins og náð, miskunn og réttlæti. Þeir sem vilja halda sig á vegi dharma (orðið kemur úr sanskrít og merkir lögmál eða samfélagslegur siður) verða að iðka fyrirgefningu, sýna samúð og stillingu. Í einni grein hindúasiðar er litið á eiginkonu Vishnu, Lakshmi (Sri), sem gyðju fyrirgefningarinnar og hún fyrirgefur óháð því hvort menn iðrast. Guðinn Vishnu, hins vegar, fyrirgefur aðeins ef menn sýna iðrun.[iv]

Innan íslams er fyrirgefningin mikilvæg bæði fyrir lífið hér og nú og lífið að loknu þessu. Að biðja fyrirgefningar er tákn auðmýktar og í mannlegum samskiptum er talið auðveldara að fyrirgefa ef sá sem brotið hefur á manni sýnir iðrun. Allah getur þó fyrirgefið án þess að iðrun eigi sér stað.[v] Í Kóraninum eru þrjú hugtök sem geta merkt fyrirgefningu: „afw“ sem þýðir að fyrirgefa, afsaka, náða eða gefa upp sakir, „safhu“ sem felur í sér að snúa burt frá synd eða löstum og svo „ghafara“ sem er langalgengast og merkir að gefa eftir, breiða yfir eða fyrirgefa. Þá er eitt af níutíu og níu nöfnum Allah „Sá sem fyrirgefur“.[vi]

Algengustu hebresku orðin yfir fyrirgefningu eru mehillah og selihah. Hið fyrra merkir að syndin eða skuldin þurrkast út og hverfur en hið síðara að hlutaðeigandi aðilar sættast heilum sáttum. Fyrirgefning felur ekki nauðsynlega í sér sátt og sátt milli manna er möguleg án fyrirgefningar. Guðfræðileg forsenda fyrirgefningar í gyðingdómi er að Guð er sjálfur miskunnsamur og fyrirgefur. Gyðingum ber að fyrirgefa, bæði til að líkjast Guði og einnig vegna þess að lögmálið krefst þess, sbr. orðin: „Þú skalt ekki hefna þín á löndum þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.“ (3Mós 19.18). Friðþægingardagurinn, Yom Kippur, sem er mikilvægasta hátíð gyðingdómsins tjáir mikilvægi fyrirgefningarinnar og víða er lögð áhersla á hana sem mikilvæga dygð allra afkomenda Abrahams.[vii] Í kristinni trúarhefð má finna sterka hvatningu og jafnvel kröfu til hinna kristnu um að þeir fyrirgefi náunga sínum og margir líta svo á að fyrirgefningin sé sjálft hryggjarstykkið í kristinni trúarhefð.[viii] Forsenda þess er sú sama og í gyðingdómi: Guð er miskunnsamur og hefur fyrirgefið mönnunum syndir að fyrra bragði. Því ber þeim að biðja bæði Guð og menn fyrirgefningar, vegna eigin synda og misgjörða, sbr. orð Jesú: „Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum“ (Matt 6.12) og „Fyrirgef oss vorar syndir enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum“ (Lúk 11.4). Grísku hugtökin sem koma oftast fyrir í textum Nýja testamentisins eru eleao sem þýðir að sýna náð og aphiemi sem merkir að senda burt, frelsa og gefa upp sakir.[ix]

Ljóst er af þessari stuttu umfjöllun að nokkur blæbrigðamunur er á inntaki fyrirgefningarinnar og því óhætt að fullyrða að fyrirgefningarhugtakið feli ekki í sér eina altæka merkingu. Þannig getur fyrirgefning bæði átt sér stað með sátt og án sáttar, stundum merkir hún að afsaka og breiða yfir en stundum að fella niður skuld og gefa upp sakir. Jafnframt þessu er einnig ljóst að ákveðnir þættir eru sameiginlegir, t.d. innan svokallaðra eingyðistrúarbragða, þ.e. gyðingdóms, kristni og íslams, þar sem iðrun er oftast, en ekki alltaf, talin forsenda fyrirgefningar Guðs. Hvað öll þessi trúarbrögð áhrærir leikur lítill vafi á að litið er á fyrirgefninguna sem dygð sem er æðri reiðinni. Lítum nú á dæmi um algenga merkingu fyrirgefningar á fyrstu öld eftir Krists burð.

Fyrstu aldar skilningur á inntaki þess að fyrirgefa

Samtímamaður Jesú frá Nasaret, Rómverjinn og stóumaðurinn Seneca (um 4 f.Kr. – 65 e.Kr.), fjallar um fyrirgefningu í einni af fjölmörgum siðfræðilegum ritgerðum sínum.[x] Skilningur Seneca er sá að fyrirgefning merki það sama og að valdamikill aðili láti það ógert að refsa fyrir eitthvað sem þó sé full ástæða til að refsa fyrir. Þessi einfalda hugsun á rætur sínar að rekja til viðskipta manna í ákveðnu menningarsamfélagi þar sem valdatengsl eru skýr og skírskotar ekki síst til sambands landeiganda og leiguliða. Landeigandi hafði vald yfir þeim manni sem leigði af honum land. Stæði leiguliði ekki skil á leigunni, mátti reka hann burt af landinu eða refsa honum fyrir með einhverju móti. Kæmist leiguliði í skuld við landeigandann var það augljóslega ekki á hans valdi að breyta skuldinni, hvað þá eyða henni – aðeins landeigandinn gat fyrirgefið skuld, í merkingu Seneca, þ.e. gefið upp skuldina, í stað þess að refsa, þótt full ástæða væri til þess. Þessi veruleiki var öllum ljós á fyrstu öld eftir Krist: Sá sem gat gefið upp skuld var sá sem hafði vald, líkt og finna má í bæninni Faðir vor þar sem hinn almáttugi Guð, sem allt vald hefur á himni og jörð, er beðinn er um að gefa upp skuldir eða syndir (Lúk 11.4 og Matt 6.12).[xi]

