Konur finna styrk sinn – Námskeið

Konur finna styrk sinn – Námskeið

Konur finna styrk sinn er áfalla- og kynjamiðaður leiðsagnarhópur (e. Psychodynamic Group) þar sem lögð er áhersla á að vinna með rætur áfengis- og vímuefnavanda og annað andstreymi í lífi kvenna. Vímuefnavandi eða skaðleg vímuefnanotkun er ekki einangrað vandamál heldur á sér m.a. rætur í áföllum. Unnið er með þann fjölþætta vanda sem konur glíma jafnan við. Á milli tíma er verkefnavinna sem þátttakendur eru hvattar til að vinna svo að þær fái sem mest út úr námskeiðinu og fá þátttakendur veglega vinnubók.
Námskeiðið er úr smiðju dr. Stephanie Covington og heitir á ensku Helping women recover. Covington er frumkvöðull í vinnu með konum með áfallasögu sem notað hafa sjálfskaðandi bjargráð eins og vímuefnanotkun.

Skráning

Umsagnir þátttakenda á fyrri námskeiðum

„Mér fannst rosalega gott að vinna með að bæta líkamsvitund, hugsa jákvætt til líkama síns. Einnig mjög gagnleg um kynlíf í tengslum við neyslu.“
„Að finna rótina að því hver ég er, hvernig hlutverk ég hef alist upp við og fests í. Að geta skapað nýja mig.“
„Námskeiðið var fullkomið og afar gagnlegt.“
„Ég er óendanlega þakklát!“
„Leiðbeinandi var alveg yndisleg og mun alltaf eiga stað í hjarta mínu.“
„Frábærlega góð nærvera og fullkomið traust.”
„Leiðbeinandinn stóð sig frábærlega! Alveg yndisleg og mun alltaf eiga stað í hjarta mínu.“
„Allt var svo gott og þægilegt umhverfi,“

Fyrir hverjar?

Námskeiðið er ætlað konum sem eiga sögu um vímuefnavanda. Það hentar jafnt konum sem hafa ekki notað vímuefni í langan tíma sem og konum sem eru að hefja vinnu við að bæta lífsgæði sín. Hámarksfjöldi er venjulega 10 þátttakendur en vegna sóttvarnaráðstafana eru nú einungis sex pláss í boði.

Markmið

Markmið námskeiðsins er að konur öðlist aukna sjálfsþekkingu sem einstaklingar en skilgreini sig ekki í gegnum sambönd eða stöðu sína. Einnig að þær átti sig á styrkleikum sínum og geti byggt framtíð sína og betra líf á þeim.

Innihald

Aðaláherslan er á fjóra þætti: Sjálfsmynd, samskipti, kynverund og andlega heilsu. Innan þessara þátta eru undirflokkar þar sem farið er ítarlega í atriði sem eru mikilvæg til að auka lífsgæði og kynntar nýjar aðferðir sem stuðla að þeim. Spurt er hvað kom fyrir konurnar í stað þess að spyrja hvað sé að þeim, hvernig þær komust af og til hvaða bjargráða greip hver og ein þeirra.

Samþykktir fyrir námskeið og hópa Rótarinnar gilda á námskeiðinu eins og í öðru starfi félagsins.

Hvenær?

Hópurinn hittist 10 sinnum í u.þ.b. 90 mínútur í hvert skipti. Næsta námskeið hefst 9. febrúar 2022.  Tímarnir hefjast stundvíslega kl. 16:30 og lýkur yfirleitt kl. 18:00 og aldrei seinna en upp úr kl. 18:30. Undantekning á þessu er að tíminn 2. mars hefst kl. 16:00.

Hvar?

Námskeiðið er haldið í sal í kjallara, Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík.

Þátttökugjald er 36.000 kr.

Skráning.

