Handan geðheilsuhugmyndarinnar

Handan geðheilsuhugmyndarinnar

Eftirfarandi grein er eftir Lucy Johnstone sem er ráðgefandi klínískur sálfræðingur og aðalhöfundur power threat meaning framework (PTMF), ásamt prófessor Mary Boyle. Bein þýðing á íslensku er valda-ógnar-merkingar-hugmyndaramminn en hér eftir verður notast við PTMF.

Lucy Johnstone verður með heilsdags vinnustofu um PTMF hinn 14. september í Reykjavík á vegum Rótarinnar. Allar nánari upplýsingar og skráning fer fram hér.

____________________________

Handan geðheilsuhugmyndarinnar

Power threat meaning model.

Ekki einasta er kominn tími til varpa geðgreiningum fyrir róða, heldur er einnig tími kominn til að komast upp úr sporum sjúkdómsvæðingar „geðheilsu“. Nýr hugmyndarammi sem hjálpar okkur að skilja að við glímum öll við andlega vanlíðan og þjáningu – svokallað power threat meaning model – PTMF – getur vísað leið að heiðarlegri og skilvirkari viðmiðum, skrifar klíníski sálfræðingurinn Lucy Johnstone.

Hugmyndin um að fólk sem upplifir ýmiss konar tilfinningalega vanlíðan þjáist af læknisfræðilegum sjúkdómum stendur djúpum rótum í vestrænum samfélögum, að því marki að efasemdir um slíkar skilgreiningar eru oft túlkaðar sem afneitun á raunverulegri upplifun fólks. Eftir að hafa starfað við geðheilbrigðisþjónustu í yfir þrjá áratugi er slík afneitun mér víðs fjarri. Hins vegar veit ég líka að hefðbundin nálgun, sem byggir alfarið á greiningum og lyfjagjöf, skilar sjaldnast þeim lausnum sem vonast er eftir. Reyndar sýna rannsóknir í auknum mæli að líklegra er að slík nálgun leiði frekar til þess að fólk verður háð geðþjónustu ævina á enda.[1]

Þegar virtustu geðlæknar heims viðurkenna að handbækur í geðgreiningum séu „alger vísindaleg martröð“[2] er kreppa í geðheilbrigðiskerfinu okkar og brýn þörf á breytingum. Eins og ég lýsti í fyrri grein í IAI News[3], eru nokkrir valkostir þegar til – eins og einstaklingsmiðuð lýsing vanda (ens. formulation)[4], sem er persónuleg saga sem hjálpar til við að skilja andlegar þjáningar í ljósi samskipta og lífsreynslu. Í þessari grein lýsi ég mun metnaðarfyllra verkefni,power threat meaning model (PTMF). Verkefnið var fjármagnað af deild klínískrar sálfræði í Breska sálfræðifélaginu og er tilraun til að endurskilgreina líkön okkar um andlega þjáningu frá grunni. Þó að PTMF sé ekki opinber stefna BPS, hefur verkefnið vakið áhuga bæði á Bretlandi og á alþjóðavettvangi. Þetta tel ég til vitnis um að almennt sé viðurkennt að kominn er tími á nauðsynlegar grundvallarbreytingar.

Grundvöllur PTMF

PTMF var samið af sálfræðingum og fyrrverandi notendum geðheilbrigðisþjónustunnar. Markmið okkar var að veita nýja innsýn, sem ekki byggir á sjúkdómslíkaninu, á hvers vegna fólk glímir stundum við alls kyns yfirþyrmandi tilfinningar og lífsreynslu eins og rugling, ótta, örvæntingu, vonleysi, skapsveiflur, að heyra raddir, sjálfsskaða, ofsahræðslu, flókið samband við mat og svo framvegis. PTMF heldur því fram að hvers kyns vanlíðan, jafnvel mjög alvarleg, sé skiljanleg þegar hún er sett í samhengi við tengsl okkar og félagslegar aðstæður, samfélagsgerðina í víðara samhengi, viðmið og væntingar samfélagsins og menningarinnar sem við búum í.

PTMF á ekki bara við um fólk sem hefur verið í sambandi við geðheilbrigðisþjónustuna, það gildir um okkur öll – módelið viðurkennir í raun ekki að aðskilinn hópur fólks sé „geðveikur“. Slík stefnubreyting frá ríkjandi hugsunarhætti þýðir að tungumálið okkar þarf jafnframt að breytast. PTMF hafnar ekki aðeins greiningarflokkum, það forðast einnig hugtök eins og „einkenni“, „veikindi“, „röskun“ þar sem þau gefa öll til kynna læknisfræðilegt sjónarhorn. Þess í stað vísar það til „andlegrar vanlíðanar“ og „tilfinningalegrar þjáningar“.

PTMF og vald

PTMF leggur ríka áherslu á hvernig hinar fjölbreyttu birtingarmyndir valds hafa áhrif á líf okkar. Þetta felur í sér valdið sem við höfum sjálf, eða okkur skortir, á sviðum eins og í samböndum, varðandi líkamlega heilsu, efnisleg gæði, eins og mannsæmandi húsnæði, og svo framvegis. Vald getur haft jákvæð áhrif á líf okkar – við getum notið góðs af náinni fjölskyldu, góðri menntun, stuðningsaðilum, nægum peningum til að lifa á og kostunum sem fylgja því að vera hvítur, vinnufær eða í millistétt. Hins vegar getur vald líka haft neikvæð áhrif á okkur. Við getum verið svo óheppin að upplifa áföll eins og misnotkun, ofbeldi eða vanrækslu. Við getum hafa orðið fyrir fjölskylduslitum eða ástvinamissi, eða verið háð greiðslum frá félagsþjónustu eða tilheyrt samfélagi sem er vanrækt eða jaðarsett. Við verðum sem sagt öll að einhverju leyti fyrir áhrifum af félagslegum og efnahagslegum stefnum sem geta stuðlað að misskiptingu auðs, mismunun, umhverfisvá og öðru félagslegu óréttlæti.