Frederick W. Keene nálgast þetta efni á svipaðan hátt í grein sinni „Structures of Forgiveness in the New Testament“.[xii] Menningin og samfélagið á fyrstu öld eftir Krist, bendir Keene á, mótaðist af hugmyndum um heiður og skömm og þeim hugmyndum fylgdu ákveðnar samskiptareglur sem allir þekktu. Til að skilja hvað fyrirgefning merkti á þessum tíma telur Keene nauðsynlegt að skilja samfélagslega valdastöðu einstaklinga. Einstaklingur sem stóð neðarlega í valdastiga samfélagsins, líkt og leiguliðinn í dæminu hér að framan, sýslaði ekki með fyrirgefningu skulda eða synda gagnvart þeim sem voru æðri honum í samfélaginu. Að vera boðin fyrirgefning af hálfu valdaminni aðila hefði verið móðgun við æru þess valdameiri. Jafningjar gátu að sjálfsögðu fyrirgefið hvor öðrum án þess að eiga á hættu að fyrirgera heiðri sínum. Samkvæmt þessu hugmyndalíkani streymir fyrirgefning fyrst og fremst í eina átt. Frá þeim valdameiri til hins valdaminni. Keene tekur Jesú og breytilega valdastöðu hans í Nýja testamentinu sem dæmi. Þegar Jesús segir við bersyndugu konuna: „Syndir þínar eru fyrirgefnar“ (Lúk 7.48), þá er staða hans sterk. Sú staða hafði breyst þegar búið var að negla hann upp á kross. Hinn krossfesti Jesús biður Guð að fyrirgefa þeim sem krossfestu hann. Hann segir ekki: Syndir ykkar eru fyrirgefnar, heldur vísar því til Guðs sem hefur allan heiminn á valdi sínu. „Faðir, fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þeir gera“ (Lúk 23.34). í niðurlægingu sinni á krossinum er Jesús, að mati Keenes, ekki í aðstöðu til að fyrirgefa: Guð einn hefur vald til þess. Einmitt á krossinum hefði mátt hugsa sér ákveðin hvörf, nefnilega þau að Jesús hefði gengið gegn hinum ríkjandi fyrirgefningarskilningi sem víðast hvar má finna í Nýja testamentinu, hann hefði getað brotið blað og boðað að hinir veiku væru í aðstöðu til að fyrirgefa, er niðurstaða Keenes, en það gerir hann ekki.[xiii]

Þau tengsl valds og fyrirgefningar, sem augljós voru einstaklingum sem lifðu og störfuðu á fyrstu öld eftir Krist og fjallað hefur verið um hér að framan, eru vissulega víðast hvar horfin í nútímasamfélögum. Að tala um vald og valdatengsl er þó ekki úrelt, t.d. þegar brotið hefur verið á manneskju eða hún niðurlægð þótt fremur sé átt við sálrænt vald eða valdaleysi en samfélagslegt í því samhengi. Að ná aftur valdi á lífi sínu eftir niðurbrot eða niðurlægingu er orðalag sem er fyllilega merkingarbært. Í menningu samtímans er það ekki óalgengt að þolendum brota og niðurlægingar sé ráðlagt að fyrirgefa þeim sem brotið hafa gegn þeim, oft óháð iðrun viðkomandi eða fyrirgefningarbeiðni.[xiv] Þessi ráðlegging hefur það að markmiði að hjálpa fólki til að komast út úr sálrænum erfiðleikum og setjast að nýju við völd í lífi sínu. En er slík ráðlegging allraf rétt? Því er það svo mikilvægt að fyrirgefa og hver getur fyrirgefið hið ófyrirgefanlega?

Að fyrirgefa – best fyrir þig!

Gildi þess að fyrirgefa – jafnt sjálfum sér sem öðrum – er þráfaldlega tjáð í nýlegri, íslenskri bók, Fyrirgefning og sátt, þar sem um áttatíu Íslendingar úr fjölda fag- og starfsstétta skrifa stuttar hugleiðingar um fyrirgefninguna.[xv] Ein nálgun í þessum skrifum er sálfræðileg og persónuleg, ef svo má að orði komast, og er kastljósinu þá beint að þeim sem beittur hefur verið rangindum af einhverju tagi. í þessari nálgun er það viðhorf algengt að fyrirgefning af hálfu þolanda ranglætis sé æskileg, góð og jafnvel nauðsynleg vegna hinna góðu afleiðinga sem hún hafi á andlega heilsu viðkomandi. Þá má finna í bókinni trúarleg viðhorf til fyrirgefningarinnar þar sem fyrirgefningin er sögð búa yfir eins konar töfrum og henni er lýst sem leyndardómi sem komi ótrúlegum hlutum til leiðar. Þannig er líkingamálið oft hástemmt og fyrirheitin um nýtt og betra líf einnig: „Að fyrirgefa og öðlast fyrirgefningu er eins og að hreinsast. Fyrirgefningunni fylgir léttir, eins og að opna dyr hið innra með sér yfir í aðra og bjartari tilveru“, [. . . ] „Að geta ekki fyrirgefið er eins og kal sem ekki grær“, skrifar einn höfunda. Annar höfundur kemst þannig að orði: „Eigum við að fyrirgefa þeim sem ekki biðja okkur fyrirgefningar? Svarið er já, ekki síst okkar sjálfra vegna skulum við fyrirgefa þótt viðkomandi biðji okkur ekki um fyrirgefningu. Við látum það síðan í Guðs hendur hvort hann fyrirgefur mótstöðumanni okkar syndina.“ Þriðji greinahöfundur skrifar: „Þá erum við komin að mikilvægu atriði í kristnum siðaboðskap, sem er fyrirgefning að fyrra bragði án þess að hinn brotlegi iðrist og geri yfirbót. Þar er fyrirmyndin orð Krists á krossinum er hann sagði sárþjáður: „Faðir, fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir gjöra.“ Stundum getum við lent í þessari stöðu að þurfa að fyrirgefa það sem gert hefur verið á okkar hlut, án þess að vera beðin um það. Við þurfum það vegna þess að það er best fyrir okkur sjálf.“ Fjórði höfundurinn orðar gildi fyrirgefningarinnar á þessa leið: „An fyrirgefningarinnar ölum við á beiskju í barmi og byrgjum kala í hjörtum inni.“ [. . . ] „Langvinn hamingja okkar og lífsgæði eru fólgin í að geta litið yfir líf og leiksvið okkar í heild með augum þess sem náð hefur að hnýta lausa enda, náð sátt í lífi sínu við sjálfan sig, Guð og aðrar manneskjur. Þar leikur fyrirgefningin lykilhlutverk.“[xvi]

