10. desember 2018

Rótinni hefur borist svar frá Barnaverndarstofu við fyrirspurn vegna forvarna sem send var á Barnaverndarstofu, borgarstjóra, Embættis landlæknis, menntamálaráðuneytis og Umboðsmanns barna. Landlæknir svaraði fyrirspurninni 8. október. Áður hafa borist svör frá Embætti landlæknis og Embætti umboðsmanns barna.

Rannsóknir síðustu áratuga á sviði forvarna gefa ekki neina vísbendingu um það að hræðsluáróður, eða svokölluð óttaboð, dragi úr áhættuhegðun hjá áhættuhópum. Til eru rannsóknir sem benda til þess að slík fræðsla geti, til skamms tíma, haft þau áhrif á fólk að það segist ætla að bæta ráð sitt en Barnaverndarstofu er ekki kunnugt um neinar rannsóknir sem sýna fram á fylgni á milli óttaboða, einna og sér, og jákvæðra hegðunarbreytinga. Þá gera viðtekin skýringalíkön af sambandinu milli óttaboða og hegðunar heldur ekki ráð fyrir slíkri fylgni. Í þessu samhengi vekur Barnaverndarstofa athygli á nýrri samantektargrein eftir Kok, Peter, Kessels, ten Hoor og Ruiter (2018).

Tvær breytur skipta mestu máli þegar kemur að því að útskýra hvers vegna óttaboð eru illa til þess fallin að draga úr áhættuhegðun fólks í áhættuhópi; annars vegar mat á alvarleika þess sem varað er við og hins vegar geta til að breyta í samræmi við skilaboðin. Ef viðtakendur óttaboða meta ógnina alvarlega, og ef þeir eru færir, og telja sig færa, um að afstýra henni, þá eru allar líkur á því að þeir geri það sem þarf til að tryggja öryggi sitt eða heilsu sína. En vandinn er sá að fólk í áhættuhópi bregst sjaldan við óttaboðum með þessum hætti. Oft skortir getu til að breyta í samræmi við þau, vegna ýmissa félagslegra þátta, en það getur líka verið að ógnin sem þau boða sé ekki tekin alvarlega og því hundsuð. Samspil þessara breyta er jafnframt þannig að þegar ógn er talin mjög alvarleg og geta til að breyta hegðun sinni mjög lítil þá eru auknar líkur á því að óttaboð, ein og sér, hafi neikvæð áhrif á hegðun, þ.e. ýti undir áhættuhegðun. Hræðsluáróður hefur því sjaldan áhrif á þá hópa sem honum er ætlað að hafa áhrif á, og í sumum tilvikum getur hann jafnvel gert illt verra.

Því má fullyrða að ungmenni sem komin eru út í vímuefnaneyslu, eða eru á barmi þess, hafi lítið sem ekkert gagn af því að kynnast harmsögum af neysluheiminum. Í sumum tilvikum sé það jafnvel skaðlegt.

Þó svo að þessar sögur hafi þau áhrif á ungmenni að þau fari að líta ógnina sem af neyslu stafar alvarlegum augum þá hafa þau, með slíkum frásögnum, ekki fengið neina aðstoð við að halda sig frá neyslu vímuefna og staða þeirra því óbreytt. Eins eftirminnileg og óttaboð á borð við harmsögur geta verið þá sýna þau, ein og sér, enga leið út úr vandanum. Ótti, eins og Kok og félagar benda á í grein sinni, er vondur ráðgjafi.

En oft munu ungmenni í áhættuhópi ekki líta svo á að harmsögurnar eigi við um sig og gera þá lítið úr vandanum með því að samsama sig við þær neyslusögur sem eru ekki harmsögur. Eftir sem áður er galli óttaboðanna sá að þau fjalla aðeins um það sem ætti ekki að gera, ekki um það sem ætti að gera. Slík leiðsagnaraðferð er ekki vænleg til árangurs og er það talin almenn vitneskja í uppeldisfræðum.

Þá er heldur ekki hægt að útiloka að harmsögur hafi, í sumum tilvikum, neikvæð áhrif. Hjá ungmennum í mikilli neyslu, sem vegna félagslegra skilyrða hafa litlar sem engar forsendur til að breyta lífi sínu án sérfræðiaðstoðar, geta þær framkallað forlagahugsun sem stuðlar að enn frekari neyslu.

Hvað þeim ungmennum líður sem eru ekki í neinum áhættuhópi þá staðfesta harmsögur vissulega þá trú þeirra að heilbrigður lífstíll sé æskilegur en það getur varla kallast forvarnastarf. Hjá þessum ungmennum, og þau eru langflest, hefur gott forvarnastarf, sem byggist á hlýju uppeldi og jákvæðum fyrirmyndum, þegar farið fram, og er harmsögum því ofaukið.

Árangursríkar forvarnir fela í sér samvinnu á milli foreldra, skóla og nærsamfélagsins alls í þeirri viðleitni að gera heilbrigðan lífstíl að eftirsóknarverðum og raunhæfum valkosti fyrir öll ungmenni, ekki með því að benda á allt það neikvæða sem fylgir neyslu, heldur með því að draga fram allt það jákvæða sem fylgir heilbrigði.

Í ljósi ofangreinds getur það að skóli lætur nemendur sína fara á kvikmynd sem fjallar um hræðilegar afleiðingar þess að vera í neyslu, eins og Lof mér að falla, ekki talist til góðra forvarna eitt og sér. Hvað spurningu Rótarinnar varðar um hvaða afleiðingar það kunni að hafa fyrir óhörðnuð börn og unglinga að fara á þessa kvikmynd er það að segja að það muni að öllum líkindum ekki hafa nein áhrif á það hvort þau misnoti vímuefni eða ekki. Ekki er hægt að fullyrða það að stök óttaboð af þessu tagi ýti undir neysluhegðun afmarkaðs hóps ungmenna en því má beina til skóla að í forvarnastarfi þurfi jákvæð hegðunarmótun ávallt að vera í fyrirrúmi.

Heimild:

Kok G., Peters G. J. Y., Kessels L. T. E., ten Hoor, G. A. & Ruiter, R. A. C. (2018). Ignoring theory and misinterpreting evidence: the false belief in fear appeals. Health Psychology Review, 12(2), 111-125.

Virðingarfyllst
f.h. Barnaverndarstofu

Martin Smedlund 

Share This