4. mars 2018

Út er komin skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu. Í henni kemur fram alvarleg gagnrýni á fyrirkomulag og eftirfylgni með samningum stofnunarinnar um heilbrigðisþjónustu.

Engin heildstæð stefna

Rótin hefur á undanförnum fimm árum sent fjölda erinda til ráðuneyta og ráðherra, Embættis landlæknis og annarra embætta og stofnana sem koma að einhverju leyti að málum fólks með fíknivanda. Flest erindin fjalla um stefnumótun, gæðamál og öryggi og hafa það að leiðarljósi að fylgja því eftir að fólki í meðferð vegna fíknivanda séu tryggð „almenn mannréttindi og mannhelgi“ og þeim sé veitt fullkomnasta „heilbrigðisþjónusta sem á hverjum tíma er völ á að veita“ skv. lögum um réttindi sjúklinga.

Rótin hefur gagnrýnt að yfirvöld hafi ekki mótað stefnu um meðferð við fíknivanda eða gefið út leiðbeiningar um bestu meðferð, hvorki um almenna fíknimeðferð né um sérhæfða meðferð fyrir konur og fólk með áfallatengdan fíknivanda.

Uppbygging án stefnumótunar

Mikil uppbygging hefur átt sér stað að undanförnu hjá stærsta rekstraraðilanum í fíknimeðferð hér á landi, SÁÁ, að því er virðist án þess að á undan færi stefnumótunarvinna, hvorki innan samtakanna né í samráði við yfirvöld. Sama ár og ráðist var í uppbygginguna kom út hlutaúttekt Embættis landlæknis þar sem segir að ekki sé „skráð með sýnilegum hætti hver stefna SÁÁ er varðandi meðferð kvenna og barna sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða, hvaða árangri stofnunin hyggst ná og hvernig árangur er gerður sýnilegur sjúklingum, starfsfólki og öðrum. Gæðavísar um gæði þjónustunnar eru ekki sýnilegir.“ Embætti landlæknis telur að SÁÁ þurfi að setja fram skýra stefnu, leiðir að settu marki og mat á árangri. Einungis þannig verður hægt að meta á raunverulegan hátt árangur starfseminnar. Einnig kemur fram að ekki sé virk gæðastefna á Vogi, fáir verkferlar og eingöngu gæðahandbækur vegna lyfjagjafar og engar þjónustukannanir framkvæmdar. Þá kom fram í heimsókn Rótarinnar á Vog, sumarið 2017, að þar eru engar verklagsreglur vegna kynferðisáreitni og -ofbeldis og ekki talin þörf á slíkum reglum að mati yfirmanna.

Skortur á stefnu eftirliti og eftirfylgni

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að heilbrigðisráðherra hafi ekki mótað heildstæða stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir SÍ og að stjórn stofnunarinnar hafi heldur ekki mótað langtímastefnu eins og henni ber samkvæmt lögum. Í fjarveru þessara verkfæra hafa því „samningar Sjúkratrygginga í raun verið stefnumótandi fyrir þróun og gerð heilbrigðiskerfisins“.

Rótin fagnar skýrslunni

Rótin fagnar útkomu skýrslu Ríkisendurskoðunar en í henni er mikill samhljómur með þeirri gagnrýni sem Rótin hefur haldið á lofti frá stofnun félagsins um skort á stefnu, gæðavísum, klínískum leiðbeiningum og árangursmælingum í þjónustu við fólk með fíknivanda á Íslandi. Í skýrslunni er Krýsuvík tekið sem dæmi um alvarlegan misbrest á fyrirkomulagi meðferðarþjónustu en úttekt landlæknis þar, á Vogi og Hlaðgerðarkoti árið 2016, sýnir að mikil þörf er á breytingum á þessari þjónustu eigi hún að samræmast lögum um réttindi sjúklinga.

Kröfur Rótarinnar

Rótin hvetur velferðarráðherrana og önnur yfirvöld til að taka á þessu brýna úrlausnarefni og vinna skjótt og vel að stefnu, gæðavísum og öðru sem eykur öryggi og árangur meðferðar, ásamt því að koma á fót alvöru gæðaeftirliti með starfseminni.

Þessar kröfur hefur félagið einnig sett fram í Óskalista Rótarinnar.

F.h. Rótarinnar,

Kristín I. Pálsdóttir, talskona

Sími: 8939327

Share This