14. mars 2017

floskurUmsögn Rótarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum (smásala áfengis). Þingskjal 165 – 106. mál.

 Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda – leggst alfarið gegn þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á fyrirkomulagi smásölu á áfengi samkvæmt ofnagreindu frumvarpi.

Óþarfi er að telja upp allan þann skaða sem áfengi veldur einstaklingum og samfélögum í þessari umsögn, aðrir verða örugglega til þess, en það er nóg að benda á staðreyndir á síðu Alþjóðaheilbrigðis-málastofnunarinnar um þann skaða. Þar kemur m.a. fram að tæp 6% dauðsfalla á heimsvísu eru af völdum áfengis og að 25% dauðsfalla í aldurshópnum 20-39 ára er af völdum áfengis. Neyslan hefur einnig víðtæk áhrif á heilsufar og fylgni er á milli neyslu áfengis og tíðni fjölda geðsjúkdóma. Þá segir að skaðleg neysla alkóhóls valdi bæði félags- og fjárhagslegum skaða hjá einstaklingum og samfélagi. Áfengi er hugbreytandi efni sem er ávanabindandi og hefur gríðarleg heilsufarsleg, félagsleg og efnahagsleg áhrif á samfélög.

Áfengisvandi er því eitt stærsta heilbrigðisvandamál sem jarðarbúar glíma við og fleiri alþjóðlegar og þjóðlegar stofnanir vinna að því að minnka heildarneyslu áfengis og skaða af völdum hennar. Áfengisvandi og misnotkun hefur einnig verið eitt helsta forgangsverkefni þeirra sem bæta vilja geðheilbrigði.[1]

Eins og fram kemur í samantekt Lýðheilsustofnunar úr bókinni Áfengi – engin venjuleg neysluvara frá 2005[2] er áfengi sannarlega engin venjuleg neysluvara. Í bókinni er einnig fjallað um samfélagslegt tjón sem hlýst af neyslu áfengis, bæði heilsufarslegt og félagslegt og þar segir: „Tengsl milli áfengisvímu og skaða eru þó skýr og greinileg, sérstaklega hvað varðar ofbeldi, umferðarslys eða önnur slys.“

Í þeim löndum þar sem áfengi er mikilvæg framleiðsluvara hafa lýðheilsusjónarmið átt undir högg að sækja en sjónarmið þeirra sem hafa tekjur af áfengisneyslu verið ráðandi. Á Íslandi höfum við notið þess að hagsmunaaðilar hafa ekki verið mjög mikilvirkur þrýstihópur hingað til og því hefur lýðheilsu-sjónarmiðum verið gert frekar hátt undir höfði í áfengisstefnu. Á þessu eru þó að verða miklar breytingar með aukinni framleiðslu á áfengi innanlands.

Rannsóknir benda sterklega til þess að auglýsingar og markaðssetning á áfengi hafi mikil áhrif á neyslu ungmenna á því.[3] Konur hafa verið markhópur áfengisframleiðenda frá því um miðja síðustu öld. Tilgangur auglýsinga er að kynna og skapa nýja eða aukna eftirspurn í vörur og þjónustu. Auglýsingar hafa áhrif á kauphegðun einstaklinga og geta vakið upp þörf og ýtt undir löngun í ákveðna vöru.

Annar heimsfaraldur sem ógnar heilsu og hamingju fólks, ekki síst barna og kvenna, er ofbeldi. Kynbundið ofbeldi er til umræðu í öllum helstu alþjóðastofnunum, hjá Sameinuðu þjóðunum, Evrópu-sambandinu, Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, Amnesty International og hjá Alþjóðabankanum.[4] Land-læknisembætti, ráðuneyti, samtök, stofnanir og grasrótarhreyfingar vinna svo á landsvísu að því að sporna við þessari ógn gagnvart hamingju og heilbrigði sem fíknivandi er og sem oft er líkt við faraldur.

Neysla áfengis– og fíkniefna hefur margvísleg skaðleg áhrif á samfélag, fjölskyldur og einstaklinga. Bandarísk heilbrigðisyfirvöld benda á að áhrif vímuefnaneyslu eigi þátt í og auki á samfélagskostnað, sé stór áhrifaþáttur í líkamlegum, andlegum og heilsufarslegum vanda þ.m.t. þungunum unglinga, alnæmi og öðrum kynsjúkdómum, heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi gagnvart börnum, umferðar-slysum, slagsmálum, glæpum, morðum og sjálfsmorðum.

Ísland hefur nýlega leitt í lög svokallaðan Istanbúl-samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi og er unnið að fullgildingu hans.

Markmið samningsins eru:

að; vernda konur gegn öllum tegundum ofbeldis og að koma í veg fyrir, ákæra og útrýma ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi; leggja af mörkum til að eyða burt öllum tegundum mismununar gegn konum og stuðla að jafnrétti kvenna og karla; stuðla að alþjóðlegri samvinnu til að útrýma ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi og veita stofnunum og löggæsluyfirvöldum stuðning og aðstoð til að berjast gegn þessum málum.[5]

Það skýtur því skökku við að nú standi til að leiða í lög breytingar sem munu samkvæmt bestu þekkingu ganga í berhögg við markmið Istanbúl-samningsins.