Í PTMF er lögð mikil áhersla á hugmyndafræðilegt vald. Hér er átt við hverskyns félagsboð sem við fáum um hver við erum, hvernig við eigum að líta út, haga okkur og stýra lífi okkar, hegðunarmynstrunum sem við ættum að fylgja og hugsunum, tilfinningum og hegðun sem við ættum að forðast ef við viljum ekki skammast okkar, vera útilokuð, niðurlægð, ástlaus eða lítilfjörleg. Þó að öll samfélög búi við félagsleg viðmið af einhverju tagi er alltaf hætta á að þau séu nýtt til að þjóna sérhagsmunum. Til dæmis erum við stöðugt hvött til að vera óánægð með eigið útlit í þeim tilgangi að við eyðum meira í föt, förðun, mataræði og líkamsræktarstöðvar. Þessi þrýstingur er knúinn áfram af einstaklings- og afrekshyggju, samkeppnis- og neysluhyggju, sem liggur til grundvallar flestum vestrænum samfélögum. Hulið hlutverk hugmyndafræðilegs valds, sem miðlað er með tungumálinu sem við heyrum og skilaboðunum sem dynja á okkur alstaðar, gerir það að verkum að jafnvel þau okkar sem ekki eiga augljósa sögu um áföll eða mótlæti geta líka átt í erfiðleikum með að finna til sjálfsvirðingar, finna tilgang og sjálfsmynd.

Lykilspurningar PTMF

Helstu þættir PTMF eru teknir saman í nokkrum lykilspurningum. Í stuttu máli hjálpa þær okkur að fara frá því að spyrja „Hvað er að þér?“ í „Hvað kom fyrir þig?“

  • „Hvað kom fyrir þig?“ (Hvernig hefur vald áhrif á líf þitt?)
    • „Hvernig hafði það áhrif á þig?“ (Hvaða ógn stafar af því?)
    • „Hvaða skilning lagðir þú í það?“ (Hvaða merkingu hafa þessar aðstæður og reynsla fyrir þig?)
    • „Hvað þurftir þú að gera til að lifa af?“ (Hver voru viðbrögð þín við ógninni?)

Að auki geta spurningarnar tvær hér að neðan hjálpað okkur að hugsa um hvaða færni og úrræði fólk, fjölskyldur eða samfélög hafa og hvernig við getum dregið allar þessar hugmyndir og viðbrögð saman í frásögn eða sögu:

  • „Hverjir eru styrkleikar þínir?“ (Hvaða aðgang að valdi og úrræðum hefur þú?)
  • „Hver ​​er sagan þín?“ (Hvernig passar þetta allt saman?)

Ekki á endilega að spyrja spurninganna með þessum orðum eða í þessari röð. Þær benda einfaldlega á þá þætti sem þarf að huga að. Hins vegar hjálpa þær okkur að búa til frásagnir eða sögur um líf okkar, með tilheyrandi baráttu og erfiðleikum, sem gefa okkur von í stað þess að við lítum á okkur sem ámælisverð, veikburða, ófullnægjandi eða „geðveik“ með hliðsjón af PTMF.[5] Fagaðili gæti hjálpað okkur að búa til slíka sögu, en það er jafn mögulegt og áhrifaríkt að gera það á eigin spýtur, eða með vini, maka eða jafningjahópi.

Markmið PTMF-spurninganna eru að varpa ljósi á tengsl ógnar og viðbragða við ógn, eða með öðrum orðum, þess sem við höfum upplifað og tilraunir okkar til að takast á við ógnir og lifa þær af. „Viðbrögð við ógn“ samsvara í grófum dráttum því sem við getum kallað „einkenni“ í geðlækningum. Þau eru allt frá sjálfvirkum líkamlegum viðbrögðum eins og ofsahræðslu til aðferða sem við veljum sjálf, eins og sjálfsskaða eða vímuefnanotkunar, sem hjálpa okkur að stjórna yfirþyrmandi tilfinningum, minningum eða aðstæðum. Viðbrögð við ógn sem truflar líf okkar geta einnig falið í sér að vinna of mikið eða reyna stöðugt að ná árangri.

Að breyta frásögninni úr „Ég er með geðsjúkdóm/geðrænan vanda“ í „Ég er að komast í gegnum erfiðar aðstæður eins vel og ég get“ er mikilvægt skref í áttina að því að hjálpa okkur að finna nýjar leiðir fram á við. Í þessu getur falist ýmiss konar meðferð eða félagslegur stuðningur, sem veittur er af bestu fáanlegu fagaðilum. Einnig getur það verið notkun geðlyfja til að stjórna yfirþyrmandi tilfinningum, svo framarlega sem við lítum ekki á lyfin sem „meðhöndlun á sjúkdómi“ eða lausn á vanda lífsins. Hins vegar bendir PTMF á að aðrar leiðir sem ekki fela í sér sjúkdómsvæðingu sem geta verið jafn gagnlegar eða gagnlegri – skapandi listir, sjálfshjálparhópa, hreyfingu og, kannski fyrir sum, félagsleg virkni af einhverju tagi. Mikilvægast er að mótun frásagnar samkvæmt PTMF hefur hjálpað mörgum að finna fyrir létti og losna við sektartilfinningu, skömm og fordóma sem oft fylgja geðrænum merkimiðum, stimplun, og að skoða djúpstæðar undirliggjandi ástæður fyrir vanlíðaninni.

