Margrét Gunnarsdóttir og Margrét Valdimarsdóttir voru kjörnar í ráð Rótarinnar á aðalfundi þriðjudaginn 16. maí.

Aðalfundur Rótarinnar var haldinn þriðjudaginn 16. maí 2017, kl. 20, í Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum.
Kristín I. Pálsdóttir, talskona félagsins, kynnti skýrslu ráðsins fyrir liðið starfsár. Stærsti viðburður ársins var málþingið „Heggur sá er hlífa skyldi?“ Málþing um samfélagslega ábyrgð gagnvart þolendum kynbundins ofbeldis sem haldið var föstudaginn 4. nóvember. Boðið var upp á námskeið um áföll fyrir konur sem um 70 konur sóttu sl. haust og Rótin sendi frá sér ályktanir, umsögn um áfengisfrumvarpið og tók þátt í Kvennafríi 2016 með öðrum kvennahreyfingum. Einnig sendu ráðskonur frá sér greinar á liðnu starfsári og komu fram í viðtölum í fjölmiðlum. Félagið aflaði styrkja til verkefna félagsins og ráðskonur heimsóttu, skóla stofnanir og fleiri staði. Nánari upplýsingar er að finna í ársskýrslu félagsins.
Árdís, gjaldkeri, kynnti svo reikninga félagsins og er fjárhagsleg staða þess góð og reikningar voru samþykktir samhljóða.
Kosið var í ráð félagsins en sjö af níu konum í ráðinu gáfu kost á sér til áframhaldansi setu í ráðinu.  Þær eru: Árdís Þórðardóttir, Áslaug Kristjana Árnadóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Gunný Ísis Magnúsdóttir, Katrín Guðný Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, og Þórlaug Sveinsdóttir.
Margrét Gunnarsdóttir og Margrét Valdimarsdóttir koma nýjar inn í ráðið og eru þær boðnar velkomnar. Gunnhildur Bragadóttir sem starfað hefur í ráðinu frá stofnun félagsins bauð sig ekki fram til áframhaldandi setu og Heiða Brynja Heiðarsdóttir hætti í lok nóvember og eru þeim þökkuð sín störf fyrir félagið.
Vararáð er óbreytt frá fyrra ári þar sem þær Edda Arinbjarnar, Guðrún Kristjánsdóttir og Lísa Kristjánsdóttir halda áfram.
Lögð var fram tillaga að starfsáætlun fyrir næsta starfsár og þar stendur hæst ráðstefna um konur, fíkn, áföll og meðferð sem haldin verður í febrúar eða mars 2018. Undirbúningur ráðstefnunnar verður í höndum Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum – RIKK – en Rótin mun þó að mestu sjá um fjármögnun hennar. Síðast hélt Rótin ráðstefnu haustið 2015 og tókst hún gríðarlega vel.
Áfram er áætlað að halda úti umræðukvöldum en hafa þau eitt til tvö á að hausti og eins að vori. Námskeið um áföll heppnaðist mjög vel haustið 2016 og greinilega er áhugi á því að fá slíka fræðslu. Þá hefur verið unnið að stofnun sjálfshjálparhópa og starfshópa innan félagsins.
Við höldum svo áfram að heimsækja stofnanir og sérfræðinga til að kynna okkur og kynnast starfsemi og fylgja eftir erindum til stjórnvalda og ýta á auknar gæðakröfur og –eftirlit í meðferðargeiranum og að mótuð verði stefna og klínískar leiðbeiningar fyrir meðferð kvenna samkvæmt bestu þekkingu.
Eftir slit aðalfundar horfðu fundargestir á heimildarmyndina The 13th Step eftir Monicu Richardson. Mjög áhrifamikil mynd um AA-samtökin í Bandaríkjunum.

Glærurkynningu af aðalfundi má nálgast hér.

Share This