24. september 2016

Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda – lýsir undrun og vanþóknun á framgöngu dómstóla og fjölmiðla í kjölfar nauðgunarmáls sem upp kom í Vestmannaeyjum um liðna helgi. Skemmst er þess að minnast að lögregla í Vestmannaeyjum taldi tölfræðiupplýsingar um kynferðisbrot of persónuleg gögn til að birta opinberlega. Nú tæpum tveimur mánuðum síðar bregður svo við að fjölmiðlar og gæsluvarðhaldsúrskurður Hæstaréttar birta „viðkvæmar og jafnvel afbakaðar persónu- og heilsufarupplýsingar“ um þolanda hrottafenginnar nauðgunar, svo vitnað sé í Áslaugu Björgvinsdóttur, fyrrverandi dómara.

Rótin bendir á að, eins og segir í ályktun félagsins frá 22. júlí sl:

„Það á að sjálfsögðu að vera á valdi þolenda hvort og hvenær saga þeirra fer í fjölmiðla en rétt er að árétta að tölfræði um ofbeldi telst ekki til viðkvæmra persónuupplýsinga, ekki frekar en upplýsingar um innbrot eða aðra glæpi.“

Það væri ólíkt mannúðlegra samfélag sem sýndi brotaþolum kynferðisofbeldis jafnmikla nærgætni og hagsmunaaðilum í útihátíðahaldi eða vændiskaupendum sem íslenskt dómskerfi og fjölmiðlar hafa farið mildum höndum um og lagt sig í framkróka við að vernda.

 

Share This