PTMF felur einnig í sér áhrif landmissis, missi arfleifðar, sjálfsmyndar og samfélags í gegnum áföll sem berast á milli kynslóða og stafa af kynþáttafordómum, nýlendustefnu, hernaði, þjóðarmorðum og svo framvegis. Útflutningur geðgreiningarkerfisins um heim allan þýðir að margir frumbyggjar verða fyrir auknu óréttlæti vegna þess að þeir eru stimplaðir „geðveikir“ á grundvelli viðbragða þeirra við margvíslegri misbeitingu valds.[6]

Fyrir nokkrum áratugum var talið að „geðsjúkdómar“ hefðu aðeins áhrif á lítinn hluta fólks. Nú á dögum erum við hvött til að trúa því að „við höfum öll geðheilsu.“ Þetta vel meinta slagorð er, samkvæmt PTMF, mjög villandi. Það væri réttara að segja „við höfum öll tilfinningar“ og að stundum geta þessar tilfinningar verið yfirþyrmandi. Hins vegar spretta þær ekki af engu. Það kemur ekki á óvart að tíðni svokallaðra „geðsjúkdóma“ aukist svo hratt, sérstaklega meðal ungs fólks, í ljósi þess mikla álags sem er í skólum og á vinnumarkaði. Geðgreining felur þessi tengsl með því að staðsetja vandamálin hjá einstaklingunum, á meðan PTMF sýnir okkur að rætur þeirra liggja í vaxandi misrétti í nýfrjálshyggju vestrænna samfélaga sem veldur tengslarofi frá tilfinningum okkar, frá hvert öðru og náttúrunni.

Til dæmis um þetta eru fyrirsagnir sem skjóta okkur skelk í bringu um „geðheilbrigðisfaraldurinn“ sem, svo óheppilega vill til, er sagður fylgja í kjölfarið á COVID-faraldrinum. Samt sýna rannsóknir mjög skýrt að þau sem hafa orðið fyrir mestum fjárhagserfiðleikum finna til mestrar örvæntingar.⁶ Svarið felst ekki í því að auka geðheilbrigðisþjónustu, eins og okkur er oft sagt, heldur í því að tryggja efnahagslegt öryggi fólks. Þessi „geðheilbrigðis“-orðræða er hluti af pólitískri afneitun sem einstaklingsvæðir og stimplar eðlileg viðbrögð fólks. Með því að tengja saman ógn og viðbrögð við ógn er þessu ferli snúið við og vísar okkur á betri vegi fram á við.

Við eigum langt í land þangað til geðgreiningarkerfin verða aflögð og þeirra í stað innleiddar aðferðir sem ekki fela í sér sjúkdómsvæðingu andlegrar vanlíðanar. Hins vegar er PTMF mikilvægt skref í átt að þessu markmiði og sýnir að á endanum verður að finna lausnirnar í sameiginlegri baráttu okkar til að skapa sanngjarnara samfélag.

[1] Whitaker, R. (2010). Anatomy of an Epidemic. New York, NY: Broadway Paperbacks.

[2] Hyman. S. (6 May 2013), Psychiatry’s Guide Is Out of Touch with Science, Experts Say, New York Times, 2013

[3] Sjá: Lucy Johnstone. 2019. „Does ‘Mental Illness’ Exist? The Problem with Psychiatric Diagnosis“: https://iai.tv/articles/does-mental-illness-exist-auid-1280

[4]Formulation‘ er saga og staða einstaklingsins sem unnin er í samstarfi hans og meðferðaraðila. Ekki fannst þýðing á ‚formulation‘ í þessu sambandi en Jakob Smári notar þýðinguna „aðgerða- og einstaklingsmiðuð greining vanda“ á ‚case formulation‘ í grein sinni „Nokkur mikilvæg en stundum gleymd álitamál um víddir, flokka, próf og geðraskanir“ í Sálfræðiritinu – Tímarit Sálfræðingafélags Íslands 12. árg. 2007, bls. 55-70.

[5] Gagnlegt inngangsrit fyrir notkun PTMF er: Boyle, M and Johnstone, L (2020) A straight talking introduction to the Power Threat Meaning Framework: an alternative to psychiatric diagnosis. Monmouth: PCCS Books.

[6] Blogg þar sem PTMF er borið saman hvernig frumbyggjar skilja vanlíðan og þjáningar er hér: Crossing Cultures with the Power Threat Meaning Framework – New Zealand, Mad In the UK, 2019.

Greinin birtist í The Institute of Art and Ideas News, 95. útg. 5. maí 2021. Sjá: Beyond the mental health paradigm. The power threat meaning framework: https://iai.tv/articles/beyond-the-mental-health-paradigm-the-power-threat-meaning-framework-auid-1803.

Kristín I. Pálsdóttir þýddi greinina.