Dagsetningar

Tími Dagsetning Tími Dagsetning
1 9. febrúar 6 7. mars
2 14. febrúar 7 9. mars
3 16. febrúar 8 16. mars
4 23. febrúar 9 23. mars
5 2. mars 10 30. mars

Leiðbeinendur og verkefnisstjórn

Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Þórunn Sif Böðvarsdóttir. Verkefnisstjóri er Kristín I. Pálsdóttir.

Námskeiðið er niðurgreitt með styrkjum frá Lýðheilsusjóði og heilbrigðisráðuneyti.

Þjálfun starfsfólks í réttarvörslukerfi

Þjálfun starfsfólks í réttarvörslukerfi

Rótin, í samstarfi við geðheilsuteymi fanga (GHF) og Fangelsismálastofnun (FMS), hefur sent erindi til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, með ósk um rúmlega 10 milljóna króna styrk til innleiðingar og þjálfunar starfsfólks í réttarvörslukerfinu í áfalla- og kynjamiðaðri nálgun. Erindið var einnig sent á Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, og Ásmund Einar Daðason, félagsmálaráðherra, í von um stuðning þeirra við verkefnið líka.

Innleiðingin felur í sér að fá hingað til lands sérfræðinga frá Center for Gender and Justice,(CG&J), í Kaliforníu, til að þjálfa starfsfólk fangelsanna, geðheilsuteymis og Rótarinnar. CG&J býr að áratuga reynslu, bæði í Bandaríkjunum og víða um heim, af vinnu með fólki í fangelsum og hefur gefið út mikið af hagnýtu efni sem notað er í fangelsum og víðar.

Dr. Stephanie S. Covington er forstöðukona Center for Gender og Justice í San Diego í Kaliforníu ásamt Barböru E. Bloom. Báðar hafa þær á löngum starfsferli sérhæft sig í málefnum kvenna og stúlkna í réttarvörslukerfinu og á seinustu árum útfært þá þekkingu fyrir karla og drengi. Rótin hefur átt í farsælu samstarfi við dr. Covington undanfarin 6 ár, eða síðan hún koma á ráðstefnu félagsins um konur og fíkn, árið 2015. (more…)

Dagskrá haust 2020

Dagskrá haust 2020

Fyrsti viðburðurinn í starfi Rótarinnar haustið 2020 er námskeiðið Forvarnir fyrir grunnskóla sem haldið er 2. september. Í haust verða haldin nokkur námskeið á vegum félagsins, Rótarhópurinn hefur göngu sína 16. september og þá býður félagið upp á fjölbreytta fræðslu meðal annars fyrir ráðgjafa og dvalarkonur Kvennaathvarfsins.

Athugið að félagið fylgir sóttvarnareglum vegna Covid-19 og því komast færri að á námskeið og hópa.

Vegna Covid-19 er nú gert hlé á umræðukvöldum félagsins í haust og eins er um Hreyfiaflið.

(more…)

Hreyfiafl Rótarinnar

Hreyfiafl Rótarinnar

Hreyfiafl Rótarinnar er nýr hópur innan félagsins sem ætlar að hittast einu sinni í viku til að rækta líkama og sál. Við förum í gönguferðir, jóga, flot eða annað sem okkur blæs í brjóst. Hópurinn hittist á mismunandi stöðum og verður nýr upphafsstaður fyrir hvern mánuð.

Þórlaug Sveinsdóttir, sjúkraþjálfari og jógakennari leiðir starfið í samvinnu við þær Guðrúnu Ernu Hreiðarsdóttur, jógakennara og Huldu Stefaníu Hólm.

Fyrsti hittingur verður þriðjudaginn 4. febrúar kl. 17:30-18:30 og er upphafsstaður febrúarmánaðar í Öskjuhlíð við Nauthól. 

Þátttaka í hreyfiaflinu kostar ekki krónu og allar konur eru velkomnar!

Skráning í hópinn er hér við erum líka með hóp á Facebook fyrir Hreyfiaflið.

