Rótin býður frambjóðendum á umræðukvöld hinn 18. október kl. 20-21.30 í Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum, Túngötu 14 í Reykjavík.
Mikil umræða hefur verið um málefni fólks með fíknivanda undanfarin misseri með fullri þátttöku Rótarinnar sem staðið hefur að fjölda umræðukvölda, haldið málþing og ráðstefnu, sent erindi til stjórnvalda, skrifað greinar og haldið uppi umræðum á samfélagsmiðlum, í gegnum síðu sína á Facebook: https://www.facebook.com/rotin.felag/, síðan félagið var stofnað 8. mars 2013.
Rótin hefur frá stofnun gagnrýnt að ekki sé tekið heildstætt á vanda kvenna sem leita sér meðferðar vegna fíknivanda. Þetta er sérstaklega bagalegt þegar litið er til þess hversu stór hluti þeirra glímir við afleiðingar áfalla og ofbeldis. Félagið hefur lagt áherslu á gæði og öryggi meðferðar og kynjaskipting bætir hvort tveggja. Nú hefur Embætti landlæknis gert hlutaúttekt á meðferð barna og kvenna hjá SÁÁ og fyrir liggur að öryggi notenda þjónustunnar er ekki tryggt innan meðferðarstofna, eins og ótal dæmi og vitnisburðir sanna. Slíkt ástand er óviðunandi og krefst tafarlausra aðgerða.
Rótin sendi af því tilefni greinargerð til heilbrigðisráðherra um stefnumótum og meðferð er varðar konur og fíkn með tillögum um aðgerðir til að bæta stöðuna.

Þá er Rótin þátttakandi í rannsókn á reynslu kvenna af fíknimeðferð. Markmið rannsóknarinnar er að fá innsýn í reynslu kvenna af meðferðarúrræðum og upplýsingar um líðan þeirra og öryggi í meðferð. Enn fremur að skoða sögu kvennanna með sérstöku tilliti til erfiðrar upplifunar í æsku og hvort að þær eigi sögu um ofbeldi í nánum samböndum. Talskona félagsins kynnti fyrstu niðurstöður úr rannsókninni á ráðstefnu SÁÁ hinn 2. október síðastliðinn en niðurstöðurnar sýna að þátttakendur eiga alvarlega ofbeldissögu og verða fyrir miklu áreiti í meðferð.
Talskona Rótarinnar, Kristín I. Pálsdóttir, flytur erindi og fulltrúar allra þingflokka fá tækifæri til stuttrar framsögu, 5 mínútur, og svo verða almennar pallborðsumræður.
Fundarstjóri er Hrönn Stefánsdóttir, verkefnisstjóri neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítala.
Fundurinn er öllum opinn og má finna hann á Facebook!

Boðið er upp á te og kaffi en við erum með samskot fyrir því svo komið endilega með klink í baukinn.

Fylgiskjöl til upplýsingar um stöðu mála:
Share This