Svipaður tónn er sleginn hjá Gunnari Hersveini heimspekingi er hann veltir fyrir sér eðli og inntaki fyrirgefningarinnar í nýlegri bók sinni Gæfuspor (2005). Gunnar hefur háleitar hugmyndir um fyrirgefninguna og mátt hennar og talar um hana sem mikið djásn, máttuga gjöf og bjargráð. I siðferðilegu ljósi er hún, að mati Gunnars Hersveins, þó frekar hugsjón en regla og ekki neitt sem neinn getur krafið aðra manneskju um. Fyrirgefningu telur Gunnar Hersveinn að hvorki skuli líkja við afsökunarbeiðni né náð heldur sé hún fremur sem undrameðal. „Fyrirgefningin getur verið sem lyf í mannlegum samskiptum og læknað bæði gerandann og þolandann. Það er sorglegt að sjá fólk kvalið, fólk sem gæti fyrirgefið hvert öðru en kýs að kveljast áfram. Aðeins fyrirgefningin getur bjargað því.“[xvii]

Í þeim samtímahugmyndum um fyrirgefninguna sem hér birtast hljóma mörg kunnugleg stef úr trúarbrögðunum. Einnig bergmálar hér sú túlkun sem sögð er hvíla á kristnum gildagrunni og gjarnan kynnt sem skylda um skilyrðislausa fyrirgefningu. Margt kristið fólk hafnar slíkri túlkun þó algerlega. Sú túlkun að fyrirgefningin sé nokkurs konar töfralyf eða hreinsun sem breyti öllu til batnaðar er líklega nýrri af nálinni, alla vega orðfærið.[xviii] Um allar þessar túlkanir má segja að þær vekja spurningar og mun ég láta nægja að nefna aðeins örfá atriði í því sambandi. í fyrsta lagi, ef fyrirgefning er svo öflug sem hér er látið í veðri vaka, ef hún er svarið við flestu því sem herjað getur á manninn á andlega sviðinu, ef máttur hennar rúmar allt í senn – trúarlega leyndardóma, heilsubót og kristileg dygð, auk þess að vera skynsamleg – er hætta á að innihald hennar þynnist út og verði merkingarlítið, jafnvel merkingarlaust. Slík yfirdrifin áhersla á algildi og algóðar afleiðingar þess að fyrirgefa orkar tvímælis og getur leitt til skorts á trúverðugleika. Ef fyrirgefning er svar við (flest)öllu því sem aflaga fer, er hún ekki svar við neinu.

Í öðru lagi finnst mér það orka tvímælis hvort rétt sé að beina kröfunni um fyrirgefningu svo ákveðið að þolendum brota og áfalla, þ.e. fólki sem stendur höllum fæti í lífinu. Slík nálgun finnst mér varhugaverð siðfræðilega vegna þess að hún leggur ákveðna byrði á herðar þolandanum sem gæti leiðst til að trúa því að öll lækning og bót byggist á frumkvæði hans og ákvörðun. Fyrirgefningin verður hans verk og byggir á vali hans og vilja. Kröfuna um fyrirgefningu má því nota sem tæki til að knýja fram fyrirgefningu þar sem engin slík er í raun til staðar. Ef t.d. prestar halda fram áhrifamætti fyrirgefningarinnar sem töfralyfs við sóknarbarn og bæta því síðan við að það sé skylda hverrar kristinnar manneskju að fyrirgefa, eins og Guð hafi fyrirgefið mönnum, þá má líta á það sem ákveðið kúgunartæki. Kenningarvald og kærleiksboðskapur kirkju og kristni getur þannig orðið að skyldu sem verður að axla. Gagnrýni af þessu tagi er ekki ný af nálinni heldur hafa fleiri orðið til þess að benda á þetta og ítrekað að fyrirgefning sé ferli sem taki tíma og ekki viljaverknaður á ákveðnum stað og stund.[xix] Undir þetta vil ég taka. Gagnrýni mín á fyrirgefningarskilning í samtímanum er þó ekki sett fram í þeim tilgangi að rýra gildi fyrirgefningarinnar almennt sem græðandi og endurreisandi afls fyrir einstaklinga og samfélög. Margir geta borið vitni um það og því ekki erfitt að skilja af hverju fyrirgefning hefur verið sett fram sem dygð og hugsjón í mannlegu samfélagi, ekki síst í trúarlegu og kristnu samhengi. En í stað þess að bæta enn einni ritsmíðinni við í það mikla safn sem fyrir liggur um gæði og gildi fyrirgefningarinnar mun ég nú sveigja umræðuna inn á brautir þess að fyrirgefa ekki og beina sjónum að gremjunni og hugsanlegu gildi hennar fyrir einstaklinga og samfélag. Sem inngang að því umfjöllunarefni mun ég staldra við og taka örfá dæmi um gagnrýnin sjónarhorn á fyrirgefninguna á tuttugustu öld þar sem þekktir heimspekingar og guðfræðingar hafa lagt fram drjúgan skerf.

Að fyrirgefa ekki

Fyrirgefningin sem dygð hefur oft verið gagnrýnd í kristnu samhengi. Þekkt er gagnrýni guðfræðingsins Dietrichs Bonhoeffer (1906-1945) á hina ódýru fyrirgefningu en hann áleit fyrirgefningu þægilegan máta fyrir afbrotamanninn til þess að breiða yfir syndir sínar án þess að iðrast þeirra í raun.[xx] Annars konar gagnrýni kemur frá heimspekingnum Friedrich Nietzsche (1844-1900) sem taldi kröfuna um að fyrirgefa misgjörðir annarra í fyrsta lagi oft ekki eiga rétt á sér og í öðru lagi væri það veikleikamerki af hálfu þolanda ef hann teldi sig þurfa að fyrirgefa. Að mati Nietzsches hefur sterkur persónuleiki ekki þörf fyrir að fyrirgefa þeim sem hefur brotið á honum.[xxi] Gagnrýni þeirra Bonhoeffers og Nietzsches snýr sín að hvorum aðilanum sem hlutdeild á í fyrirgefningunni, ef svo má að orði komast: Bonhoeffer horfir til þess sem hefur gerst brotlegur og telur hann sleppa of auðveldlega vegna of skjótrar fyrirgefningar af hálfu brotaþola en Nietzsche horfir til fórnarlambsins og hvetur það til að láta fyrirgefninguna lönd og leið. Hvorugur þeirra Bonhoeffers og Nietzsches veltir fyrir sér spurningunni um hvað sé mögulegt að fyrirgefa. Það hafa aðrir gert, eins og t.d. heimspekingurinn Jacques Derrida (1930-2004) og guðfræðingurinn Knut L. Logstrup (1905-1981) en báðir virðast sammála um að tal um fyrirgefningu eigi einungis að tengja því sem sé í raun ófyrirgefanlegt. Það sem hægt er að biðjast afsökunar á og bæta fyrir, þarf ekki að fyrirgefa, að þeirra mati, þau vandamál eiga sína lausn, nefnilega afsökunarbeiðni og bætur. Einungis hið ófyrirgefanlega sé viðfangsefni fyrirgefningarinnar![xxii]

