10. desember 2015

Miðvikudaginn 16. desember fáum við til okkar góða gesti sem ætla að gleðja okkur með góðum listum. Rithöfundarnir Linda Vilhjálmsdóttir og Auður Jónsdóttir og Ásdís Óladóttir koma og lesa úr verkum sínum.
Linda sendi frá sér ljóðabókina Frelsi í haust og um hana segir á síðu útgefanda: „Frelsi geymir um fimm tugi beittra, pólitískra ljóða: meitlaðar og áhrifaríkar ljóðmyndir spegla samfélag og samtíma, og þvinga jafnvel lesandann til miskunnarlausrar sjálfsskoðunar. Áleitin bók sem hreyfir við hugsunum og tilfinningum.“

Auður gefur út bókina Stóri skjálfti í ár og um hana segir á síðu útgefanda hennar: „Saga rankar við sér eftir flogakast á gangstétt við Miklubrautina og þriggja ára sonur hennar er á bak og burt. Það síðasta sem hún man er tveggja hæða strætisvagn sem vegfarandi efast um að hún hafi í raun og veru séð. Næstu daga drottnar efinn yfir huga hennar. Hvað gerðist fyrir flogið? Hverju getur hún treyst? Og hvernig getur hún botnað nokkuð í tilfinningum sínum þegar minnið er svona gloppótt?“

Ásdís Óladóttir er ljóðskáld og í haust kom út úrval ljóða hennar, Sunnudagsbíltúr. Ljóðaúrval, og um bókina segir á vef útgefanda: „Árið 1995 kom út fyrsta ljóðabók Ásdísar Óladóttur. Í tilefni af tuttugu ára skáldafmæli hennar er nú gefið út úrval úr sjö ljóðabókum hennar. Bækurnar eru um margt ólíkar en bera allar vott um sérstaka og djúpstæða skynjun Ásdísar á veruleikanum.

„Rödd Ásdísar Óladóttur er einstök í ljóðaheiminum, hún er bæði frumleg, heit og litrík.“ – Vigdís Grímsdóttir.“

Jafnvel bætast fleiri gestir í hópinn.

Jólakvöldið er haldið að Hallveigarstöðum, Túngötu 14 í Reykjavík hinn 16. desember kl. 20-21.30.

Allir, konur og karlar, eru velkomnir á viðburðinn!

Boðið er upp á te og kaffi, konfekt og jafnvel piparkökur.

Við minnum svo á að við erum með samskot fyrir kaffinu munið ví eftir klinki í baukinn!

Viðburðurinn er á Facebook!

Share This