Greinargerð um heimilislausar konur

Greinargerð um heimilislausar konur

Þær Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar, og Halldóra R. Guðmundsdóttir, forstöðukona í Konukoti, mættu fyrir hönd félagsins og Konukots á fund ofbeldisvarnarnefndar hinn 17. október. Fyrir utan áherslur á það sem kemur fram í greinargerðinni lögðu þær áherslu á mikilvægi þess að efla þyrfti skaðaminnkandi þjónustu við heimilislausar konur með alvarlegan vímuefnavanda og skoða þarfir þeirra sérstaklega með tilliti til þess að oft er meiri skaði fólgin í því að útvega sér efni en í notkun þeirra.

Greinargerð um heimilislausar konur

Um heimilisleysi kvenna og ofbeldi

Konur sem glíma við heimilisleysi eiga aðra reynslu að baki en karlar í sömu stöðu og í rannsókn á viðhorfi og reynslu félagsráðgjafa af Konukoti segir að konurnar sem þangað sækja „hafi flestar átt erfiða æsku, hafi orðið fyrir áföllum í lífinu og margar þeirra eiga einnig við geðræn vandamál að stríða. Bakland kvennanna er lélegt og flestar þeirra neyta áfengis- og/eða vímuefna“.[1] Sögur þessara kvenna einkennast oft af flóknum, kynjuðum vanda og því þarf að taka á honum með kynjagleraugun á sínum stað og áætlunum sem miða að því að koma í veg fyrir að þær festist í þeirri stöðu að þurfa að treysta á þjónustu neyðarskýlis.

Fíknistefna á Íslandi hefur verið heldur íhaldssamari en í mörgum löndum í kringum okkur og ekki fylgt þeirri mannréttindamiðuðu og skaðaminnkandi nálgun sem verið hefur að vinna lönd í kringum okkur fyrr en á allra síðustu árum. Stefnumótun stjórnvalda endurspeglar því ekki þær menningarlegu breytingar í átt til aukinna mannréttinda þeirra sem glíma við vímuefnavanda, og aðrar áskoranir sem valda jaðarsetningu, sem hafa átt sér stað á undanförnum árum þó að Reykjavíkurborg hafi verið skrefi á undan ríkinu að breyta um stefnu í átt til skaðaminnkunar og kynjasamþættingar í málaflokknum.

Vegna þess hversu skilgreiningar á heimilisleysi hafa fram til þessa verið blindar á hegðun og þarfir heimilislausra kvenna er mikilvægt að vera vakandi fyrir því að konur séu sýnilegar í stefnumótun og þjónustuúrræði séu miðuð við raunverulegar þarfir þeirra. (more…)

Þjálfun starfsfólks í réttarvörslukerfi

Þjálfun starfsfólks í réttarvörslukerfi

Rótin, í samstarfi við geðheilsuteymi fanga (GHF) og Fangelsismálastofnun (FMS), hefur sent erindi til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, með ósk um rúmlega 10 milljóna króna styrk til innleiðingar og þjálfunar starfsfólks í réttarvörslukerfinu í áfalla- og kynjamiðaðri nálgun. Erindið var einnig sent á Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, og Ásmund Einar Daðason, félagsmálaráðherra, í von um stuðning þeirra við verkefnið líka.

Innleiðingin felur í sér að fá hingað til lands sérfræðinga frá Center for Gender and Justice,(CG&J), í Kaliforníu, til að þjálfa starfsfólk fangelsanna, geðheilsuteymis og Rótarinnar. CG&J býr að áratuga reynslu, bæði í Bandaríkjunum og víða um heim, af vinnu með fólki í fangelsum og hefur gefið út mikið af hagnýtu efni sem notað er í fangelsum og víðar.

