Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir, var í föstudagsviðtali Ólafar Skaftadóttur og Viktoríu Hermannsdóttur á Vísir.is hinn 20. maí 2016. Sæunn hefur ýmislegt áhugavert til málanna að leggja um fíknivanda og meðferð við honum og því fengum við Rótarkonur góðfúslegt leyfi til að birta þann hluta viðtalsins sem fjallar um fíkn á vefnum okkar. Það skal tekið fram að millifyrirsagnir eru á okkar ábyrgð og einnig var nokkrum hikorðum sleppt. Þetta er síðasti hluti viðtalsins sem hefst þegar um 56. mínútur eru liðnað af upptökunni og má hlusta á allt viðtalið hér:

Sá hluti viðtalsins sem er hér uppskrifaður er aðgengilegur á Facebook-síðu Rótarinnar og byrjar á 57. mínútu á upptökunni hér fyrir ofan.

Fíkn og áföll

Sæunn: Líka með áföll, ég veit ekki hvort að þið hafið heyrt talað um ACE Study, Adverse Childhood Experiences.

Viktoría: Hvað er það?

Sæunn: Það er um … Það er rannsókn sem skoðar það hvernig áföll í barnæsku, og það eru skilgreind ákveðin áföll, bæði áföll og vanræksla, allt frá því tilfinningalegrar vanrækslu yfir í kynferðislegt ofbeldi eða skilnað foreldra eða að missa foreldri. Ég held að þetta séu tíu áföll sem eru skilgreind og því fleiri, þú færð eitt stig fyrir hvert áfall, og því fleiri stig sem þú hefur því meiri hætta á sjúkdómum á fullorðinsaldri og þá erum við ekki bara að tala um andlega erfiðleika heldur erum við líka að tala um líkamlega sjúkdóma.

Ólöf: Þeta hefur maður nefnilega heyrt að og það er kannski vaxandi umræða um þetta núna að áföll sem þú verður fyrir hafi áhrif á líkamlega heilsu og líkamlegt bara ásigkomulag.

Sæunn: Algjörlega, já.

Ólöf: Það er talað um líka bara offitu í þessu samhengi, hefur maður heyrt.

Sæunn: Aðeins varðandi offituna. Af því að áföllin, eins og ég segi, þau breyta efnaskiptunum, bæði í heilanum og í líkamanum. En þau verða líka oft til þess ef fólk fær ekki viðeigandi hjálp, að það tileinkar sér mjög óheilbrigð bjargráð. Og eitt bjargráðið er þegar mér líður illa þá fæ ég mér að borða.

Ólöf: Svona „stress eating“?

Sæunn: Já.

Ólöf: Það eru fleiri bjargráð, t.d. áfengi og pillur eða eitthvað svoleiðis?

Viktoría. Já, það er einmitt svolítið nýtt í fræðunum líka að það er verið að tengja fíkn við áföll.

Ólöf. Þú hefur trú á þeirri nálgun að áföll geti spilað stóra rullu í fíknisjúkdómum?

Sæunn: Ég er alveg viss um að þau gera það.

Viktoría: En það er náttúrulega þvert á það sem að sagt er t.d. á Íslandi hjá SÁÁ. Þeir tala um að þetta sé heilasjúkdómur. Er þetta einhver samblanda eða þarf fíkn að vera sprottin af sama meiði …

Ólöf. Þarf fíkn að vera endanlegt ástand, ertu einu sinni fíkill, ávalt fíkill?

Sæunn: Það held ég alls ekki og ég geld mjög mikinn varhug við þessari hugmynd um að áfengisneysla sé heilasjúkdómur. Ég held að á sínum tíma þegar þessi hugmynd kom upp um að áfengissýki eða ofneysla væri sjúkdómur að þá var það mjög mikil frelsun fyrir marga og kannski mjög mikilvægt skref í ákveðinni þróun. Af því að fram að því hafði verið litið svo á að fólk sem fór illa með sjálft sig og aðra vegna neyslu af því að það væri illa innrætt eða veiklundað og þetta væri aumingjaskapur …

Ólöf: Eða andsett eins og … sem var ennþá fyrr þá kannski.

