4. október 2015

Stephanie Covington

Stephanie Covington við Djúpalónssand

Dr. Stephanie Covington var aðalfyrirlesari á ráðstefnu Rótarinnar, RIKK og fleiri samstarfsaðila í september sl. Yfirskrift ráðstefnunnar var Konur, fíkn, áföll og meðferð og komu þar saman 240 fagaðilar úr velferðarkerfinu ásamt fræðimönnum og konum úr hinu svokallaða batasamfélagi.

Dr. Covington er félagsráðgjafi og sálfræðingur, viðurkenndur meðferðaraðili, rithöfundur, ráðgjafi stofnana og fyrirtækja. Hún er frumkvöðull á sviði kynjamiðaðrar meðferðar við fíknivanda og í samþættingu áfalla- og fíknimeðferðar og hefur gefið út mikið af hagnýtu efni til að nota í meðferð. Rótin hefur haft af því fregnir að strax eftir ráðstefnuna hafi nokkrir meðferðaraðilar hér á landi og á Grænlandi tekið upp meðferðarefni hennar auk leiðbeininga um áfallamiðaða nálgun.

Dr. Covington hefur ferðast víða um heim til að aðstoða við uppbyggingu kynjamiðaðar meðferðar, sérstaklega fyrir konur. Héðan frá Íslandi hélt hún til Englands þar sem hún hefur verið í mikilli fræðsluherferð í hjá fangelsisyfirvöldum á Bretlandi og í öllum kvennafangelsum landsins.

Nú hafa þær fréttir borist að að eitt framsæknasta meðferðarúrræði á Bretlandi, Nelson Trust, hafi nefnt eina af meðferðarstöðvum sínum í höfuðið á Dr. Covington sem heitir nú Covington House. Sjá nánar: http://www.nelsontrust.com/news-and-events/news/dedication-of-covington-house/. Hér má lesa hugleiðingar hennar af þessu tilefni á heimasíðu góðgerðarsamtaka Lady Edwinu Grosvenor, afbrotafræðings, One Small Thing: http://www.onesmallthing.org.uk/dig-deeper/from-gordon-house-to-covington-house/.

Rótin vill nota tækifærið að óska bæði Dr. Covington og aðstandendum Covington House til hamingju en jafnframt ítreka óskir okkar um að yfirvöld fái Dr. Covington til að taka út meðferðarkerfið á Íslandi.

Share This