Mjög oft er leynt og ljóst þrýst á fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi að fyrirgefa gerendum. Ef það íþyngir þér á einhvern hátt að hafa ekki fyrirgefið þeim sem beitti þig kynferðisofbeldi, á þann hátt sem þér eða öðrum finnst að þér beri skylda til að gera það, skaltu íhuga eftirfarandi sannindi um fyrirgefninguna sem hér birtast í sex liðum (þau eru almenn og eiga ekki bara við um kristið fólk).

1. Þú þarft ekki að fyrirgefna neinum. Sú hugmynd að þú verðir að fyrirgefa manneskjunni sem misnotaði þig er tilhæfulaus. Þú getur fyrirgefið þeim sem beitti þig ofbeldi þegar og ef þú vilt gera það. Þér er líka fullkomlega frjálst að fyrirgefa henni aldrei. Hið fyrra er ekki endilega betri kostur – það er ekki endilega merki um betra siðferði að fyrirgefa en að fyrirgefa ekki. Það sem er siðferðilega réttast er það sem gagnast þér best. Þú ert sú sem var særð. Þú ræður því hvernig þú kemur fram við þann sem braut á þér og enginn annar en þú hefur nokkuð um það að segja (og sérstaklega ekki álit einhvers sem þú hefur ekki beðið álits). Ef þig langar einhvern tíma að fyrirgefa þeim sem braut gegn þér (hvað svo sem „fyrirgefning“ merkir í raun í þessu samhengi – í flestum tilfellum hefur fólk sem notar þetta mjög svo loðna orð í þessu samhengi enga hugmynd um hvað í ósköpunum það meinar með því, oftast fílar það bara hvað það hljómar Ophru-lega) þá veistu að þér líður þannig. Þangað til, eða ef þér líður ekki þannig, geta allir aðrir bara beðið eftir boði í partýið sem enginn bauð þeim í hvort eð er.

Munið: ef einhver – hvort sem það er fjölskyldumeðlimur, vinur, ættingi, prestur, meðferðaraðili … hver sem er – þrýstir hið minnsta á þig að fyrirgefa þeim sem braut gegn þér, áður en þú ert tilbúinn að gera það, er sá hinn sami í besta falli sorglega fáfróður en í versta falli hefur hann sínar eigin hræðilegu ástæður fyrir því að sársauki þinn rjúki út í buskann. Hann vill að þú fyrirgefir sín vegna. Þín vegna skaltu sniðganga hann. Þú þarft að glíma við raunveruleikann og það slær í raun öllum ævintýrum við að takast á við hann.

2. Fyrirgefning er ekki „ein stærð fyrir alla“. Við getum aðeins fyrirgefið það sem gert hefur verið á hlut okkar; fyrirgefning hefur enga merkingu ef hún er tekin úr sambandi við ákveðið brot. Svo mikið er víst að brotin eru af öllum stærðum og gerðum. Að ryðjast fram fyrir þig í umferðinni er ein tegund brots, nauðgun er algjörlega gjörólíkt brot. Láttu aldrei tala þig inn á það að finna til sektar eða að finnast þú ekki nógu andlega þroskuð með þeim vemmilegu tilfinningarökum að bati og fyrirgefning séu óaðskiljanleg. Að halda því fram að þú getir ekki náð bata án þess að fyrirgefa þeim sem braut gegn þér er eins og að segja að skurðsár sé ekki gróið á meðan örið er sýnilegt. Og að krefjast þess að þeir sem hafa verið misnotaðir „fyrirgefi“ þeim sem misnotaði, þá áður en þeir hafa náð sér að fullu eftir misnotkunina, jafnast á við það að krefjast þess að sá sem er fótbrotinn fari að sippa áður en brotni fóturinn er að fullu gróinn. Það gerir augljóslega illt verra.

En hvað geta þolendur gert til þess að komast á það stig að þeir skilji að fullu hvað kom fyrir þá? Því stigi að neikvæðar tilfinningar til þess sem misnotaði þá séu hættar að hafa áhrif á þá, af því að þeir skilja og viðurkenna hvað veldur því að gerendur verði svo brenglaðir að þeir séu knúnir til að fremja glæpi sína? Hugmyndinni um að þolandinn verði að fyrirgefa gerenda verður algjörlega ofaukið hjá þolandanum. Slík „fyrirgefning“ á ekki við og er ekki í neinu samhengi. Það sem gerðist, gerðist einfaldlega en er nú lokið.