Hér eru áhugaverð sjónarmið á ferð sem auðveldlega má tengja umræðunni að framan. í þeirri umræðu kom m.a. skýrt fram hve margvísleg merking er lögð í fyrirgefningarhugtakið. Ábending þeirra Derrida og Logstrups um að rétt sé að aðgreina fyrirgefningu frá ýmsu öðru sem á sér nú þegar önnur heiti sem allir skilja, svo sem að biðjast afsökunar, sættast, bæta fyrir o.s.frv. er til bóta að mínu mati. Eftir stendur þó spurningin um hvað sé hægt að fyrirgefa. Sú spurning beinir okkur inn á brautir hins ófyrirgefanlega. Það sem er talið ófyrirgefanlegt er yfirleitt tengt illverkum og grimmd sem er á mærum þess hugsanlega, skiljanlega og bærilega. Skilning Logstrups má tengja einmitt þessu og guðfræðileg túlkun hans er athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Augljóst er að hann vill ekki tala um fyrirgefningu þegar um er að ræða smávægileg, hversdagsleg atvik, nefnilega yfirsjónir og mistök sem hægt er að biðjast afsökunar á og bæta fyrir. Fremur tekur hann hugtakið frá fyrir fyrirbæri sem tengjast hinu ófyrirgefanlega í tvenns konar merkingu. Annars vegar er það forsenda þess að hægt sé að tala um fyrirgefningu að brot sé svo alvarlegt að algjört upplausnarástand blasi við. Hann tekur dæmi um svik og ályktar að þegar samband aðila hefur algerlega hrunið í rúst vegna sviksemi þá sé óhugsandi að nokkru sinni sé hægt að endurreisa það. Ef slíkt gerist, þrátt fyrir allt, þá sé það líkt og fyrir náð eða kraftaverk. Þótt hann líki ekki fyrirgefningunni við kraftaverk má skilja það sem gerist á svipaðan hátt og algengt er að skilja slík fyrirbæri. Fyrirgefning, í huga Logstrups, er því ekki fyrirbæri sem tilheyrir hinum skynsamlega rök- og raunheimi heldur gengur hún gegn lögmálum hans. Hún verður ekki til fyrir atbeina mannsins heldur er hún verk Guðs. Hitt atriðið, sem er skilyrði þess að hægt sé að kalla það fyrirgefningu, að mati Logstrups, er að brotið hefði mátt forðast. Brotið byggist á breyskleika mannsins en er ekki hluti af mannlegu eðli á þann hátt að maðurinn hefði ekki getað breytt á annan veg.[xxiii] Það sem er áhugavert við túlkun Logstrups er þrenging hans á hugtakinu. Fyrirgefningin fær mun sértækari merkingu en gengur og gerist nú um stundir og er í raun aðeins trúarleg. Með því að gera greinarmun á hversdagslegum brotum manna annars vegar og mjög alvarlegum brotum hins vegar, er þetta mögulegt. Á flestum brotum, og líkast til langflestum, má biðjast afsökunar og leitast við að bæta fyrir. Svo eru hin sem eru svo alvarlegs eðlis að þau eru óbætanleg, óafsakanleg eða það sem hann kallar: ófyrirgefanleg. Hið óbætanlega og óafsakanlega er ekki á valdi manneskjunnar að fyrirgefa, það getur aðeins Guð gert. Fyrirgefningin er Guðs og Guðs eins. Engin skynsemisrök, ekkert vald, hvorki kristið kennivald né sérfræðingavald, getur farið fram á það við fórnarlömb alvarlegra brota að þau fyrirgefi hið ófyrirgefanlega. Aðeins Guð getur gert það. Logstrup er því harla ólíklegur til að ganga í þann máttuga kór samtímamenningar okkar sem syngur fyrirgefningunni lof og dýrð og lítur á hana sem hreinsun, lyf, ákvörðun og verk manna. Verk mannsins, myndi Logstrup segja, er að sýna auðmýkt, biðjast afsökunar á daglegum misgerðum sínum og leitast við að bæta fyrir brot sín. Fyrirgefning er annað, hún er ekki á færi mannlegs máttar: Hún er hluti máttarverks Guðs í Jesú Kristi. Ef fyrirgefning á sér stað, þá er það fyrir tilstilli Guðs.[xxiv] Eins og vænta má af ofansögðu skrifaði Logstrup ekkert um siðferðilegt gildi gremjunnar í tengslum við fyrirgefninguna þar sem fyrirgefningarhugtak hans er alls óskylt slíkri umræðu. Gremjan er ekki kostur sem hann hefur áhuga á að fjölyrða um. Fjölmargir guðfræðingar og heimspekingar tengja þó þetta tvennt saman og er nú komið að gremjunni og siðferðilegu gildi hennar.