Dr. Stephanie S. Covington er forstöðukona Center for Gender og Justice í San Diego í Kaliforníu ásamt Barböru E. Bloom. Báðar hafa þær á löngum starfsferli sérhæft sig í málefnum kvenna og stúlkna í réttarvörslukerfinu og á seinustu árum útfært þá þekkingu fyrir karla og drengi. Rótin hefur átt í farsælu samstarfi við dr. Covington undanfarin 6 ár, eða síðan hún koma á ráðstefnu félagsins um konur og fíkn, árið 2015. (more…)

Yfirlýsing vegna framtíðar meðferðarheimilisins Laugalands

Yfirlýsing vegna framtíðar meðferðarheimilisins Laugalands

Yfirlýsing frá Rótinni vegna framtíðar meðferðarheimilisins Laugalands

Rótin – félag um konur, áföll og vímugjafa telur gríðarlega mikilvægt að tryggt sé að meðferðarheimilið Laugalands starfi áfram á sömu forsendum og nú er, það er að segja fyrir stúlkur og á forsendum kenninga um kynjaskipta meðferð. Í janúar bárust af því fréttir að loka ætti heimilinu og ekki er ljóst hver staða málsins er nú.[1]
Ein grunnforsenda þess að geta unnið með stúlkur sem glíma við áföll og vímuefnavanda er að meðferðin sé örugg og þær upplifi traust, virðingu og stuðning. Þá þarf meðferðin að taka mið að þeirra þörfum og ótækt er að nota meðferðarefni sem samið er fyrir karla og drengi eins og því miður staðan er víða í dag.
Þó að unglingsárin geti verið mikil áskorun fyrir alla er mikilvægt að huga að kynjamun í reynslu þeirra og áskorunum í úrræðum sem þeim eru ætluð. Það breytir miklu um lífsferil okkar hvers kyns við fæðumst og það hefur líka mikil áhrif á þróun vímuefnavanda. Það er því nauðsynlegt að þekking og leiðbeiningar um bestu meðferð fyrir konur og stúlkur sé höfð að leiðarljósi í meðferðarstarfi fyrir þær.
Unglingsstúlkum mæta margar áskoranir á þroskabrautinni og samkvæmt kenningum í þroskasálfræði verður mikilvæg breyting í átt að sjálfstæði, aðskilnaði og þróunar sjálfsins á unglingsárum. Þó er það þannig að samfélagslegur þrýstingur er hindrun á leið stúlkna til sjálfsþekkingar og -tjáningar. Stúlkum er sniðinn mjög þröngur kvenímyndarstakkur sem veitir þeim ekki mikið svigrúm til að finna eigin rödd og standa með sjálfum sér.
Stúlkur verða illa fyrir barðinu á kynlífsvæðingu fjölmiðla og væntingum um „kvenlega“ hegðun þar sem áherslan er á útlit og kynþokka. Frá unga aldri geta þessi skilaboð skekkt mynd þeirra af því hvað í því fellst að vera kona. Þeim er kennt frá unga aldri að vera fallegar, mjóar og kynþokkafullar á meðan drengjum er kennt að dæma þær eftir þessum þröngu viðmiðum sem eru tilbúin, óraunhæf og grunnhyggin.
Átta konur stigu nýlega fram og lýstu ofbeldi og illri meðferð sem þær sættu af hálfu fyrrverandi rekstraraðila Laugalands og er það nú til rannsóknar. Rótin telur að þessar hugrökku konur eigi það inni hjá Barnaverndarstofu og félags- og barnamálaráðherra að þarna verði áfram rekið meðferðarheimili sem er eingöngu fyrir stúlkur og þeim tryggt öruggt og traust umhverfi.

f.h. ráðs Rótarinnar
Kristín I. Pálsdóttir,
talskona og framkvæmdastjóri

Greinargerð með yfirlýsingu Rótarinnar vegna meðferðarheimilisins Laugalands
Rök með kynjaskiptri meðferð

Ungar stúlkur og vímuefnavandi

Í svari við fyrirspurn Rótarinnar, árið 2015, kemur eftirfarandi fram um bakgrunn þeirra barna sem koma til meðferðar á stofnunum BVS:

Unglingar sem koma til meðferðar á stofnunum Barnaverndarstofu eiga flestir við margþættan vanda að stríða. Meirihluti skjólstæðinga meðferðarheimilanna hefur neytt áfengis eða annarra vímuefna en eiga jafnframt við að stríða hegðunar­erfiðleika, tilfinningalegan vanda, þroskafrávik og jafnvel geðraskanir. Afar fáir greinast hins vegar með fíknisjúkdóm á þessum aldri og heyrir það til undan­tekninga. Stór hluti þessara barna á sögu um erfiðar heimilisaðstæður, endurtekin áföll, námserfiðleika og erfiðleika í skólagöngu, neikvæðan félagsskap og marg­víslega íhlutun hjálparkerfa samfélagsins frá unga aldri.