Sæunn: Já, já. Ef við förum aðeins lengra þá var þetta allskonar ranghugmyndir sem voru í gangi um áfengisneyslu. Þannig að það að kalla þetta sjúkdóm var auðvitað skref í rétta átt af því að þá var allavega farið að horfa á þetta sem einhversskonar sjúklegt ástand sem væri hægt að vinna með, væri hægt að lækna. Ég held að frá þeim tíma þá náttúrulega hefur þekkingin aukist mjög mikið og ég held að það takmarki mjög skilning okkar og meðferðarmöguleika á að halda í þessa hugmynd um sjúkdóminn. Af því að með því erum við að steypa alla í sama form, Við erum ekki að leita neinna skýringa eða skilnings á því hvað gerist hjá manneskjunni og meðferðin miðar mjög mikið að því bara að drekka ekki og þú situr uppi með þá hugmynd að þú sért sjúklingur og þú þarft helst að minna þig á það á hverjum degi.

Ég held að það sé hægt að skilja áfengissýki eða ofneyslu á annan hátt og ég held að við þurfum alltaf að skoða reynslu viðkomandi. Ég held að það sé alltaf einhver, ég veit ekki hvort að við köllum það áföll en það er einhver erfið reynsla þarna og ég held að ákveðnir áhættuþættir séu að hafa upplifað mjög mikla streitu, mjög mikinn sársauka kannski eða ótta, samfara miklum vanmætti sem að þú hefur þá ekki fengið hjálp. Þegar við erum að tala um börn sem líður mjög illa og fá hvorki hjálp við að vinna úr líðan sinni né hjálp við að greina á milli ólíkra tilfinninga. Þú veist, þau vita ekki hvenær þau eru hrædd, hvenær þau eru döpur eða hvenær þau eru svöng eða hvenær þau eru einmana. Þetta verður allt bara einhver grár svartur massi inni í þeim og þá takmarkar það svo bjargráðin við þessum tilfinningum af því að það eru mismunandi viðbrögð viðeigandi við hverri tilfinningu. Og ég held að þetta geti leitt til þess að fólk situr uppi með einhverja líðan sem það hvorki skilur né ræður við. Þá getur verið mjög mikil frelsun að t.d. að drekka. Af því að þú leysir upp þessa vondu líðan.

Birtingarmyndir vanlíðanar

Ólöf: Það hefur líka verið talað um núna að þetta sé … allt af sama meiði; áfengisfíkn, vímuefnafíkn, matarfíkn, kynlífsfíkn, þú veist „you name it“. Heldur þú að … er þetta bara mismunandi varnarkerfi allt einhvern veginn sprottið upp á sama stað?

Sæunn: Ég held að þetta séu mismunandi birtingarmyndir á vanlíðan sem eru kannski sprottnar, ekkert öll á sama stað. Það er kannski það sem að mér finnst svo gagnrýnivert við þetta sjúkdómshugtak. Það er bara einhver sjúkdómur sem hinir og þessir fá en ég held að þetta eigi sér alltaf rót í reynslu viðkomandi en hún getur verið mjög mismunandi. Og það sem að líka mér finnst gagnrýnivert við þá meðferð, eins og hún hefur allavega verið stunduð, mér vitanlega, að það er að ef þú ætlar að fara að skoða reynslu þína að þá sértu að leita að afsökunum. Þá sértu að leita að einhverju til að kenna um þetta eða kannski bara afsökun til að …

Viktoría: Já, maður hefur svolítið heyrt þá umræðu.

Ólöf: Það er oft sagt: Ég hef ekki kynnst þeim alkóhólista sem er ekki að leita sér að ástæðu fyrir því að hann drekkur.

Viktoría: Ég held nú bara að hann Óttar vinur okkar hafi sagt það.

Ólöf: Já, meðal annars. En hann er nú ekki sá fyrsti og ábyggilega ekki sá síðasti.

Viktoría: Nei, það er oft sagt svona. Já, ok, ertu að reyna að afsaka þig með þessu.