Siðferðilegt gildi gremjunnar

Skilningur Josephs Butler á siðferðilegu gildi gremjunnar byggist á guðsskilningi hans, mannskilningi og sýn á samfélagið.[xxv] Guðfræðilega nálgast hann efnið frá sjónarhóli guðsvarnar (lat. teodice) og leitast við að verja þá ráðstöfun skaparans að skapa manneskjur með tilfinningar reiði og gremju.[xxvi] Hvernig getur staðið á því að góður Guð, sem hefur skapað allt á himni og jörð og kallað sköpun sína „harla góða“ (1Mós 1.31), gefur manninum svo öfluga tilfinningu sem gremjan er? spyr Butler. Er ekki gremja alltaf af hinu illa eða hefur hún mögulega eitthvert jákvætt gildi, og ef svo er, fyrir hvern? Eftir töluverðar vangaveltur er niðurstaða hugleiðinga Butlers sú að gremjunni sé ætlað mikilvægt hlutverk í sköpunarverki Guðs sem felst í kröfu um virðingu fyrir reglum siðferðisins og þar með samfélagsins: Gremjuna má því túlka sem tjáningu á kærleika Guðs. Með því að fyllast gremju vegna ranginda og misréttis fordæmir maðurinn hið illa og það í fullum rétti. Fyrirgefningin, hins vegar, hefur það hlutverk að gæta þess að við göngum ekki of langt í fordæmingu okkar, hún virkar sem taumhald til að halda gremjunni innan hæfilegra marka. Fyrirgefningin kemur aldrei á undan gremjunni og það fyrirfinnst engin krafa um það að fyrirgefa án skilyrða í kristinni trú, að mati Butlers. Fremur lítur hann svo á að fyrirgefningin haldi í humátt á eftir gremjunni, hlutverk hennar er að tempra gremjuna og sjá til þess að hún fari ekki úr böndum.[xxvii]

Gremjuhugtak Butlers, sem á var minnst i upphafi, rúmar allt frá reiði til haturs. Butler viðurkennir að vissulega beinist gremja mannsins oft að ýmsu smávægilegu og óviðeigandi en vill þó ekki dæma hana einvörðungu af því. Gremja er af tvennum toga: Snögg og vanstillt eða yfirveguð og meðvituð.

Fyrri gerðina má kalla reiði eða uppnám og sem slík felur gremjan alltaf í sér eitthvað slæmt, óskynsamlegt og óhóflegt. Skyndileg reiði er tilfinning sem vaknar fyrirvaralaust og án skynsemi, að mati Butlers. Þó getur upplifun af eða vitneskja um djúpstætt óréttlæti einnig vakið mikla og skyndilega reiði og eru þau viðbrögð þá ekki óskynsamleg með öllu. Þessa tegund gremju tengir Butler frumstæðum varnarviðbrögðum sem hann álítur að maðurinn hafi þurft á að halda gegnum tíðina til að verjast yfirgangi, ofbeldi og árásum.[xxviii] Hin gerð gremjunnar, hin meðvitaða og yfirvegaða, er af allt öðrum toga og á meira skylt við siðferðilega dygð. Að upplifa grimmd eða verða vitni að grimmd, miskunnarleysi eða óréttlæti og óska þess að refsing komi fyrir, er ekki dæmi um snögga eða fyrirvaralausa reiði og illvilja, heldur eru þar á ferð yfirveguð varnarviðbrögð gegn illsku sem eru nauðsynleg og skynsamleg svo að samfélagið liðist ekki í sundur. Slíka tilfinningu hafa langflestir einstaklingar gagnvart öðrum verum og gagnvart sjálfum sér og alls ekkert óstjórnlegt, óhóflegt eða óskynsamlegt við það.[xxix]

Greinarmunur og mat Butlers á þessum tveimur tegundum gremju er athyglisverður, frá siðfræðilegum sjónarhóli séð. Hvort tveggja tengist mannskilningi hans. Að hans áliti er manninum það eiginlegt að láta sér annt um eigin velferð og sinna nánustu og af því leiðir að það er eðlilegt að hann bregðist við árásum og fólskuverkum gegn sér og sínum með tilfinningum gremju. Það sem manninum gremst er það sem særir eða skaðar hann sjálfan, eða þá sem eru honum nákomnir. Gremja af þessum toga er yfirleitt yfirveguð og beinist að skaða fremur en að skyndilegum sársauka eða missi. Skyndileg gremja getur þó í vissum tilvikum verið viðbragð við skaða og ekki aðeins sársauka og getur því beinst að því sama og yfirveguð gremja. Eðlismunur þessara tveggja gerða gremju er þó staðreynd og því ljóst að hin yfirvegaða gremja verður aldrei til af sömu sökum og hin skyndilega. Eðlilegt markmið hennar beinist einungis að því að lagfæra skaðann eða forða honum og er aldrei einungis viðbragð við sársauka. Kjarni þessara hugleiðinga Butlers um tvenns konar gremju er að markmið yfirvegaðrar gremju er siðferðilegt og miðast að því að forða skaða og lagfæra skaða. Hina yfirveguðu gremju, og einungis hana, má því líta á sem tæki eða vörn gegn skaða, óréttlæti og grimmd og þetta fyrirbæri hefur maðurinn öðlast sem gjöf úr hendi skaparans.[xxx] Misnotkun á báðum tegundum gremju er þó algeng að mati Butlers. Hann er ómyrkur í máli í fordæmingu sinni á hinni snöggu, óyfirveguðu reiði þegar fólk missir stjórn á sér og bregst við á versta veg af lítilli eða engri ástæðu. Aðra útgáfu þessarar tegundar gremju kallar hann fyrtni eða bráðlyndi og álítur sérlega aumkunarverða. Að mati Butlers eru þessi einkenni í raun eitt og sama fyrirbærið, enda finnist þau oft í einni og sömu manneskjunni. Hvað varðar hina yfirveguðu gremju hins vegar þá má einnig misnota hana. Fólk ímyndar sér oft skaða þar sem enginn slíkur fyrirfinnst, skrifar hann. Vegna eigin hlutdrægni hætti fólki til að mikla hlutina fyrir sér og fyllast gremju í garð manneskju sem óvart hefur valdið sárauka og óþægindum án þess að nokkur skaði hlytist af. Þessi viðbrögð eru jafn fráleit og í tilvikum skyndilegu gremjunnar, álítur hann, því vanþóknunin á það til að rísa allt of hátt og vera ekki í neinu hlutfalli við það sem gert var á hlut viðkomandi.[xxxi]

