Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda – var stofnuð hinn 8. mars 2013 en tilgangur félagsins er að „stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll og ofbeldi“ eins og segir í markmiðsgrein félagsins.

Rótin stendur að ráðstefnu um konur, fíkn, áföll og meðferð í samvinnu við RIKK- Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum, Jafnréttisstofu og fleiri aðila hinn 1. og 2. september 2015 á Grand hóteli í Reykjavík. Á ráðstefnunni verða fyrirlesarar frá Bandaríkjunum, Svíþjóð, Grænlandi og Íslandi. Við viljum sérstaklega vekja athygli á aðalfyrirlesara ráðstefnunnar, Stephanie Covington, sem er höfundur bókarinnar A Woman’s Way through The Twelve Steps og frumkvöðull í rannsóknum og vinnu með sérstakan vanda kvenna að því er varðar fíkn. Einnig verður vinnustofa fyrir fagfólk sem vinnur með ungum konum með fíknivanda.

Nú leitum við að styrktaraðilum, einstaklingum og fyrirtækjum, sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu mikilvæga samfélagslega verkefni með okkur og leggja fram 50-100 þúsund krónur til að standa straum af kostnaði við ráðstefnuna. Þegar hefur safnast liðlega ein milljón króna en heildarkostnaður er áætlaður um fjórar milljónir króna.

Niðurstöður nýrra rannsókna sýna að heilbrigðisvandi leggst með breytilegum hætti á konur og karla. Mikilvægt er að hafa þetta í huga þegar verið er að vinna með og veita meðferð við fíknivanda, ásamt því að ólíkar orsakir liggja að baki hans hjá hverjum og einum einstaklingi. Rannsóknir sýna einnig að ein aðferð útilokar ekki aðra þegar tekist er á við vandann og mikilvægt að bjóða fjölbreytt meðferðarúrræði fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Þó að íslenskt meðferðarkerfi hafi reynst mörgum vel er hægt að gera enn betur með nýrri hugsun og nálgun og skapa aðstæður til að bjóða uppá fjölbreytt meðferðarúrræði til að þjóna fleirum, ekki síst konum.

Með ráðstefnunni og opinberri umræðu um breytta nálgun í meðferðarmálum teljum við að hægt sé að auka þekkingu á fíknivanda og sérstökum vanda kvenna í tengslum við hann. Við erum þess fullvissar að aukin umræða geti stuðlað að jákvæðum breytingum á meðferðarúrræðum á Íslandi, til að mæta þörfum stærri hóps og nýta enn betur þá miklu fjármuni sem í þennan málaflokk fara nú þegar.

Ef óskað er eftir nánari upplýsingum er velkomið að senda okkur tölvupóst á rotin@rotin.is eða hringja í talskonu félagsins, Kristínu I. Pálsdóttur í síma 892-9327. Nánari lýsing á ráðstefnunni er í viðhengi.

Stuðningur og styrkir

Hægt er að leggja inn á reikning Rótarinnar:

  • Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda
  • Kt. 500513-0470, bankanr. 0101 -26-011472
  • Netfang: rotin@rotin.is
  • Vinsamlega merkið framlagið: V. ráðstefnu

Nánari lýsing á ráðstefnunni: Ráðstefna um konur, fíkn, áföll og ofbeldi

Share This