Sæunn: Já, það er, þessu er teflt fram eins og það að leita að ástæðu sé einmitt til þess að, ég veit ekki, firra þig ábyrgð eða kannski bara halda áfram að drekka eða ég veit það ekki alveg hver hugmyndin er. En ég lít á það öðrum augum að það að leita að ástæðu sé til að auka skilninginn þinn á sjálfum þér, ekki til að halda áfram að drekka heldur til að finna önnur bjargráð til að bregðast við líðan þinni.

Viktoría: En heldur þú að það vanti meira þessa svona miðaða meðferð inn í meðferðarkerfið á Íslandi?

Sæunn: Já, ég held að það vanti mjög mikið. Ég veit ekki hvort, allavega það sem er svona ráðandi hugmyndafræði hér, hún gengur einmitt út á þessa sjúkdómshugmynd og það að þú sért að skoða reynslu þína, einmitt þetta að þú eigir ekki að gera það af því að þá sértu að firra þig ábyrgð, sem ég er algjörlega ósammála.

Viktoría: En er maður ekki einmitt, öfugt, að firra sig ábyrgð þegar þú getur alltaf bara saft að þú sért með sjúkdóm?

Sæunn: Það er alveg sjónarmið.

Meðferðarkerfið og heilasjúkdómskenningin

Ólöf: En við höfum verið að ræða svona dálítið þetta með meðferðarkerfið hérna á Íslandi og það er nú þannig að þar er einn, hvað á maður að segja, aðili á markaði sem er SÁÁ. Og SÁÁ fær fjárveitingu frá ríkinu, svona einhvern tæpan milljarð á ári til að sinna áfengismeðferð og þar eru allir alkóhólistar settir undir sama hatt. Þú færð greiningu sem alkóhólisti og þar með ferðu inn í eitthvað batterí sem er Vogur og svo eftirmeðferðir og svo framvegis. Það er góðra gjalda vert en það er kannski, eins og Sæunn hefur komið hér inn á, ekki fyrir alla. Hvaða breytingar myndir þú vilja sjá í þessu kerfi?

Sæunn: Sko, ég vil náttúrulega meiri fjölbreytni og ég held að það breyti mjög miklu, þetta sem við vorum að tala um áðan, hvort að við skilgreinum alkóhólismi sem sjúkdóm. Sem að hefur verið gert. Ég tek ekki undir það, ég er algjörlega á því að alkóhólismi, eða það þegar maður skemmir líf sitt eða annarra með ofneyslu, það er sjúklegt ástand en það er ákveðin takmörkun að kalla þetta sjúkdóm og ég held að það sé gott að hafa í huga að það eru ekki alltaf fagleg rök fyrir því hvað er kallað sjúkdómur. Ein veigamikil ástæða fyrir því að alkóhólismi var tekinn inn í sjúkdómsgreiningarkenninguna var sú að það var talið vonlaust að fá tryggingarfélög til að borga meðferð nema að þetta héti sjúkdómur. Annað, bara dæmi, sem er líka vert að hafa í huga að það er ekki fyrr en 1973 sem að samkynhneigð er tekin út úr sjúkdómsgreiningarkerfinu, bandaríska sjúkdómsgreiningarkerfinu.

Ólöf: Já transfólk er ennþá inni í því kerfi.

Sæunn: Já, það eru engin heilög vísindi á bak við þetta.

Ólöf: En með þessa nálgun, hvernig er þetta í löndunum í kringum okkur, veistu það, erum við eftirbátar nágrannaþjóða okkar í meðferðarmálum?

Sæunn: Ég hef ekki kynnt mér það sérstaklega. Ég held að það sem við sjáum örugglega í nágrannalöndunum það er miklu meiri fjölbreytni, það er ekki bara ein stefna sem er rekin.

Ólöf: Ég tók viðtal í fyrra við bandarískan sálfræðing og sú sagði að meðferðarmálin á Íslandi væru stödd þar sem þau voru stödd í Bandaríkjunum þar sem þau voru stödd í Bandaríkjunum 1950-60.

Sæunn: Já, það kæmi mér ekkert á óvart.