Hvað sem allri misnotkun líður lítur Butler svo á að skaparinn hafi ætlast til þess að maðurinn notaði gremjuna til góðs. Hún er tæki gegn grimmd, óréttlæti og rangindum sern nota skal á viturlegan og yfirvegaðan hátt. Meðaumkun, sem einnig er náttúruleg tilfinning manneðlisins, megi ekki verða of ráðandi í mannlegu samfélagi því þá geti reynst erfitt að vinna gegn löstum og illsku og jafnvel erfitt að refsa fyrir grimmd og glæpi. Butler styðst við hugsunarhátt afleiðingasiðfræði og ályktar: Góðar afleiðingar yfirvegaðrar gremju eru þær að vernda samfélagið gegn hinu illa. Án gremjunnar yrðu glæpir mun tíðari í samfélaginu vegna þess að menn treystu á linkind og meðaumkun. Hið góða við gremjuna er að hún hefur fælingarmátt jafnframt því að hvetja til dygða. Ef skaði skeður þá ber nauðsyn til að kalla gerandann til ábyrgðar, skrifar Butler. Þá er oft ekki nægjanlegt að viðhafa stillilega, yfirvegaða skynsemi eða sýna meðaumkun. Nei, þá er þvert á móti nauðsynlegt og réttlætanlegt að tjá yfirvegaða gremju og vanþóknun vegna þess sem orðið er. Að gremjuna megi því að sönnu kalla guðsgjöf og rétt notkun hennar felist í að beita henni gegn skaða og illsku í samfélaginu, er lokaniðurstaða Butlers.[xxxii

Gremjan stendur vörð um sjálfsvirðinguna

Jeffrie G. Murphy (1940-) er bandarískur réttarheimspekingur og hefur verið einn af þekktustu gagnrýnendum fyrirgefningarinnar um árabil.[xxxiii] Á fimmtán ára tímabili hefur hann fágað rök sín og skoðanir en áhugi hans á efninu vaknaði er hann vann að rannsóknum sem tengdust refsingu og hefnd. í skrifum sínum hefur hann ekki síst tekist á við skoðanir Josephs Butler og lengst af verið honum sammála hvað snertir skilning á fyrirgefningu sem því að láta af tilfinningum gremju og haturs. Á sama hátt og Butler áleit að gremja eigi sér siðferðilegar orsakir, álítur Murphy að fyrirgefning geti aðeins átt sér stað af ríkum siðferðisástæðum.[xxxiv] Nálgun Murphys á meira skylt við siðfræði Immanúels Kant en afleiðingasiðfræði Josephs Butler sem fjallað var um hér að framan. Segja má að Murphy sé á svipuðum slóðum og Nietzsche sem beindi kastljósinu að fórnarlömbum svívirðingar og benti á að fyrirgefning af hálfu þeirra væri tákn um veikleika. Þennan skilning þróar Murphy áfram í sínum skrifum sem hverfast um hugtökin sjálfsvirðingu og mannhelgi.

Í hnotskurn má segja að Murphy sé sammála Butler að miklu leyti hvað siðferðilegt gildi gremjunnar áhrærir en vilji breikka þá mynd sem hann dregur upp og gera einstaklingnum hærra undir höfði.[xxxv] Gremja, allt frá réttlátri reiði til réttláts haturs, hefur ekki aðeins það hlutverk að standa vörð um siðferðið og reglur samfélagsins almennt, eins og Butler heldur fram, skrifar hann. Hún er ekki síður nauðsynleg sem vörn fyrir mannhelgi og sjálfsvirðingu persónunnar. Meginstaðhæfingu Murphys í þessu sambandi, sem ber sterkan keim af skoðun Nietzsches eins og áður segir, má orða svo: Manneskja sem ekki upplifir gremju eftir svívirðingu eða misrétti gagnvart sér eða öðrum, manneskja sem fyrirgefur of fljótt, hefur ekki nægjanlega sjálfsvirðingu.[xxxvi] Með þessum orðum vill hann draga athygli að einstaklingnum og ekki aðeins samfélaginu líkt og Butler gerði. Siðferðið í samfélaginu er ekki hægt að aðgreina frá sjálfsvirðingu einstaklinga og virðingunni fyrir öðrum. Réttlætanlega gremju einstaklinga tengir Murphy, líkt og Butler, grimmdar- og níðingsverkum þar sem persónur eru svívirtar. Gremja einstaklinga er að hans mati andsvar við tvenns konar illverkum: beinum ofbeldisbrotum, eins og t.d. líkamsárás, og svo rangindum hins vegar, þar sem einstaklingur hefur beitt einhverjum fyrir sig í trássi við vilja viðkomandi og jafnvel án vitundar hans. í fyrra tilvikinu er mikilvægt að fórnarlambið tjái gremju sína gagnvart gerandanum en í því síðara er mikilvægt að allir borgarar sem hlýða landslögum geri það. Sjálfsvirðingu, sem gremjan stendur eðlilega vörð um, er heilbrigt að tjá í réttum aðstæðum, nefnilega þeim þar sem persóna hefur verið svívirt eða misvirt. Að tjá ekki gremju við slíkar aðstæður ber vott um vöntun á sjálfvirðingu.[xxxvii]

Augljóst er að Murphy á margt sameiginlegt með Nietzsche. Einnig virðist mér hann sammála þeim Logstrup og Derrida um að til sé eitthvað sem kalla megi ófyrirgefanlegt sem feli það í sér að fyrirgefningartal eigi sín takmörk. Hann hafnar því ekki að fyrirgefningin hafi mikið siðferðisgildi en það gildi er ekki æðra öllum öðrum gildum, að hans mati. Þvert á móti getur gildi þess að fyrirgefa rekist á önnur gildi sem eru jafn mikilvæg og jafnvel mikilvægari og þar nefnir hann sjálfsvirðinguna fyrst og fremst.[xxxviii] Enda þótt Murphy haldi á loft gildi gremjunnar fyrir sjálfsvirðingu einstaklinga, útilokar hann ekki fyrirgefninguna úr mannlegu samfélagi. Enginn vildi lifa í samfélagi sem myndi gera slíkt, segir hann, það væri óbærileg tilhugsun. Það sem þarf þó að aðgæta vel, bætir hann við, er hvernig má fyrirgefa, án þess að fórna sjálfsvirðingu sinni og þar með virðingu fyrir siðferðinu í samfélaginu.[xxxix] Svar hans um það hvernig megi tjá þetta á réttan hátt á ýmislegt sameiginlegt með hugleiðingum guðfræðinga um synd, sekt og fyrirgefningu. Iðrun hins brotlega er t.d. nauðsynleg forsenda fyrirgefningar. Án iðrunar brotamannsins er sjálfsvirðingu þolanda ógnað. Ef brotamaðurinn iðrast og fordæmir þau verk sem hann hefur framið – þá er möguleiki á fyrirgefningu af hálfu þess sem brotið var á. En Murphy er fremur raunsæismaður en bjartsýnismaður. Að slíkt gerist er harla ólíklegt, að því er hann telur. Heimurinn heldur áfram að vera fullur illsku og grimmdarverka, brotamenn iðrast ekki og á meðan svo er, er nauðsynlegt að halda fast við  gremjuna til að varðveita sjálfsvirðingu sína og virðingu siðferðisins. Það er heilög skylda manneskjunnar gagnvart sjálfri sér og mannlegri reisn sinni. Niðurstaða Murphys er því sú að í fallvöltum heimi illsku og fólskuverka sé gremjan nauðsynlegur hlífiskjöldur sjálfsvirðingarinnar og tákn hollustu í garð siðferðisins.[xl]

