18. september 2015

HugarfarsbreytingOkkur Rótarkonum þykir ástæða til að þakka fyrir tvær athyglisverðar greinar sem Styrmir Gunnarsson skrifar í Morgunblaðið laugardagana 5. og 12. september. Fyrri greinin nefnist „Ábending sem kallar á byltingu velferðarkerfisins“ og hin síðari „Leggjum til atlögu við „skrímslin“ í lífi okkar“.

Við tökum undir með Styrmi að byltingar sé þörf í velferðarkerfi og heilbrigðisþjónustu í ljósi samfélagsáhrifa sálrænna áfalla sem fólk verður fyrir í æsku. Styrmir vísar til rannsókna Sigrúnar Sigurðardóttur lektors við Háskólann á Akureyri en einnig má benda á rannsóknina sem fyrst varð til að opinbera fylgni erfiðra upplifana í æsku og verra heilsufars og aukinnar áhættu á fíknivanda síðar á ævinni eða svokallaða ACE-rannsókn (www.acestudy.org) sem er ein stærsta lýðheilsurannsókn sem gerð hefur verið. Einnig má benda á viðtal við Berglindi Guðmundsdóttur í Morgunblaðinu 27. ágúst sl. undir yfirskriftinni „Aldrei of seint að vinna með áföll“ en hún er dósent í sálfræði við læknadeild HÍ, yfirsálfræðingur Landspítala – Háskólasjúkrahúss og hefur starfað sem klínískur sálfræðingur hér á landi í tæp tíu ár. Yfirskrift viðtalsins og heiti seinni greinar Styrmis eru mjög lýsandi.

Berglind og Sigrún héldu báðar erindi á ráðstefnunni, Konur, fíkn, áföll og meðferð sem haldin var 1. og 2. september sl. á vegum Rótarinnar, RIKK – Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum – og fleiri aðila.

Við í Rótinni hvetjum til þess að þau sem ráða ríkum í velferðar- og heilbrigðiskerfinu hefjist handa við að innleiða áfallameðvituð vinnubrögð (e. trauma-informed) í sínum kerfum og þjónustu. Við hvetjum einnig til þess að Stephanie Covington verði fengin til að taka út meðferðarkerfið og koma með tillögur að nauðsynlegum breytingum í anda nýjustu rannsókna um áhrif áfalla á einstaklinginn og samfélag og kynjamiðaðrar þjónustu.

Áður en kerfinu verður bylt þarf hugarfarsbreytingu, það er sannfæring okkar að hún sé þegar hafin, eins og við urðum varar við á ráðstefnunni okkar, þar sem 240 manna hópur fagfólks og leikmanna kom saman, og greinar Styrmis bera einnig vitni um. Ósk okkar er að öll opinber þjónusta verði áfallameðvituð og kynjamiðuð og höfum þegar haft spurnir af því að þrjár sjúkra- og meðferðarstofnanir séu að breyta vinnulagi til samræmis við það sem kom fram á ráðstefnunni.

Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Katrín Guðný Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, Þórlaug Sveinsdóttir

Höfundar eru í ráði Rótarinnar – félags um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. september 2015

Share This