Ólöf: Þetta svokallaða Minnesota-módel sem að …

Viktoría: En heldur þú að það mætti þá kannski ná betri árangri með því að það væri strax komið meira inn á þetta? Það væri strax tekið inn í að það væri skoðuð þeirra saga og hvort að það væru einhver áföll þarna? Heldur þú að það væri kannski minna um endurkomur, fólk fengi fyrr svona …?

Sæunn: Já, því er auðvitað ekki að neita. Þetta er oft mjög erfitt viðureignar og ég er ekki að segja að þetta sé einhver patent-lausn. Ég er alveg viss um það að myndi skila árangri að fara betur ofan í sögu fólks af því að það sem gerist er að þegar fólk fær meiri innsýn og skilning á sjálfu sér þá vaknar oft meiri, þá fær fólk oft meira bara samúð með sér og það þarf enginn að halda því fram að drekka þegar manni líður illa að það sé góð meðferð. Það er enginn að vera góður við sig þannig. Þannig að þegar það fær meiri skilning, og það sem fylgir oft mikilli ofneyslu það er ofsaleg innri dómharka, og fólk, og vegna ekki nógu mikillar sjálfsþekkingar að þá dæmir fólk sig svo hart. Bæði fyrir hvernig því líður, hvað það gerir og ég tala nú ekki um þegar það drekkur ofan í þetta allt saman, þá er nú aldeilis komin fram ástæða til að taka fram vöndinn. En ég held að með auknum skilningi þá dragi svolítið úr þessari hörku. En þetta er tímafrek vinna en ég held ekkert að hún þurfi að fara fram á stofnunum, hún getur farið fram með viðtölum sem er ekki eins dýrt og að leggja fólk inn.

Ólöf: Já, er það ekki líka þróunin, maður hefur lesið sig til um það að þróunin víðast hvar í kringum okkur sé minna af innlögnum og meira af svona göngudeildar …

Sæunn: Jú, það er náttúrulega í öllu heilbrigðiskerfinu og þessu ekkert síður en því. Auðvitað er alltaf eitthvert fólk sem þarf á því að halda sem er mjög illa á sig komið bæði andlega og líkamlega, en ekki að það sé fjöldinn.

Blönduð meðferð varhugaverð

Ólöf: En hvað með kynjasjónarmiðin í þessum fíknipælingum? Er örðuvísi að vera karl sem á við áfengisvanda að stríða heldur en kona?

Sæunn: Ég hef nú bara ekki velt því fyrir mér. Hvað ertu með í huga?

Ólöf: Eða þú veist, nú hefur t.d. Rótin mikið rætt um það að þær vilji kynjaskipta áfengismeðferð.

Sæunn: Já, já, þú átt við það.

Ólöf: Það er bæði vegna þess að það sé öðruvísi að vera kona en karl með fíknisjúkdóm en, já, fíknisjúkdóm, en svo sé það líka náttúrulega vegna þess að það sé ótækt að blanda þessum tveimur hópum saman.

Sæunn: Reynslan hefur sýnt það að það getur verið mjög varhugavert ef fólk er illa á sig komið þarna og mjög leitandi og þurfandi fyrir allt mögulegt sem að maður fær úr mannlegum tengslum. En kannski ekki alveg með dómgreindina alveg nógu góða til að velja hverjir það ættu að vera. Þannig að ég held að það sé alveg mjög svona gilt sjónarmið.

Ólöf: SÁÁ er reyndar að stíga það skref að þeir eru að, já …

Viktoría: En, af því að við tölum um kynjaskiptingu, en eru áföll sem sagt mismunandi á milli karla og kvenna? Eða þínir sjúklingar sem þú ert að hjálpa, er þetta eitthvað mismunandi eftir kyni eða skiptir það engu máli?

Sæunn: Nú veit ég ekki alveg hvað þú ert að spyrja um.

Viktoría: Er fólk að upplifa áföll á mismunandi hátt eftir kyni?