Ályktanir og niðurstaða

Það sem stendur upp úr eftir þessa umfjöllun um fyrirgefningu og gremju er tvennt. Í fyrsta lagi þykir mér að Logstrup hafi bent á leið til að forðast ofnotkun á hugtakinu fyrirgefningu og að sú leið forði því að krafa um fyrirgefningu þolenda verði þeim byrði og jafnvel kúgun. Fyrirgefningu skildi hann trúarlegum skilningi og tók hugtakið frá fyrir hið ófyrirgefanlega sem ekki er hægt að bæta. Þegar um er að ræða hversdagslegar yfirsjónir sem biðjast má afsökunar á og bæta fyrir er ekki nauðsynlegt að skírskota til fyrirgefningar. Hægt er að bæta fyrir og ná sáttum milli fólks án þess að blanda tali um fyrirgefningu í það uppgjör. Það getur hins vegar haft mikla þýðingu að tala um fyrirgefningu þegar þolendur svívirðingar upplifa að svo alvarlega hafi verið á þeim brotið að skaðinn sé óafsakanlegur og óbætanlegur. Það er þá ekki á þeirra valdi að fyrirgefa, heldur gæti Guð mögulega fyrirgefið slíkt. Það má leggja í hans hendur.

Hið síðara snertir vel ígrunduð rök þeirra Josephs Butler og Jeffries Murphy um siðferðilegt gildi gremjunnar. Rök beggja eru góð og gild og má nýta sem hvatningu til gagnrýninnar íhugunar um gildi fyrirgefningarinnar, ekki síst í samhengi þar sem hún virðist jaðra við að verða merkingarlaus. Hvorugur þeirra heldur fram eigingildi gremjunnar gegn fyrirgefningunni. Þvert á móti eru þeir jákvæðir í garð fyrirgefningarinnar sem dygðar, fyrirgefandi einstaklinga og fyrirgefandi samfélags, en hvetja til siðferðilegrar yfirvegunar og skynsemi í því sambandi. Á gremjuna líta þeir sem hlífiskjöld gegn illsku og svívirðingu. Í augum Butlers er gremjan guðsgjöf. Siðferðilega rétt notkun hennar felst í að beita henni gegn skaða og illsku í samfélaginu. Murphy lítur á gremju sem tákn um sjálfsvirðingu og umhyggju fyrir mannhelgi jafnframt því sem hún er nauðsynlegt tæki til að viðhalda virðingu fyrir siðferðinu. Gremja, í augum beggja, er ekki góð sjálfrar sín vegna, heldur vegna mannhelgi persónunnar og hins siðferðilega samfélags. Bæði þessi sjónarmið virðast mér gagnleg og réttlætanleg í nútíma samfélagi. Að lokum: Að fyrirgefa ekki – eða seint um síðir – er aldrei sjálfstætt siðferðilegt markmið heldur er það bjargráð til að standa vörð um siðferðileg gildi.

Útdráttur

Greinin fjallar um stef fyrirgefningar og gremju og varpar ljósi á skilning á þessum fyrirbærum innan trúarbragða heimsins, í guðfræðilegri og heimspekilegri orðræðu á 20. öld og í nýlegri, íslenskri orðræðu. Athyglin beinist að skilningi þeirra Knuts Logstrup, Josephs Butler og Jeffries Murphy en tveir þeir síðarnefndu fjalla um gildi gremjunnar fyrir siðferðið, samfélagið og einstaklinginn meðan sá fyrstnefndi álítur að ekki eigi að tala um fyrirgefningu nema þegar um er að ræða það sem menn geta ekki fyrirgefið. Hið ófyrirgefanlega er svo alvarlegt að aðeins Guð getur mögulega fyrirgefið það.

Abstract

The article deals with the theme of forgiveness and resentment, and sheds light on these phenomena in the world of religion, in theological and philosophical discourse of the 20th century, and a more recent Icelandic discourse. Attention is directed to the understanding of Knut Logstrup, Joseph Butler and Jeffrie Murphy. Two the latter consider that resentment has value for morality, community as well as the individual while the former thinks that one should not talk about forgiveness at all, except in cases of the unforgivable. The unforgivable is so serious that the only one who can possibly forgive that is God.

Heimildaskrá

[i] Desmond Tutu, No Future Without Forgiveness, New York: Doubleday, 1999, bls. 31.

[ii] Joseph Butler, Fifteen Sermons, Charlottesville, Virginia: Ibis Publishing 1987, [London 1726].

[iii] Michael E. McCullough, Kenneth I. Pargament og Carl E. Thoresen (ritstj.), Forgiveness. Theory, Research, and Practice, „Religious Perspective on Forgiveness“, Mark S. Rye, Kenneth I. Pargament, M.Amir Ali, Guy L. Beck, Elliot N. Dorff, Charles Hallisey, Vasudha Narayanan & James G. Williams, New York, London: The Guilford Press, 2000, bls. 22.

[iv] Sama heimild, bls. 29-30, 32, 34-35.

[v] Sama heimild, bls. 31.

[vi] Sama heimild, bls. 21.

[vii] Sama heimild, bls. 20, 23-24.

[viii] Tormod Kleiven, „- Slik som vi tilgir våre skyldnere“, Praktisk teologi, 2011:1, (bls. 40-50), hér 40

[ix] Michael E. McCullough, Kenneth I. Pargament og Carl E. Thoresen (ritstj.), Forgiveness. Theory, Research, and Practice, „Religious Perspective on Forgiveness“, bls. 24-25, 33.

