17. febrúar 2014

Rótin sendi 17. febrúar 2014 erindi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Embætti landlæknis hefur neitað að afhenda Rótinni upplýsingar um fjölda skráðra atvika og kvartanir á meðferðarstöðvum. Félagið vill láta á það reyna hvort að þessi málsmeðferð standist upplýsingalög.

„Móttakandi: Úrskurðarnefnd um upplýsingamál
Sendandi: Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda
Erindi: Ósk um upplýsingar um skráningu atvika frá Landlækni
Hinn 14. febrúar 2014 sendi Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda – Embætti landlæknis erindi um skráningu atvika á á stofnunum sem veita fíknimeðferð/afvötnun.
Spurning 2. í erindinu hljómar svo: Hversu mörg atvik skráðu umræddar stofnanir/aðilar á tímabilinu 2009‒2013 í heild?
Spurning 6. var: Hversu margar kvartanir bárust Embætti landlæknis á tímabilinu 2009‒2013 í heild vegna stofnana/aðila sem veita fíknimeðferð/afvötnun samkvæmt 12. gr. laga um Embætti landlæknis eða sambærilegum ákvæðum eldri laga?
Einnig var spurt í spurningu 9: Hvernig háttar Embætti landlæknis gæðaeftirliti sínu með stofnunum/aðilum sem veita fíknimeðferð/afvötnun?
Sjá allar spurningarnar í viðhengi.
Hinn 25. febrúar fengum við svar frá embættinu þar sem okkur er neitað um upplýsingar um fjölda atvika á meðferðarstöðvum en þess í stað fengum við upplýsingar um öll skráð atvik á landinu skipt í allar heilbrigðisstofnanir nema Landspítala og hins vegar á Landspítala. Í svari við spurningu 2. segir: „Þar sem um tiltölulega fá atvik er að ræða á minni stofnunum og einstökum deildum er ekki mögulegt að gefa upplýsingar um tölur atvika eftir mismunandi stofnunum eða mismunandi deildum Landspítala.“
Svar við spurningu 6. var á sömu lund, veittar voru upplýsingar um allar kvartanir og skyld erindi sem bárust embættinu í heild en ekki fyrir þær stofnanir sem óskað var eftir upplýsingum um.
Rótin sendi annað erindi til embættisins 22. október þar sem spurningar um fjölda atvika í meðferðargeiranum eru ítrekaðar. Hinn 5. nóvember fengum við svar frá embættinu þar sem fyrri neitun á umbeðnum upplýsingum er ítrekuð.
Rótin er hagsmunafélag kvenna sem eiga við fíknivanda að etja. Þessi hópur á mikið undir því að meðferð sé fagleg og fyllsta öryggis gætt.
Ekki verður séð að umbeðnar upplýsingar falli undir þau atriði sem kveðið er á um í 10. gr. upplýsingalaga um takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna. Einnig er ólíklegt að upplýsingarnar séu ekki til hjá embættinu þar sem slíkar upplýsingar eru nauðsynlegir gæðavísar í reglubundnu eftirliti.
Rótin óskar eftir því efir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál beini því til Embættis landlæknis að afhenda Rótinni umbeðin gögn á því formi sem við óskum eftir.
Í viðhengi fylgja eftirfarandi skjöl:

  1. Erindi Rótarinnar til Embættis landlæknis um skráningu atvika frá 14. febrúar 2014
  2. Svar Embættis landlæknis um skráningu atvika frá 25. febrúar 2014
  3. Erindi Rótarinnar til Embættis landlæknis um skráningu atvika og önnur gæðamál í meðferðarstarfi frá 22. október 2014
  4. Svar Embættis landlæknis um skráningu atvika og önnur gæðamál í meðferðarstarfi frá 5. nóvember 2014

Fyrir hönd Rótarinnar,

Kristín I. Pálsdóttir, talskona
GSM: 893-9327.“

Share This