(more…)

Meðferðarheimili BVS – Yfirlýsing

Meðferðarheimili BVS – Yfirlýsing

Yfirlýsing frá Rótinni, félagi um konur, áföll og vímugjafa, vegna umfjöllunar Stundarinnar um meðferðarheimili Barnaverndarstofu

Nokkrar hugrakkar konur stíga fram og segja reynslu sína af meðferðarheimilum Barnaverndarstofu í Stundinni 29. janúar sl.

Rótin krefst þess að gerðar séu upp þær ófaglegu og oft ofbeldisfullu aðferðir sem liðist hafa í meðferð bæði barna og fullorðinna. Litlar úttektir hafa verið gerðar á meðferðarkerfinu þar sem talað er við fólkið sem var í meðferð og t.d. var bara talað við yfirmenn í úttekt Embættis landlæknis á þremur meðferðarstöðum árið 2016 þar sem þær fengu allar falleinkunn.

Rótin sendi Landlækni erindi vegna yfirlýsingar frá meirihluta starfsfólks SÁÁ 22. júlí sl. „um yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem geta ekki sleppt tökunum á gömlum tímum“ með ósk um að heilbrigðisráðuneyti og Embætti landlæknis skoði málið. Einnig óskar félagið eftir því að áhrif þessarar ógnarstjórnar á þá sem sóttu sér meðferðar hjá SÁÁ, ekki síst á barnsaldri, verði sérstaklega skoðuð. (more…)

Erindi til Ásmundar Einars

Erindi til Ásmundar Einars

Rótin hefur sent eftirfarandi erindi til Ásmundar Einars Daðasonar, félagsmálaráðherra.

Sæll Ásmundur.

Okkur langar að þakka þér fyrir einlægt viðtal sem birtist í Morgunblaðinu um helgina. Sérstaklega þökkum við þér fyrir falleg orð í garð Konukots en Rótin tók við rekstri þess 1. október sl. Frásögnin af móður þinni snerti okkur djúpt af því að reynsla hennar og fjölda annarra kvenna er ástæða þess að við stofnuðum félagið Rótina 8. mars 2013. Okkur fannst skorta á að tekið væri heildstætt á tengslum áfalla og vímuefnavanda kvenna. Auk þess sem við höfum enn áhyggjur af öryggi kvenna í meðferðarkerfinu. (more…)

Yfirlýsing vegna framtíðar meðferðarheimilisins Laugalands

Starfsemi SÁÁ – Erindi til ríkisendurskoðunar



Rótin hefur sent eftirfarandi erindi til Ríkisendurskoðunar vegna starfsemi SÁÁ:

Til: Ríkisendurskoðunar
Frá: Rótin – Félag um konu, áföll og vímuefni
Efni: Starfsemi SÁÁ

30. ágúst 2020

Ágæti viðtakandi.

Í aðdraganda stjórnarkjörs innan SÁÁ – Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, hinn 22. júní, birtist yfirlýsing frá 57 af 100 starfsmönnum samtakanna þar sem fram kemur m.a. að vandi SÁÁ snúist um „yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem geta ekki sleppt tökunum á gömlum tímum“ að „ógnarstjórn“ hafi verið við lýði í rekstri samtakanna.

Augljóst er að í yfirlýsingunni er verið er að vísa í tæplega fjögurra áratuga stjórnartíð Þórarins Tyrfingssonar sem á um 20 ára tímabili var bæði framkvæmdastjóri og formaður stjórnar SÁÁ. (more…)