[x] John M. Cooper & J.F. Procopé (ritstj.), Seneca. Moraland Political Essays, Cambridge: Cambridge University Press, 2003, (1995) bls. 164.

[xi] Í Lúkasarguðspjalli er Guð beðinn um að fyrirgefa syndir en í Matteusarguðspjalli er hann beðinn að fyrirgefa skuldir. Í báðum tilvikum er talað um að menn fyrirgefi hver öðrum skuldir/syndir eða eigi að gera það.

[xii] FrederickW. Keene, „Structures of Forgiveness in the New Testament“, Violence against Women and Children. A Christian Theological Sourcebook, Carol J. Adams og Marie M. Fortune (ritstj.), New York: Continuum, 1995, bls. 121-134.

[xiii] Sama heimild, bls. 129-130.

[xiv] Hér má taka mörg dæmi en látið verður nægja að vísa til umræðu um þetta efni í tveimur greinum eftir Sólveigu Önnu Bóasdóttur, „Kirkjan og kynferðislegt ofbeldi. Gerendur kynferðislegs ofbeldis – frá guðfræðilegu og siðfræðilegu sjónarhorni“, Ritröð Guðfræðistofnunar, 2010:2, bls. 144-161, hér 153-156 og „Ábyrgð og réttlát viðbrögð gagnvart þolendum kynferðisofbeldis. Guðfræðilegt og siðfræðilegt sjónarhorn“, Ritröð Guðfræðistofnunar, 2011:1, bls. 97-117, hér 112-115.

[xv] Fyrirgefning og sátt, Edda Möller og fl. (ritstj.), Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 2009.

[xvi] Sama heimild, bls. 27, 282, 13, 64.

[xvii] Gunnar Hersveinn, Gæfuspor. Gildin í lífinu, Reykjavík: JPV útgáfa, 2005, bls. 20-25.

[xviii] Fyrirgefning sem lyf eða fyrirgefning sem hreinsun leiðir hugann að vinsælum „detox“-aðferðum sem algengar eru nú um stundir. Forsenda slíkrar hreinsunar er að líkaminn (eða sálin) sé sjúkur og hreinsun hans geti skipt sköpum. Sjúkdómsvæðing reiðinnar er verðugt umhugsunarefni sem verður þó ekki farið nánar út í hér.

[xix] Hér má nefna Marie M. Fortune sem hefur áratuga reynslu af meðferðarvinnu með þolendum heimilis- og kynferðisofbeldis, sjá t.d. grein hennar „Preaching Forgiveness?“, Telling the Truth. Preaching about sexual and domestic violence, John S. McClure og Nancy J. Ramsay (ritstj.), Cleveland, Ohio: United Church Press, 1998, bls. 49-57.

[xx] Dietrich Bonhoeffer, Efterföljelse, þýðandi Ylva Eggehorn, Stockholm: Gummessons, 1978, bls. 14, Sólveig Anna Bóasdóttir, „Ábyrg og réttlár viðbrögð gagnvart þolendum kynferðisofbeldis. Guðfræðileg og siðfræðilegt sjónarhorn“, Ritröð Guðfræðistofnunar, 2011:1, bls. 97-117, hér 112.

[xxi] Friedrich Nietzsche, On the Genealogy of Morals, Essay I, Section 10, þýðing Walter Kaufmann, New York: Random House, 1967 (1887), bls. 39.

[xxii] Knut E. Logstrup, Det etiska kravet, Göteborg: Daidalos, 1992, (1956), bls. 240; Jacques Derrida, On Cosmopolitanism and Forgiveness, London, New York: Routledge, 2003, bls. 32.

[xxiii] Knut E. Logstrup, Det etiska kravet, bls. 240-241.

[xxiv] Freistandi hefði verið að tengja skilning Logstrups við túlkun Hönnu Arendt (1904-1975) á fyrirgefningu í bókinni Responsibility and Judgment, New York: Schocken books, 2003, en það verður ekki gert í þessari grein. Arendt hafði þá skoðun að það sem ekki væri hægt að refsa fyrir væri ekki heldur hægt að fyrirgefa og vísaði þar til grimmdarverka nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Þessi túlkun liggur óneitanlega mjög nálægt skilningi Logstrups.

[xxv] Joseph Butler, Fifteen Sermons, bls. 92-101.

[xxvi] Hér er átt við að það virðist innbyggð mótsögn fólgin í því að góður Guð geti skapað eitthvað neikvætt og slæmt í manninum. Guðsvörn felst í því að færa rök gegn því að um innri mótsögn sé að ræða.

[xxvii] Joseph Butler, Fifteen Sermons, bls. 111-113.

[xxviii] Sama heimild, bls. 94-95.

[xxix] Sama heimild, bls. 96.

[xxx] Sama heimild, bls. 96-97.

[xxxi] Sama heimild, bls. 98.

[xxxii] Sama heimild, bls. 100.

[xxxiii] Ann Heberlein, Kränkningar och förlåtelse. En etisk studie med hansyn till föreställningar om offer, förövare, skuld och ansvar, Stockholm: Thales, 2005, bls. 72-73.

[xxxiv] Jeffrie G. Murphy & Jean Hampton, Forgiveness and Mercy, Cambridge: Cambridge University Press, 1988. Til að útlista hverjar þær ástæður væru setti Murphy fram lista með fimm röksemdum sem hver um sig gæti réttlætt fyrirgefningu. Þann lista endurskoðaði hann síðar. Hér verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum, þar sem það fellur utan þess sem greinin hverfist um, en látið nægja að benda á það atriði sem Murphy hefur haldið nokkuð fast við frá upphafi sem er réttlætanleg gremja.

[xxxv] Jeffrie G. Murphy & Jean Hampton, Forgiveness and Mercy, bls. 16.

[xxxvi] Jeffrie G. Murphy, „Forgiveness and Resentment“, Midwest Studies in Philosophy 1982:7, bls. 504-505.

[xxxvii] Jeffrie G. Murphy, Getting Even. Forgiveness and its Limits, Oxford, NewYork: Oxford University Press, 2003, bls. 16-19.

[xxxviii] Sama heimild, bls. 115.

[xxxix] Sama heimild, bls. 33-35.

[xl] Sama heimild, bls. 20.

 

Share This