Ýmsar leiðir stuðla að því að koma í veg fyrir ofbeldi og eins og segir í skýrslunni Violence prevention the evidence frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni[6] þá hafa rannsóknir sýnt hvaða aðferðir duga best til þess. Í lista yfir sjö leiðir að því marki að koma í veg fyrir ofbeldi er þriðja atriðið sem nefnt er að: „Draga úr aðgangi og skaðlegri notkun áfengis“ (ens. Reducing the availability and harmful use of alcohol.)

Í skýrslunni kemur fram að skaðleg neysla alkóhóls sé stór áhrifaþáttur þegar kemur að ofbeldi og að rannsóknir hafi sýnt að aðgangshindranir að áfengi s.s. með stýringu á verði, sölustöðum og verði dragi úr ofbeldishegðun. Þá segir að komið hafi í ljós fylgni á milli styttri opnunartíma útsölustaði og minna ofbeldis og hærra ofbeldis og þéttara nets útsölustaða.

Í skýrslu um samstarfsverkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborgar og fleiri aðila „Saman gegn ofbeldi“ segir:

Þátttakendur í verkefninu telja almennt að fíkn sé í mörgum tilfellum nátengd heimilisofbeldismálum og margir telja einnig að það þurfi að fást við geðræn vandamál á heildrænni hátt í þessu samhengi. Gögn frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sýna að brotaþolar voru ölvaðir eða undir áhrifum í 92 málum, eða í um fjórðungi þeirra mála sem upp komu og gerendur voru ölvaðir eða undir áhrifum í 189 málum sem er hátt í helmingur málanna.[7]

Ríkisstjórnin ber ábyrgð á lýðheilsu landsmanna. Hún ber sérstaka ábyrgð á því að verja börn og unglinga fyrir þrýstingi um neyslu varnings eins og áfengis sem getur valdið heilsuvanda og haft aðrar neikvæðar afleiðingar. Aukin markaðssetning á áfengi og aukið aðgengi gengur gegn þessari ábyrgð. Við teljum að frumvarpið gangi í þveröfuga átt og muni lítið gott leiða af sér, nema ef vera skyldi meiri veltu fyrir ákveðna hagsmunaaðila. Það er skoðun okkar Rótarkvenna að hagur almennings og viðurkennd lýðheilsusjónarmið vegi mun þyngra en þröngir hagsmunir þeirra sem versla með áfengi.

Við í Rótinni viljum miklu frekar sjá löggjafann stuðla að minnkuðum skaða af völdum áfengisneyslu sem hefur margvíslegan heilsufarslegan, félagslegan og efnahagslegan skaða í för með sér.

Gagnlegra væri ef Alþingi beitti sér frekar að úrbótum í meðferðar- og velferðarþjónustu fyrir þá sem glíma við afleiðingar skaðlegrar áfengisneyslu með fjölbreyttu, nútímalegu framboði úrræða og snemmtækri íhlutun til að draga úr kostnaði samfélagsins vegna skaðlegrar neyslu í stað þess að stuðla að aukinni neyslu.

Rótarkonur leggjast því eindregið gegn því að frumvarpið verði að lögum.

F.h. Rótarinnar,

Kristín I. Pálsdóttir, talskona

[1] Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. 1998. „Skýrsla starfshóps um stefnumótun í málefnum geðsjúkra.“ Vefslóð: http://www.velferdarraduneyti.is/media/Gedskyrsla/53kafli.pdf

[2] Lýðheilsustöð. 2005. „Áfengi – engin venjuleg neysluvara.“ Vefslóð: http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item10424/Afengi_engin_venjuleg.pdf

[3] Center on Alcohol Marketing and Youth. E.d. Alcohol Adverticing and Youth. Sjá: http://www.camy.org/resources/fact-sheets/alcohol-advertising-and-youth/.

[4] The World Bank. 2011. „The silent global epidemic: domestic violence against women.“ Vefslóð: http://blogs.worldbank.org/youthink/silent-global-epidemic-domestic-violence-against-women

[5] Gunnar Narfi Gunnarsson. 2012. Skýrsla um samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi og aðlögun íslenskra laga og reglna vegna aðildar. Útg. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands.

[6] World Health Organization. 2010. „Violence prevention. The evidence.“ Vefslóð: http://www.who.int/violence_injury_prevention/violence/4th_milestones_meeting/evidence_briefings_all.pdf?ua=1.

[7] Erla Hlín Hjálmarsdóttir og fl. Saman gegn ofbeldi. Úttekt á samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn heimilisofbeldi. Sjá: https://rikk.hi.is/wp-content/uploads/Lokauttekt_Saman_gegn_ofbeldi_FIN.pdf.

Umsögnin á PDF-formi.

Share This