Í þættinum Höfundar eigin lífs, í umsjón Kristrúnar Heimisdóttur og Ævars Kjartanssonar, sem var á dagskrá Rásar 1, sunnudaginn 21. júní s.l., var rætt við Guðrúnu Jónsdóttur doktor í félagsráðgjöf. Guðrún var lykilmanneskja í þróun úrræða fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis s.s. Stígamóta þar sem hún var hugmyndafræðileg ljósmóðir. Okkur Rótarkonum finnst viðtalið svo áhugavert að við skrifuðum niður kafla úr því, þar sem Rótina ber á góma, og hvetjum við alla til að hlusta á allt viðtalið við fyrrverandi Ungfrú meðfærilega, í gjörningi Kvennalistans í borgarstjórn 1994.

Þátturinn er aðgengilegur á vef RÚV til 19. september 2015 en hér er kafli úr viðtalinu og hefst hann á 37. mínútu hljóðupptökunnar:

Ævar: Reynsla kvenna sem er undirstaðan undir hina femínísku nálgun og síðan í rauninni útskýring eða kenning, hin femíníska kenning, sem síðan er notuð í meðferðarferli, þetta minnir örlítið á AA hugsunina.

Guðrún: Já, það er ekki alveg sérstakt …

Ævar: Sko, reynsla þeirra sem lenda í er í raun til viðmiðunar …

Guðrún: Jú …

Ævar: En þar hafa menn farið út í það að reisa, sko, meðferðarstofnanir. Þá er náttúrulega spurningin þa…

Guðrún: Nei, …

Ævar: … þarf ekki meðferð fyrir karlana?

Guðrún: Fyrir karlana? Jú, það þarf ábyggilega meðferð fyrir karlana en ég vil sjá þessa breytingu, raunverulega, sem samfélagslega breytingu. Þar sem að samfélagið, að við byggjum okkur upp nýtt samfélag með nýjum samfélagslögmálum og samþykktum þar sem að við bara leggjum það til grundvallar, bara að við virðum hvert annað og að við misnotum ekki völd okkar og áhrif og að við byggjum upp samfélag þar sem við stefnum að jafnræði.

Ævar: Þannig að þú ert í rauninni að segja að þetta kannski, að það sé ekki rétt að fara út í sjúkdómsvæðingu frekar samfélags …

Guðrún: Já, ég myndi frekar segja það að það væri. Og ef að það er verið að tala um einhverja meðferð fyrir kynferðisofbeldismenn þá er það einboðið í mínum huga að þá verður það að vera meðferð sem femínistar stjórna og meta og fylgjast með. Vegna þess að ef að meðferðin á að byggja á hefðbundnum kenningum sem að fram til þessa hafa einkennst mikið af því að leita að skýringum hjá fórnarlömbunum, Það sé hjá fórnarlömbunum sem að skýringin liggi en ekki hjá ofbeldismanninum. Það dugir ekki, sko, það verður að hugsa upp alveg nýtt módel þá.

Ævar: Þarna er aftur svolítil samsvörun við AA eða áfengismeðferðina, það eru alkarnir sem í rauninni ráða meðferðinni. Þannig að femínistarnir þarna myndu …

Guðrún: Ég sé, þetta er hræðilegt að segja þetta, en ég vildi sjá svona femínísktískt ráð, sem tæki ekki þátt í meðferðinni, sem að legði línurnar og nú lendi ég í mótsögn við sjálfa mig af því að nú er ég komin með einhvern valdapíramída hérna sem á að ákveða hverjir eru hreinir og hverjir eru óhreinir og það gengur auðvitað ekki. Þetta er ekki framkvæmanlegt.

Ævar: Enda svo ég dragi nú í land í þessari samlíkingu vegna þess að ég átta mig alveg á því að með því að koma með þessa samlíkingu þá er ég í rauninni að segja, að vísa til þess að þarna sé um sjúkdóm að ræða …

Guðrún: Þetta er ekki sjúkdómur …

Ævar: Við erum ekki að tala um það við erum að tala um samfélagsleg …

Guðrún: Við erum ekki að tala um það. Við erum að tala um samfélagslegt mein. Alvarlegt samfélagslegt mein. Og ég vil nú leyfa mér að halda það. Ég veit að nú er ég að brjóta einhverjar rúður. Ég vil nú meina af samskiptum mínum við, og viðtölum við, ótrúlegan fjölda af konum sem hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi, þar sem áfengisneysla og lyfjaneysla og annað slíkt er bein afleiðing af þeim brotum sem verða í lífi þeirra sem börn eftir að hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi. Það er greinilegt að niðurbrotið heldur áfram og það er ekkert eftir, ekkert heilt eftir til að lifa fyrir.