Fíknistefna og mannréttindi kvenna

Fíknistefna og mannréttindi kvenna

Eftirfarandi erindi flutti Kristín I. Pálsdóttir, talskona og framkvæmdastýra Rótarinnar, á málstofunni Mannréttindi – innan lands og utan sem haldin var Mannréttindaskrifstofu Íslands 26. apríl 2023.

Kynjajafnrétti og vímuefnavandi
Kynjajafnrétti telst til grundvallarmannréttinda og á síðustu árum hefur verið lögð áhersla á kynjajafnrétti þegar kemur að stefnumótun og þjónustu við konur, og þau sem ekki eru karlar, í alþjóðlegri stefnumótun í málefnum fólks með vímuefnavanda. Þetta á við hvort sem er á sviði meðferðar, stefnumótunar eða rannsókna.
Það er ekki að ástæðulausu þar sem hvert sem litið er þrífst kynjamisrétti og ekki síst í þeim hópum sem búa við skert félagsleg réttindi og stöðu, eins og á meðal fólks í skaðlegri vímuefnaneyslu og á meðal heimilislauss fólks.
Misrétti gegn konum hefst oft við fæðingu og mótar tilveru þeirra á öllum stigum lífsins. Þegar horft er til kvenna með vímuefnavanda er staðan oft þannig að vímuefnanotkun og ofbeldi haldast hönd í hönd.

Konur og fíknistefna
Á seinni hluta 20. aldar óx þeirri hugmynd mjög ásmegin að vímuefnavandi væri aðallega líkamlegur sjúkdómur sem hefði fáa snertifleti við félagslega þætti, þ.m.t. kyn eða gender. Ekki var minnst á ‚konur‘ eða ‚kyn‘ í alþjóðasamningum Sameinuðu þjóðanna um ávana- og fíkniefni frá árunum 1961 og 1971. Konur sem glímdu við fíknivanda voru ósýnilegar, jaðarsettar og bjuggu við félagslegt óréttlæti.[1]
Konur koma fyrst í kastljós fíknifræðanna eftir alþjóðlega kvennaárið 1975 og árið 1980 kom út fyrsta efnið um konur með vímuefnavanda. Þar er því haldið fram að rannsóknir á konum með vímuefnavanda séu í raun ekki til (e. non-field) og að hvergi væri minnst á kyn eða konur í fræðiefni eða stefnuskjölum.[2]

Vanþekking á þörfum kvenna
Hér á landi hefur hið svokallaða Minnesota-líkan sem flutt var inn frá Bandaríkjunum á áttunda áratugnum verið mjög ríkjandi í stefnumótun og þjónustu við fólk með vímuefnavanda.
AA-samtökin, þar sem Minnesota-líkanið er upprunnið, hafa haft gríðarleg áhrif á hugmyndir okkar um fíkn og fíkniefni. Skýringar samtakanna á alkóhólisma sem andlegum sjúkdómi, en þó jafnframt ólæknandi heilasjúkdómi, viðhalda úreltum staðalímyndum um kynþátt, stétt, kynjaða sjálfsmynd og viðhalda frekar en storka eðlishyggjuhugmyndum um að hvítir karlar hafi náttúruleg forréttindi.[3]
Félagsfræðingurinn Elisabeth Ettorre útskýrir Minnesota-líkanið, og þá sýn sem var ríkjandi á síðustu öld, og er því miður enn ríkjandi í stefnumótun á Íslandi, þannig að í því sé litið á vímuefnavanda sem heilasjúkdóm, einstaklingurinn sé í forgrunni og horft fram hjá stéttarstöðu, kyni, kynverund, aldri, þjóðernisuppruna og kynþáttamismunun. Þetta kallar hún hina klassíska nálgun á fíknivanda.[4]
Í dag þurfum við hins vegar að taka inn í reikninginn félagslegan ójöfnuð, kynþáttamismunun, stéttarstöðu, kyn og kynverund. Horfa til valdatengslakenninga og bregðast við ójafnrétti milli kynja í samræmi við leiðbeiningar og ákall alþjóðastofnana. Þessa nálgun kallar Ettorre póst-móderníska nálgun á fíkn.
Þær Ettorre og Nancy Campbell, sem rannsakað hafa sögu meðferðar og þjónustu við konur og stúlkur í Bandaríkjunum og Evrópu, benda á að hún sé iðulega veitt á grunni vanþekkingar á meðferðarþörfum þeirra, og byggi því á epistemologies of ignorance. Þær sækja hugtakið í þann anga kvennahreyfingarinnar sem hefur unnið að úrbótum í hag heilsu kvenna en það lýsir því hversu lítil þekking er í raun á þörfum kvenna í heilbrigðis- og velferðarkerfum.[5]

Hegðunarmótun
Meðferð hefur oft verið hegðunarmótandi, ekki síst meðferð stúlkna, eins og Rótin hefur t.d. bent á í skýrslu um greinargerð Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála um Varpholt/Laugaland þar sem stúlkur voru vistaðar við illan leik til ársins 2007.[6]
Þó að vinna með hegðun sé hluti meðferðar skal varast ofuráherslu á hlýðni, það sem á ensku er kallað compliance[7] en það virðist hafa verið helsta markmið meðferðar í Varpholti. Flestar stúlkur sem koma til meðferðar vegna vímuefnavanda eða „hegðunar“ eiga sér sögu þar sem hægt er að leita skýringa á vanda þeirra, sem kallar á valdeflandi nálgun. Markmið meðferðar á Laugalandi og Varpholti á árunum 1997-2007 virðist hins vegar hafa miðað að því að búa til þægar og undirgefnar stúlkur og markvisst virtist unnið að því að brjóta niður vilja þeirra og sjálfstæði.
Af framansögðu má vera ljóst að nauðsynlegt er að vinna skipulega að því að breyta og bæta stefnumótun og þjónustu en kannski ekki síst menntun og að efla rannsóknarstarf í málaflokknum, því án þess öðlumst við ekki gagnreynda þekkingu sem er undirstaða góðs heilbrigðis- og velferðarkerfis sem byggir á mannréttindum.