Ráðgjafi tekur til starfa

Ráðgjafi tekur til starfa

Rótin býður nú upp á einstaklingsráðgjöf í samstarfi við Bjarkarhlíð og hefur Katrín G. Alfreðsdóttir, félagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur og sérfræðingur um vímuefnavanda kvenna tekið til starfa sem ráðgjafi félagsins.

Ráðgjöfin er ætluð konum með sögu um vímuefnavanda og/eða áföll og er veitt konum að kostnaðarlausu.

Katrín tekur fyrst um sinn á móti konum á þriðjudögum í Bjarkarhlíð og fer skráning í viðtölin fram í gegnum skráningarkerfi Bjarkarhlíðar.

Fyrsta viðtal er tekið af starfsfólki Bjarkarhlíðar sem vísar svo áfram í önnur úrræði, þar með talið til ráðgjafa Rótarinnar.

Ef óskað er frekari upplýsinga um viðtölin og aðra þjónust félagsins er velkomið að senda póst á skraning@rotin.is.

Katrín G. Alfreðsdóttir er með meistarapróf í félagsráðgjöf, hefur lokið tveggja ára námi í fjölskyldumeðferð frá Endurmenntun Háskóla Íslands, hún er með Professional Certificate í vinnu með konum með vímuefnavanda frá University College Dublin og með viðbótardiplóma frá Háskóla Íslands í áfengis- og vímuefnafræðum. Katrín hefur réttindi til að veita EMDR meðferð (ens. Eye movement Desensitization and reprocessing) og hefur lokið námskeiðum í Endurmenntun Háskóla Íslands í áhugahvetjandi samtali (ens. Motivational Interviewing) og lausnamiðaðri nálgun (ens. Solution focused therapy). Katrín hefur sótt vinnustofur hjá dr. Stephanie Covington á The Connecticut Women’s Concortium, árið 2017 og 2019, og lokið þjálfun í vinnu með konur með vímuefnavanda og áfallasögu samkvæmt kenningum dr. Covington. Að auki hefur hún lokið námskeiði um sálræn áföll og ofbeldi í Háskólanum á Akureyri.

Katrín hefur tileinkað sér hugmyndafræði skaðaminnkandi nálgunar (ens. Harm reduction) og var ein af frumkvöðlum hér á landi í að kynna hugmyndafræðina og koma henni á framfæri með fyrirlestrum, kennslu og rituðu efni. Hún vann um tíma á fíknigeðdeild Landspítalans og starfaði um árabil sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, bæði í Konukoti og hjá Frú Ragnheiði. Katrín er leiðbeinandi í leiðsagnarhópum og námskeiðum Rótarinnar og er þar að auki sjálfstætt starfandi félags- og fjölskyldufræðingur hjá Vegvísi – ráðgjöf í Hafnarfirði.

Rótarhópur fellur niður 9. og 23. október

Rótarhópur fellur niður 9. og 23. október

Miðvikudag 9. október verður umræðukvöld hjá Rótinni þar sem Gabríela Bryndís Ernudóttir, sálfræðingur, flytur erindi um samkenndarmiðaða nálgun við áföllum (e. Compassion focused therapy).

Þar sem Rótarhópur fellur niður þau kvöld sem boðið er upp á umræðukvöld verður enginn fundur í Rótarhópnum næsta miðvikudag. Við hvetjum ykkur hins vegar til að koma á umræðukvöldið  sem er haldið í Kvennaheimilinu, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 9. október, kl. 20.00-21.30.

Þá fellur Rótarhópur og námskeið félagsins einnig niður vikuna 21.-25. október vegna vetrarleyfis.

Rótarhópurinn er fyrir konur sem tekið hafa þátt í námskeiðum á vegum Rótarinnar, konur sem hafa áhuga á að taka þátt í slíkum námskeiðum og konur sem eru komnar vel af stað í bata með öðrum leiðum eru einnig velkomnar og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Við söfnum þó í pott fyrir kaffi og te. (more…)