Námskeiðið Konur studdar til bata var haldið var á vegum Rótarinnar, í samstarfi við Janus endurhæfingu, haustið 2018 og fóru námskeiðin fram í húsnæði Janusar, Skúlagötu 19. Námskeiðið er byggt á efni frá dr. Stephanie Covington, Helping Women Recover. Guðrún Ebba Ólafsdóttir hafði veg og vanda af þýðingu námsefnisins.

Verkefnið þáði styrki frá heilbrigðisráðuneyti, velferðarráði Reykjavíkurborgar og Lýðheilsusjóði. Þá studdi Fræðslusjóður Rótarinnar þýðingu námsefnisins og kunnum við þessum aðilum bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Könnun á ánægju með námskeiðið var lögð fyrir þátttakendur að því loknu og hér birtast niðurstöður hennar.

Hóparnir voru tveir, daghópur fyrir konur í endurhæfingu hjá Janusi þar sem Katrín G. Alfreðsdóttir, félagsráðgjafi sem lokið hefur leiðbeinendanámskeiði hjá Covington í notkun efnisins, og Gunnhildur Kristjánsdóttir, iðjuþjálfi, voru leiðbeinendur og hittist sá hópur eftir hádegi á þriðjudögum. Fimm konur luku námskeiðinu. Katrín og Guðrún Ebba Ólafsdóttir, grunnskólakennara, leiðbeindu hinum hópnum kl. 17.15 á þriðjudögum og luku 8 konur því námskeiði. Alls kláruðu 13. konur námskeiðin. Svörin eru ekki aðgreind eftir hópunum. Kristín I. Pálsdóttir sá um verkefnisstjórn.

Könnunin var þrískipt. Alls svöruðu 13 konur könnuninni, 9 konur á blöðum og 4 í netkönnun. Í fyrri hlutunum tveimur voru þátttakendur spurðir um ánægju með námskeiðið annars vegar og ánægju með námsefnið hins vegar og svöruðu þeir spurningum með því að gera hring um númer á skalanum 0-4 þar sem 0 er alls ekki sammála, 1 svolítið sammála, 2 nokkuð sammála, 3 frekar sammála og 4 mjög mikið sammála. Í öðrum hlutanum bættist við valmöguleikinn VE = Var ekki þegar þessi hluti var tekinn fyrir. Í síðasta hlutanum voru opnar spurningar um námskeiðið þar sem konurnar höfðu tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri.

Óhætt að segja að niðurstöðurnar bera vitni um mikla ánægju þátttakendanna og leiðbeinendur fá mikið lof. Meiri ánægja var með námskeiðið í heild heldur en fræðsluna en þar er það þátturinn um andlegt líf sem dregur útkomuna aðeins niður. Ýmist vegna þess að sá þáttur þyki ekki nógu innihaldsríkur eða vegna þess að það vanti meira um 12 sporakerfið, ef marka má athugasemdir kvennanna.

Fyrsti hluti könnunarinnar, ánægja með námskeið. Myndin sýnir ánægju hvers þáttakanda fyrir sig

Fyrsti hluti könnunarinnar. Heildaránægja með hvern þátt

Annar hluti könnunarinnar, ánægja með námsefni. Myndin sýnir ánægju hvers þáttakanda fyrir sig

Annar hluti könnunarinnar, ánægja með námsefni. Heildaránægja með hvern þátt

Síðasti hluti könnunarinnar eru opnar spurningar um námskeiðið þar sem konurnar höfðu tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri um hvað gagnaðist þeim mest, hverju mætti breyta eða bæta, hvernig námskeiðshaldarar stóðu sig, hvort þær vildu koma einhverju á framfæri og hvort þær hefðu áhuga á þátttöku í stuðningshópastarfi Rótarinnar í framhaldi af námskeiðinu.

Gagnlegasti hluti námskeiðsins er að mati kvennanna vinna með sjálfið og sambönd. Fimm konur segja að allt hafi gagnast þeim einnig nefnir 1 vinnu með kynverund og önnur svör eru: „Að koma auga á að sinna mér og mínum áföllum“, „fannst áhugavert að hlusta á hinar konurnar“ og „Taka skrefið að deila og treysta“.

Spurðar að því hverju mætti breyta eða bæta á námskeiðinu hafa 5 konur engar tillögur og segja námskeiðið „fullkomið“, „frábært“ „vel upp byggt og góð samfella“. Aðrar athugasemdir eru að þær vildu fá framhaldsnámskeið, að loka tímanum betur þar sem vinnan er svo krefjandi, einni fannst andlegi kaflinn þunnur en annarri finnst vanta meira um 12 spora vinnu og ein gerir athugasemd við að stundum hafi verið hætt fyrr en ætlað var.

Spurðar hvernig námskeiðshaldarar stóðu sig svara 7 konur mjög vel, 2 vel, 2 frábærlega og ein segir awesome og önnur amazing. Aðrar athugasemdir voru: „Algjörir snillingar að taka á og miðla öllum þessum viðkvæmu málefnum með einstaklingum í mismunandi andlegu ástandi“, „Góð blanda af frábærum konum. Unnu vel saman“, „Góðar að hlusta og leyfandi. Tóku mark á því sem við sögðum“, „Voru mjög áhugasamar og umhugað um okkur þátttakendur. Vel upplýstar og fróðar“.

Spurðar að því hvort þær vilji koma einhverju á framfæri er þakklæti flestum í huga. Níu svara spurningunni og 2 segja þakklæti þeim efst í huga 3 segja „takk“, „takk innilega“ og „takk frábært námskeið“ og svo þetta: „Fyrsta skipti sem ég tek þátt i svona starfi og það er mun áhugaverðara og fróðlegra en ég átti von á.“ og „Erfitt en að sama skapi gríðarlega gagnlegt“.

Tólf af þrettán konum svara spurningunni hvort þær vilji halda áfram í stuðningshópastarfi Rótarinnar og allar játandi.

Niðurstaðan er sérstaklega ánægjuleg með tilliti til þess hversu krefjandi námskeiðið er fyrir konurnar en vert er að nefna að þetta eru svör þeirra sem luku námskeiðinu og þær konur sem ekki luku því fengu ekki senda könnun en það væri líka nýtilegt að hafa þær upplýsingar.

Rótinni bauðst að hafa námskeiðin í Bjarkarhlíð á nýju ári og hefst nýtt námskeið það 16. janúar 2019 og sjálfshjálpar hópar líka sem við nefnum Rótarhópa.

Viðhengi I: Svör við þriðja hluta

Viðhengi II: Könnunarblað

Mat þátttakenda á námskeiðinu Konur studdar til bata, haust 2018

Share This