GREVIO-nefndin
Nefnd Evrópuráðsins um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (GREVIO), gaf út skýrslu sína[8] á síðasta ári um stöðu málaflokksins hér á landi en nefndin hefur eftirlit með framkvæmd Istanbúl-samningsins[9]. Þar segir að kerfi hérlendis séu ekki nægilega í stakk búin til að bregðast við ofbeldi gegn jaðarsettum hópum, svo sem konum af erlendum uppruna, konum með fötlun eða konum með vímuefnavanda. Þá segir að nefndin „mælist eindregið til þess að íslensk stjórnvöld grípi til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að konum með vímuefnavanda og konum í vændi sé tryggð örugg gistiaðstaða ásamt lagalegri og sálfræðilegri ráðgjöf og stuðningi, sem mætir þörfum þeirra sem þolendum ofbeldis. Þá skal þeim veitt önnur sú þjónusta sem þær þurfa á hátt sem þeim hentar.“
Þá er bent á að konur með vímuefnavanda hafi ekki aðgang að Kvennaathvarfinu, og ég bæti því við að það skýtur vægast skökku við þar sem fáir hópar eru í meiri þörf fyrir kvennaathvarf en þær enda segir í einnig: “Ákvæði 4. gr. 3. mgr. Istanbúl-samningsins um vernd þolenda krefst þess að öllum konum sem búa við eða eru í hættu á að verða fyrir ofbeldi sé framkvæmd án nokkurrar mismununar. Sérstaklega skal gætt að þeim sem eru í hættu vegna samtvinnunar mismunabreyta, eins og kvenna með vímuefnavanda og kvenna í vændi, sé ekki mismunað.”[10] Í skýrslunni er bent á almennt séu konur sem búa við fjölþætta mismunun, eins og konur með vímuefnavanda, ekki teknar með í stefnumótunarskjölum hins opinbera á skipulagðan hátt.

Jaðarsett fólk, jaðarsettur málaflokkur
Fólk með vímuefnavanda er ekki bara jaðarsett, málaflokkurinn er það líka. Þjónusta við fólk með fíknivanda er mjög oft í höndum félagasamtaka en ekki innan hins almenna heilbrigðis- eða velferðarkerfis. Eftirlit og gæðakröfur eru ekki fullnægjandi, stefnumótun vantar, klínískar leiðbeiningar, leiðbeiningar og viðmið við rekstur úrræða eru ekki heldur til staðar. Þá vantar víða samráð við notendur t.d. með þjónustukönnunum og ef þessar upplýsingar eru á annað borð til eru þær ekki opinberar. Nú er t.d. búið að vinna að því í mörg ár að koma skráningu á Vogi inn í lögbundna vistunarskrá sjúkrahúsa án þess að það hafi klárast[11] og Landlæknisembættið gefur ekki upplýsingar um atvikaskráningu á meðferðarstöðvum.
Opinberir aðilar eru oft ekki með skýr viðmið um hvaða þjónustu skal kaupa eða hvernig hún á að vera. Þannig eru t.d. sumar af stærstu meðferðarstöðvum landsins ekki með stjórnendur sem hafa starfsleyfi frá Landlækni né menntun við hæfi. Rótin hefur síendurtekið vakið athygli á menntunarmálum áfengis- og vímuefnaráðgjafa sem yfirvöld viðurkenna að séu í ólestri en ekkert gerist. Á meðan er langt því frá að fólk með vímuefnavanda fái þjónustu sem fellur undir þau grunnmannréttindi sem felast í bestu mögulegu heilsu.
Þá er einnig algengt að í þjónustu félagasamtaka felist krafa um að mæta á trúarlegar eða aðrar samkomur sem fela í sér hugmyndafræðilega undirgefni og til að allir skuli „frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar“, í samræmi við 18. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sþ, ættu stjórnvöld að innleiða í stefnumótun að kaupa ekki slíka þjónustu.[12]