3. Barnaníðingar reiða sig á á sektartilfinninguna sem þolendur sitja uppi með af því að þeim finnst þeir samsekir. Þeir sem níðast á börnum eru vondir og ef það er eitthvað sem hið illa skilur þá er það hvaða vopn eru árangursríkust. Barnaníðingurinn veit að helstu vopn hans til að halda fórnarlömbum sínum í tilfinningalegu ójafnvægi og fá þau til að finnast þau vera samsek er að spila inn á sektartilfinninguna sem kynferðisathafnir þeirra vekja hjá þeim.

Börn þrá að falla feðrum sínum í geð (í þessu samhengi). Þau vilja að feður þeirra elski þau. Það er þeim eðlislægt að treysta þeim. Í fyrstu áttar misnotað barn sig ekki á því að verið er að beita það kynferðisofbeldi, það sem það veit er að pabbi veitir þeim sérstaka og jafnvel ástúðlega athygli. Og jafn ringlað og barnið er yfir því sem pabbinn er að gera þeim á þeirri stundu er hluti þess sem barnið skynjar, en aðeins líkamlega, að sumt af því lætur því líða vel. Augnablikið sem barnið finnur fyrir einhverri líkamlegri nautn er einmitt augnablikið sem barnaníðingurinn bíður áfjáður eftir. Hann veit nefnilega að á þeirri stundu sem barnið sýnir einhver merki um nautn, eða hreyfir sig á hvetjandi hátt, hefur hann valdið því sem hann sækist eftir hjá fórnarlambinu. Hann veit að frá því augnabliki getur barnið aldrei haldið því fram, og sérstaklega ekki gagnvart sjálfu sér, að því hafi ekki þótt þetta gott. Að það hafi ekki viljað þetta, né hafi hvatt til þess. Þaðan í frá mun barnið óhjákvæmilega og fyrirvaralaust hugsa um sjálft sig á þann hátt sem níðingurinn vill, eins og druslu sem til einskis annars er nýt en að veita honum kynferðislegan unað. Þannig hefur hann náð undirtökunum, af því að barnið mun ekki segja frá því sem er að gerast á milli þeirra, af því að það er tryggt að það skammast sín of mikið. Núna trúir barnið því dýpst í hjartarótum að ofbeldið sé því að kenna.

Gerandinn fékk þau líkamlegu viðbrögð sem hann vissi að hann myndi framkalla og þessi óhjákvæmilegu viðbrögð verða sjálfkrafa það sjálfseyðileggjandi vopn sem þolandinn á ekki annarra úrkosta en að beina að sjálfum sér. Þannig hefur barnaníðingurinn tryggt sér þögult leikfang sem hann getur misnotað að vild.

Kynferðisofbeldi er í raun ekki líkamlegur glæpur, hann er sálfræðilegur, tilfinningalegur, andlegur. Þolandinn lærir að fyrirlíta eigin kynverund – sem er í kjarna sjálfsvitundar okkar – og skaðinn sem af hlýst getur auðveldlega erfst kynslóð fram af kynslóð.

Ef þú ert ógæfusamur erfingi svo sorglegrar arfleifðar er það að fyrirgefa níðingi þínum það síðasta sem þú þarft að hafa áhyggjur af. Þú hefur fyrst og fremst þá skyldu að segja sjálfum þér stærsta sannleika Guðs, sem er að þú ert alls ekki sú vonda og siðspilla persóna sem níðingurinn fékk þig til að trúa að þú værir, á kerfisbundinn og úthugsaðan hátt. Sakleysi þínu var spillt á óeðlilegan hátt og þú varst skilin eftir til að byggja líf þitt og sjálfsmynd á drungalegum afleiðingum þessa niðurbrots. Þetta er augljóslega mikil ógæfa fyrir þig en þú berð ekki ábyrgð á því sem kom fyrir þig. Hann, og aðeins hann, ber ábyrgðina. Þú þarft ekki að eyða restinni af lífi þínu í dimmu skúmaskoti eins og glæpamaður, í fúkkahjallinum sem níðingurinn dæmdi þig til að dvelja í og sem hann stólar á að þú haldir þig í. Nei, ljósið kallar og þú hefur sama rétt og allir aðrir til að stíga út í það.