Kristrún: Það hefur komið fram í samhengi við stofnun Rótarinnar sem er svona kvennahreyfing …

Guðrún: Já, einmitt …

Kristrún: … sem vill endurskoða hefðina sem hér ríkir á Íslandi um áfengismeðferð. Þá hefur t.d. verið bent á það að það eru 80% kvenna sem fara í áfengismeðferð á Íslandi sem hafa orðið fyrir áföllum. Þar sem áföll eru bein orsök, …

Guðrún: … allskyns áföll …

Kristrún: … talin vera orsök.

Guðrún: … alvarleg áföll …

Kristrún: … alvarleg áföll og þá er stór hluti einmitt kynferðisofbeldi og við vitum það að tölurnar segja að 30%, þriðjungur, kvenna á Íslandi verði fyrir kynferðisofbeldi einhvern tíma á ævinni og svo er verið að draga það fram bara þessa dagana hversu margar konur verða fyrir ofbeldi á meðgöngu og þetta vekur mann til umhugsunar um ónæmi samfélagsins …

Guðrún: Já, það er alveg ótrúlegt …

Kristrún: … ef við reynum aðeins að greina samfélagsmeinið dýpra. Af hverju stafar ónæmi samfélagsins fyrir ofbeldi gegn konum? Hvernig stendur á því að … að …

Guðrún: Ég vildi að ég vissi, sko, rétt svar við því af því þá væri kannski hægt að, það myndi leiða mann áleiðis í því hvað er hægt að gera. En í mínu, ég persónulega held að beiting ofbeldis karla, ofbeldi karla gagnvart konum og börnum, ég held að það sé félagslegt taumhaldstæki sem að heldur, til þess að halda hóp, konum, í skefjum. Það er að segja, til að tryggja valdmörkin. Að konur séu ekki að gribbast eitthvað og fara inn á svið sem að þær eiga ekkert að vera á, sem að karlarnir hafa alltaf haft og finnst þeir bara eiga. Ennþá, margir karlmenn hugsa þannig ennþá.

Kristrún: Finnurðu ennþá fyrir nákvæmlega sömu þáttunum. Það er, þessi þrjú orð sem komu frá öllum þeim sem þú ræddir við í doktorsritgerðinni. Þ.e. vanmáttur eða valdleysi, sekt og skömm, þessi mikla skömm sem að skiptir greinilega miklu máli …

Guðrún: Skiptir miklu máli, ég held þetta, ef maður horfir á samskipti kynjanna svona bara breitt þá hugsa ég að flestar konur hafi einhvern tímann á ævinni, sérstaklega á unglingsaldri og yngri árum, aðallega á yngri árum , orðið varar við það að strákar taka sér vald til þess að skilgreina þær með ýmsum hætti. En allavega að koma þeim í skilning um það tiltölulega snemma hvort að þær eru gjaldgengar sem kynverur eða ekki. Það gera þeir með því að blístra, það gera þeir með því að hrópa á eftir þeim, það gera þeir með athugasemdum eða um útlit. Þannig að þeir taka sér vald til að skilgreina þessa persónu. sem er eitthvað sem að síðan setur flestar stelpur í þá stöðu að það sé kannski best að nálgast, að fella sig inn undir þessum mót sem stelpum eru skorin.

Kristrún: Einkunnin sem hún fær raðar þeim í einhvers konar píramída samfélagsins og þeim lærist að þær megi allt til vinna til þess að komast hærra.

Guðrún: Á þessari einkunnagjöf … Og það er til raunar bresk rannsókn byggð á viðtölum við unglingsstúlkur, hún var gerð fyrir nokkrum árum, ég held að hún sé fullgild ennþá. Hún snérist um það að ræða við stelpur um það, sem sagt, um kynferðisleg samskipti þeirra eða samskipti þeirra við strákana. Það sem kom fram var að stelpurnar sögðu: Það eru bara til tvær tegundir af stelpum. Það eru þær sem sofa hjá og það eru ísdrottningarnar. Ef þú ferð í hópinn sem að, ef strákarnir segja að þú sért í hópnum sem sefur hjá þá ertu drusla og ef þú ert í íshópnum þá ertu ósnertanleg en samt ertu ísdrottning.

Kristrún: Óþolandi.

Guðrún: Það er eiginlega ekki hægt að finna hvernig áttu að vera, þú getur engan veginn verið þannig að þú uppfyllir öll skilyrði.

Share This