Konukot
Rótin rekur nú Konukot – neyðarskýli fyrir heimilislausar konur – í samstarfi við Reykjavíkurborg sem hefur gert skaðaminnkandi stefnu leiðarljós í sinni vinnu með fólk með vímuefnavanda og hefur einnig brugðist vel við áskorunum Rótarinnar um að skoða þjónustu við konur sérstaklega.
Í kröfulýsingu sem fylgir samningi Rótarinnar við Reykjavíkurborg segir að þjónustan í Konukoti skuli byggjast á mannréttindum og skal mannréttindastefna Reykjavíkurborgar höfð að leiðarljósi. Þjónustan skal vera „áfalla- og kynjamiðuð og fylgja viðmiðum um öryggi, trúverðugleika og gagnsæi, jafningjastuðning, samvinnu og gagnvirkni, valdeflingu og val“. Hún á líka að vera í samræmi við hugmyndafræði skaðaminnkunar, einstaklingsmiðuð, valdeflandi og viðhafa samvinnu og notendasamráð. Þegar Rótin tók við starfseminni í Konukoti kom inn í kröfulýsingu, að ósk félagsins, að þar yrði unnið eftir áfalla og kynjamiðaðri nálgun og „konur sinna konum“-viðmiði.
Rótin hefur unnið ötullega að auknum mannréttindum gesta Konukots í samstarfi við Reykjavíkurborg, bæði í okkar rekstri og með því að þrýsta á yfirvöld, bæði borgina og ríkið. Þetta hefur strax skilað sér í bættum gæðum í starfinu, færri atvikum og bættri þjónustu. Hluti af þessu ferli var að bæta kjör starfskvenna með samningum við Eflingu sem tryggja þeim sömu kjör og öðru starfsfólki neyðarskýla Reykjavíkurborgar, með ráðningu teymisstjóra og fræðsluáætlun.
Stefna skiptir miklu máli og lýðheilsa og mannréttindi þurfa að vera grunnurinn, hvort sem er í lítilli einingu eins og Konukoti, í sveitarfélögunum, á landsvísu eða í alþjóðastarfi.

Breytingar á fíknistefnu
Miklar sviptingar eiga sér nú stað í fíknistefnu í heiminum. Í Evrópu er verið að innleiða skaðaminnkunar- og mannréttindastefnu og snúa frá refsistefnu. Hafa bæði Evrópuráðið og EMCDDA, European Monitoring Center on Drugs and Drugs Addiction (sem væntanlega verður breytt í European Drug Agency í nánustu framtíð og hlutverk stofnunarinnar útvíkkað) unnið að því að snúa kompásnum í mannréttindaátt og hluti af þeirri vinnu, hjá báðum stofnunum, er útgáfa á leiðbeiningum um innleiðingu stefnu og þjónustu við konur með vímuefnavanda.[13] Hægar gengur hjá fíknistofnunum Sameinuðu þjóðanna að taka upp mannréttamiðaða stefnu þar sem valdamikil, ríki sem höll eru undir valdstjórn, koma í veg fyrir það.

Fíknistefna á Íslandi
Hér á landi hefur gengið hægt að breyta stefnunni á landsvísu en við skynjum vilja hjá stjórnvöldum að herða á breytingum í átt til nútímalegrar stefnu sem byggir á nýjustu þekkingu þar sem skaðaminnkun, mannréttindi og jafnrétti er í fyrirrúmi en svo virðist sem kjarkinn bresti þegar til á að taka.
Skaðaminnkun er sérstaklega mikilvæg fyrir konur í þungri neyslu og með mikinn félagslegan vanda en það þarf að innleiða hana miðað við að við erum jafnréttissinnað velferðarríki og það þarf að aðlaga hana að því. Alþjóðlega skaðaminnkunarhreyfingin hefur fram að þessu ekki verið mjög kynjameðvituð.
Mesta fyrirstaðan í breytingum á fíknistefnu eru stjórnmálamenn sem eru mótaðir af eldri hugmyndum um vímuefnamál og eru ekki tilbúnir til breytinga. Miklar breytingar hafa þó orðið á undanförnum árum og sú þróun heldur vonandi áfram. Öll Norðurlöndin standa í þeim sporum að þurfa að endurskoða sína fíknistefnu og í Evrópu á sér stað mikil breyting í mannréttindaátt.
Ansi langt er í land víða að um lönd að jafnrétti og mannréttindi séu ríkjandi í málefnum kvenna með vímuefnavanda. Íslendingar sem eru heimsmeistarar í jafnrétti hafa tækifæri til að beita sér í alþjóðastarfi á þessu sviði og nýta sérþekkingu okkar til að stuðla að auknum mannréttindum kvenna og kvára með vímuefnavanda. Við gerum það með öflugri stefnumótun, framkvæmd og rannsóknum hér á landi, við erum jú hið fullkomna “pilot-verkefnis” land í slíkt verkefni.

[1] Elizabeth Ettorre. 2007. Revisioning women and drug use: gender, power and the body, Macmillan, bls. 5.
[2] Kalant O. J. (1980), Alcohol and drug problems in women, Research Advances in Alcohol and Drug Problems, Vol. 5, Plenum Press, New York/London.
[3] Lori Rotskoff. 2003. Love on the Rocks. Men, Women, and Alcohol in Post-World War II America.
[4] Elizabeth Ettorre. 2007. Revisioning women and drug use: gender, power and the body, Macmillan, bls. 9-13.
[5] Campbell, N. D. & E. Ettorre. 2011. Gendering Addiction. The Politics of Drug Treatment in a Neurochemical World. Houndmills, England: Palgrave Macmillan.
[6] Kristín I. Pálsdóttir. 2022. Greinargerð um réttlæti og reynslu kvenna af vistun í Varpholti/Laugalandi: https://www.rotin.is/heimsokn-og-greinargerd-til-forsaetisradherra-vegna-varpholts/.
[7] Larry K. Brendtro. 2004. From coercive to strength-based intervention: Responding to the needs of children in pain https://cyc-net.org/profession/readarounds/ra-brendtro.html.
[8] GREVIO. 2022. Basaline Evaluation Report. Iceland. Sjá: https://www.coe.int/en/web/istanbul-convention/-/grevio-publishes-its-report-on-iceland.
[9] Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. 2011 Sjá: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=0f41ca88-7e72-11e7-941c-005056bc530c.
[10] Group of Experts on Action against Violence against Women and Domestic Violence (GREVIO). 2022 GREVIO Evaluation Baseline Report. Iceland. https://rm.coe.int/grevio-inf-2022-26-eng-final-report-on-iceland/1680a8efae.
[11] Ríkisendurskoðun. 2022. Geðheilbrigðisþjónusta. Stefna – skipulag – kostnaður – árangur. Stjórnsýsluúttekt, bls. 14. Sjá: https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2022-gedheilbrigdismal.pdf.
[12] Mannréttindayfirlýsing Sþ. Sjá: https://www.humanrights.is/is/mannrettindi-og-island/helstu-samningar-og-yfirlysingar/sameinudu-thjodirnar/mannrettindayfirlysing-sameinudu-thjodanna
[13] EMCDDA. 2023. Women and drugs: health and social responses: https://www.emcdda.europa.eu/publications/mini-guides/women-and-drugs-health-and-social-responses_en og CoE, Pompidou Group. 2022. Implementing a gender approach in different drug policy areas: from prevention, care and treatment services to law enforcement and the criminal justice system: https://rm.coe.int/2022-ppg-implementing-a-gender-approach-in-drug-policies-a-pg-handbook/1680a66835.