4. Það að biðja fyrirgefningar er ekki það sama og að eiga hana skilið. Sú staðreynd að einhver biðji þig að fyrirgefa sér skyldar þig á engan hátt til að veita honum fyrirgefningu. Ef að sá sem misnotaði þig segir þér að honum líði illa yfir því sem hann gerði þér þá: A) Gott hjá honum! og B) það er ekki þitt vandamál. Það er ekki þitt verkefni að bæta líf þess sem gerði líf þitt óbærilegt. Það veit Guð að ef að þeim sem misnotaði þig líður illa yfir því að hann misnotaði þig þá má hann bara halda sig til hlés og líða jafn illa og honum ætti að líða. Ef það kraftaverk gerist að hann iðrast í réttu hlutfalli við brot sitt, leyfðu honum þá að sanna það fyrir þér á þann hátt sem hann telur best. Eitt það fyrsta sem hann getur gert er að gera þér strax grein fyrir tveimur hlutum: að hann ætlist ekki til þess að þú fyrirgefir honum og að hann muni virða vilja þinn um að hverfa að fullu úr lífi þínu, ef það er það sem þú vilt.

Gleymdu því aldrei að barnaníðingar eru venjulega mjög færir í að tjá einlæga iðrun vegna gjörða sinna og mikla umhyggju fyrir fórnarlömbum sínum. Ástæðan þess að þeir eru svo leiknir á þessu sviði er að þeir hafa verið að æfa sig stóran hluta ævi sinnar.

5. Það að fyrirgefa níðingnum þýðir ekki að þú eigir að hleypa honum inn í líf þitt. Fyrirgefning skyldar þig ekki á neinn hátt til að halda sambandi við hann. Punktur. Ef eiturslanga bítur mig og ég fyrirgef henni þarf ég ekki að taka hana aftur upp.

6. Fyrirgefning er ekki varanlegt ástand. Kynferðisofbeldi hefur í för með sér að þú hefur verið særð á djúpstæðan hátt sem snertir öll svið tilveru þinnar. Það þýðir að þér finnst þú stundum hafa jafnað þig og það hellist yfir þig samúðarbylgja og löngun til að fyrirgefa þeim sem misnotaði þig. En síðar – kannski daginn eftir, kannski eftir viku eða ár – finnst þér bylgja af allt öðru tagi toga þig til hafs á ný, þar sem þér finnst þú vera að drukkna, ráðvillt og köld. Þessar sveiflur fram og til baka eru bara hluti af bataferlinu. Það er mjög algengt að þolendur séu látnir halda að ef þeim hafi fundist þeir vera bjartsýnir og búnir að ná sér á fimmtudegi þá sé eitthvað að ef þeir finna til særinda og biturleika á ný á föstudegi. En það er ekkert rangt eða skrítið við slíkar sveiflur, þær eru líka eðlilegur hluti af ferlinu. Að skilja, sætta sig við og búast jafnvel við slíkum tilfinningasveiflum getur hjálpað þér og skilið þig eftir svo nálægt landi, jafnvel þegar þér líður hvað verst,  að þú getur jafnvel slakað á, andað djúpt að þér og notið þess að synda í land.

Ef þú hefur orðið fyrir kynferðislegri misnotkun hvet ég þig eindregið til að kaupa bókina The Courage to Heal: A Guide for Women Survivors of Child Sexual Abuse og vinnubókina sem fylgir henni. Það mun breyta lífi þínu.

Ef að þú ert kristin gæti þér líka líkað að lesa Must She Forgive the Brother Who Raped Her?

 

Greinin er þýdd og birt með góðfúslegu leyfi höfundar, John Shore, og hana má lesa á ensku á heimasíðunni hans: John Shore. Cristianity with Humanity.

 

Share This