Vill SÁÁ ekki gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi sjúklinga sinna? spyrja konur sem sitja í ráði og vararáði Rótarinnar. Ef SÁÁ ætli að taka frásagnir kvenna af meðferðinni alvarlega þurfi samtökin að ráðast í allsherjarúttekt á starfseminni. Í jafnréttislögum séu skýrar skilgreiningar á kynferðisáreitni sem samtökin ættu að miða við, setja sér verklagsreglur um meðferð slíkra brota og endurmennta starfsfólk um þennan brotaflokk.

Þolendur kynferðisofbeldi þurfa stuðning og aðstoð við að vinna úr ofbeldinu. Það er því afar mikilvægt að þolendur treysti sér til þess að segja öðrum frá og leita sér hjálpar. Enn í dag eru viðbrögð sumra að afneita brotunum, gera lítið úr þolendum eða reynslu þeirra og því velja margir þolendur að þegja.

Stundin hefur fjallað mjög ítarlega um atvik sem gerst hafa á meðferðarstofnunum SÁÁ. Konur hafa stigið fram og fengið tækifæri til að segja frá kynferðislegri áreitni sem þær urðu fyrir í meðferð og/eða viðbrögðum starfsfólks þegar þær lýstu reynslu sinni. (Sjá t.d. „Það sem SÁÁ vill ekki tala um“ og „Var látin afneita áföllum í meðferð“.)

Eins og við var að búast gáfu þessar umfjallanir Stundarinnar formanni SÁÁ, Arnþóri Jónssyni, tilefni til að tjá sig um málið opinberlega. En í stað þess að votta þessum konum samúð sína og skýra frá því að verkferlar í kringum tilkynningar um kynferðislega áreitni verði endurskoðaðir, eru viðbrögð formannsins að ráðast gegn fjölmiðlinum og gera lítið úr konunum. Í grein sinni „Reynslusögur og fíknlækningar SÁÁ, segir formaður SÁÁ tilgang umfjöllunarinnar vera að láta „lesendur sveiflast með í geðshræringu“.

Arnþór ýjar einnig að því að um veikt fólk sé að ræða og að hegðunin sé afleiðing neyslunnar: „Nútímasamfélag eins og okkar sem lítur á vímuefna- og lyfjaneyslu einstaklinga sem sjálfsagða og eðlilega hegðun getur ekki á sama tíma afneitað afleiðingunum neyslunnar. Hluti fólksins verður veikur, það er óumflýjanlegt. Reynslusögurnar eru mismunandi og nánast óteljandi og erfitt væri að reka heilbrigðisþjónustu með því að vera stöðugt að stökkva úr einu í annað.“

Arnþór fellur í sömu gryfju og fleiri í hans stöðu þegar kynferðisbrot koma upp á yfirborðið. Hann dregur frásagnir kvennanna í efa og afhjúpar vanþekkingu sína á eðli kynferðisbrota: „En ef ill meðferð á konum hjá SÁÁ væri almenn staðreynd, sérstaklega í ljósi þessa mikla fjölda, myndi hún örugglega birtast okkur sem alvarlegar athugasemdir og aðgerðir hjá opinberum eftirlitsaðilum. Það ætti ekki fara framhjá neinum.“ Veruleikinn er einmitt sá að kynferðisbrot fara gjarnan „framhjá“. Þau gerast iðulega fyrir luktum dyrum og það virðist ekki breyta neinu fyrir þá sem harðvítugastir eru í þessari afneitun að fjöldinn allur af konum komi fram og segi frá kynferðisáreitni og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir.

„Ég hef ekki orðið fyrir slíku. Ég held það hafi ekki gerst,“ segir í myndasögunni. Arnþór segir það sama og bætir svo gráu ofan á svart með því að segja að um „veikar“ manneskjur sé að ræða til að draga úr trúverðugleika þeirra.

Stjórn SÁÁ ætti að votta þeim konum sem þarna koma fram virðingu sína fyrir hugrekkið í stað þess að segja að heilbrigðisstarfsfólk geti ekki „stokkið úr einu í annað“ vegna óteljandi reynslusagna. Ætli SÁÁ að taka frásagnirnar alvarlega þurfa samtökin að ráðast í allsherjarúttekt á starfseminni. Í jafnréttislögum eru skýrar skilgreiningar á kynferðisáreitni og –ofbeldi sem samtökin ættu að miða við og setja sér verklagsreglur um meðferð slíkra brota og endurmennta starfsfólk og stjórnarmenn samtakanna um þennan brotaflokk. Vill SÁÁ ekki gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi sjúklinga sinna?

Yfirlýsing af hálfu formannsins um að „fíknilækningar“ sem stundaðar eru í meðferðinni sigli „upp á móti straumi þekkingar í sálgreiningu, sálarfræði og félagsvísindum“ er jafnframt afar furðuleg. Er Arnþór þar með að afneita tengslum áfalla og fíknar, og þar með vísindalegri þekkingu? Ráði Rótarinnar var nýlega boðið á fund með fagfólki á Vogi þar sem farið var yfir þessi mál. Þessar yfirlýsingar Arnþórs eru ekki í samræmi við það sem kom fram á þeim fundi.

Að lokum, enginn hefur haldið því fram að allar konur verði fyrir kynferðisáreiti í meðferð né að um illan ásetning SÁÁ sé að ræða. Hins vegar virðist um vítaverðan þekkingarskort á eðli og meðferð kynbundins ofbeldis að ræða í meðferð samtakanna.

Hversu hátt hlutfall kvenna þykir formanni SÁÁ annars ásættanlegt að verði fyrir áreitni í meðferðinni?

Höfundar eru í ráði og vararáði Rótarinnar, 

Áslaug Kristjana Árnadóttir, Edda Arinbjarnar, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Gunný Ísis Magnúsdóttir, Katrín G. Alfreðsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, Margrét Gunnarsdóttir, Margrét Valdimarsdóttir, Þórlaug Sveinsdóttir

Greinin birtist upphaflega í Stundinni 19. júlí 2017.

Share This