Sæunn: Ég veit ekki hvort að upplifunin er ólík en ég held að viðbrögðin séu oft ólík. Ég held að karlmenn hafi meiri tilhneigingu til að, ef ég má sletta, til þess að svona externalísera, þeir beina kannski meira svolítið afleiðingunum og sínum aggressjónum út á við en konur hafa meiri tilhneigingu til að beina því inn á við. Þess vegna sjáum við t.d. meiri sjálfskaða hjá konum og það er oft meiri sjálfsgagnrýni, sem konur beita sig á meðan karlar, svo ég alhæfi, þetta er náttúrulega mjög gróft alhæft, en maður sér oftar hjá körlum að þeir finna að það eru svona hinir sem eru vandamálið.

AA-samtökin og sjúkdómsvæðingin

Ólöf: En ef við höldum áfram að ræða um fíknisjúkdóma þá leita náttúrulega margir á náðir AA-samtakanna. Þú hefur eitthvað kynnt þér starfsemi AA-samtakanna, er það ekki? Þú skrifaðir um samtökin í bók sem þú gafst út fyrir 17 árum síðan.

Sæunn: Já, ég hef nú svo sem ekki mikið leitt hugann að því síðan þá en ég held að skoðanir mínar séu ekkert mikið breyttar. Ég held að styrkur AA-samtakanna er að þarna er fólk sem er að leita stuðnings hjá hvert öðru og það er að deila reynslu sinni og ég held að það sé alveg ómetanlegt og geti verið það en svo er annað sem mér finnst orka tvímælis eins og þetta, þessi staðhæfing að minna sig alltaf á að maður sé sjúklingur … og að maður verði það alltaf og komist aldrei ú túr því. Þú varst einmitt að spyrja, verður fólk alltaf fíklar? Ég held ekki. Þó að markmiðið sé ekkert endilega að fólk geti drukkið eða neitt einhverra efna að þá held ég að það skipti máli hvort að þú upplifir að þú, ég er sjúklingur og ég má það aldrei, gera það, þá er ég bara komin í ræsið eða þá er allt ónýtt. Eða hvort að þú kemst að þeirri niðurstöðu að þetta er eitthvað sem gerir mér ekki gott og ég ætla að sleppa því og þú veist, mér finnst þetta ekki auðga líf mitt. Og svo eru sumir sem geta alveg drukkið.

Viktoría: Þetta er í raun ekki einstaklingsmiðað, það eru allir settir undir sama hatt.

Sæunn: Já, það er það sem að mér finnst dálítið athugavert af því að ég held að það sé mjög einstaklingsbundið. Bæði hvernig fólk er á sig komið hverjar eru ástæðurnar fyrir því og hvernig það getur unnið úr því.

Þáttur Rótarinnar

Ólöf: En þú hefur fylgst með og ef ég man rétt þá hefur þú flutt erindi á svona umræðukvöldi hjá Rótinni?

Sæunn: Já.

Ólöf: Þú hefur nú fylgst með, það hafa nú átt sér stað ýmis skoðanaskipti á milli SÁÁ og Rótarinnar og Rótin hefur verið svona aðhaldsmekkanismi á SÁÁ. Sem er bara gott og gilt. Ertu svona sammála þeirra málflutningi í megin dráttum?

Sæunn: Í megindráttum þá fellur hann vel að því hvernig ég skil ofneyslu og ég hef verið mjög ánægð með að þær skuli koma fram og ekkert að bogna við það mótlæti sem þær verða fyrir heldur að halda sínum málflutningi til streitu því ég held að það sé mjög mikilvægt að fá meiri fjölbreytni inn í þessa umræðu og hún hefur ekki verið. Það eru auðvitað alveg ofboðslega margir búnir að fara í gegnum þessa meðferð SÁÁ og þeir verða mjög „loyal“. Það bara liggur í hlutarins eðli. Maður verið svolítið „loyal“ þeim sem að hefur hjálpað manni og því er ekki að neita að þeir hafa hjálpað fjöldamörgum, ég er ekki að gera lítið úr því. En, það hefur verið allt of mikil einsleitni og allt of lítil umræða um þessi mál sem að ég held að Rótin eigi mikið lof skilið, í rauninni, fyrir að vera þessir málsvarar þeirra hugmynda.

Ólöf: Grjótharðar.

Sæunn: Grjótharðar … en samt líka mjúkar.

Share This