Heimsókn í kvennameðferð í Belgíu

Heimsókn í kvennameðferð í Belgíu

Talskona Rótarinnar, Kristín I. Pálsdóttir, heimsótti á dögunum meðferðarsamfélagið (e. therapeutic community) De Kiem í nágrenni Gent í Belgíu. Með í för var Þórlaug Sveinsdóttir fv. ráðskona og ein af stofnendum Rótarinnar. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynnast meðferðarstarfinu en De Kiem, sem þýðir ‘kím’ eða ´kímblað´á íslensku, rekur m.a. þjónustu fyrir konur með börn. Þær koma ýmist á meðgöngu eða eftir fæðingu og geta dvalið í eitt og hálft ár í meðferðinni. Eftir það gefst þeim færi á að fara á áfangaheimili.

Útibúið sem Kristín og Þórlaug heimsóttu er í litlu þorpi, Gavere, í Flæmingjalandi. Konurnar búa tvær og tvær með börnum sínum í íbúð og er alls pláss fyrir átta konur. Börnin fara í skóla og leikskóla í þorpinu en konurnar hugsa svo um börnin á kvöldin og um helgar og fá stuðning til þess. Einstæðir feður hafa líka tækifæri til að nýta þessa þjónustu.

De Kiem eru samtök sem bjóða fjölbreytta þjónustu, bæði göngudeildir, inniliggjandi meðferð (meðferðarsamfélag), fráhvarfsmeðferð, áfangaheimili og aðstoð við fanga í flæmskumælandi hluta Belgíu. Þjónustan er kostuð af opinberu fé.

Húsnæðið var nýlegt og þægilegt og íbúðir kvennanna ágætlega rúmgóðar með aðgengi að garði.

Hér er vefsíða samtakanna.

Hér á landi vantar sárlega sambærilega þjónustu fyrir konur á meðgöngu og konur með ung börn og Rótin er alltaf á útkikki eftir fyrirmyndum að slíkri þjónustu. Margt gott er gert hjá De Kiem og þjónusta þeirra fyrir konur er mjög mikilvæg. Þó má þar bæta sérþekkingu á þjónustu í samræmi við þá þekkingu sem nú er gagnreynd og aðgengileg um sérþarfir kvenna og annarra kynja.

 

 

Greinargerð um heimilislausar konur

Greinargerð um heimilislausar konur

Þær Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar, og Halldóra R. Guðmundsdóttir, forstöðukona í Konukoti, mættu fyrir hönd félagsins og Konukots á fund ofbeldisvarnarnefndar hinn 17. október. Fyrir utan áherslur á það sem kemur fram í greinargerðinni lögðu þær áherslu á mikilvægi þess að efla þyrfti skaðaminnkandi þjónustu við heimilislausar konur með alvarlegan vímuefnavanda og skoða þarfir þeirra sérstaklega með tilliti til þess að oft er meiri skaði fólgin í því að útvega sér efni en í notkun þeirra.

Greinargerð um heimilislausar konur

Um heimilisleysi kvenna og ofbeldi

Konur sem glíma við heimilisleysi eiga aðra reynslu að baki en karlar í sömu stöðu og í rannsókn á viðhorfi og reynslu félagsráðgjafa af Konukoti segir að konurnar sem þangað sækja „hafi flestar átt erfiða æsku, hafi orðið fyrir áföllum í lífinu og margar þeirra eiga einnig við geðræn vandamál að stríða. Bakland kvennanna er lélegt og flestar þeirra neyta áfengis- og/eða vímuefna“.[1] Sögur þessara kvenna einkennast oft af flóknum, kynjuðum vanda og því þarf að taka á honum með kynjagleraugun á sínum stað og áætlunum sem miða að því að koma í veg fyrir að þær festist í þeirri stöðu að þurfa að treysta á þjónustu neyðarskýlis.

Fíknistefna á Íslandi hefur verið heldur íhaldssamari en í mörgum löndum í kringum okkur og ekki fylgt þeirri mannréttindamiðuðu og skaðaminnkandi nálgun sem verið hefur að vinna lönd í kringum okkur fyrr en á allra síðustu árum. Stefnumótun stjórnvalda endurspeglar því ekki þær menningarlegu breytingar í átt til aukinna mannréttinda þeirra sem glíma við vímuefnavanda, og aðrar áskoranir sem valda jaðarsetningu, sem hafa átt sér stað á undanförnum árum þó að Reykjavíkurborg hafi verið skrefi á undan ríkinu að breyta um stefnu í átt til skaðaminnkunar og kynjasamþættingar í málaflokknum.

