Starfsfólk

Leiðbeinendur og verkefnisstjórn á námskeiðum og hópum Rótarinnar:

Guðrún Ebba Ólafsdóttir er grunnskólakennari með diplóma í starfstengdri leiðsögn. Saga hennar, Ekki líta undan, kom út 2011. Guðrún Ebba sat í stjórn Blátt áfram og stofnaði ásamt fleiri konum Drekaslóð og Rótina. Hún hefur leitt hópa fyrir Stígamót og Drekaslóð. Guðrún Ebba var um árabil í forystu Kennarasambands Íslands, m.a. sem varaformaður, en einnig fyrsti formaður Félags grunnskólakennara. Hún sat í borgarstjórn Reykjavíkur sem kjörinn fulltrúi 2002-2006 og sat m.a. í borgar-, velferðar- og fræðsluráði borgarinnar auk einnar áfrýjunarnefndar. Guðrún Ebba stýrði vinnu um heildarendurskoðun laga um grunnskóla sem tóku gildi 2008. Hún hefur tekið þátt í erlendu samstarfi og verkefnum. Hún þýddi tvær handbækur fyrir kennara og skólastjóra sem Menntamálastofnun gefur út: Viðkvæm álitamál og nemendur og Stjórnun á tímum ágreinings og átaka. Guðrún Ebba hefur þýtt handbækur og vinnu- og verkefnabækur á námskeiðum frá Stephanie Covington og einnig skrifað handbækur fyrir fleiri námskeið á vegum Rótarinnar. Hún kennir lífsleikni í 7. og 8. bekk Laugalækjarskóla auk vinnu sinnar fyrir Rótina.

Kristín I. Pálsdóttir er með BA-próf í sænsku og ferðamálafræði, MA-próf í ritstjórn og útgáfufræðum frá Háskóla Íslands og Professional Certificate í konum og vímuefnanotkun frá University College Dublin. Hún hefur verið þátttakandi í margvíslegu grasrótarstarfi t.d. ráði Femínistafélags Íslands frá 2009-2012, sat í starfshópi velferðarráðherra um heildstæða áfengis- og vímuvarnastefnu 2012-2013, í Jafnréttisráði frá 2015-2018 og leiddi starfshóp félagsmálaráðherra um meðferð fyrir stúlkur með áhættuhegðun árið 2021. Hún starfaði sem verkefnisstjóri RIKK, Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum í Háskóla Íslands frá 2014-2020. Kristín hefur verið verkefnisstjóri fjölda ráðstefna, hérlendis og erlendis, og skrifað ritrýndar greinar, m.a. „Fíknivandi kvenna og meðferð við honum“ í Geðvernd, rit Geðverndarfélags Íslands, (44. árg. 2015). Hún er ein af höfundum skýrslnanna „Saman gegn ofbeldi: úttekt á samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn heimilisofbeldi“ (RIKK, 2016) og „Átak gegn heimilisofbeldi: úttekt á samstarfsverkefni sveitarfélaganna Kópavogs, Hafnarfjarðar og Garðabæjar og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn heimilisofbeldi“ (RIKK, 2017). Kristín er talskona og framkvæmdastjóri Rótarinnar.

Guðrún Ebba og Kristín sitja í ráði Rótarinnar.

Share This