Áfengisvandi kvenna og karla er að mörgu leyti ólíkur. Til dæmis hefur sama magn af áfengi (miðað við þyngd) meiri áhrif á konur (af því að maginn á þeim síar alkahól ekki eins vel og maginn á karlmönnum), konur eru oft með meiri aukaverkanir af lyfjum en karlar (og oft er erfitt að greina þessar aukaverkanir og því er oftar horft fram hjá þeim), áfengisvandi virðist þróast hraðar hjá konum, áhrif hans geta verið meiri og flóknari hjá þeim. Þær bera mikla ábyrgð bæði í starfi og innan fjölskyldunnar og breytt hlutverk kvenna í samfélaginu geta skapað erfiðleika við að fá nægjanlegan stuðning til bata (til dæmis sækja konur síður í meðferð en karlar).

Þegar litið er til annarra efna- eða hegðunarfíknar, eins og spilafíknar, virðist sami mismunur vera til staðar. Að því leyti sem konur eru líffræðilega, félagslega, sálfræðilega eða á annan hátt ólíkar karlmönnum má búast við mismunandi áhrifum fíknar á þær. Að því gefnu að við höfum að ekki ennþá greint og skilið muninn á konum og körlum eigum við væntanlega eftir að læra ýmislegt um muninn á fíknivanda þeirra.

Þýðir þessi mismunur að konur þurfi öðruvísi meðferð en karlar? Þau gögn sem hingað til hafa verið aðgengileg styðja það að konur og karlar þurfi mismunandi meðferð. Því miður er lítið til af rannsóknum sem fjalla um þetta efni. Við skulum samt íhuga hvernig góð almenn meðferð gæti litið út og síðan hvernig góð meðferð fyrir konur ætti þá að vera.

Allir sem fara í meðferð þurfa góða meðferð. Góð meðferð (við hvaða tilfinninga- og/eða hegðunarvanda sem er) miðast við einstaklingsbundnar þarfir, markmið og aðstæður (og breytist eftir því sem þessi atriði breytast). Í góðri meðferð er einstaklingurinn meðhöndlaður af virðingu, samkvæmt leiðbeiningum um góða meðferð (s.s. hæfir meðferðaraðilar, upplýst samþykki, trúnaður), þarfir einstaklingsins eru settar ofar hagsmunum meðferðaraðilans og hún byggist að öðru leyti á viðmiðum um góða umönnun.

Því miður er það þannig í Bandaríkjunum að stór hluti meðferðarþjónustu stendur ekki undir þessum væntingum. Meðferð í Bandaríkjunum er oft ein-stærð-fyrir-alla, þar sem meðferðaraðilar segja jafnvel beint út „sestu, þegiðu og gerðu eins og ég segi þér.“ Virðing fyrir einstaklingnum, upplýst samþykki, velferð sjúklingsins og aðrar mikilvægar meginreglur eru oft ekki sýnilegar í daglegum störfum.

Ef við hugsum okkur góða meðferð fyrir konur, þá er sú meðferð að sjálfsögðu ekki eins og sú sem aðrar konur eða menn fá. Eins og áður segir er góð meðferð einstaklingsmiðuð að einstökum þörfum kvenna, markmiðum þeirra og aðstæðum. Þarf hún til dæmis meiri hjálp með börnin sín (á meðan á meðferð stendur eða eftir hana)? Er hún beitt líkamlegu ofbeldi? Ef um skilnað við maka er að ræða, er verið að taka á fjármálum hennar? Á hún sögu um áfall/nauðgun, ekki síst sögu sem hún hefur ekki treyst neinum fyrir (en drekkur/notar til að glíma við)? Eru heilbrigðisvandamál hennar að fullu greind af meðferðaraðilum sem hafa nægjanlega reynslu og þolgæði til að greina þau og meðhöndla? Er mismunun og áreiti sem hún verður fyrir á vinnustað eða annarsstaðar veitt nægileg athygli þegar reynt er að skilja hvaða spenna það er sem gerir fíknina að aðlaðandi flóttaleið fyrir hana? Ef að hún er að ala upp börn með maka, er ójöfn skipting húsverka að ganga á krafta hennar og er viðvarandi vandi sem ekki er tekið á í sambandinu? Hversu gott er félagsnetið hennar? Það þarf að samanstanda af konum, í bata eða ekki, sem geta stutt persónulegan þroska hennar. Ef að vinna og fjölskylda krefjast óhóflega stórs hluta af tíma hennar fær hún þá stuðning til að skapa sér tíma fyrir sig sjálfa, samband sitt og þroska?

Það getur verið erfitt að nálgast ofnagreind viðfangsefni í hópmeðferð, sem og mörg önnur mál sem konur koma með í meðferð. Ef kona getur ekki farið í meðferð sem er algjörlega einstaklingsmiðuð (þ.e. meðferð sem byggist aðallega á einstaklingsviðtölum þar sem hóptímar eru líka í boði) þá er þess virði að íhuga meðferð sem er eingöngu fyrir konur. Jafnvel þó að meðferðaraðilarnir hafi ekki tíma til að hjálpa konum með þeirra sérstöku þarfir, markmið og aðstæður, þá er möguleiki á því að aðrar konur í meðferðinni geti komið til hjálpar.

Höfundur greinarinnar er Tom Horvarth Phd., ABPP, stofnandi Practical Recovery í Bandaríkjunum. Greinin er þýdd og birt með góðfúslegu leyfi Practical Recovery og hana má lesa á ensku á heimasíðu þeirra.

Share This