Handbók um samþættingu kynjasjónarmiða í fíknistefnu

Handbók um samþættingu kynjasjónarmiða í fíknistefnu

Út er komin bókin Samþætting kynjasjónarmiða í fíknistefnu: Forvarnir, meðferð og refsivörslukerfi.
Handbók fyrir sérfræðinga og stefnumótendur, á vegum Pompidou-hóps Evrópuráðsins.
Markmiðið var að skrifa handbók sem inniheldur meginreglur og hagnýt dæmi til leiðsagnar við innleiðingu kynjaðrar stefnu í forvörnum, umönnun og meðferð fólks með vímuefnavanda. Einnig á bókin að vera leiðarvísir fyrir lögreglu og refsivörslukerfi um hagnýtar aðferðir til kynjasamþættingar í þeirra störfum.
Pompidou-hópur Evrópuráðsins hefur gert mannréttindi að meginstefi í fíknistefnu sinni og liður í innleiðingu þeirra er vinna að kynjasamþættingu stefnunnar. Því var farið í það verkefni að gefa út handbókina, sem nú er komin út, sem tekur til mismunandi sviða fíknistefnu.
Kristín I. Pálsdóttir talskona Rótarinnar var þátttakandi í vinnuhópnum sem skrifaði handbókina og er einn höfunda hennar ásamt þeim Carine Mutatayi, Sarah Morton, Nadia Robles Soto og Cristiana Vale Pires. Florence Mabileau, aðstoðarframkvæmdastjóri, Pompidou-hópsins stýrði vinnunni.
Leitast er við að styðja við kynjasjónarmið í viðbrögðum og áætlunum vegna vímuefnamála sem nauðsynlegs mótvægis gegn heilsumisrétti og til að virða mannréttindi, ekki síst réttinn til margbreytileika og virðingar við konur, karla og kynsegin fólk.
Bókin hefst á yfirliti yfir faraldsfræðilegar vísbendingar um kynjamun þegar kemur að vímuefnanotkun og skyldum afleiðingum.
Markmið handbókarinnar er að láta stefnumótendum og sérfræðingum í té gagnreynd tilmæli til að þróa og innleiða stefnu og íhlutun sem samþætta sértækar þarfir kynjanna (e. gender-sensitive approach) og stuðla að jafnræði kynjanna (e. gender-transformative approach) í hópi þeirra sem starfa að vímuefnaforvörnum og -þjónustu (áhættu- og skaðaminnkun, meðferð, endurhæfingu) þar á meðal í refsivörslukerfi.
Í samræmi við þau markmið Pompidou-hópsins að tryggja tengingu á milli rannsókna, stefnumótunar og starfshátta, fjallar handbókin fyrst um kenningaleg álitamál um kyn og fíknistefnu, nýtir fyrirliggjandi fræðaþekkingu og setur fram tilmæli og dæmi um góða starfshætti. Handbókin er byggð á víðtækum samræðum og samkomulagi sérfræðinga frá 13 löndum með fjölbreyttan faglegan bakgrunn í þeirri viðleitni að tryggja þvermenningarlegt gildi hennar.
Pompidou-hópurinn er undirstofnun Evrópuráðsins og var stofnaður árið 1971 til að samræma stefnu og starf þátttökuríkja hvað varðar fíknistefnu og aðgerðir. Pompidou-hópurinn starfar samkvæmt grunngildum Evrópuráðsins um mannréttindi, lýðræði og réttarríki.
Handbókin er aðgengileg án endurgjalds á vef Evrópuráðsins.

 

Konur, kynverund og sporavinna – Bækur til sölu

Konur, kynverund og sporavinna – Bækur til sölu

Rótin hefur til sölu bækur eftir Stephanie Covington. Bækurnar eru A Woman’s Way through The Twelve Steps ásamt vinnubók, bækurnar eru bara seldar í setti. Verðið er 6.500 kr. Þá  er bókin Awakening Your Sexuality: A Guide for Recovering Women á 3.500 kr. og bókin A Woman’s Journal. Helping Women Recover sem er vinnubók á ensku fyrir þátttakendur í námskeiðinu Konur studdar til bata á 6.000 kr.  Það er þátttakendum í námskeiðinu í sjálfsvald sett hvort bókin er keypt.

Um bækurnar:

Kynverund er mikilvægt viðfangsefni í fíknimeðferð kvenna sem ekki hefur verið sinnt sem skyldi. Bókin Awakening Your Sexuality er verkfærakista sem hjálpar konum að vinna úr kynlífsreynslu sinni, skilja kynverund sína og skapa sér það kynferðislega líf sem þær óska sér. Í bókinni er reynsla kvenna skoðuð með dæmum úr rannsóknum þar sem farið er varfærnislega og skref fyrir skref í að leiðbeina konum að horfast í augu við sektarkennd, skömm og fíkn; gera þær meðvitaðar um líkamsímynd sína og hegðunarmynstur og að hefja göngu kynferðislegs frelsis og vaxtar. (more…)