Vegna þess hversu skilgreiningar á heimilisleysi hafa fram til þessa verið blindar á hegðun og þarfir heimilislausra kvenna er mikilvægt að vera vakandi fyrir því að konur séu sýnilegar í stefnumótun og þjónustuúrræði séu miðuð við raunverulegar þarfir þeirra. (more…)

Konur finna styrk sinn í Hlaðgerðarkoti

Konur finna styrk sinn í Hlaðgerðarkoti

Konur finna styrk sinn í Hlaðgerðarkoti

Það er mikilvægt að konur finni fyrir öryggi þegar þær sækja sér áfengis- og vímuefnameðferð. Í mörgum tilvikum þarf að gera upp erfiða hluti úr fortíðinni og það krefst mikillar og viðkvæmrar vinnu ef ná á árangri. Rótin hefur á liðnum árum unnið að bættum meðferðarúrræðum fyrir konur og lagt áherslu á að auka þekkingu á meðferðarmálum kvenna. Mikið samstarf er nú á milli Rótarinnar og Hlaðgerðarkots um bætt úrræði fyrir konur í meðferð. 

______________________________________________________________________________________

Fíknivandi og meðferðarnálganir voru lengi mjög karlmiðaðar. Til að mynda ber áttundi kafli AA bókarinnar yfirskriftina Til eiginkvenna. Eru konur þannig ávarpaðar sem aðstandendur alkóhólista, eiginmanna sinna, og þannig lítur út fyrir að ekki hafi verið gert ráð fyrir því að konur gætu verið alkóhólistar. Hafa ber í huga að bókin er skrifuð árið 1939, af karlmönnum, og á þeim tíma höfðu ekki margar konur leitað sér aðstoðar vegna alkóhólisma. Það var í raun ekki fyrr en á níunda áratug síðustu aldar, samhliða því sem kvenréttindahreyfingunni óx fiskur um hrygg, sem vitundarvakning varð um málefni kvenna sem glíma við fíknivanda.
Í dag eru konur um þriðjungur þeirra sem sækja sér aðstoð vegna fíknivanda. Til að fjalla nánar um stöðu og málefni kvenna sem glíma við fíknivanda settist Samhjálparblaðið niður með Helgu Lind Pálsdóttur, forstöðumanni í Hlaðgerðarkoti, og Kristínu Pálsdóttur, talskonu og framkvæmdastjóra Rótarinnar.
Báðar segja þær að nokkur munur sé á konum og körlum þegar kemur að fíknivanda. Þar hafa bæði líkamlegir
og félagslegir þættir áhrif. Konur eru eftir tilvikum veikari fyrir og lenda hraðar í því sem kalla má niðurþróun
fíkniröskunarinnar. Það er þó ekki algilt, enda fjölmörg dæmi um konur sem ná að fela fíkn sína í daglegu lífi, meðal annars með því að sinna daglegum þörfum heimilis og fjölskyldu. Oft virðast þær konur vera ólíklegri til að leita sér aðstoðar, eða leita sér seinna aðstoðar, en yngri konur sem lent hafa í harðari neyslu.
Sjálf var Kristín rúmlega fertug þegar hún fór í meðferð.
„Ég átti þá mann og börn, var í námi og var að reka heimili,“ segir Kristín.
„Ég var í góðum félagslegum aðstæðum en samt að eiga við vanda sem hafi mikil áhrif á líf mitt og minna nánustu. Það er oft meira í húfi fyrir konur, þá sérstaklega þær sem eru að reka heimili, og þær hika því við að viðurkenna að þær séu með vímuefnavanda. Konur eru líka dæmdar harðar, þær upplifa skömm yfir því að eiga við þessi vandamál samhliða móðurhlutverkinu sem þær eru að sinna. Það eru því of margar konur sem fara leynt með sína neyslu, á meðan þær geta. Það veldur þeim auðvitað mikilli vanlíðan.“ (more…)

Hættuleg taugalíffræðiþráhyggja

Hættuleg taugalíffræðiþráhyggja

Í fjölda ára hefur þeirri hugmynd statt og stöðugt verið haldið að almenningi að fíkn sé „heilasjúkdómur“ sem þróist vegna galla í taugalíffræði heilans. Þetta er rangt.

Í fyrsta lagi er mikilvægt að átta sig á því að þessi ranghugmynd er hluti af stærri rangtúlkun, þ.e. á sálarfræði mannsins, og að hægt sé að smætta þau hugarferli sem gera okkur mennsk niður í rafboð sem taugafrumur senda í heilanum. Þessi hugmynd horfir alveg fram hjá þekkingu sem orðin er hluti af nútíma eðlisfræði, flækjufræði (e. Complexity Theory)

Flækjufræði urðu til sem viðurkenning á því að öll flókin kerfi þrói með sér nýja eiginleika sem ekki er hægt að útskýra eða spá fyrir um út frá þeim einstöku þáttum sem saman mynda kerfið. Þetta gerist vegna þess að einstakir þættir allra flókinna kerfa innibera einfaldlega ekki sömu eiginleika og kerfið gerir í heild sinni. (more…)