Vor 2015

Umræðukvöld Rótarinnar eru að jafnaði einu sinni í mánuði í Kvennaheimilinu á Hallveigarstöðum, Túngötu 14, kl. 20-21.20.

21. janúar – Þingmenn heimsækja Rótina. Helgi Hrafn Gunnarsson, Pírötum, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Framsóknarflokki, Oddný Harðardóttir, Samfylkingu, Vilhjálmur Bjarnason, Sjálfstæðisflokki, Róbert Marshall, Bjartri framtíð, Steinunn Þóra Árnadóttir, Vinstri grænum, komu í heimsókn til Rótarinnar. Talskona félagsins, Kristín I. Pálsdóttir, flutti erindi og fulltrúar allra þingflokka fluttu stutta framsögu og svo voru almennar pallborðsumræður. Fundarstjóri var Margrét Marteinsdóttir.

18. febrúar – Fíknigeðdeild geðsviðs, þjónusta er í boði og markhópur. Hjördís Björg Tryggvadóttir sálfræðingur og teymisstjóri á Teigi. Hjördíslauk BA prófi í sálfræði frá HÍ 1998. Eftir útskrift vann hún á svefnrannsóknastofu geðsviðs Landspítala, fyrst við rannsókn á svefni ofvirkra barna og svo fyrst og fremst við klínískar svefnrannsóknir. 2003 lauk hún Cand. Psych. námi við HÍ og hóf strax eftir útskrift að vinna á Teigi á geðsviði Landspítala. Þar var og er rekin eftirmeðferð fyrir fólk með áfengis og vímuefnavanda. Árið 2004 var ákveðið af yfirstjórn geðsviðs LSH að breyta meðferðar­stefnu deildarinnar og þróa úrræði sem byggði á hugrænni atferlismeðferð og áhugahvetjandi samtali. Hjördís tók frá upphafi þátt í þeirri vinnu og tók síðar við verkefnastjórastöðu sálfræðinga á deildinni og síðar teymisstjórn deildarinnar. Á umræðukvöldinu mun Hjördís segja frá fíknigeð­deild geðsviðs, hvaða þjónusta er í boði þar og hver er markhópur deildarinnar er. Aðal áherslan í erindinu var á innihald meðferðarinnar á Teigi og þær ástæður sem liggja til grundvallar þeirri meðferðarstefnu sem þar er.

26. mars – Stofnfundur fræðslusjóðs Rótarinnar. Stofnun sjóðsins er möguleg vegna stofnframlaga þeirra sem vilja halda nafni Önnu Kristínar Ólafsdóttur stjórnsýslufræðings á lofti og hafa staðið að söfnun í sjóðinn. Anna Kristín lést aðeins 49 ára gömul vorið 2013. Hún var kvenfrelsiskona og alla tíð baráttukona fyrir bættri stöðu kvenna og barna. Fræðslusjóði Rótarinnar er ætlað, í samræmi við markmið félagsins, að kosta rannsóknir viðurkenndra aðila á viðfangsefnum sem snerta konur, fíkn og áföll og að nýtast til fræðslustarfs og ráðstefnuhalds. Á fundinum hélt Þórunn Sveinbjarnardóttir hvatamanneskja að stofnun sjóðsins erindi og Kristín I. Pálsdóttir talskona Rótarinnar flutti erindi um tilurð og markmið Rótarinnar.

8. apríl – Al-Anon fjölskyldusamtökin og mótun nýrrar sjálfsmyndar. Björk Guðjónsdóttir vinnur að doktorsritgerð um Al-Anon-samtökin kom til okkar og sagði frá henni. Ritgerðin byggist á mannfræðilegri, eigindlegri og femínískri rannsókn.

20. maí Aðalfundur og fyrirlestur Arnþrúðar Ingólfsdóttur. Arnþrúður er tónlistarkona og kynjafræðingur sem skrifað hefur áhugaverðar greinar um geðheilsu og nálgun lækna og heilbrigðiskerfisins á konum með geðrænan vanda. Erindi aðalfundar verður í höndum Arnþrúðar Ingólfsdóttur og nefnist: „„Það ýtir undir þunglyndi að vera lægra settur“. Orðræða geðlækna um konur, kyn og þunglyndi.“ Arnþrúður er með BA-próf í heimspeki og lauk MA-prófi í kynjafræði við Utrecht Háskóla og Central European University í Búdapest árið 2010 með ritgerðinni: „„Our brains are a bit more sensitive“, the biocultural potential in psychiatrists‘ discourse on women, depression and sexual difference.“ Arnþrúður hefur reynslu af geðheilbrigðiskerfinu sem fræðikona en einnig sem bæði starfsmaður og notandi geðsviðs Landspítalans. Hún gaf út plötuna „My brain“ árið 2013 og starfar nú sem jafnréttisráðgjafi hjá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Í fyrirlestrinum mun Arnþrúður greina frá niðurstöðum MA-verkefnis síns þar sem hún tók viðtöl við fimm geðlækna á geðsviði Landspítalans og rannsakaði hvað þeir telji orsaka tvöfalt tíðara þunglyndi kvenna. Greining viðtalanna er sett í samhengi við ágrip af þróun geðlæknisfræðinnar á seinni hluta 20. aldar í átt að líffræðilegri nálgun á geðsjúkdóma. Einnig verður fjallað um nýlega strauma í femínískum kenningum sem leita í brunn þróunarsálfræðinnar um hugtök sem brúa bilið milli líffræðilegra og félags- og menningarlegra skýringa á geðsjúkdómum.

Share This